Sólin Sólin Rís 04:31 • sest 22:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:42 • Sest 00:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:58 • Síðdegis: 19:18 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:53 • Síðdegis: 13:06 í Reykjavík

Hvaðan koma örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?

Hallgrímur J. Ámundason

Þráinsskjaldarhraun er mikið í fréttum þessa dagana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, ásamt Fagradalsfjalli, Keili, Litla-Hrút, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og fleiri góðum örnefnum.

Heitið virðist sett saman úr þremur hlutum: Þráinn, skjöldur og hraun. Það síðastnefnda er auðskiljanlegt. Skjöldur er svo þekkt í örnefnum til að lýsa dyngjulaga fjöllum, samanber Lyngskjöld á sunnanverðum Reykjanesskaga og hina alkunnu Skjaldbreiði norðan við Þingvallavatn. Hins vegar er ekkert vitað um Þráin. Hver var Þráinn? Hvað var Þráinn? Var Þráinn yfirleitt til?

Mynd sem sýnir efsta hluta þess sem jarðfræðingar kalla Þráinsskjöld eða Þráinsskjaldarhraun. Á myndinni er horft til suðurs og hægra megin er Fagradalsfjall. Örnefnaskrár fyrir svæðið á Reykjanesskaganum kannast ekki við Þráinsskjöld og heimamenn kalla svæðið Heiðina.

Örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun eiga sér ekki forna sögu eins og mörg önnur íslensk örnefni. Þau koma ekki fyrir í Landnámu eða Íslendingabók Ara fróða, á þau er ekki minnst í Íslendingasögunum og þjóðsögurnar eru sömuleiðis þöglar. Þau koma í raun fyrst fyrir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar segir: „Skolahraun er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinskjöldshraun.“ Góðri öld síðar segir Þorvaldur Thoroddsen í sinni ferðabók: „Sumir kalla hraunin vestur af Keili Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun.“ Af orðum Eggerts og Bjarna er svo að sjá heitið hafi einkum átt við hraunið nær sjó í norðri en Þorvaldur virðist nota það í víðari skilningi, svipað og nú er gert.

Örnefnaskrár fyrir þetta svæði á Reykjanesskaganum kannast sömuleiðis ekki við Þráinsskjöld. Sesselja G. Guðmundsdóttir sem er heimakona úr Vogunum og hefur kannað þetta svæði mikið, bæði á bók og fæti, segir að heimamenn hafi aldrei kallað þetta svæði annað en Heiðina og náði það nafn allt frá sjó í norðri og suður í Reykjanesfjallgarð. Sjá rit Sesselju: Örnefni og gönguleiðir í Vatnleysustrandarhreppi sem Lionsklúbburinn Keilir gaf út 2007.

Örnefnið hefur væntanlega fest í sessi með skrifum jarðfræðinga um svæðið á 20. öldinni en fyrir þann tíma hafa verið áhöld um hvort það var yfirleitt notað af heimamönnum eða hversu vítt það náði. Nafnið er því ófyrirsegjanlegt eins og skjálftarnir sem skekja það nú.

Mynd:
  • Myndin er fengin úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013, bls. 394) og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Hallgrímur J.  Ámundason

fyrrverandi verkefnisstjóri nafnfræðisviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

8.3.2021

Spyrjandi

Svanhvít Ásta Jósefsdóttir

Tilvísun

Hallgrímur J. Ámundason. „Hvaðan koma örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?“ Vísindavefurinn, 8. mars 2021. Sótt 9. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81334.

Hallgrímur J. Ámundason. (2021, 8. mars). Hvaðan koma örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81334

Hallgrímur J. Ámundason. „Hvaðan koma örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?“ Vísindavefurinn. 8. mar. 2021. Vefsíða. 9. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81334>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaðan koma örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?
Þráinsskjaldarhraun er mikið í fréttum þessa dagana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, ásamt Fagradalsfjalli, Keili, Litla-Hrút, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og fleiri góðum örnefnum.

Heitið virðist sett saman úr þremur hlutum: Þráinn, skjöldur og hraun. Það síðastnefnda er auðskiljanlegt. Skjöldur er svo þekkt í örnefnum til að lýsa dyngjulaga fjöllum, samanber Lyngskjöld á sunnanverðum Reykjanesskaga og hina alkunnu Skjaldbreiði norðan við Þingvallavatn. Hins vegar er ekkert vitað um Þráin. Hver var Þráinn? Hvað var Þráinn? Var Þráinn yfirleitt til?

Mynd sem sýnir efsta hluta þess sem jarðfræðingar kalla Þráinsskjöld eða Þráinsskjaldarhraun. Á myndinni er horft til suðurs og hægra megin er Fagradalsfjall. Örnefnaskrár fyrir svæðið á Reykjanesskaganum kannast ekki við Þráinsskjöld og heimamenn kalla svæðið Heiðina.

Örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun eiga sér ekki forna sögu eins og mörg önnur íslensk örnefni. Þau koma ekki fyrir í Landnámu eða Íslendingabók Ara fróða, á þau er ekki minnst í Íslendingasögunum og þjóðsögurnar eru sömuleiðis þöglar. Þau koma í raun fyrst fyrir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar segir: „Skolahraun er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinskjöldshraun.“ Góðri öld síðar segir Þorvaldur Thoroddsen í sinni ferðabók: „Sumir kalla hraunin vestur af Keili Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun.“ Af orðum Eggerts og Bjarna er svo að sjá heitið hafi einkum átt við hraunið nær sjó í norðri en Þorvaldur virðist nota það í víðari skilningi, svipað og nú er gert.

Örnefnaskrár fyrir þetta svæði á Reykjanesskaganum kannast sömuleiðis ekki við Þráinsskjöld. Sesselja G. Guðmundsdóttir sem er heimakona úr Vogunum og hefur kannað þetta svæði mikið, bæði á bók og fæti, segir að heimamenn hafi aldrei kallað þetta svæði annað en Heiðina og náði það nafn allt frá sjó í norðri og suður í Reykjanesfjallgarð. Sjá rit Sesselju: Örnefni og gönguleiðir í Vatnleysustrandarhreppi sem Lionsklúbburinn Keilir gaf út 2007.

Örnefnið hefur væntanlega fest í sessi með skrifum jarðfræðinga um svæðið á 20. öldinni en fyrir þann tíma hafa verið áhöld um hvort það var yfirleitt notað af heimamönnum eða hversu vítt það náði. Nafnið er því ófyrirsegjanlegt eins og skjálftarnir sem skekja það nú.

Mynd:
  • Myndin er fengin úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013, bls. 394) og birt með góðfúslegu leyfi.
...