Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hver var Árni Magnússon og fyrir hvað er hann þekktastur?

Már Jónsson

Árni Magnússon fæddist að Kvennabrekku í Dölum árið 1663 og ólst upp í Hvammi hjá móðurforeldrum sínum. Hann var af prestaættum og gekk í skóla í Skálholti, en hélt til frekara náms í Kaupmannahöfn haustið 1683. Þar var hann svo lánsamur að komast í vinnu hjá fornfræðingi konungs, sem vann að bók um trúarsiði á Norðurlöndum til forna.

Árni féll fyrir fornum fræðum og hóf að safna handritum, með megináherslu á íslensk handrit frá miðöldum. Hann lauk guðfræðinámi vorið 1685 og ákvað að vera áfram í Kaupmannahöfn fremur en að gerast sýslumaður eða prestur á Íslandi. Honum tókst næstu árin að sjá sér farborða við fræðistörf, nokkuð sem ekki var auðvelt á þeim árum. Hann var við nám og rannsóknir í Þýskalandi árin 1694-1696 en fékk að því loknu starf við skjalasafn Danakonungs og varð skömmu síðar prófessor við Hafnarháskóla. Um aldamótin 1700 var hann því orðinn háttsettur maður í Danaveldi og hafði jafnframt komið sér upp mesta safni íslenskra og norskra handrita frá miðöldum sem um gat.

Þá gerðist það að Friðrik konungur fjórði ákvað að senda hann til Íslands til að gera úttekt á ömurlegu ástandi landsins eftir harðindi og hungursneyð undanfarin ár. Veturinn 1699-1700 var til að mynda hroðalegur, kuldar miklir og algjör upplausn víða um landið, auk þess sem fiskveiðar brugðust. Landsmenn voru upp til hópa afar fátækir og embættismenn höfðu lagt til við konung að hann gerði eitthvað til að rétta hag þeirra. Fyrsta skrefið var þá að skipa nefnd og gera úttekt, nokkuð sem var nýmæli á þeim tíma. Árni hafði áður sýnt áhuga á málefnum Íslands og þess gætir í bréfum hans að honum leist illa á frammistöðu danskra embættismanna þar og var óánægður með æði margt í réttarfari innanlands. Fyrir vikið þótti hann upplagður í starfið. Samstarfsmaður hans var Páll Vídalín lögmaður, skólafélagi hans úr Hafnarháskóla. Verkefni voru óþrjótandi en þau helstu þessi:
  1. Samantekt jarðabókar með nákvæmum og ítarlegum upplýsingum um hverja einustu jörð á landinu. Þetta verk tók tólf ár og bar Páll hita og þunga af því.
  2. Gerð manntals og kvikfjártals árið 1703.
  3. Greinargerð um réttarfar.
  4. Athugun á framferði kaupmanna og eftirlit með því að farið væri eftir réttri verðskrá.
  5. Mat á kærum almúgans á hendur embættismönnum konungs og jarðeigendum.
  6. Mat á tekjum presta og kirkna, sem og könnun á holdsveikraspítölum.
  7. Athugun á jarðeignum konungs í landinu, ekki síst á Suðurnesjum.
  8. Úttekt á rekstri Bessastaða, þar sem fulltrúar konungs höfðu aðsetur, en sögusagnir voru um misferli.
Næstu árin stóðu Árni og Páll í ströngu, samhentir og ákveðnir í að koma sem mestu í verk. Þeir nutu stuðnings yfirvalda í Danmörku fyrstu árin og komu ýmsu til leiðar varðandi verslun, réttindi leiguliða og réttarfar. Hins vegar lentu þeir í útistöðum við flesta ef ekki alla veraldlega valdsmenn í landinu, amtmann og landfógeta, báða lögmenn og ótal sýslumenn, einnig kaupmenn. Biskuparnir studdu þá báðir, enda fornvinir þeirra frá Kaupmannahöfn (Jón Vídalín og Björn Þorleifsson).

Óvinir Árna og Páls kvörtuðu sáran til Kaupmannahafnar og eftir því sem jarðabókarvinnan dróst á langinn urðu ráðamenn þar tilbúnari til að hlusta á slíkar gagnrýniraddir. Árið 1712 var Árni kallaður til Danmerkur og hafði raunar ákveðið áður að hverfa frá Íslandi. Næstu árin stóð hann í stappi við ráðamenn út af störfum nefndarinnar en varði þó mestum tíma í handritasafn sitt, sem hafði stækkað verulega á meðan hann dvaldist á Íslandi. Hann hafði fest ráð sitt í ferð til Kaupmannahafnar árið 1709 og hét kona hans Mette Fischer.

Þekktastur er Árni fyrir handritasafn sitt og ljóst að með aðgerðum sínum bjargaði hann ómetanlegum verðmætum frá glötun. Hann bæði safnaði handritum og fékk þau lánuð í því skyni að láta gera vönduð afrit. Skjölum safnaði hann líka eða lét gera afrit, svo þúsundum skipti. Þessi gögn eru nú varðveitt á tveimur stofnunum sem bera nafn hans í Reykjavík og Kaupmannahöfn.

Næst að mikilvægi koma afurðir jarðabókarnefndar Árna og Páls. Skýrslugerð þeirra skilaði sér ekki í aðgerðum til umbóta af hálfu stjórnvalda, enda tími slíkra ráðstafana ekki runninn upp, en gögnin veita magnaða sýn á íslenskt samfélag í upphafi 18. aldar. Þau eru til að mynda forsenda þess að Halldór Laxness gat skrifað Íslandsklukkuna árin 1943-1946 þar sem Árni Magnússon birtist undir nafninu Arnas Arnæus og á meðal annars í ástarsambandi við Snæfríði Íslandssól. Sá þáttur skáldsögunnar er reistur á raunverulegum klögumálum Magnúsar Sigurðssonar bónda í Bræðratungu sem vændi eiginkonu sína Sigríði Jónsdóttur um að hafa átt vingott við Árna. Enginn fótur var fyrir þeim ásökunum en hér er engu að síður kominn þriðji þátturinn í frægð Árna sem í hugarheimi núlifandi Íslendinga er fyrst og fremst unnusti Snæfríðar en næst handritasafnari og síðast skýrslugerðarmaður. Minnstu munaði að safn Árna brynni til kaldra kola haustið 1728 en mest af því bjargaðist, en bruninn bugaði Árna sem lést í ársbyrjun 1730, 66 ára að aldri.

Annað lesefni:
  • Finnur Jónsson, Ævisaga Árna Magnússonar. Kaupmannahöfn 1930.
  • Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998.

Mynd:

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

16.8.2004

Spyrjandi

Ólafur Ólafsson, f. 1991

Tilvísun

Már Jónsson. „Hver var Árni Magnússon og fyrir hvað er hann þekktastur?“ Vísindavefurinn, 16. ágúst 2004. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4462.

Már Jónsson. (2004, 16. ágúst). Hver var Árni Magnússon og fyrir hvað er hann þekktastur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4462

Már Jónsson. „Hver var Árni Magnússon og fyrir hvað er hann þekktastur?“ Vísindavefurinn. 16. ágú. 2004. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4462>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Árni Magnússon og fyrir hvað er hann þekktastur?
Árni Magnússon fæddist að Kvennabrekku í Dölum árið 1663 og ólst upp í Hvammi hjá móðurforeldrum sínum. Hann var af prestaættum og gekk í skóla í Skálholti, en hélt til frekara náms í Kaupmannahöfn haustið 1683. Þar var hann svo lánsamur að komast í vinnu hjá fornfræðingi konungs, sem vann að bók um trúarsiði á Norðurlöndum til forna.

Árni féll fyrir fornum fræðum og hóf að safna handritum, með megináherslu á íslensk handrit frá miðöldum. Hann lauk guðfræðinámi vorið 1685 og ákvað að vera áfram í Kaupmannahöfn fremur en að gerast sýslumaður eða prestur á Íslandi. Honum tókst næstu árin að sjá sér farborða við fræðistörf, nokkuð sem ekki var auðvelt á þeim árum. Hann var við nám og rannsóknir í Þýskalandi árin 1694-1696 en fékk að því loknu starf við skjalasafn Danakonungs og varð skömmu síðar prófessor við Hafnarháskóla. Um aldamótin 1700 var hann því orðinn háttsettur maður í Danaveldi og hafði jafnframt komið sér upp mesta safni íslenskra og norskra handrita frá miðöldum sem um gat.

Þá gerðist það að Friðrik konungur fjórði ákvað að senda hann til Íslands til að gera úttekt á ömurlegu ástandi landsins eftir harðindi og hungursneyð undanfarin ár. Veturinn 1699-1700 var til að mynda hroðalegur, kuldar miklir og algjör upplausn víða um landið, auk þess sem fiskveiðar brugðust. Landsmenn voru upp til hópa afar fátækir og embættismenn höfðu lagt til við konung að hann gerði eitthvað til að rétta hag þeirra. Fyrsta skrefið var þá að skipa nefnd og gera úttekt, nokkuð sem var nýmæli á þeim tíma. Árni hafði áður sýnt áhuga á málefnum Íslands og þess gætir í bréfum hans að honum leist illa á frammistöðu danskra embættismanna þar og var óánægður með æði margt í réttarfari innanlands. Fyrir vikið þótti hann upplagður í starfið. Samstarfsmaður hans var Páll Vídalín lögmaður, skólafélagi hans úr Hafnarháskóla. Verkefni voru óþrjótandi en þau helstu þessi:
  1. Samantekt jarðabókar með nákvæmum og ítarlegum upplýsingum um hverja einustu jörð á landinu. Þetta verk tók tólf ár og bar Páll hita og þunga af því.
  2. Gerð manntals og kvikfjártals árið 1703.
  3. Greinargerð um réttarfar.
  4. Athugun á framferði kaupmanna og eftirlit með því að farið væri eftir réttri verðskrá.
  5. Mat á kærum almúgans á hendur embættismönnum konungs og jarðeigendum.
  6. Mat á tekjum presta og kirkna, sem og könnun á holdsveikraspítölum.
  7. Athugun á jarðeignum konungs í landinu, ekki síst á Suðurnesjum.
  8. Úttekt á rekstri Bessastaða, þar sem fulltrúar konungs höfðu aðsetur, en sögusagnir voru um misferli.
Næstu árin stóðu Árni og Páll í ströngu, samhentir og ákveðnir í að koma sem mestu í verk. Þeir nutu stuðnings yfirvalda í Danmörku fyrstu árin og komu ýmsu til leiðar varðandi verslun, réttindi leiguliða og réttarfar. Hins vegar lentu þeir í útistöðum við flesta ef ekki alla veraldlega valdsmenn í landinu, amtmann og landfógeta, báða lögmenn og ótal sýslumenn, einnig kaupmenn. Biskuparnir studdu þá báðir, enda fornvinir þeirra frá Kaupmannahöfn (Jón Vídalín og Björn Þorleifsson).

Óvinir Árna og Páls kvörtuðu sáran til Kaupmannahafnar og eftir því sem jarðabókarvinnan dróst á langinn urðu ráðamenn þar tilbúnari til að hlusta á slíkar gagnrýniraddir. Árið 1712 var Árni kallaður til Danmerkur og hafði raunar ákveðið áður að hverfa frá Íslandi. Næstu árin stóð hann í stappi við ráðamenn út af störfum nefndarinnar en varði þó mestum tíma í handritasafn sitt, sem hafði stækkað verulega á meðan hann dvaldist á Íslandi. Hann hafði fest ráð sitt í ferð til Kaupmannahafnar árið 1709 og hét kona hans Mette Fischer.

Þekktastur er Árni fyrir handritasafn sitt og ljóst að með aðgerðum sínum bjargaði hann ómetanlegum verðmætum frá glötun. Hann bæði safnaði handritum og fékk þau lánuð í því skyni að láta gera vönduð afrit. Skjölum safnaði hann líka eða lét gera afrit, svo þúsundum skipti. Þessi gögn eru nú varðveitt á tveimur stofnunum sem bera nafn hans í Reykjavík og Kaupmannahöfn.

Næst að mikilvægi koma afurðir jarðabókarnefndar Árna og Páls. Skýrslugerð þeirra skilaði sér ekki í aðgerðum til umbóta af hálfu stjórnvalda, enda tími slíkra ráðstafana ekki runninn upp, en gögnin veita magnaða sýn á íslenskt samfélag í upphafi 18. aldar. Þau eru til að mynda forsenda þess að Halldór Laxness gat skrifað Íslandsklukkuna árin 1943-1946 þar sem Árni Magnússon birtist undir nafninu Arnas Arnæus og á meðal annars í ástarsambandi við Snæfríði Íslandssól. Sá þáttur skáldsögunnar er reistur á raunverulegum klögumálum Magnúsar Sigurðssonar bónda í Bræðratungu sem vændi eiginkonu sína Sigríði Jónsdóttur um að hafa átt vingott við Árna. Enginn fótur var fyrir þeim ásökunum en hér er engu að síður kominn þriðji þátturinn í frægð Árna sem í hugarheimi núlifandi Íslendinga er fyrst og fremst unnusti Snæfríðar en næst handritasafnari og síðast skýrslugerðarmaður. Minnstu munaði að safn Árna brynni til kaldra kola haustið 1728 en mest af því bjargaðist, en bruninn bugaði Árna sem lést í ársbyrjun 1730, 66 ára að aldri.

Annað lesefni:
  • Finnur Jónsson, Ævisaga Árna Magnússonar. Kaupmannahöfn 1930.
  • Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998.

Mynd:...