Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvers konar dýr þrífast í ferskvatni?

Jón Már Halldórsson

Þessi spurning er afar yfirgripsmikil þar sem dýralíf í ferskvatni er mjög fjölbreytt. Óhætt er að slá því föstu að allir helstu flokkar dýra eigi sér fulltrúa í ferskvatnsfánu heimsins. Hér verður spurningunni svarað út frá ferskvatnsdýrafánu Íslands.

Í ritinu Íslensk votlendi: Verndun og nýting í ritstjórn Jóns S. Ólafssonar frá 1998 er birtur listi yfir fjölda tegunda sem hafa verið greindar í íslenskum stöðu- og straumvötnum. Áætlað er að fjöldi ferskvatnsdýrategunda á Íslandi sé á bilinu 600 til 900. Þar á meðal eru frumdýr (Protozoa) svampar (Porifera), hveldýr (Cnidaria), flatormar (Plathelminthes), þráðormar (Nematoda), þyrildýr (Rotatoria), liðormar (Annelida), lindýr (Mollusca), mosadýr (Bryozoa), krabbadýr (Crustacea), vatnamaurar (Hydrocarina), skordýr (Insecta), fiskar (Pisces), fuglar (Aves) og spendýr (Mammalia).

Athygli skal vakin á því að hér er ekki einungis um að ræða dýr sem lifa í vatninu alla sína ævi heldur einnig þau dýr sem lifa við ferskvatn eða í nánum tengslum við það eins og til dæmis ferskvatnsfuglarnir og minkurinn sem aflar mestrar fæðu sinnar úr vötnum og ám. Fjölmargar tegundir lifa bara á ungviðisstigi í vatni. Það er meðal annars algengt meðal skordýra á borð við vorflugur (Trichoptera) og dægurflugur (Ephemeroptera).

Vistkerfi nokkurra íslenskra vatna hefur verið rannsakað ítarlega á undanförnum áratugum og þannig hefur fengist staðgóð þekking á dýrafánu vatnanna. Stöðuvötn á borð við Þingvallarvatn og Mývatn eru einstök á heimsvísu fyrir sérstætt náttúrufar. Meðal annars liggur sérstaða Þingvallavatns í fjórum afbrigðum af bleikju sem í því lifir og sérstaða Mývatns felst í gríðarlegri frjósemi og einstakt fuglalíf.

Líkt og í hafinu er fjölskrúðugt dýra- og þörungalíf í efstu lögum ferskvatnsins. Þessar lífverur eru yfirleitt svo smáar að aðeins er hægt að skoða þær í víðsjá. Dýrafánan einkennist af hryggleysingjum á borð við krabbadýr, frumdýr og þyrildýr en hér til hliðar má sjá þyrildýrið spaðaþyrlu (Keratella cochlearis)sem er algengt svifdýr í Mývatni. Þetta dýr lifir á smásæjum lífrænum efnum sem fljóta um í efstu lögum vatnsins.

Dýralíf getur einnig verið fjölskrúðugt á botni vatna og tjarna, sérstaklega í þeim vötnum sem eru svo grunn að sólarljósið nær niður á botn eins og í Mývatni. Á botni Mývatns eru meðal annars dýr sem lifa á jurtaleifum og bakteríum eins og kornátan (Eurycercus lamellatus). Önnur botnlæg dýr á Mývatni stunda ránlífi og má þar meðal annars nefna holdýrið Hydra attenuata sem sjá má á myndinni hér til hliðar. Holdýrið drepur bráð sína með eitri sem kemur úr sérstökum þráðarhylkjum(nematocystes) sem finnast einnig hjá marglyttum. Þau dýr sem verða helst fyrir barðinu á þessu dýri eru smásæjar krabbaflær.

Í grunnum vötnum á Íslandi má einnig rekast á annað skætt rándýr af blóðsuguætt (Hirudinea), sem heitir Helobdella stagnalis. Í Mývatni lifir þetta dýr einkum á rykmýslirfum og liðormum.

Grasbítar eru einnig algengir í gróskumiklum vötnum með mikla frumframleiðslu og í slíkum vötnum má helst rekast á vatnabobbann (Lynmaea peregra) sem lifir á botnlægum þörungum. Eitt alstærsta krabbadýr sem finnst í lygnum vötnum á Íslandi er hinn sérstæði skötuormur (Lepidurus arcticus). Án halans getur hann orðið rúmir 2 sentímetrar á lengd og lifir einkum á smávöxnum vatnsflóm sem er mikilvæg fæða fyrir silung og vatnafugla.

Fjölbreytileiki dýrafánu í íslenskum vötnum er fábrotinn ef miðað er við dýralíf í ferskvötnum á svipuðum breiddargráðum í Evrópu og Norður-Ameríku. Íslenska dýrafánan sver sig í ætt við þá fánu sem þekkist á heimskautasvæðunum. Skýringin á þessu er að mati vísindamanna einkum sú hversu einangrað landið er og stutt síðan það kom undan heimskautaísnum fyrir 10 til 11 þúsund árum.

Af hryggdýrum er hornsíli (Gasterosteus aculeatus) sú tegund sem eflaust hefur mesta útbreiðslu í íslensku vötnum, tjörnum og lygnum ám og lækjum. Hornsíli prýðir einmitt myndina hér til hliðar. Af öðrum ferskvatnsfiskum má nefna urriða (Salmo trutta), bleikju (Salvelinus alpinus) og lax (Salmo salar) sem gengur í íslenskar ár til að hrygna.

Mun fleiri fisktegundir finnast í vötnum og ám í Evrópu en hér. Til dæmis lifa 40 til 45 tegundir í Noregi en aðeins 5 tegundir hér á landi. Á fáeinum stöðum úti í heimi lifa nokkur spendýr í vötnum og fljótum eins og til dæmis selir sem lifa meðal annars í nokkrum vötnum í Finnlandi og í Bajkalvatni í Síberíu. Höfrungar (Delpinus) og sækýr (Trichechus) lifa í stórfljótum og á vatnasvæðum utan Evrópu.

Myndina af hornsílinu fundum við á vefsetri Hólaskóla

Þyrludýrið fannst á vefsetri Stetson University

Myndin af holdýrinu var á vefsetrinu Fun Science Gallery

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

29.4.2002

Spyrjandi

Vanda Hellsing

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr þrífast í ferskvatni?“ Vísindavefurinn, 29. apríl 2002. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2343.

Jón Már Halldórsson. (2002, 29. apríl). Hvers konar dýr þrífast í ferskvatni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2343

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar dýr þrífast í ferskvatni?“ Vísindavefurinn. 29. apr. 2002. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2343>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar dýr þrífast í ferskvatni?
Þessi spurning er afar yfirgripsmikil þar sem dýralíf í ferskvatni er mjög fjölbreytt. Óhætt er að slá því föstu að allir helstu flokkar dýra eigi sér fulltrúa í ferskvatnsfánu heimsins. Hér verður spurningunni svarað út frá ferskvatnsdýrafánu Íslands.

Í ritinu Íslensk votlendi: Verndun og nýting í ritstjórn Jóns S. Ólafssonar frá 1998 er birtur listi yfir fjölda tegunda sem hafa verið greindar í íslenskum stöðu- og straumvötnum. Áætlað er að fjöldi ferskvatnsdýrategunda á Íslandi sé á bilinu 600 til 900. Þar á meðal eru frumdýr (Protozoa) svampar (Porifera), hveldýr (Cnidaria), flatormar (Plathelminthes), þráðormar (Nematoda), þyrildýr (Rotatoria), liðormar (Annelida), lindýr (Mollusca), mosadýr (Bryozoa), krabbadýr (Crustacea), vatnamaurar (Hydrocarina), skordýr (Insecta), fiskar (Pisces), fuglar (Aves) og spendýr (Mammalia).

Athygli skal vakin á því að hér er ekki einungis um að ræða dýr sem lifa í vatninu alla sína ævi heldur einnig þau dýr sem lifa við ferskvatn eða í nánum tengslum við það eins og til dæmis ferskvatnsfuglarnir og minkurinn sem aflar mestrar fæðu sinnar úr vötnum og ám. Fjölmargar tegundir lifa bara á ungviðisstigi í vatni. Það er meðal annars algengt meðal skordýra á borð við vorflugur (Trichoptera) og dægurflugur (Ephemeroptera).

Vistkerfi nokkurra íslenskra vatna hefur verið rannsakað ítarlega á undanförnum áratugum og þannig hefur fengist staðgóð þekking á dýrafánu vatnanna. Stöðuvötn á borð við Þingvallarvatn og Mývatn eru einstök á heimsvísu fyrir sérstætt náttúrufar. Meðal annars liggur sérstaða Þingvallavatns í fjórum afbrigðum af bleikju sem í því lifir og sérstaða Mývatns felst í gríðarlegri frjósemi og einstakt fuglalíf.

Líkt og í hafinu er fjölskrúðugt dýra- og þörungalíf í efstu lögum ferskvatnsins. Þessar lífverur eru yfirleitt svo smáar að aðeins er hægt að skoða þær í víðsjá. Dýrafánan einkennist af hryggleysingjum á borð við krabbadýr, frumdýr og þyrildýr en hér til hliðar má sjá þyrildýrið spaðaþyrlu (Keratella cochlearis)sem er algengt svifdýr í Mývatni. Þetta dýr lifir á smásæjum lífrænum efnum sem fljóta um í efstu lögum vatnsins.

Dýralíf getur einnig verið fjölskrúðugt á botni vatna og tjarna, sérstaklega í þeim vötnum sem eru svo grunn að sólarljósið nær niður á botn eins og í Mývatni. Á botni Mývatns eru meðal annars dýr sem lifa á jurtaleifum og bakteríum eins og kornátan (Eurycercus lamellatus). Önnur botnlæg dýr á Mývatni stunda ránlífi og má þar meðal annars nefna holdýrið Hydra attenuata sem sjá má á myndinni hér til hliðar. Holdýrið drepur bráð sína með eitri sem kemur úr sérstökum þráðarhylkjum(nematocystes) sem finnast einnig hjá marglyttum. Þau dýr sem verða helst fyrir barðinu á þessu dýri eru smásæjar krabbaflær.

Í grunnum vötnum á Íslandi má einnig rekast á annað skætt rándýr af blóðsuguætt (Hirudinea), sem heitir Helobdella stagnalis. Í Mývatni lifir þetta dýr einkum á rykmýslirfum og liðormum.

Grasbítar eru einnig algengir í gróskumiklum vötnum með mikla frumframleiðslu og í slíkum vötnum má helst rekast á vatnabobbann (Lynmaea peregra) sem lifir á botnlægum þörungum. Eitt alstærsta krabbadýr sem finnst í lygnum vötnum á Íslandi er hinn sérstæði skötuormur (Lepidurus arcticus). Án halans getur hann orðið rúmir 2 sentímetrar á lengd og lifir einkum á smávöxnum vatnsflóm sem er mikilvæg fæða fyrir silung og vatnafugla.

Fjölbreytileiki dýrafánu í íslenskum vötnum er fábrotinn ef miðað er við dýralíf í ferskvötnum á svipuðum breiddargráðum í Evrópu og Norður-Ameríku. Íslenska dýrafánan sver sig í ætt við þá fánu sem þekkist á heimskautasvæðunum. Skýringin á þessu er að mati vísindamanna einkum sú hversu einangrað landið er og stutt síðan það kom undan heimskautaísnum fyrir 10 til 11 þúsund árum.

Af hryggdýrum er hornsíli (Gasterosteus aculeatus) sú tegund sem eflaust hefur mesta útbreiðslu í íslensku vötnum, tjörnum og lygnum ám og lækjum. Hornsíli prýðir einmitt myndina hér til hliðar. Af öðrum ferskvatnsfiskum má nefna urriða (Salmo trutta), bleikju (Salvelinus alpinus) og lax (Salmo salar) sem gengur í íslenskar ár til að hrygna.

Mun fleiri fisktegundir finnast í vötnum og ám í Evrópu en hér. Til dæmis lifa 40 til 45 tegundir í Noregi en aðeins 5 tegundir hér á landi. Á fáeinum stöðum úti í heimi lifa nokkur spendýr í vötnum og fljótum eins og til dæmis selir sem lifa meðal annars í nokkrum vötnum í Finnlandi og í Bajkalvatni í Síberíu. Höfrungar (Delpinus) og sækýr (Trichechus) lifa í stórfljótum og á vatnasvæðum utan Evrópu.

Myndina af hornsílinu fundum við á vefsetri Hólaskóla

Þyrludýrið fannst á vefsetri Stetson University

Myndin af holdýrinu var á vefsetrinu Fun Science Gallery...