Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hver var Stefán Stefánsson og hvert var hans helsta framlag til íslenskrar grasafræði?

Bjarni E. Guðleifsson (1942-2019)

Stefán Stefánsson, fæddist á Heiði í Gönguskörðum í Skagafirði 1. ágúst 1863, sonur Stefáns bónda Stefánssonar frá Keflavík í Hegranesi og Guðrúnar Sigurðardóttur frá Heiði. Stefán naut hefðbundins uppeldis á menningarheimili í sveit. Sigurður afi hans mun hafa kennt honum fyrst að þekkja þær plöntur sem urðu á vegi hans. Stefán settist í Latínuskólann 15 ára og lauk stúdentsprófi tvítugur og var þá heitbundinn Steinunni Frímannsdóttur frá Helgavatni í Vatnsdal er síðar varð kona hans. Haustið 1884 fór Stefán til náttúrufræðináms í Kaupmannahöfn og þar var hann svo lánsamur að fá afburðakennara í grasafræði, prófessor Warming, en hann varð þekktur vísindamaður í sinni grein og hvatti Stefán til dáða á vísindasviðinu.

Í Kaupmannahöfn tók Stefán virkan þátt í stúdentalífi, stjórnmálalífi, leiklistarlífi og öðru því sem var til framfara og menningarauka. Á Hafnarárunum bjó hann lengst af á Garði með Valtý Guðmundssyni, en þeir voru vinir frá barnæsku og hélst sú vinátta alla ævina. En Hafnardvöl Stefáns tók skjótari enda en hann hafði grunað. Á Íslandi voru einungis tvær kennslustöður fyrir náttúrufræðinga. Nokkuð óvænt losnaði staðan við Möðruvallaskóla. Stefán varð því að velja um að ljúka námi eða missa af embættinu. Hann þorði ekki annað en að tryggja framtíð fjölskyldunnar og tók við kennaraembætti á Möðruvöllum haustið 1887, 24 ára. Þegar Stefán kemur að þessari sjö ára gömlu stofnun var skólinn nánast í andaslitrunum, einungis sjö nemendur voru þar og allir í efri bekk. Er ekki ofmælt að Stefán hafi bjargað þessari merku menntastofnun. Komu þar einkum til einstakir kennsluhæfileikar sem nutu sín allan starfsferil Stefáns og einnig óbilandi hugsjónaeldur og kjarkur til að berjast fyrir þeim málum sem hann gaf sig að.

Stefán Stefánsson (1863-1921).

Fyrir daga Stefáns höfðu menn stuðst við Íslenska grasafræði Odds Hjaltalíns (frá 1830 sem byggði lítið á íslenskum athugunum) og Flóru Grönlunds (frá 1881 sem var á dönsku). Sumarleyfin frá kennslunni notaði Stefán til rannsóknaferða um landið og safnaði nákvæmari upplýsingum um íslenskt gróðurfar en nokkur annar hafði gert. Stefán notaði þessa nýju þekkingu í kennslunni en hóf fljótlega að setja saman flórulista sem síðar breyttist í ritið Flóru Íslands sem út kom árið 1901. Þá er Stefán 37 ára. Það sem helst mun halda nafni Stefáns og Flóru Íslands á lofti er notkun Stefáns á plöntunöfnum og grasafræðiorðum auk þess að þarna var komið fyrsta íslenska grasatalið. Ritun Flórunnar er mikið afrek og enn meira ef tekið er tillit til þeirra aðstæðna sem það var unnið við. Ritunin fór fram í íslenskri sveit með takmarkaðan bókakost en með góð sambönd við erlenda fræðimenn og í góðri samvinnu við tvo grasafróða Íslendinga, þá Helga Jónsson og Ólaf Davíðsson. Enn fremur skrifaði Stefán greinar í dönsk og íslensk rit.

Stefán var alinn upp í sveit og bjó lengi rausnarbúi á Möðruvöllum. Því lét hann framfaramál landbúnaðarins mjög til sín taka og taldi að þar eins og á öðrum sviðum þjóðlífsins byggðust framfarirnar á þekkingu. Hann hafði brennandi áhuga á að fræða og mennta almenning. Sem grasafræðingur og framfarasinnaður búhöldur hóf hann, að nokkru leyti í samvinnu við erlenda fræðimenn, rannsóknir á fóðurgildi nytjaplantna. Hann skrifaði svo greinar um niðurstöðurnar í Búnaðarritið á árunum 1902-1910 og eru þetta fyrstu rannsóknir á fóðurgildi íslenskra jurta. Liðu margir áratugir uns slíkar rannsóknir hófust aftur. Fleiri ritgerðir um búskaparefni birti hann í ýmsum tímaritum, svo sem greinar um kartöflurækt í Búnaðarritinu.



Síða úr handriti að 1. útgáfu Flóru Íslands með hendi Stefáns Stefánssonar.

Stefán tók mikinn þátt í félagsmálastarfi bæði í sveit sinni og á landsvísu. Hann var oddviti sveitarfélagsins, sparisjóðsformaður, sýslunefndarmaður og amtsráðsmaður, búnaðarþingsfulltrúi, formaður Framfarafélags Arnarneshrepps og hafði forgöngu um stofnun nautgriparæktarfélags og rjómabús í heimabyggðinni. Hann var frumkvöðull að stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags og má telja hann öðrum fremur föður Náttúrugripasafnsins. Hann var einn af þremur frumkvöðlum að stofnun Ræktunarfélags Norðurlands árið 1903 og lengi formaður. Árið 1900 var hann kjörinn á þing fyrir Skagfirðinga og sat á þingi til 1915. Lét hann til sín taka þar á mörgum sviðum og var talinn víðsýnn framfaramaður sem þó gætti hófs.

En líkt og námsferli hans lauk snögglega, þá lauk kennsluferli hans á Möðruvöllum skyndilega þegar skólahúsið brann árið 1902. Upp úr því var skólinn fluttur til Akureyrar og tók Stefán við stjórn Gagnfræðaskólans á Akureyri 1908, þá 45 ára. Hann rak hins vegar búskap á Möðruvöllum til 1910 þó hann og fjölskylda hans væru þá fyrir nokkru flutt til Akureyrar. Það er ekki fyrr en 1913 sem Stefán sendi loks frá sér kennslubók í grasafræði, og hafa annir og vandvirkni eflaust valdið því að þetta dróst svo lengi. Kennslubókin nefnist Plönturnar, og þar eins og í Flóru Íslands nýtur frábær orðsnilld og smekkvísi í orðasmíð sín afar vel.

Stefán naut mikils stuðnings af Steinunni konu sinni, og áreiðanlega mæddi mikið á henni á búskaparárunum á Möðruvöllum þegar bóndi var langtímum fjarverandi. Þau eignuðust tvö börn, Valtý Stefánsson ritstjóra og Huldu Á. Stefánsdóttur skólastýru. Heilsa hans stóð oft völtum fótum. Eftir aldamótin lá hann oft stórlegur svo tvísýna var um líf hans. Framan af þjáðist hann af slæmu hálsmeini, en síðar tók hann að kenna meinsemdar í höfði, er að lokum leiddi hann til bana. Veturinn 1919 fékk hann orlof frá störfum og dvaldi sér til heilsubótar í Kaupmannahöfn. Hann kom aftur til kennslu haustið 1920 en veiktist hastarlega í desember og lést 20. janúar 1921, 57 ára að aldri.

Stefán Stefánsson hefur verið titlaður grasafræðingur, kennari og skólameistari. Augljóslega má skipta æviferli Stefáns í þrjú tímabil; í fyrsta lagi æsku- og námsárin frá 1863-1887 (grasafræðingurinn), þá rannsókna-, félagsmála- og kennsluárin á Möðruvöllum 1887-1902 (kennarinn) og loks þingmennsku-, kennslu- og skólastjórnarárin á Akureyri frá 1900-1921 (skólameistarinn). Segja má að vísindaferill Stefáns sé að mestu á Möðruvallatímanum 1887-1902. Eftir það sveigjast störf hans að öðrum málum og hann skrifar:
Landsmálaþref eða pólitík og bótaník eiga ekki samleið, eða svo reyndist mjer, önnur hvor sú hefðarmey varð að víkja, og illu heilli varð hin gamla ástmey mín, botaníkin, fyrir því.

Enda þótt Stefán tæki aldrei lokapróf í fræðigrein sinni vann hann vísindalegt afrek sem mun halda nafni hans á lofti hér á landi um ókomna framtíð. Grasatalið í Flóru Íslands ásamt orðasmíð og plöntuheitum í þeirri bók munu halda nafni Stefáns Stefánssonar á lofti. Steindór Steindórsson frá Hlöðum, einn nemenda Stefáns, skrifaði ritgerð í tilefni af aldarafmæli Stefáns árið 1963 og þar stendur:
Hann var fyrirmyndarbóndi og félagsmálafrömuður í sveit sinni, skörulegur og víðsýnn alþingismaður, kennari og skólastjóri með þeim ágætum, að fátítt er, en þó er það svo að þessi störf munu fyrnast, og mörg þeirra eru það nú þegar, og er það ekki nema lögmál lífsins um allan þorra daglegra starfa vorra. En um vísindastörf Stefáns er hægt að fullyrða, að þau munu ekki fyrnast svo lengi, sem nokkur maður leggur stund á íslenska grasafræði og sú fræðigrein verður kennd á íslenskri tungu. Ekki hefur Stefán þó skrifað nein kynstur um þessi efni. Ein dálítil bók, nokkrar stuttar ritgerðir í tímaritum og kennslubók er allt, sem eftir hann liggur prentað um þau efni. En vísindarit verða ekki mæld eftir blaðsíðufjölda, heldur því hvernig þau eru unnin, hvað nýtt þau hafi að færa og hversu haldgott efni þeirra sé.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Bjarni E. Guðleifsson, 2001. Stefán Stefánsson grasafræðingur, kennari og skólameistari 1863-1921. Náttúrufræðingurinn 70, 119-126.
  • Eyþór Einarsson, 1964. Grasafræðingurinn Stefán Stefánsson. Náttúrufræðingurinn 13, 97-112.
  • Eyþór Einarsson, 2001. Grasafræðirannsóknir og ritstörf Stefáns Stefánssonar, einkum Flóra Íslands. Náttúrufræðingurinn 70, 127-132.
  • Steindór Steindórsson frá Hlöðum, 1963. Stefán Stefánsson skólameistari – Aldarminning. Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 60, 1-128 og Flóra 1, 1-128.
  • Steindór Steindórsson frá Hlöðum, 1986. Rannsóknarferðir Stefáns Stefánssonar skólameistara. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 132 s.
  • Steindór Steindórsson, 1978. Íslensk plöntunöfn. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. 207 bls.
  • Mynd af Stefáni Stefánssyni: Úr einkasafni Guðrúnar Jónsdóttur.
  • Mynd af síðu úr handriti: Í grein Eyþórs Einarsson í Náttúrufræðingnum, 2001.

Höfundur

Bjarni E. Guðleifsson (1942-2019)

prófessor emeritus Landbúnaðarháskóla Íslands

Útgáfudagur

23.5.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Bjarni E. Guðleifsson (1942-2019). „Hver var Stefán Stefánsson og hvert var hans helsta framlag til íslenskrar grasafræði?“ Vísindavefurinn, 23. maí 2011. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59647.

Bjarni E. Guðleifsson (1942-2019). (2011, 23. maí). Hver var Stefán Stefánsson og hvert var hans helsta framlag til íslenskrar grasafræði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59647

Bjarni E. Guðleifsson (1942-2019). „Hver var Stefán Stefánsson og hvert var hans helsta framlag til íslenskrar grasafræði?“ Vísindavefurinn. 23. maí. 2011. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59647>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Stefán Stefánsson og hvert var hans helsta framlag til íslenskrar grasafræði?
Stefán Stefánsson, fæddist á Heiði í Gönguskörðum í Skagafirði 1. ágúst 1863, sonur Stefáns bónda Stefánssonar frá Keflavík í Hegranesi og Guðrúnar Sigurðardóttur frá Heiði. Stefán naut hefðbundins uppeldis á menningarheimili í sveit. Sigurður afi hans mun hafa kennt honum fyrst að þekkja þær plöntur sem urðu á vegi hans. Stefán settist í Latínuskólann 15 ára og lauk stúdentsprófi tvítugur og var þá heitbundinn Steinunni Frímannsdóttur frá Helgavatni í Vatnsdal er síðar varð kona hans. Haustið 1884 fór Stefán til náttúrufræðináms í Kaupmannahöfn og þar var hann svo lánsamur að fá afburðakennara í grasafræði, prófessor Warming, en hann varð þekktur vísindamaður í sinni grein og hvatti Stefán til dáða á vísindasviðinu.

Í Kaupmannahöfn tók Stefán virkan þátt í stúdentalífi, stjórnmálalífi, leiklistarlífi og öðru því sem var til framfara og menningarauka. Á Hafnarárunum bjó hann lengst af á Garði með Valtý Guðmundssyni, en þeir voru vinir frá barnæsku og hélst sú vinátta alla ævina. En Hafnardvöl Stefáns tók skjótari enda en hann hafði grunað. Á Íslandi voru einungis tvær kennslustöður fyrir náttúrufræðinga. Nokkuð óvænt losnaði staðan við Möðruvallaskóla. Stefán varð því að velja um að ljúka námi eða missa af embættinu. Hann þorði ekki annað en að tryggja framtíð fjölskyldunnar og tók við kennaraembætti á Möðruvöllum haustið 1887, 24 ára. Þegar Stefán kemur að þessari sjö ára gömlu stofnun var skólinn nánast í andaslitrunum, einungis sjö nemendur voru þar og allir í efri bekk. Er ekki ofmælt að Stefán hafi bjargað þessari merku menntastofnun. Komu þar einkum til einstakir kennsluhæfileikar sem nutu sín allan starfsferil Stefáns og einnig óbilandi hugsjónaeldur og kjarkur til að berjast fyrir þeim málum sem hann gaf sig að.

Stefán Stefánsson (1863-1921).

Fyrir daga Stefáns höfðu menn stuðst við Íslenska grasafræði Odds Hjaltalíns (frá 1830 sem byggði lítið á íslenskum athugunum) og Flóru Grönlunds (frá 1881 sem var á dönsku). Sumarleyfin frá kennslunni notaði Stefán til rannsóknaferða um landið og safnaði nákvæmari upplýsingum um íslenskt gróðurfar en nokkur annar hafði gert. Stefán notaði þessa nýju þekkingu í kennslunni en hóf fljótlega að setja saman flórulista sem síðar breyttist í ritið Flóru Íslands sem út kom árið 1901. Þá er Stefán 37 ára. Það sem helst mun halda nafni Stefáns og Flóru Íslands á lofti er notkun Stefáns á plöntunöfnum og grasafræðiorðum auk þess að þarna var komið fyrsta íslenska grasatalið. Ritun Flórunnar er mikið afrek og enn meira ef tekið er tillit til þeirra aðstæðna sem það var unnið við. Ritunin fór fram í íslenskri sveit með takmarkaðan bókakost en með góð sambönd við erlenda fræðimenn og í góðri samvinnu við tvo grasafróða Íslendinga, þá Helga Jónsson og Ólaf Davíðsson. Enn fremur skrifaði Stefán greinar í dönsk og íslensk rit.

Stefán var alinn upp í sveit og bjó lengi rausnarbúi á Möðruvöllum. Því lét hann framfaramál landbúnaðarins mjög til sín taka og taldi að þar eins og á öðrum sviðum þjóðlífsins byggðust framfarirnar á þekkingu. Hann hafði brennandi áhuga á að fræða og mennta almenning. Sem grasafræðingur og framfarasinnaður búhöldur hóf hann, að nokkru leyti í samvinnu við erlenda fræðimenn, rannsóknir á fóðurgildi nytjaplantna. Hann skrifaði svo greinar um niðurstöðurnar í Búnaðarritið á árunum 1902-1910 og eru þetta fyrstu rannsóknir á fóðurgildi íslenskra jurta. Liðu margir áratugir uns slíkar rannsóknir hófust aftur. Fleiri ritgerðir um búskaparefni birti hann í ýmsum tímaritum, svo sem greinar um kartöflurækt í Búnaðarritinu.



Síða úr handriti að 1. útgáfu Flóru Íslands með hendi Stefáns Stefánssonar.

Stefán tók mikinn þátt í félagsmálastarfi bæði í sveit sinni og á landsvísu. Hann var oddviti sveitarfélagsins, sparisjóðsformaður, sýslunefndarmaður og amtsráðsmaður, búnaðarþingsfulltrúi, formaður Framfarafélags Arnarneshrepps og hafði forgöngu um stofnun nautgriparæktarfélags og rjómabús í heimabyggðinni. Hann var frumkvöðull að stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags og má telja hann öðrum fremur föður Náttúrugripasafnsins. Hann var einn af þremur frumkvöðlum að stofnun Ræktunarfélags Norðurlands árið 1903 og lengi formaður. Árið 1900 var hann kjörinn á þing fyrir Skagfirðinga og sat á þingi til 1915. Lét hann til sín taka þar á mörgum sviðum og var talinn víðsýnn framfaramaður sem þó gætti hófs.

En líkt og námsferli hans lauk snögglega, þá lauk kennsluferli hans á Möðruvöllum skyndilega þegar skólahúsið brann árið 1902. Upp úr því var skólinn fluttur til Akureyrar og tók Stefán við stjórn Gagnfræðaskólans á Akureyri 1908, þá 45 ára. Hann rak hins vegar búskap á Möðruvöllum til 1910 þó hann og fjölskylda hans væru þá fyrir nokkru flutt til Akureyrar. Það er ekki fyrr en 1913 sem Stefán sendi loks frá sér kennslubók í grasafræði, og hafa annir og vandvirkni eflaust valdið því að þetta dróst svo lengi. Kennslubókin nefnist Plönturnar, og þar eins og í Flóru Íslands nýtur frábær orðsnilld og smekkvísi í orðasmíð sín afar vel.

Stefán naut mikils stuðnings af Steinunni konu sinni, og áreiðanlega mæddi mikið á henni á búskaparárunum á Möðruvöllum þegar bóndi var langtímum fjarverandi. Þau eignuðust tvö börn, Valtý Stefánsson ritstjóra og Huldu Á. Stefánsdóttur skólastýru. Heilsa hans stóð oft völtum fótum. Eftir aldamótin lá hann oft stórlegur svo tvísýna var um líf hans. Framan af þjáðist hann af slæmu hálsmeini, en síðar tók hann að kenna meinsemdar í höfði, er að lokum leiddi hann til bana. Veturinn 1919 fékk hann orlof frá störfum og dvaldi sér til heilsubótar í Kaupmannahöfn. Hann kom aftur til kennslu haustið 1920 en veiktist hastarlega í desember og lést 20. janúar 1921, 57 ára að aldri.

Stefán Stefánsson hefur verið titlaður grasafræðingur, kennari og skólameistari. Augljóslega má skipta æviferli Stefáns í þrjú tímabil; í fyrsta lagi æsku- og námsárin frá 1863-1887 (grasafræðingurinn), þá rannsókna-, félagsmála- og kennsluárin á Möðruvöllum 1887-1902 (kennarinn) og loks þingmennsku-, kennslu- og skólastjórnarárin á Akureyri frá 1900-1921 (skólameistarinn). Segja má að vísindaferill Stefáns sé að mestu á Möðruvallatímanum 1887-1902. Eftir það sveigjast störf hans að öðrum málum og hann skrifar:
Landsmálaþref eða pólitík og bótaník eiga ekki samleið, eða svo reyndist mjer, önnur hvor sú hefðarmey varð að víkja, og illu heilli varð hin gamla ástmey mín, botaníkin, fyrir því.

Enda þótt Stefán tæki aldrei lokapróf í fræðigrein sinni vann hann vísindalegt afrek sem mun halda nafni hans á lofti hér á landi um ókomna framtíð. Grasatalið í Flóru Íslands ásamt orðasmíð og plöntuheitum í þeirri bók munu halda nafni Stefáns Stefánssonar á lofti. Steindór Steindórsson frá Hlöðum, einn nemenda Stefáns, skrifaði ritgerð í tilefni af aldarafmæli Stefáns árið 1963 og þar stendur:
Hann var fyrirmyndarbóndi og félagsmálafrömuður í sveit sinni, skörulegur og víðsýnn alþingismaður, kennari og skólastjóri með þeim ágætum, að fátítt er, en þó er það svo að þessi störf munu fyrnast, og mörg þeirra eru það nú þegar, og er það ekki nema lögmál lífsins um allan þorra daglegra starfa vorra. En um vísindastörf Stefáns er hægt að fullyrða, að þau munu ekki fyrnast svo lengi, sem nokkur maður leggur stund á íslenska grasafræði og sú fræðigrein verður kennd á íslenskri tungu. Ekki hefur Stefán þó skrifað nein kynstur um þessi efni. Ein dálítil bók, nokkrar stuttar ritgerðir í tímaritum og kennslubók er allt, sem eftir hann liggur prentað um þau efni. En vísindarit verða ekki mæld eftir blaðsíðufjölda, heldur því hvernig þau eru unnin, hvað nýtt þau hafi að færa og hversu haldgott efni þeirra sé.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Bjarni E. Guðleifsson, 2001. Stefán Stefánsson grasafræðingur, kennari og skólameistari 1863-1921. Náttúrufræðingurinn 70, 119-126.
  • Eyþór Einarsson, 1964. Grasafræðingurinn Stefán Stefánsson. Náttúrufræðingurinn 13, 97-112.
  • Eyþór Einarsson, 2001. Grasafræðirannsóknir og ritstörf Stefáns Stefánssonar, einkum Flóra Íslands. Náttúrufræðingurinn 70, 127-132.
  • Steindór Steindórsson frá Hlöðum, 1963. Stefán Stefánsson skólameistari – Aldarminning. Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 60, 1-128 og Flóra 1, 1-128.
  • Steindór Steindórsson frá Hlöðum, 1986. Rannsóknarferðir Stefáns Stefánssonar skólameistara. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 132 s.
  • Steindór Steindórsson, 1978. Íslensk plöntunöfn. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. 207 bls.
  • Mynd af Stefáni Stefánssyni: Úr einkasafni Guðrúnar Jónsdóttur.
  • Mynd af síðu úr handriti: Í grein Eyþórs Einarsson í Náttúrufræðingnum, 2001.
...