Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hver var Jón lærði Guðmundsson?

Ólína Þorvarðardóttir

Jón lærði hét fullu nafni Jón Guðmundsson og var sjálfmenntaður alþýðumaður og náttúruskoðari sem lifði á 17. öld. Nafn hans tengist atburðum brennualdar þar eð yfirvöld sökuðu hann um kukl og galdur. Saga Jóns lærða er raunaleg lífssaga manns sem var uppi á „þeirri öld sem spillti upplagi hans og hæfileikum“ eins og Páll Eggert Ólason orðaði það (PEÓ 1942, 263).

Jón var fæddur í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1574. Hann varð snemma áhugasamur um verkan náttúrunnar, einkum grasa og jurta til lækninga. Á þeim árum var læknisfræði landsmanna ekki á háu stigi og meðferð lyfja nánast talin til varnargaldurs, að minnsta kosti ef óskólagengnir menn höfðu þau um hönd. Jón var einnig áhugasamur um rúnir og fornrit auk þess sem hann var mjög hjátrúarfullur og sannfærður um tilvist álfa og anda.

Jón lærði mun hafa verið blendinn í lund, „heiftugur í skapi, sérvitur og fullur hjátrúar og pápískur í trú“ ef marka má formálsorð Guðbrands Vigfússonar að þjóðsögum Jóns Árnasonar (JÁ I, 1862, xi). Jón var hins vegar hagur maður til munns og handa, smiður góður, listaskrifari og málari, enda oft nefndur Jón málari. Hann var einnig talinn ákvæðaskáld* og sú saga fór af honum að hann kynni margt fyrir sér, meðal annars að kveða niður drauga.


Sú saga gekk af Jóni lærða að hann gæti kveðið niður drauga.

Margir leituðu til Jóns um smíðar og viðgerðir, en þess voru einnig dæmi að liðsinnis hans væri óskað til þess að fyrirkoma draugum og öðrum óhreinleika. Frægustu aðgerðir hans í því efni urðu þegar hann kvað niður reimleika á Snæfjallaströnd „Snæfjalladrauginn svonefnda“ með kveðskap sem varðveist hefur í handritum (Fjandafæla, Snjáfjallavísur og Umbót eður friðarhuggun).

Til er samtímaheimild frá árinu 1627 um það hvaða augum menn litu iðju Jóns lærða. Í riti sem nefnt hefur verið Hugrás, skrifað af séra Guðmundi Einarssyni á Staðarstað, prófasti í Snæfellssýslu, er rætt um lækningar Jóns lærða. Þar segir að Jón hafi „hendur yfir sjúka lagt, með lesningum og bænum og þvílík sín þjónustugjörð hafi í þann tíma svo þökkuð verið svo sem hjálp og aðstoð af himnaföðurnum sjálfum“ (Lbs 494 8vo, bl. 92r).

Jón lenti í útistöðum við Ara Magnússon, sýslumann í Ögri í Ísafjarðardjúpi, í framhaldi af Spánverjavígunum 1615 (Jónas Kristjánsson 1950). Ari í Ögri var á þeim tíma einn helsti héraðshöfðingi landsins, ráðríkur og aðgangsharður ef því var að skipta. Ari stóð fyrir því að fjöldi Spánverja, nánar tiltekið Baska, var veginn í tveimur aðförum í Dýrafirði og Æðey í Ísafjarðardjúpi í októbermánuði það ár.

Vígin mæltust misvel fyrir, og Jón lærði var þeirrar skoðunar að með þeim hefði verið framið ódæði gegn varnarlausum skipbrotsmönnum. Skrifaði hann um þessa atburði Sanna frásögu af spanskra manna skiptbrotum og slagi þar sem hann tók málstað Baskanna. Í framhaldi af því reis í sveitinni „rógurinn mikli / með fölskum bréfum / og forráðs lygi“ eins og hann segir sjálfur í ævikvæði sínu Fjölmóði (Safn til sögu Íslands, 31-85). Með þessum skrifum kallaði Jón yfir sig óvild Ara sýslumanns. Jón var í framhaldinu kærður fyrir galdra og flosnaði upp frá fjölskyldu og börnum um hávetur.

Það má teljast athyglisvert að Jón lærði skyldi hafa komist hjá því að verða brenndur á báli. Hann var aftur á móti dæmdur útlægur sumarið 1631. Leitaði hann þá á náðir yfirdóms í Kaupmannahöfn sem vísaði málinu aftur til Alþingis, og þar var útlegðardómur hans staðfestur árið 1637. Eftir það var Jón lærði útlægur úr öllum ríkjum og löndum konungs nema konungur vildi honum „meiri náð sýna“ (Alþingisbækur Íslands V, 483).

Jón fór þó aldrei af landi brott, og segir í Skarðsárannál að engir kaupmenn hafi fengist til að taka hann á skip (Annálar I, 251). Síðustu ár ævi sinnar hafðist hann að mestu við í Múlaþingi og Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup styrkti hann til ritstarfa á fjórða og fimmta áratug 17. aldar. Jón hafði einnig sinnt fræðastörfum fyrir Hólamenn á þriðja áratugnum.

Brynjólfur biskup segir í bréfi til Óla Worms árið 1649 að Jón Guðmundsson eyddi elliárum sínum úti í landshorni þar sem hann eltist ónýtur sjálfum sér og öðrum (Breve fra og til Ole Worm III, 379). Er því vart ofmælt að ævi Jóns lærða hafi verið raunaleg lífssaga manns sem lifði erfiða tíma og fékk því aldrei notið hæfileika sinna sem vert hefði verið.


*Ákvæðaskáld eða kraftaskáld nefndist það fólk sem gat með kveðskap haft áhrif á atburði og velfarnað manna. Talað var um að ummæli slíkra einstaklinga yrðu að áhrínisorðum, það er að þau kæmu fram. Meðal frægra kraftaskálda má nefna séra Hallgrím Pétursson, séra Snorra Björnsson í Húsafelli, Þormóð í Gvendareyjum og Jón lærða.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

    Handrit:
    • Lbs 494 8vo, bl. 92r.

    Bækur:

    • Alþingisbækur Íslands I-X. Reykjavík 1912-1967.
    • Annálar 1400-1800 I-VII. Reykjavík 1922-1998.
    • Breve fra og til Ole Worm I-III. Kaupmannahöfn 1965-68.
    • Einar G. Pétursson 1998: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I-II. Reykjavík.
    • Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölu og munnmælum. Reykjavík.
    • (PEÓ) - Páll Eggert Ólason 1942: Saga Íslendinga V. Seyjánda öld. Reykjavík.
    • Safn til sögu Íslands V (nr. 3). Páll Eggert Ólason ritaði inngang og athugasemdir. Reykjavík, 1916.
    • Jón Árnason (safnað hefur) 1862-1864: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I-II. Leipzig.
    • Jónas Kristjánsson 1950: Spánverjavígin 1615. Sönn frásaga eftir Jón Guðmundsson lærða og Víkingarímur. Kaupmannahöfn.

    Mynd:

Höfundur

Dr. Phil. í íslenskum bókmenntum og þjóðfræði

Útgáfudagur

4.5.2007

Spyrjandi

Sigurjón Guðbergsson

Tilvísun

Ólína Þorvarðardóttir. „Hver var Jón lærði Guðmundsson?“ Vísindavefurinn, 4. maí 2007. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6624.

Ólína Þorvarðardóttir. (2007, 4. maí). Hver var Jón lærði Guðmundsson? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6624

Ólína Þorvarðardóttir. „Hver var Jón lærði Guðmundsson?“ Vísindavefurinn. 4. maí. 2007. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6624>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Jón lærði Guðmundsson?
Jón lærði hét fullu nafni Jón Guðmundsson og var sjálfmenntaður alþýðumaður og náttúruskoðari sem lifði á 17. öld. Nafn hans tengist atburðum brennualdar þar eð yfirvöld sökuðu hann um kukl og galdur. Saga Jóns lærða er raunaleg lífssaga manns sem var uppi á „þeirri öld sem spillti upplagi hans og hæfileikum“ eins og Páll Eggert Ólason orðaði það (PEÓ 1942, 263).

Jón var fæddur í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1574. Hann varð snemma áhugasamur um verkan náttúrunnar, einkum grasa og jurta til lækninga. Á þeim árum var læknisfræði landsmanna ekki á háu stigi og meðferð lyfja nánast talin til varnargaldurs, að minnsta kosti ef óskólagengnir menn höfðu þau um hönd. Jón var einnig áhugasamur um rúnir og fornrit auk þess sem hann var mjög hjátrúarfullur og sannfærður um tilvist álfa og anda.

Jón lærði mun hafa verið blendinn í lund, „heiftugur í skapi, sérvitur og fullur hjátrúar og pápískur í trú“ ef marka má formálsorð Guðbrands Vigfússonar að þjóðsögum Jóns Árnasonar (JÁ I, 1862, xi). Jón var hins vegar hagur maður til munns og handa, smiður góður, listaskrifari og málari, enda oft nefndur Jón málari. Hann var einnig talinn ákvæðaskáld* og sú saga fór af honum að hann kynni margt fyrir sér, meðal annars að kveða niður drauga.


Sú saga gekk af Jóni lærða að hann gæti kveðið niður drauga.

Margir leituðu til Jóns um smíðar og viðgerðir, en þess voru einnig dæmi að liðsinnis hans væri óskað til þess að fyrirkoma draugum og öðrum óhreinleika. Frægustu aðgerðir hans í því efni urðu þegar hann kvað niður reimleika á Snæfjallaströnd „Snæfjalladrauginn svonefnda“ með kveðskap sem varðveist hefur í handritum (Fjandafæla, Snjáfjallavísur og Umbót eður friðarhuggun).

Til er samtímaheimild frá árinu 1627 um það hvaða augum menn litu iðju Jóns lærða. Í riti sem nefnt hefur verið Hugrás, skrifað af séra Guðmundi Einarssyni á Staðarstað, prófasti í Snæfellssýslu, er rætt um lækningar Jóns lærða. Þar segir að Jón hafi „hendur yfir sjúka lagt, með lesningum og bænum og þvílík sín þjónustugjörð hafi í þann tíma svo þökkuð verið svo sem hjálp og aðstoð af himnaföðurnum sjálfum“ (Lbs 494 8vo, bl. 92r).

Jón lenti í útistöðum við Ara Magnússon, sýslumann í Ögri í Ísafjarðardjúpi, í framhaldi af Spánverjavígunum 1615 (Jónas Kristjánsson 1950). Ari í Ögri var á þeim tíma einn helsti héraðshöfðingi landsins, ráðríkur og aðgangsharður ef því var að skipta. Ari stóð fyrir því að fjöldi Spánverja, nánar tiltekið Baska, var veginn í tveimur aðförum í Dýrafirði og Æðey í Ísafjarðardjúpi í októbermánuði það ár.

Vígin mæltust misvel fyrir, og Jón lærði var þeirrar skoðunar að með þeim hefði verið framið ódæði gegn varnarlausum skipbrotsmönnum. Skrifaði hann um þessa atburði Sanna frásögu af spanskra manna skiptbrotum og slagi þar sem hann tók málstað Baskanna. Í framhaldi af því reis í sveitinni „rógurinn mikli / með fölskum bréfum / og forráðs lygi“ eins og hann segir sjálfur í ævikvæði sínu Fjölmóði (Safn til sögu Íslands, 31-85). Með þessum skrifum kallaði Jón yfir sig óvild Ara sýslumanns. Jón var í framhaldinu kærður fyrir galdra og flosnaði upp frá fjölskyldu og börnum um hávetur.

Það má teljast athyglisvert að Jón lærði skyldi hafa komist hjá því að verða brenndur á báli. Hann var aftur á móti dæmdur útlægur sumarið 1631. Leitaði hann þá á náðir yfirdóms í Kaupmannahöfn sem vísaði málinu aftur til Alþingis, og þar var útlegðardómur hans staðfestur árið 1637. Eftir það var Jón lærði útlægur úr öllum ríkjum og löndum konungs nema konungur vildi honum „meiri náð sýna“ (Alþingisbækur Íslands V, 483).

Jón fór þó aldrei af landi brott, og segir í Skarðsárannál að engir kaupmenn hafi fengist til að taka hann á skip (Annálar I, 251). Síðustu ár ævi sinnar hafðist hann að mestu við í Múlaþingi og Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup styrkti hann til ritstarfa á fjórða og fimmta áratug 17. aldar. Jón hafði einnig sinnt fræðastörfum fyrir Hólamenn á þriðja áratugnum.

Brynjólfur biskup segir í bréfi til Óla Worms árið 1649 að Jón Guðmundsson eyddi elliárum sínum úti í landshorni þar sem hann eltist ónýtur sjálfum sér og öðrum (Breve fra og til Ole Worm III, 379). Er því vart ofmælt að ævi Jóns lærða hafi verið raunaleg lífssaga manns sem lifði erfiða tíma og fékk því aldrei notið hæfileika sinna sem vert hefði verið.


*Ákvæðaskáld eða kraftaskáld nefndist það fólk sem gat með kveðskap haft áhrif á atburði og velfarnað manna. Talað var um að ummæli slíkra einstaklinga yrðu að áhrínisorðum, það er að þau kæmu fram. Meðal frægra kraftaskálda má nefna séra Hallgrím Pétursson, séra Snorra Björnsson í Húsafelli, Þormóð í Gvendareyjum og Jón lærða.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

    Handrit:
    • Lbs 494 8vo, bl. 92r.

    Bækur:

    • Alþingisbækur Íslands I-X. Reykjavík 1912-1967.
    • Annálar 1400-1800 I-VII. Reykjavík 1922-1998.
    • Breve fra og til Ole Worm I-III. Kaupmannahöfn 1965-68.
    • Einar G. Pétursson 1998: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I-II. Reykjavík.
    • Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölu og munnmælum. Reykjavík.
    • (PEÓ) - Páll Eggert Ólason 1942: Saga Íslendinga V. Seyjánda öld. Reykjavík.
    • Safn til sögu Íslands V (nr. 3). Páll Eggert Ólason ritaði inngang og athugasemdir. Reykjavík, 1916.
    • Jón Árnason (safnað hefur) 1862-1864: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I-II. Leipzig.
    • Jónas Kristjánsson 1950: Spánverjavígin 1615. Sönn frásaga eftir Jón Guðmundsson lærða og Víkingarímur. Kaupmannahöfn.

    Mynd:

...