Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvaðan komu fyrstu hundarnir og hvernig eru hundar ræktaðir?

Margrét Björk Sigurðardóttir

Hundar (Canis familiaris) eru náskyldir úlfum og tilheyra þeir báðir sömu ættinni, hundaættinni (Canidae), sem inniheldur aðeins um 35 tegundir í um það bil 10 ættkvíslum. Nánasti forfaðir hunda er talinn vera timburúlfurinn (Canis lupus lyacon), en mjög lítill erfðafræðilegur munur er á hundum og úlfum og geta þeir vel eignast saman afkvæmi. Nánar er fjallað um þetta í svari Páls Hersteinssonar við spurningunni Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki?

Timburúlfurinn (Canis lupus lyacon).

Fyrstu merki þess að úlfar hafi verið í samfylgd manna má rekja um 400 - 500 þúsund ár aftur í tímann, en bein úlfa hafa fundist með beinum manna frá þessum tíma. Talið er að heimilishundurinn hafi svo endanlega skilist frá úlfinum fyrir um 14.000 - 17.000 árum.

Þótt tamning (e. domestication) úlfa hafi leitt til þess að valist hafi ákveðnir eiginleikar eins og veiðigeta, varðeðli og smölun, hefur stór þáttur í þróun heimilishundsins verið hlutverk hans sem fylgitegund mannsins. Ákveðin atferliseinkenni hundsins eru talin styðja þessa kenningu, til dæmis sterk félagsleg tengsl og hollusta við manninn. Mennirnir hafa jafnframt haft áhrif á þróun hundsins með því að: Velja ljúfari og auðtamdari einstaklinga til undaneldis, draga úr náttúruvali með því að veita fæðu og húsaskjól og stýra æxlun.

Til eru um 800 ólík hundakyn í heiminum.

Eitt af því sem einkennir heimilishundinn og gerir hann frábrugðinn úlfinum er að fullþroska hundar láta ekki af allri hvolpahegðun. Þeir sýna þá enn atferli eins og að gelta og velta sér á bakið, hafa mikla athyglisþörf og heilsa með látum. Þetta atferli hefur að öllum líkindum haft jafn sterk tilfinningaleg áhrif á manninn forðum og það gerir nú, og hefur því líklega leitt til þess að einstaklingar sem sýndu þessa hegðun áfram á fullorðinsskeiði voru valdir fram yfir hina. Margir hundar eru því í raun líkari yrðlingum í hegðun en fullþroska úlfum.

Allt frá upphafi hefur maðurinn reynt að ná fram ákveðnum eiginleikum hjá hundum með stýrðum kynbótum. Þetta hefur leitt til þess að nú eru um 800 ólík hundakyn til í heiminum. Hjá hreinræktuðum hundum hefur þetta bæði leitt til mikillar skyldleikaæxlunar og einnig hafa fjölmörg slæm einkenni erfst samhliða eftirsóttu einkennunum. Hjá sýningarhundum, sem dæmdir eru eftir mjög ströngum stöðlum, eru það mjög skýrt afmörkuð og oft öfgafull einkenni sem sóst er eftir. Sem dæmi má nefna að hjá bolabítum hefur verið sóst eftir sífellt styttra nefi, sem hefur leitt til þess að þeir eiga nú flestir mjög erfitt með öndun. Hjá blóðhundum þykir eftirsóknarvert að þeir hafi mjög langt bak, sem hefur valdið því að brjósklos í baki er algengur kvilli.

Bolabítar eiga iðulega erfitt með andardrátt sökum þess hve stutt nef þeirra er orðið.

Vandamál skyldleikaæxlunar felast einkum í minni erfðafræðilegri fjölbreytni og aukinni tíðni erfðasjúkdóma. Í dag eru þekktir um 300 erfðasjúkdómar og erfðagallar í hreinræktuðum hundum. Golden retrievers, þýskir fjárhundar og doberman hundar stríða til dæmis við ýmis vandamál í liðum og mjaðmagrind, svo sem mjaðmalos (e. hip dysplasia). Nánast allir border collie hundar glíma við alvarleg augnvandamál eða eru genaberar fyrir slík vandamál. Blinda, heyrnarleysi og blóðsjúkdómar eru svo algengir sjúkdómar sem hrjá önnur hundakyn, og margir stórir hreinræktaðir hundar lifa í aðeins sex til sjö ár. Hundaræktun er því greinilega vandasöm og margt sem þar ber að hafa í huga.

Þrátt fyrir þau vandamál sem fylgja hreinræktuðum hundum hafa þeir óneitanlega marga kosti og má þar helst nefna að vera fyrirsjáanlegir. Fái fólk sér hreinræktaðan hvolp veit það nokkurn veginn hvernig hann mun verða með tilliti til stærðar, útlits og ákveðinna persónueinkenna. Uppeldi hunda er þó vandasamt og mikilvægt að þekkja vel til þess hundakyns sem hvolpurinn tilheyrir. Fyrstu vikurnar í lífi hvolpa skipta mestu máli og er mjög mikilvægt að fólk leiti sér ráða hjá sérfræðingum og lesi sér vel til um umönnun hunda áður en það fær sér einn slíkan.

Heimildir:
  • Clutton-Brock, J. 1995. Origins of the dog: Domestication and early hitory. In: The Domestic Dog: Its Evolution, Behaviour and Interactions with People. Serpell, J. (editor). Cambridge University Press, Cambridge.
  • Goodwin, D., Bradshaw, J.W.S. og Wickens, S.M. 1997. Paedomorphosis affects agonistic visual signals of domestic dogs. Animal Behaviour, 53 (2): 297-304.
  • Miklósi, Á., Polgárdi, R., Topál, J., & Csányi, V. (2000). Intentional behaviour in dog-human communication: Experimental analysis of "showing" behaviour in the dog. Animal Cognition, 3: 159-166.
  • Dog - Wikipedia Encyclopedia.

Myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

23.5.2006

Spyrjandi

Helga Rúnarsdóttir

Tilvísun

Margrét Björk Sigurðardóttir. „Hvaðan komu fyrstu hundarnir og hvernig eru hundar ræktaðir?“ Vísindavefurinn, 23. maí 2006. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5970.

Margrét Björk Sigurðardóttir. (2006, 23. maí). Hvaðan komu fyrstu hundarnir og hvernig eru hundar ræktaðir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5970

Margrét Björk Sigurðardóttir. „Hvaðan komu fyrstu hundarnir og hvernig eru hundar ræktaðir?“ Vísindavefurinn. 23. maí. 2006. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5970>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaðan komu fyrstu hundarnir og hvernig eru hundar ræktaðir?
Hundar (Canis familiaris) eru náskyldir úlfum og tilheyra þeir báðir sömu ættinni, hundaættinni (Canidae), sem inniheldur aðeins um 35 tegundir í um það bil 10 ættkvíslum. Nánasti forfaðir hunda er talinn vera timburúlfurinn (Canis lupus lyacon), en mjög lítill erfðafræðilegur munur er á hundum og úlfum og geta þeir vel eignast saman afkvæmi. Nánar er fjallað um þetta í svari Páls Hersteinssonar við spurningunni Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki?

Timburúlfurinn (Canis lupus lyacon).

Fyrstu merki þess að úlfar hafi verið í samfylgd manna má rekja um 400 - 500 þúsund ár aftur í tímann, en bein úlfa hafa fundist með beinum manna frá þessum tíma. Talið er að heimilishundurinn hafi svo endanlega skilist frá úlfinum fyrir um 14.000 - 17.000 árum.

Þótt tamning (e. domestication) úlfa hafi leitt til þess að valist hafi ákveðnir eiginleikar eins og veiðigeta, varðeðli og smölun, hefur stór þáttur í þróun heimilishundsins verið hlutverk hans sem fylgitegund mannsins. Ákveðin atferliseinkenni hundsins eru talin styðja þessa kenningu, til dæmis sterk félagsleg tengsl og hollusta við manninn. Mennirnir hafa jafnframt haft áhrif á þróun hundsins með því að: Velja ljúfari og auðtamdari einstaklinga til undaneldis, draga úr náttúruvali með því að veita fæðu og húsaskjól og stýra æxlun.

Til eru um 800 ólík hundakyn í heiminum.

Eitt af því sem einkennir heimilishundinn og gerir hann frábrugðinn úlfinum er að fullþroska hundar láta ekki af allri hvolpahegðun. Þeir sýna þá enn atferli eins og að gelta og velta sér á bakið, hafa mikla athyglisþörf og heilsa með látum. Þetta atferli hefur að öllum líkindum haft jafn sterk tilfinningaleg áhrif á manninn forðum og það gerir nú, og hefur því líklega leitt til þess að einstaklingar sem sýndu þessa hegðun áfram á fullorðinsskeiði voru valdir fram yfir hina. Margir hundar eru því í raun líkari yrðlingum í hegðun en fullþroska úlfum.

Allt frá upphafi hefur maðurinn reynt að ná fram ákveðnum eiginleikum hjá hundum með stýrðum kynbótum. Þetta hefur leitt til þess að nú eru um 800 ólík hundakyn til í heiminum. Hjá hreinræktuðum hundum hefur þetta bæði leitt til mikillar skyldleikaæxlunar og einnig hafa fjölmörg slæm einkenni erfst samhliða eftirsóttu einkennunum. Hjá sýningarhundum, sem dæmdir eru eftir mjög ströngum stöðlum, eru það mjög skýrt afmörkuð og oft öfgafull einkenni sem sóst er eftir. Sem dæmi má nefna að hjá bolabítum hefur verið sóst eftir sífellt styttra nefi, sem hefur leitt til þess að þeir eiga nú flestir mjög erfitt með öndun. Hjá blóðhundum þykir eftirsóknarvert að þeir hafi mjög langt bak, sem hefur valdið því að brjósklos í baki er algengur kvilli.

Bolabítar eiga iðulega erfitt með andardrátt sökum þess hve stutt nef þeirra er orðið.

Vandamál skyldleikaæxlunar felast einkum í minni erfðafræðilegri fjölbreytni og aukinni tíðni erfðasjúkdóma. Í dag eru þekktir um 300 erfðasjúkdómar og erfðagallar í hreinræktuðum hundum. Golden retrievers, þýskir fjárhundar og doberman hundar stríða til dæmis við ýmis vandamál í liðum og mjaðmagrind, svo sem mjaðmalos (e. hip dysplasia). Nánast allir border collie hundar glíma við alvarleg augnvandamál eða eru genaberar fyrir slík vandamál. Blinda, heyrnarleysi og blóðsjúkdómar eru svo algengir sjúkdómar sem hrjá önnur hundakyn, og margir stórir hreinræktaðir hundar lifa í aðeins sex til sjö ár. Hundaræktun er því greinilega vandasöm og margt sem þar ber að hafa í huga.

Þrátt fyrir þau vandamál sem fylgja hreinræktuðum hundum hafa þeir óneitanlega marga kosti og má þar helst nefna að vera fyrirsjáanlegir. Fái fólk sér hreinræktaðan hvolp veit það nokkurn veginn hvernig hann mun verða með tilliti til stærðar, útlits og ákveðinna persónueinkenna. Uppeldi hunda er þó vandasamt og mikilvægt að þekkja vel til þess hundakyns sem hvolpurinn tilheyrir. Fyrstu vikurnar í lífi hvolpa skipta mestu máli og er mjög mikilvægt að fólk leiti sér ráða hjá sérfræðingum og lesi sér vel til um umönnun hunda áður en það fær sér einn slíkan.

Heimildir:
  • Clutton-Brock, J. 1995. Origins of the dog: Domestication and early hitory. In: The Domestic Dog: Its Evolution, Behaviour and Interactions with People. Serpell, J. (editor). Cambridge University Press, Cambridge.
  • Goodwin, D., Bradshaw, J.W.S. og Wickens, S.M. 1997. Paedomorphosis affects agonistic visual signals of domestic dogs. Animal Behaviour, 53 (2): 297-304.
  • Miklósi, Á., Polgárdi, R., Topál, J., & Csányi, V. (2000). Intentional behaviour in dog-human communication: Experimental analysis of "showing" behaviour in the dog. Animal Cognition, 3: 159-166.
  • Dog - Wikipedia Encyclopedia.

Myndir:...