Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvenær fóru menn að nota orðið verðbólga á íslensku?

Jón Hilmar Jónsson

Orðið verðbólga hefur oft sett sterkan svip á umræðu um íslenskt efnahags- og stjórnmálalíf á undanförnum áratugum. Þetta hagfræðilega fyrirbæri, sem þykir hafa einkennt íslenskt efnahagsástand á löngum köflum, hafði fremur hægt um sig um skeið en hefur heldur betur náð sér á strik á undanförnum mánuðum.

Einföld orðabókarskýring á hugtakinu er "almenn verðhækkun samfara verðfalli á gjaldeyri". Meginheiti hugtaksins í nálægum tungumálum er inflation, orð af latneskri rót sem vísar upphaflega til þess að eitthvað sé fyllt lofti eða blásið út. Hin hagfræðilega merking orðsins kemur til sögunnar í ensku um miðja 19. öld.



Orðið verðbólga er ekki mjög gamalt í íslensku, líklega frá þriðja áratug síðustu aldar.

Orðið verðbólga er í hópi þeirra fjölmörgu íslensku nýyrða þar sem orðmyndunin er lýsandi um merkinguna, jafnframt því sem greina má enduróm erlendrar fyrirmyndar. Elsta dæmi um orðið í ritmálssafni Orðabókarinnar er úr þingræðu á Alþingi frá árinu 1927, þar sem Jónas Jónsson frá Hriflu á í orðaskiptum við Jón Þorláksson forsætisráðherra, og gerir þar eftirfarandi athugasemd:
En fjárglæframenn er eins góð þýðing og sum þau orð, sem hæstv. ráðh. hefir auðgað tungu vora með, t.d. verðbólga o.s.frv.

Hér er á það bent að Jón Þorláksson sé upphafsmaður orðsins verðbólga. Líklegt er að svo sé því að á þessum árum lét Jón verðlags- og gengismál mjög til sín taka og samdi undirstöðurit um það efni, Lággengið, sem út kom árið 1924. Þar virðast meginheitin um fyrirbærið reyndar vera verðlagsbólga og verðlagsbólgnun:

Það er hlaupin verðlagsbólga (Inflation) í viðskiftalíf landsins. (Lággengið, bls. 11)

Ástand það, sem fylgir lækkun peningagildis (vöruverðhækkun) og hjer var lýst, er einatt nefnt verðlagsbólgnun (Inflation), en hið gagnstæða mætti þá kalla hjöðnun (Deflation). (Lággengið, bls. 34-35)

Heitið verðbólga kemur þó að minnsta kosti fyrir í samsetningunni verðbólguár(in):

mjög mikið af innstæðunum, skuldabrjefum o.s.frv., sje nú í eigu manna, sem hafi eignast þetta á verðbólguárunum, eftir að peningarnir höfðu mist mikið af kaupmætti sínum. (Lággengið, bls. 147)

Þess má geta að Héðinn Valdimarsson notar orðið verðlagsbólga í grein sem hann ritar í Skírni árið 1925 og ber heitið ,,Þróun auðmagnsins":

Stríðsgróðinn lenti hjá stóriðjunni, og endurreisn heilla landshluta gáfu henni aftur ágætan arð. Verðlagsbólgan víðsvegar um Norðurálfuna flýtti fyrir þessu. (Skírnir 1925, bls. 46)

Svo er að sjá sem nokkur tími hafi liðið þar til orðið verðbólga festi sig í sessi, að minnsta kosti í almennu máli. Elsta finnanlegt dæmi um notkun þess í Morgunblaðinu er frá árinu 1931, þar sem sagt er frá falli sterlingspundsins:

Með lækkun pundsins ætla Englendingar sjer að skapa hægfara verðbólgu (inflation) og örva atvinnulífið í Englandi. (Mbl. 29. sept. 1931)

Hér er ekki gert ráð fyrir að orðið sé alkunnugt, því erlenda jafnheitið er haft í svigum til glöggvunar. Sami háttur er hafður á við notkun orðsins í grein í Morgunblaðinu frá árinu 1935, þar sem einnig er verið að lýsa efnahagsástandi í öðrum löndum:

Bertel Ohlin prófessor telur það a.m.k. of snemmt að fullyrða að ný verðbólga (inflation) sje yfirvofandi í Þýskalandi. (Mbl. 25. sept. 1935)

En það líður ekki á löngu þar til efnahagsástandið á Íslandi gefur fullt tilefni til að ræða um verðbólgu og áhrif hennar:

Dýrtíðin og verðbólgan, sem nú er að komast í algleyming, er mál sem alþjóð varðar. (Mbl. 14. febr. 1941)

Nú er ástandið þannig, sem kunnugt er, að yfir landið flæðir geipileg verðbólga. (Mbl. 3. sept. 1941)

Af orðinu verðbólga hefur sprottið fjölskrúðugt orðafar sem á sinn hátt er lýsandi um þá mynd sem málnotendur gera sér af fyrirbærinu, eðli þess og áhrifum. Eftir því sem verðbólgan magnast og verður þrálátari mótast sú líking sem fólgin er í orðinu verðbólgudraugur(inn):

En verðbólgudraugurinn hefur á ný rekið upp hausinn og ógnar afkomu almennings. (Mbl. 1. maí 1956)

Orðið endurspeglar vel þá afstöðu og reynslu að erfitt sé að ráða niðurlögum verðbólgunnar og hún geri mönnum lífið leitt. En verðbólgan hefur einnig þá ímynd að vera óviðráðanleg og stjórnast af sínu innra afli sem enginn fær við ráðið. Til marks um það eru orðin verðbólguskrúfa(n) og verðbólguhjól(ið), sem oft hefur verið gripið til í umræðunni:

ef verðbólguskrúfan fer einu sinni af stað, geta ekki neinir þeir sigrar, sem við vinnum á vígvöllunum, bjargað okkur frá fjárhagslegu hruni heima fyrir. (Mbl. 23. maí 1944)

Enn snýst verðbólguhjólið og heldur áfram að grafa undan heilbrigðum atvinnurekstri. (Mbl. 19. des. 1948)

Ógnandi áhrifamáttur verðbólgunnar endurspeglast í orðum eins og verðbólguskriða, verðbólguflóð og verðbólguholskefla.

Margs konar annað orðafar einkennir umræðu um það efnahagsástand þar sem verðbólga ræður för. Meðal áberandi orða í föruneyti orðsins verðbólga eru dýrtíð, gengisfelling, gengishrun, viðskiptahalli, kaupmáttarrýrnun, þensla og atvinnuleysi.

Á Vísindavefnum er fleiri svör um bæði verðbólgu og peninga, til dæmis við spurningunum:

Heimildir og mynd:

  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Morgunblaðið. http://www.timarit.is
  • Jón Þorláksson. Lággengið. Reykjavík, 1924.
  • The Oxford English Dictionary. Second edition. 1989. Clarendon Press, Oxford.
  • Mynd: Iðnskólinn í Reykjavík. Sótt 7. 10. 2009

Höfundur

Jón Hilmar Jónsson

rannsóknarprófessor á orðfræðisviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

8.10.2009

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jón Hilmar Jónsson. „Hvenær fóru menn að nota orðið verðbólga á íslensku?“ Vísindavefurinn, 8. október 2009. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=53937.

Jón Hilmar Jónsson. (2009, 8. október). Hvenær fóru menn að nota orðið verðbólga á íslensku? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=53937

Jón Hilmar Jónsson. „Hvenær fóru menn að nota orðið verðbólga á íslensku?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2009. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=53937>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær fóru menn að nota orðið verðbólga á íslensku?
Orðið verðbólga hefur oft sett sterkan svip á umræðu um íslenskt efnahags- og stjórnmálalíf á undanförnum áratugum. Þetta hagfræðilega fyrirbæri, sem þykir hafa einkennt íslenskt efnahagsástand á löngum köflum, hafði fremur hægt um sig um skeið en hefur heldur betur náð sér á strik á undanförnum mánuðum.

Einföld orðabókarskýring á hugtakinu er "almenn verðhækkun samfara verðfalli á gjaldeyri". Meginheiti hugtaksins í nálægum tungumálum er inflation, orð af latneskri rót sem vísar upphaflega til þess að eitthvað sé fyllt lofti eða blásið út. Hin hagfræðilega merking orðsins kemur til sögunnar í ensku um miðja 19. öld.



Orðið verðbólga er ekki mjög gamalt í íslensku, líklega frá þriðja áratug síðustu aldar.

Orðið verðbólga er í hópi þeirra fjölmörgu íslensku nýyrða þar sem orðmyndunin er lýsandi um merkinguna, jafnframt því sem greina má enduróm erlendrar fyrirmyndar. Elsta dæmi um orðið í ritmálssafni Orðabókarinnar er úr þingræðu á Alþingi frá árinu 1927, þar sem Jónas Jónsson frá Hriflu á í orðaskiptum við Jón Þorláksson forsætisráðherra, og gerir þar eftirfarandi athugasemd:
En fjárglæframenn er eins góð þýðing og sum þau orð, sem hæstv. ráðh. hefir auðgað tungu vora með, t.d. verðbólga o.s.frv.

Hér er á það bent að Jón Þorláksson sé upphafsmaður orðsins verðbólga. Líklegt er að svo sé því að á þessum árum lét Jón verðlags- og gengismál mjög til sín taka og samdi undirstöðurit um það efni, Lággengið, sem út kom árið 1924. Þar virðast meginheitin um fyrirbærið reyndar vera verðlagsbólga og verðlagsbólgnun:

Það er hlaupin verðlagsbólga (Inflation) í viðskiftalíf landsins. (Lággengið, bls. 11)

Ástand það, sem fylgir lækkun peningagildis (vöruverðhækkun) og hjer var lýst, er einatt nefnt verðlagsbólgnun (Inflation), en hið gagnstæða mætti þá kalla hjöðnun (Deflation). (Lággengið, bls. 34-35)

Heitið verðbólga kemur þó að minnsta kosti fyrir í samsetningunni verðbólguár(in):

mjög mikið af innstæðunum, skuldabrjefum o.s.frv., sje nú í eigu manna, sem hafi eignast þetta á verðbólguárunum, eftir að peningarnir höfðu mist mikið af kaupmætti sínum. (Lággengið, bls. 147)

Þess má geta að Héðinn Valdimarsson notar orðið verðlagsbólga í grein sem hann ritar í Skírni árið 1925 og ber heitið ,,Þróun auðmagnsins":

Stríðsgróðinn lenti hjá stóriðjunni, og endurreisn heilla landshluta gáfu henni aftur ágætan arð. Verðlagsbólgan víðsvegar um Norðurálfuna flýtti fyrir þessu. (Skírnir 1925, bls. 46)

Svo er að sjá sem nokkur tími hafi liðið þar til orðið verðbólga festi sig í sessi, að minnsta kosti í almennu máli. Elsta finnanlegt dæmi um notkun þess í Morgunblaðinu er frá árinu 1931, þar sem sagt er frá falli sterlingspundsins:

Með lækkun pundsins ætla Englendingar sjer að skapa hægfara verðbólgu (inflation) og örva atvinnulífið í Englandi. (Mbl. 29. sept. 1931)

Hér er ekki gert ráð fyrir að orðið sé alkunnugt, því erlenda jafnheitið er haft í svigum til glöggvunar. Sami háttur er hafður á við notkun orðsins í grein í Morgunblaðinu frá árinu 1935, þar sem einnig er verið að lýsa efnahagsástandi í öðrum löndum:

Bertel Ohlin prófessor telur það a.m.k. of snemmt að fullyrða að ný verðbólga (inflation) sje yfirvofandi í Þýskalandi. (Mbl. 25. sept. 1935)

En það líður ekki á löngu þar til efnahagsástandið á Íslandi gefur fullt tilefni til að ræða um verðbólgu og áhrif hennar:

Dýrtíðin og verðbólgan, sem nú er að komast í algleyming, er mál sem alþjóð varðar. (Mbl. 14. febr. 1941)

Nú er ástandið þannig, sem kunnugt er, að yfir landið flæðir geipileg verðbólga. (Mbl. 3. sept. 1941)

Af orðinu verðbólga hefur sprottið fjölskrúðugt orðafar sem á sinn hátt er lýsandi um þá mynd sem málnotendur gera sér af fyrirbærinu, eðli þess og áhrifum. Eftir því sem verðbólgan magnast og verður þrálátari mótast sú líking sem fólgin er í orðinu verðbólgudraugur(inn):

En verðbólgudraugurinn hefur á ný rekið upp hausinn og ógnar afkomu almennings. (Mbl. 1. maí 1956)

Orðið endurspeglar vel þá afstöðu og reynslu að erfitt sé að ráða niðurlögum verðbólgunnar og hún geri mönnum lífið leitt. En verðbólgan hefur einnig þá ímynd að vera óviðráðanleg og stjórnast af sínu innra afli sem enginn fær við ráðið. Til marks um það eru orðin verðbólguskrúfa(n) og verðbólguhjól(ið), sem oft hefur verið gripið til í umræðunni:

ef verðbólguskrúfan fer einu sinni af stað, geta ekki neinir þeir sigrar, sem við vinnum á vígvöllunum, bjargað okkur frá fjárhagslegu hruni heima fyrir. (Mbl. 23. maí 1944)

Enn snýst verðbólguhjólið og heldur áfram að grafa undan heilbrigðum atvinnurekstri. (Mbl. 19. des. 1948)

Ógnandi áhrifamáttur verðbólgunnar endurspeglast í orðum eins og verðbólguskriða, verðbólguflóð og verðbólguholskefla.

Margs konar annað orðafar einkennir umræðu um það efnahagsástand þar sem verðbólga ræður för. Meðal áberandi orða í föruneyti orðsins verðbólga eru dýrtíð, gengisfelling, gengishrun, viðskiptahalli, kaupmáttarrýrnun, þensla og atvinnuleysi.

Á Vísindavefnum er fleiri svör um bæði verðbólgu og peninga, til dæmis við spurningunum:

Heimildir og mynd:

  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Morgunblaðið. http://www.timarit.is
  • Jón Þorláksson. Lággengið. Reykjavík, 1924.
  • The Oxford English Dictionary. Second edition. 1989. Clarendon Press, Oxford.
  • Mynd: Iðnskólinn í Reykjavík. Sótt 7. 10. 2009
...