Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Var hin týnda Atlantis raunverulega til?

Geir Þ. Þórarinsson

Aðrir spyrjendur eru:

Hlynur Traustason, Hrafnhildur Helgadóttir, Rakel Kristjánsdóttir, Stefán Smári, Jóhann Björn, Guðmundur Þorsteinn, Þorsteinn Berghreinsson, Eva Dögg Þórisdóttir, Magni Þórarinsson, Karen Gylfadóttir, Þóra, Arnfríður Ragna Sigurjónsdóttir, Anton Smári Gunnarsson, Hafþór Ari Sævarsson, Aron Þór, Arna Grönvold og Hinrik Jóhannesson.

Það má ef til vill segja að frá því að sagan um Atlantis varð til hafi hún öðlast sjálfstætt líf enda hefur verið gefinn út fjöldinn allur af bókum um eyjuna týndu þar sem finna má hverskyns hugmyndir, hverja annarri ævintýralegri, um sögu og menningu Atlantis. Til dæmis hefur verið haldið fram að á Atlantis hafi verið fyrirmyndarríki háþróaðra vera sem bjuggu yfir þekkingu á tímaferðalögum, geimferðalögum og þar fram eftir götunum (sjá til dæmis Tomas 1972); að Ásgarður hafi verið á Atlantis, hvorki meira né minna (Spanuth 1980) eða fyrsta siðmenning jarðar sem mismunandi trúarbrögð nefna ýmist Eden, Elýsíum, Ólympstind og svo framvegis. Einnig telja sumir að konungar og drottningar Atlantis hafi orðið að guðum og gyðjum hinna ýmsu trúarbragða, meðal annars grískrar, rómverskrar og norrænnar goðafræði og hindúatrúar (Donnelly 1971). En hvaðan er sagan um Atlantis komin og hvað er til í henni?


Sagan segir að Atlantis hafi sokkið í sæ.

Eina heimildin frá fornöld fyrir sögunni um Atlantis eru rit gríska heimspekingsins Platons sem var uppi í Aþenu 427-347 f. Kr. Allar aðrar heimildir um Atlantis byggja beint eða óbeint á frásögn Platons og því verðum við að hefja leikinn með því að athuga hvað Platon hefur að segja um Atlantis. Um Platon sjálfan má svo lesa í svari sama höfundar, Hver var Platon?

Platon getur fyrst um Atlantis í upphafi samræðunnar Tímajos. Þar eru þeir komnir saman Tímajos, Krítías, Hermókrates og Sókrates og ætla þeir sér að halda áfram umræðum frá deginum áður en þá hafði Sókrates lýst fyrir þeim fyrirmyndarríkinu. Nú vill hann aftur á móti heyra um raunverulegt fyrirmyndarríki en ekki einungis ímyndað fyrirmyndarríki og býðst þá Krítías til að segja söguna um Atlantis. Hann segir söguna fyrst í stuttu máli (Tímajos 20d-25d) en síðar í lengra máli í samræðunni Krítías sem er framhald Tímajosar. Sú samræða er hins vegar ókláruð og því vitum við ekki endann á sögunni í smáatriðum.

Í meginatriðum fjallar sagan um það hvernig Aþenumenn háðu eitt sinn stríð við valdagráðuga og spillta Atlantisbúa sem kúguðu þjóðirnar við Miðjarðarhafið og hvernig Aþenumenn sigruðu þá og forðuðu þannig þjóðunum við Miðjarðarhafið frá kúgun og þrældómi. Í ljós kemur að Aþenu sögunnar svipar æði mikið til fyrirmyndarríkisins eins og því er meðal annars lýst í Ríkinu. Á hinn bóginn var Atlantis orðið löstum spillt og rotið þjóðfélag.

Nokkur meginatriði úr frásögn Platons:

  1. Krítías segist hafa heyrt söguna frá afa sínum sem heyrði hana frá gríska stjórnmálamanninum Sóloni. Sólon á svo að hafa heyrt hana frá egypskum presti á ferðalagi sínu um Egyptaland. Presturinn sagði að atburðirnir hefðu átt sér stað 9000 árum áður, það er í kringum árið 9600 f. Kr.
  2. Atlantis á að hafa legið í Atlantshafinu úti fyrir Gíbraltarsundi. Hún var á stærð við Norður-Afríku og Litlu Asíu til samans sem þýðir að eyjan hefur verið álíka stór og Grænland.
  3. Höfuðborg Atlantis var kringlótt í laginu og umlukin vatni. Önnur hringlaga eyja lá utan um vatnið og var hún umlukin enn öðru vatni sem var umlukið þriðju eyjunni, sjálfri Atlantis. Á miðeyjunni voru fjöll meðfram allri ströndinni en á Atlantis miðri var stór rétthyrningslaga slétta sem var um helmingi stærri en Ísland.
  4. Atlantis byggðu upphaflega afkomendur guðsins Póseidons. Hann gat fimm pör tvíburadrengja með Kleitó, dóttur Evenors og Levkippu sem voru meðal fyrstu mannanna sem byggðu eyjuna. Póseidon skipti eyjunni með drengjunum tíu og gerði þann elsta, Atlas, að konungi yfir öllum hinum. Bræður hans níu hétu Evmelos, Amferes, Evæmon, Mneseifur, Átokþon, Elasippos, Mestor, Azæs og Díaprepes. Þeir réðu ríkjum hver á sínum hluta eyjunnar og réðu einnig löndunum við Miðjarðarhaf, frá Gíbraltarsundi í vestri að Egyptalandi á norðurströnd Afríku og allt að Ítalíu við norðanvert Miðjarðarhafið.
  5. Atlantisbúar voru í upphafi dygðum prýddir en höfðu spillst og orðið valdagráðugir heimsveldissinnar svo Seifur ákvað að refsa þeim.
  6. Eyjan á að hafa farist í jarðskjálfta sem varði í einn dag og eina nótt.

Það er óhugsandi að eitt sinn hafi verið til eyja á stærð við Grænland í miðju Atlantshafi sem hafi farist í jarðskjálfta. Samt sem áður hafa margir reynt að finna legu eyjunnar og oftar en ekki er stungið upp á því að einhver eyja í Miðjarðarhafinu hafi verið Atlantis, til dæmis Krít, Kýpur eða Santorini. Einnig hafa Írland og Azoreyjar verið nefndar.


Atlantis á að hafa legið í Atlantshafinu. Myndin er birt með leyfi Sceptics Society.

Á Krít var eitt sinn menningarríki sem var á tímum Platons löngu horfið, nefnilega mínóíska menningin eða Krítarmenningin svonefnda. Elstu leifar þeirrar menningar eru hins vegar frá því um 3500 f. Kr. og hún hvarf um árið 1100 f. Kr. svo að tímasetningin er röng. Auk þess sem hún fórst ekki í jarðskjálfta. Staðsetning og stærð eyjunnar standast ekki heldur. Eyjan Santorini, sem eitt sinn var kringlótt, sprakk í loft upp í miklu eldgosi einhvern tíma á tímabilinu 16500-1500 f. Kr. Í sögunni um Atlantis er þó ekki talað um eldgos heldur jarðskjálfta og auk þess stenst hvorki tímasetningin né stærð eða staðsetning eyjunnar. Það sama er að segja um Kýpur.

Í stuttu máli hafa rústir Atlantis eða fyrrum lega eyjunnar aldrei fundist þótt vissulega hafi fundist horfin menningarsamfélög og jafnvel eyjur sem hafa farist í náttúruhamförum líkt og Santorini. Mörgum kemur það ekki á óvart enda er óhætt að fullyrða að nær allir fræðimenn sem rannsaka rit Platons séu sammála um að sagan um Atlantis sé skálduð – uppspuni Platons – og þjóni þeim tilgangi einum að koma á framfæri skoðunum hans.

Sumir hafa getið sér til um að í sögunni standi Atlantis fyrir Aþenu í samtíma Platons, sjóveldið með stórveldistilburðina, en Aþena í ritum Platons standi fyrir Aþenu á fyrrihluta 5. aldar f. Kr., þá Aþenu sem hratt innrás Persaveldis í orrustunum við Maraþon 490 f. Kr. og Salamis 480 f. Kr. (Guthrie 1978, 250). Í sögunni eru borin saman mikilfengleiki ríkidæmis hins spillta stórveldis Atlantis annars vegar og raunveruleg dýrð Aþenu hins vegar. Í sögunni sigrast Aþena á þessu ógnandi stórveldi í vestri en í raunveruleikanum hafði Aþena áður sigrast á stórveldinu í austri. Samkvæmt þessari túlkun er Platon því auk annars að gefa í skyn að Aþena samtímans hafi spillst af ríkidæmi og völdum.

Ýmiss konar önnur túlkun hefur verið sett fram en af lýsingu Platons að dæma er að minnsta kosti afar ósennilegt að sagan styðjist á nokkurn hátt við frásagnir af raunverulegum sögulegum atburðum.

Skyld svör á Vísindavefnum

Frekara lesefni

  • Krítías, rit Platons í enskri þýðingu.
  • Tímajos, rit Platons í enskri þýðingu.

Heimildir og myndir

  • Cornford, Francis M., Plato’s Cosmology: The Timaeus of Plato (Indianapolis: Hackett, 1997).
  • Donnelly, Ignatus, Atlantis: The Antediluvian World (San Francisco: Harper & Row, 1971).
  • Forsyth, Phyllis Young, Atlantis: The Making of Myth (Montreal: McGill-Queen’s University Press, 1980).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy V: The Later Plato and the Academy (Cambridge: Cambridge University Press, 1978).
  • Spanuth, Jürgen, Atlantis of the North (New York: Nostrand Reinhold Company, 1980). Tomas, Andrew, Atlantis: From Legend to Discovery (London: Robert Hale & Company, 1972).
  • Mynd af sokkinni Atlantis er af Troja, Griechenland, Atlantis, Mayas, Atzeken und die Anden.
  • Kort af Atlantis er af The search for Atlantis eftir Pat Linse. Sceptics Society.

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

30.9.2005

Spyrjandi

Karen Gylfadóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Var hin týnda Atlantis raunverulega til?“ Vísindavefurinn, 30. september 2005. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5300.

Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 30. september). Var hin týnda Atlantis raunverulega til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5300

Geir Þ. Þórarinsson. „Var hin týnda Atlantis raunverulega til?“ Vísindavefurinn. 30. sep. 2005. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5300>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Var hin týnda Atlantis raunverulega til?
Aðrir spyrjendur eru:

Hlynur Traustason, Hrafnhildur Helgadóttir, Rakel Kristjánsdóttir, Stefán Smári, Jóhann Björn, Guðmundur Þorsteinn, Þorsteinn Berghreinsson, Eva Dögg Þórisdóttir, Magni Þórarinsson, Karen Gylfadóttir, Þóra, Arnfríður Ragna Sigurjónsdóttir, Anton Smári Gunnarsson, Hafþór Ari Sævarsson, Aron Þór, Arna Grönvold og Hinrik Jóhannesson.

Það má ef til vill segja að frá því að sagan um Atlantis varð til hafi hún öðlast sjálfstætt líf enda hefur verið gefinn út fjöldinn allur af bókum um eyjuna týndu þar sem finna má hverskyns hugmyndir, hverja annarri ævintýralegri, um sögu og menningu Atlantis. Til dæmis hefur verið haldið fram að á Atlantis hafi verið fyrirmyndarríki háþróaðra vera sem bjuggu yfir þekkingu á tímaferðalögum, geimferðalögum og þar fram eftir götunum (sjá til dæmis Tomas 1972); að Ásgarður hafi verið á Atlantis, hvorki meira né minna (Spanuth 1980) eða fyrsta siðmenning jarðar sem mismunandi trúarbrögð nefna ýmist Eden, Elýsíum, Ólympstind og svo framvegis. Einnig telja sumir að konungar og drottningar Atlantis hafi orðið að guðum og gyðjum hinna ýmsu trúarbragða, meðal annars grískrar, rómverskrar og norrænnar goðafræði og hindúatrúar (Donnelly 1971). En hvaðan er sagan um Atlantis komin og hvað er til í henni?


Sagan segir að Atlantis hafi sokkið í sæ.

Eina heimildin frá fornöld fyrir sögunni um Atlantis eru rit gríska heimspekingsins Platons sem var uppi í Aþenu 427-347 f. Kr. Allar aðrar heimildir um Atlantis byggja beint eða óbeint á frásögn Platons og því verðum við að hefja leikinn með því að athuga hvað Platon hefur að segja um Atlantis. Um Platon sjálfan má svo lesa í svari sama höfundar, Hver var Platon?

Platon getur fyrst um Atlantis í upphafi samræðunnar Tímajos. Þar eru þeir komnir saman Tímajos, Krítías, Hermókrates og Sókrates og ætla þeir sér að halda áfram umræðum frá deginum áður en þá hafði Sókrates lýst fyrir þeim fyrirmyndarríkinu. Nú vill hann aftur á móti heyra um raunverulegt fyrirmyndarríki en ekki einungis ímyndað fyrirmyndarríki og býðst þá Krítías til að segja söguna um Atlantis. Hann segir söguna fyrst í stuttu máli (Tímajos 20d-25d) en síðar í lengra máli í samræðunni Krítías sem er framhald Tímajosar. Sú samræða er hins vegar ókláruð og því vitum við ekki endann á sögunni í smáatriðum.

Í meginatriðum fjallar sagan um það hvernig Aþenumenn háðu eitt sinn stríð við valdagráðuga og spillta Atlantisbúa sem kúguðu þjóðirnar við Miðjarðarhafið og hvernig Aþenumenn sigruðu þá og forðuðu þannig þjóðunum við Miðjarðarhafið frá kúgun og þrældómi. Í ljós kemur að Aþenu sögunnar svipar æði mikið til fyrirmyndarríkisins eins og því er meðal annars lýst í Ríkinu. Á hinn bóginn var Atlantis orðið löstum spillt og rotið þjóðfélag.

Nokkur meginatriði úr frásögn Platons:

  1. Krítías segist hafa heyrt söguna frá afa sínum sem heyrði hana frá gríska stjórnmálamanninum Sóloni. Sólon á svo að hafa heyrt hana frá egypskum presti á ferðalagi sínu um Egyptaland. Presturinn sagði að atburðirnir hefðu átt sér stað 9000 árum áður, það er í kringum árið 9600 f. Kr.
  2. Atlantis á að hafa legið í Atlantshafinu úti fyrir Gíbraltarsundi. Hún var á stærð við Norður-Afríku og Litlu Asíu til samans sem þýðir að eyjan hefur verið álíka stór og Grænland.
  3. Höfuðborg Atlantis var kringlótt í laginu og umlukin vatni. Önnur hringlaga eyja lá utan um vatnið og var hún umlukin enn öðru vatni sem var umlukið þriðju eyjunni, sjálfri Atlantis. Á miðeyjunni voru fjöll meðfram allri ströndinni en á Atlantis miðri var stór rétthyrningslaga slétta sem var um helmingi stærri en Ísland.
  4. Atlantis byggðu upphaflega afkomendur guðsins Póseidons. Hann gat fimm pör tvíburadrengja með Kleitó, dóttur Evenors og Levkippu sem voru meðal fyrstu mannanna sem byggðu eyjuna. Póseidon skipti eyjunni með drengjunum tíu og gerði þann elsta, Atlas, að konungi yfir öllum hinum. Bræður hans níu hétu Evmelos, Amferes, Evæmon, Mneseifur, Átokþon, Elasippos, Mestor, Azæs og Díaprepes. Þeir réðu ríkjum hver á sínum hluta eyjunnar og réðu einnig löndunum við Miðjarðarhaf, frá Gíbraltarsundi í vestri að Egyptalandi á norðurströnd Afríku og allt að Ítalíu við norðanvert Miðjarðarhafið.
  5. Atlantisbúar voru í upphafi dygðum prýddir en höfðu spillst og orðið valdagráðugir heimsveldissinnar svo Seifur ákvað að refsa þeim.
  6. Eyjan á að hafa farist í jarðskjálfta sem varði í einn dag og eina nótt.

Það er óhugsandi að eitt sinn hafi verið til eyja á stærð við Grænland í miðju Atlantshafi sem hafi farist í jarðskjálfta. Samt sem áður hafa margir reynt að finna legu eyjunnar og oftar en ekki er stungið upp á því að einhver eyja í Miðjarðarhafinu hafi verið Atlantis, til dæmis Krít, Kýpur eða Santorini. Einnig hafa Írland og Azoreyjar verið nefndar.


Atlantis á að hafa legið í Atlantshafinu. Myndin er birt með leyfi Sceptics Society.

Á Krít var eitt sinn menningarríki sem var á tímum Platons löngu horfið, nefnilega mínóíska menningin eða Krítarmenningin svonefnda. Elstu leifar þeirrar menningar eru hins vegar frá því um 3500 f. Kr. og hún hvarf um árið 1100 f. Kr. svo að tímasetningin er röng. Auk þess sem hún fórst ekki í jarðskjálfta. Staðsetning og stærð eyjunnar standast ekki heldur. Eyjan Santorini, sem eitt sinn var kringlótt, sprakk í loft upp í miklu eldgosi einhvern tíma á tímabilinu 16500-1500 f. Kr. Í sögunni um Atlantis er þó ekki talað um eldgos heldur jarðskjálfta og auk þess stenst hvorki tímasetningin né stærð eða staðsetning eyjunnar. Það sama er að segja um Kýpur.

Í stuttu máli hafa rústir Atlantis eða fyrrum lega eyjunnar aldrei fundist þótt vissulega hafi fundist horfin menningarsamfélög og jafnvel eyjur sem hafa farist í náttúruhamförum líkt og Santorini. Mörgum kemur það ekki á óvart enda er óhætt að fullyrða að nær allir fræðimenn sem rannsaka rit Platons séu sammála um að sagan um Atlantis sé skálduð – uppspuni Platons – og þjóni þeim tilgangi einum að koma á framfæri skoðunum hans.

Sumir hafa getið sér til um að í sögunni standi Atlantis fyrir Aþenu í samtíma Platons, sjóveldið með stórveldistilburðina, en Aþena í ritum Platons standi fyrir Aþenu á fyrrihluta 5. aldar f. Kr., þá Aþenu sem hratt innrás Persaveldis í orrustunum við Maraþon 490 f. Kr. og Salamis 480 f. Kr. (Guthrie 1978, 250). Í sögunni eru borin saman mikilfengleiki ríkidæmis hins spillta stórveldis Atlantis annars vegar og raunveruleg dýrð Aþenu hins vegar. Í sögunni sigrast Aþena á þessu ógnandi stórveldi í vestri en í raunveruleikanum hafði Aþena áður sigrast á stórveldinu í austri. Samkvæmt þessari túlkun er Platon því auk annars að gefa í skyn að Aþena samtímans hafi spillst af ríkidæmi og völdum.

Ýmiss konar önnur túlkun hefur verið sett fram en af lýsingu Platons að dæma er að minnsta kosti afar ósennilegt að sagan styðjist á nokkurn hátt við frásagnir af raunverulegum sögulegum atburðum.

Skyld svör á Vísindavefnum

Frekara lesefni

  • Krítías, rit Platons í enskri þýðingu.
  • Tímajos, rit Platons í enskri þýðingu.

Heimildir og myndir

  • Cornford, Francis M., Plato’s Cosmology: The Timaeus of Plato (Indianapolis: Hackett, 1997).
  • Donnelly, Ignatus, Atlantis: The Antediluvian World (San Francisco: Harper & Row, 1971).
  • Forsyth, Phyllis Young, Atlantis: The Making of Myth (Montreal: McGill-Queen’s University Press, 1980).
  • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy V: The Later Plato and the Academy (Cambridge: Cambridge University Press, 1978).
  • Spanuth, Jürgen, Atlantis of the North (New York: Nostrand Reinhold Company, 1980). Tomas, Andrew, Atlantis: From Legend to Discovery (London: Robert Hale & Company, 1972).
  • Mynd af sokkinni Atlantis er af Troja, Griechenland, Atlantis, Mayas, Atzeken und die Anden.
  • Kort af Atlantis er af The search for Atlantis eftir Pat Linse. Sceptics Society.
...