Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver er munurinn á taugahormóni og taugaboðefni?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Bæði taugahormón og taugaboðefni eru boðefni sem koma boðum milli líkamshluta. Hormónin bera boðin langar leiðir með hjálp blóðrásarkerfisins en taugaboðefni bera boðin stutt milli taugunga, til dæmis innan heilans.

Taugahormón er hormón sem myndast í taugavef og er seytt úr honum í blóðrásina eins og önnur hormón. Með blóðrásinni berast þau til markfrumna sinna þar sem þau framkalla tiltekin áhrif. Dæmi um taugahormón eru stýrihormónin frá framhluta heiladinguls, eins og stýrihormón skjaldkirtils, stýrihormón nýrnahettubarkar og stýrihormón kynkirtla. Þau örva öll markkirtla sína til að framleiða og seyta sínum hormónum. Önnur hormón sem teljast til taugahormóna eru tvö hormón sem myndast í undirstúku og berast úr henni beint til afturhluta heiladinguls, þar sem þau eru geymd þar til þeirra er þörf. Þá er þeim seytt út í blóðrásina og þau berast til sinna markfrumna. Þetta eru þvagtemprandi hormón og hríðahormón (oxýtócín).

Taugaboðefni eru aftur á móti efni sem símaendar allra taugunga seyta þegar taugaboð berast í þá. Taugaboð berast sem veikur rafstraumur eftir himnu frumnanna, allt frá gripluendum til símaenda þeirra. Þegar komið er í símaendana fer ferli í gang innan þeirra sem endar með því að seytibólur sem innihalda boðefni berast að frumuhimnunni, renna saman við hana og innihald þeirra berst út úr frumunni. Taugaboðefnið er þá komið út í svokölluð taugamót sem er örlítið bil á milli símaenda eins taugungs og gripluenda þess næsta eða á milli taugungs og vöðva- eða kirtilfrumu (og kallast þá taugavöðva- eða taugakirtilmót). Taugaboðefnið flæðir yfir taugamótin og sest á viðtaka í himnu frumunnar/frumnanna handan mótanna. Taugunginn sem myndar taugaboðefnið mætti kalla fyrirmótafrumu og frumuna sem tekur við taugaboðefninu eftirmótafrumu. Áhrifin sem taugaboðefnið framkallar fara eftir eiginleikum viðtakanna sem þau bindast.

Mörg efni teljast til taugaboðefna og eru þau flokkuð á ýmsa vegu. Efnafræðilega skiptast þau aðallega í amínósýrur, einamín og peptíð, þótt sum tilheyra öðrum efnaflokkum. Taugaboðefnin eru misalgeng. Amínósýran glútamat er langalgengasta taugaboðefnið. Henni er seytt yfir 90% allra taugamóta í heilanum. Næstalgengust er GABA sem er seytt yfir 90% þeirra taugamóta heilans sem ekki nota glútamat. Önnur dæmi um taugaboðefni eru acetýlkólín sem er seytt í taugavöðvamót, noradrenalín, dópamín og serótónín.

Taugaboðefni eru oft flokkuð í örvandi og hamlandi, þótt í raun geri þau ekki annað en að virkja eina eða fleiri gerðir af viðtökum. Áhrifin sem taugaboðefni hefur á eftirmótafrumuna fer alfarið eftir eiginleikum viðtakans. Fyrir sum taugaboðefni, eins og glútamat, eru mikilvægustu viðtakarnir örvandi, það er að segja að virkjun þeirra eykur líkur á að boðspenna myndist í frumunni. Fyrir önnur taugaboðefni, eins og GABA, hafa mikilvægustu viðtakarnir hamlandi áhrif, minnka sem sagt líkur á myndun boðspennu. Svo eru aðrir hópar taugaboðefna, til dæmis acetýlkólín, sem bindast ýmist örvandi eða hamlandi viðtaka og hafa þau því stundum örvandi áhrif og stundum hamlandi.

Mörg lyf verka með því að hindra eða örva taugaboðefnakerfin, til dæmis trufla fíkniefnin amfetamín, heróín og kókaín dópamínkerfi heilans. Truflun í taugaboðefnakerfi heilans tengist sumum sjúkdómum, til dæmis er ónóg seyti af dópamíni í Parkinsonsjúklingum.

Það má því segja að hlutverk taugaboðefna sé að koma taugaboði frá einum taugungi til hins næsta (eða vöðva- eða kirtilfrumu) þar sem rafstraumsbylgja kemst ekki yfir taugamót.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

16.9.2009

Spyrjandi

Hildur Lilja Guðmundsdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver er munurinn á taugahormóni og taugaboðefni?“ Vísindavefurinn, 16. september 2009. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=50547.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2009, 16. september). Hver er munurinn á taugahormóni og taugaboðefni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=50547

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver er munurinn á taugahormóni og taugaboðefni?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2009. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=50547>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á taugahormóni og taugaboðefni?
Bæði taugahormón og taugaboðefni eru boðefni sem koma boðum milli líkamshluta. Hormónin bera boðin langar leiðir með hjálp blóðrásarkerfisins en taugaboðefni bera boðin stutt milli taugunga, til dæmis innan heilans.

Taugahormón er hormón sem myndast í taugavef og er seytt úr honum í blóðrásina eins og önnur hormón. Með blóðrásinni berast þau til markfrumna sinna þar sem þau framkalla tiltekin áhrif. Dæmi um taugahormón eru stýrihormónin frá framhluta heiladinguls, eins og stýrihormón skjaldkirtils, stýrihormón nýrnahettubarkar og stýrihormón kynkirtla. Þau örva öll markkirtla sína til að framleiða og seyta sínum hormónum. Önnur hormón sem teljast til taugahormóna eru tvö hormón sem myndast í undirstúku og berast úr henni beint til afturhluta heiladinguls, þar sem þau eru geymd þar til þeirra er þörf. Þá er þeim seytt út í blóðrásina og þau berast til sinna markfrumna. Þetta eru þvagtemprandi hormón og hríðahormón (oxýtócín).

Taugaboðefni eru aftur á móti efni sem símaendar allra taugunga seyta þegar taugaboð berast í þá. Taugaboð berast sem veikur rafstraumur eftir himnu frumnanna, allt frá gripluendum til símaenda þeirra. Þegar komið er í símaendana fer ferli í gang innan þeirra sem endar með því að seytibólur sem innihalda boðefni berast að frumuhimnunni, renna saman við hana og innihald þeirra berst út úr frumunni. Taugaboðefnið er þá komið út í svokölluð taugamót sem er örlítið bil á milli símaenda eins taugungs og gripluenda þess næsta eða á milli taugungs og vöðva- eða kirtilfrumu (og kallast þá taugavöðva- eða taugakirtilmót). Taugaboðefnið flæðir yfir taugamótin og sest á viðtaka í himnu frumunnar/frumnanna handan mótanna. Taugunginn sem myndar taugaboðefnið mætti kalla fyrirmótafrumu og frumuna sem tekur við taugaboðefninu eftirmótafrumu. Áhrifin sem taugaboðefnið framkallar fara eftir eiginleikum viðtakanna sem þau bindast.

Mörg efni teljast til taugaboðefna og eru þau flokkuð á ýmsa vegu. Efnafræðilega skiptast þau aðallega í amínósýrur, einamín og peptíð, þótt sum tilheyra öðrum efnaflokkum. Taugaboðefnin eru misalgeng. Amínósýran glútamat er langalgengasta taugaboðefnið. Henni er seytt yfir 90% allra taugamóta í heilanum. Næstalgengust er GABA sem er seytt yfir 90% þeirra taugamóta heilans sem ekki nota glútamat. Önnur dæmi um taugaboðefni eru acetýlkólín sem er seytt í taugavöðvamót, noradrenalín, dópamín og serótónín.

Taugaboðefni eru oft flokkuð í örvandi og hamlandi, þótt í raun geri þau ekki annað en að virkja eina eða fleiri gerðir af viðtökum. Áhrifin sem taugaboðefni hefur á eftirmótafrumuna fer alfarið eftir eiginleikum viðtakans. Fyrir sum taugaboðefni, eins og glútamat, eru mikilvægustu viðtakarnir örvandi, það er að segja að virkjun þeirra eykur líkur á að boðspenna myndist í frumunni. Fyrir önnur taugaboðefni, eins og GABA, hafa mikilvægustu viðtakarnir hamlandi áhrif, minnka sem sagt líkur á myndun boðspennu. Svo eru aðrir hópar taugaboðefna, til dæmis acetýlkólín, sem bindast ýmist örvandi eða hamlandi viðtaka og hafa þau því stundum örvandi áhrif og stundum hamlandi.

Mörg lyf verka með því að hindra eða örva taugaboðefnakerfin, til dæmis trufla fíkniefnin amfetamín, heróín og kókaín dópamínkerfi heilans. Truflun í taugaboðefnakerfi heilans tengist sumum sjúkdómum, til dæmis er ónóg seyti af dópamíni í Parkinsonsjúklingum.

Það má því segja að hlutverk taugaboðefna sé að koma taugaboði frá einum taugungi til hins næsta (eða vöðva- eða kirtilfrumu) þar sem rafstraumsbylgja kemst ekki yfir taugamót.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

...