Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Mig langar að vita allt um beinhákarlinn, hvar er hann veiddur og fleira?

Jón Már Halldórsson

Beinhákarlinn (Cetorhinus maximus) nýtur talsverðar sérstöðu meðal hákarla. Hann er eini hákarlinn með beinkennda stoðgrind í stað brjóskkenndrar eins og hinar rúmlega 300 tegundirnar hafa. Þess vegna er hann flokkaður einn í ættina Cetorhinidae. Meðallengd fullorðinna beinhákarla er um 6,7-8,8 metrar en þeir stærstu geta náð allt að 12 metra lengd.

Beinhákarlar gjóta ungum en ekki eggjum eða pétursskipum eins og flestir aðrir hákarlar. Lítið er vitað um æxlunarhætti þeirra og got beinhákarls hefur aðeins einu sinni verið staðfest. Þá gaut kvendýr fimm lifandi ungum og einum andvana.



Beinhákarlar synda oft við yfirborðið þar sem mesta fæðu er að fá.

Það er viðtekin skoðun sjávarlíffræðinga að afkvæmin nærist á ófrjóvguðum eggjum eða jafnvel öðrum fóstrum á meðan þau eru í móðurkviði. Slíkt háttarlag nefnist í líffræði oviphagy. Talið er að meðgöngutími beinhákarla sé afar langur eða allt að þrjú ár. Kvendýrin verða ekki kynþroska fyrr en við 15 ára aldur. Við got eru ungarnir 150-200 cm á lengd. Áður en kvendýrin gjóta hverfa þau ofan í hafdjúpið og þess vegna er þessi þáttur í einkalífi beinhákarlsins enn hulinn vísindamönnum.

Útbreiðsla beinhákarlsins er bundin við tempruð strandsvæði heimsins, sunnan og norðanmegin við miðbaug. Hann heldur sig í efstu lögum sjávar þar sem mest er um dýrasvif. Við strendur Íslands finnst beinhákarl undan suðurströndinni.

Beinhákarlar sýna svonefnda farhneigð. Rannsóknir á staðbundnum stofnum hans við austurströnd Bandaríkjanna sýna að á veturna halda þeir sig undan ströndum Norður-Karólínu en þegar vora tekur fara þeir allt norður til Kanada. Frá nóvember og fram í mars finnast engir beinhákarlar í kanadískri landhelgi. Menn hafa séð hópa allt að 100 dýra synda norður á bóginn snemma á vorin. Við strendur Evrópu hverfa beinhákarlarnir úr íslenskri og breskri landhelgi á veturna og synda suður á bóginn og halda til í Biskaya-flóa og undan ströndum Portúgals.



Beinhákarl við fæðunám.

Beinhákarlinn er einn þriggja stórvaxinna hákarla sem lifir á örsmáu dýrasvifi. Hinar tegundirnar eru hvalháfurinn (Rhiniodon typus) og gingapi (Megachasma pelagios). Ólíkt þessum tegundum reiðir beinhákarlinn sig algjörlega á steymi sjós inn í kjaftinn á sér til að sía úr fæðu en hinar tegundirnar framkalla virkt innflæði með því opna munninn og loka og geta þannig myndað kraftmikinnn straum inn í skoltinn. Beinhákarlinn syndir með risavaxinn skoltinn galopinn og talið er að á hverri klukkustund síi hann allt að 2.000 lítra af sjó. Sjórinn berst í gegnum tálknagrindina þar sem hár sía smádýrin úr sjónum.

Beinhákarlar eru algengastir á strandsvæðum með mikla framleiðni, svo sem við strendur Íslands. Fæða þeirra er eins og áður segir dýrasvif sem heldur sig í efstu lögum sjávar, til dæmis örsmáar krabbaflær, lirfur fiska og hryggleysingja og hrogn. Lifrin í beinhákarlinum getur vegið allt að 25% af heildarlíkamsþyngd dýrsins en það gefur honum mikla flothæfni í vatni. Beinhákarlar halda sig á grunnsævi og oft má sjá bakuggann og trjónuna þar sem hann syndir hægt og letilega um sjóinn.

Beinhákarlinn á sér afar fáa óvini, fyrir utan manninn. Helst eru það leiðigjörn sníkjudýr eins og steinsuga (Petramyzon marinus) sem skapa honum hugarangur og stundum er hægt er að sjá beinhákarla reyna að losa sig við dýrin með því að kasta sér upp úr sjónum eða nudda sér við hafsbotninn.

Beinhákarlinn er í útrýmingarhættu og nýtur víða friðunar. Vísindamenn áætla að árið 1993 hafi heildarstofnstærð beinhákarlsins dregist saman um heil 80% frá 6. áratug 20. aldar enda virðist hann vera afar viðkvæmur fyrir ofveiði líkt og gildir um aðrar stórvaxnar dýrategundir sem verða kynþroska seint. Bandarísk stjórnvöld hafa bannað allar veiðar á honum frá og með árinu 1997 í bandarískri landhelgi. Nú er í smíðum hjá FAO tillaga um stjórnun veiða á nokkrum tegundum hákarla á alheimsvísu og er beinhákarlinn innifalinn í þessari verndaráætlun.

Beinhákarlinn var afar dýrmætur áður fyrr vegna olíunnar sem gríðarstór lifrin gaf af sér og einnig vegna kjötsins og ugganna sem eru rándýr matvara á asískum matvörumarkaði. Hálft kíló af þurrkuðum hákarlaugga selst fyrir 350 bandaríkjadali.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

24.9.2003

Spyrjandi

Leó Ólafsson, f. 1990

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Mig langar að vita allt um beinhákarlinn, hvar er hann veiddur og fleira?“ Vísindavefurinn, 24. september 2003. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3755.

Jón Már Halldórsson. (2003, 24. september). Mig langar að vita allt um beinhákarlinn, hvar er hann veiddur og fleira? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3755

Jón Már Halldórsson. „Mig langar að vita allt um beinhákarlinn, hvar er hann veiddur og fleira?“ Vísindavefurinn. 24. sep. 2003. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3755>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Mig langar að vita allt um beinhákarlinn, hvar er hann veiddur og fleira?
Beinhákarlinn (Cetorhinus maximus) nýtur talsverðar sérstöðu meðal hákarla. Hann er eini hákarlinn með beinkennda stoðgrind í stað brjóskkenndrar eins og hinar rúmlega 300 tegundirnar hafa. Þess vegna er hann flokkaður einn í ættina Cetorhinidae. Meðallengd fullorðinna beinhákarla er um 6,7-8,8 metrar en þeir stærstu geta náð allt að 12 metra lengd.

Beinhákarlar gjóta ungum en ekki eggjum eða pétursskipum eins og flestir aðrir hákarlar. Lítið er vitað um æxlunarhætti þeirra og got beinhákarls hefur aðeins einu sinni verið staðfest. Þá gaut kvendýr fimm lifandi ungum og einum andvana.



Beinhákarlar synda oft við yfirborðið þar sem mesta fæðu er að fá.

Það er viðtekin skoðun sjávarlíffræðinga að afkvæmin nærist á ófrjóvguðum eggjum eða jafnvel öðrum fóstrum á meðan þau eru í móðurkviði. Slíkt háttarlag nefnist í líffræði oviphagy. Talið er að meðgöngutími beinhákarla sé afar langur eða allt að þrjú ár. Kvendýrin verða ekki kynþroska fyrr en við 15 ára aldur. Við got eru ungarnir 150-200 cm á lengd. Áður en kvendýrin gjóta hverfa þau ofan í hafdjúpið og þess vegna er þessi þáttur í einkalífi beinhákarlsins enn hulinn vísindamönnum.

Útbreiðsla beinhákarlsins er bundin við tempruð strandsvæði heimsins, sunnan og norðanmegin við miðbaug. Hann heldur sig í efstu lögum sjávar þar sem mest er um dýrasvif. Við strendur Íslands finnst beinhákarl undan suðurströndinni.

Beinhákarlar sýna svonefnda farhneigð. Rannsóknir á staðbundnum stofnum hans við austurströnd Bandaríkjanna sýna að á veturna halda þeir sig undan ströndum Norður-Karólínu en þegar vora tekur fara þeir allt norður til Kanada. Frá nóvember og fram í mars finnast engir beinhákarlar í kanadískri landhelgi. Menn hafa séð hópa allt að 100 dýra synda norður á bóginn snemma á vorin. Við strendur Evrópu hverfa beinhákarlarnir úr íslenskri og breskri landhelgi á veturna og synda suður á bóginn og halda til í Biskaya-flóa og undan ströndum Portúgals.



Beinhákarl við fæðunám.

Beinhákarlinn er einn þriggja stórvaxinna hákarla sem lifir á örsmáu dýrasvifi. Hinar tegundirnar eru hvalháfurinn (Rhiniodon typus) og gingapi (Megachasma pelagios). Ólíkt þessum tegundum reiðir beinhákarlinn sig algjörlega á steymi sjós inn í kjaftinn á sér til að sía úr fæðu en hinar tegundirnar framkalla virkt innflæði með því opna munninn og loka og geta þannig myndað kraftmikinnn straum inn í skoltinn. Beinhákarlinn syndir með risavaxinn skoltinn galopinn og talið er að á hverri klukkustund síi hann allt að 2.000 lítra af sjó. Sjórinn berst í gegnum tálknagrindina þar sem hár sía smádýrin úr sjónum.

Beinhákarlar eru algengastir á strandsvæðum með mikla framleiðni, svo sem við strendur Íslands. Fæða þeirra er eins og áður segir dýrasvif sem heldur sig í efstu lögum sjávar, til dæmis örsmáar krabbaflær, lirfur fiska og hryggleysingja og hrogn. Lifrin í beinhákarlinum getur vegið allt að 25% af heildarlíkamsþyngd dýrsins en það gefur honum mikla flothæfni í vatni. Beinhákarlar halda sig á grunnsævi og oft má sjá bakuggann og trjónuna þar sem hann syndir hægt og letilega um sjóinn.

Beinhákarlinn á sér afar fáa óvini, fyrir utan manninn. Helst eru það leiðigjörn sníkjudýr eins og steinsuga (Petramyzon marinus) sem skapa honum hugarangur og stundum er hægt er að sjá beinhákarla reyna að losa sig við dýrin með því að kasta sér upp úr sjónum eða nudda sér við hafsbotninn.

Beinhákarlinn er í útrýmingarhættu og nýtur víða friðunar. Vísindamenn áætla að árið 1993 hafi heildarstofnstærð beinhákarlsins dregist saman um heil 80% frá 6. áratug 20. aldar enda virðist hann vera afar viðkvæmur fyrir ofveiði líkt og gildir um aðrar stórvaxnar dýrategundir sem verða kynþroska seint. Bandarísk stjórnvöld hafa bannað allar veiðar á honum frá og með árinu 1997 í bandarískri landhelgi. Nú er í smíðum hjá FAO tillaga um stjórnun veiða á nokkrum tegundum hákarla á alheimsvísu og er beinhákarlinn innifalinn í þessari verndaráætlun.

Beinhákarlinn var afar dýrmætur áður fyrr vegna olíunnar sem gríðarstór lifrin gaf af sér og einnig vegna kjötsins og ugganna sem eru rándýr matvara á asískum matvörumarkaði. Hálft kíló af þurrkuðum hákarlaugga selst fyrir 350 bandaríkjadali.

Heimildir og myndir:

...