Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver er munurinn á bandaríska Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum?

Silja Bára Ómarsdóttir

Í Bandaríkjunum er svokallað tveggja flokka kerfi ráðandi. Það þýðir þó ekki að einungis tveir stjórnmálaflokkar starfi í Bandaríkjunum. Fremur er það svo að stjórnmálakerfið, sem byggir á einmenningskjördæmum, býður upp á það að tveir stærstu flokkarnir verði nær allsráðandi. Þannig sitja langflestir þingmenn í fulltrúadeild bandaríska þingsins í umboði annars hvors stóru flokkanna. Nú (2010) er til skoðunar í sumum ríkjum að breyta forvalsreglum þannig að allir frambjóðendur keppi saman um tilnefningu og þeir tveir sem fá flest atkvæði keppi svo um þingsætið. Þannig gætu tveir fulltrúar repúblikana keppt um sama þingsætið, eða einn óháður og einn demókrati.

Hér er spurt um það hver sé munurinn á flokkunum tveimur sem eru ráðandi í Bandaríkjunum, en það eru Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn. Á Íslandi er algengt að tengja flokkana við íslenska stjórnmálaflokka. Það er nokkrum annmörkum háð þar sem hið pólitíska landslag í Bandaríkjunum er töluvert lengra til hægri en tíðkast á meginlandi Evrópu og á Íslandi. Þó er óhætt að segja að Repúblikanaflokkurinn sé lengra til hægri og Demókrataflokkurinn lengra til vinstri. Hitt er óvíst, hvort Demókrataflokkurinn næði að vera vinstra megin við miðju ef hann flyttist óbreyttur til Íslands.

Hér verður farið stuttlega yfir sögu flokkanna tveggja og dregin fram þau atriði sem helst skilja flokkana að. Rétt er að taka fram að þótt hér sé talað um afstöðu flokkanna má alltaf finna einstaklinga innan þeirra sem hafa ólíka afstöðu.

Demókrataflokkurinn byggir á grunni flokks sem Thomas Jefferson (1743-1826) og Alexander Hamilton (1755/57-1804) stofnuðu árið 1792 og hét upphaflega Democratic Republican Party. Flokkurinn hafði það að markmiði að minnka bilið milli ríkra og fátækra. Hann lagðist gegn stofnsetningu seðlabanka og vildi styrkja réttindi ríkjanna og taldi að þannig yrði velferð best tryggð. Flestir meðlimir flokksins voru bændur, ólíkt helsta andstæðingnum sem var The Federalist Party og byggði á aðild auðjöfra. Demókrataflokkurinn hefur starfað óslitið frá þessum tíma og er því elsti stjórnmálaflokkur Bandaríkjanna.

Um miðja 19. öld var Repúblikanaflokkurinn, gjarnan kallaður „Grand Old Party“ (GOP), stofnaður. Abraham Lincoln (1809-1865) var einn fyrsti leiðtogi flokksins og fyrsti repúblikaninn til að verða forseti. Repúblikanaflokkurinn var settur á fót til að berjast fyrir afnámi þrælahalds, en bændurnir sem réðu lögum og lofum í Demókrataflokknum treystu á vinnuafl þræla til að framfleyta sér. Við þrælastríðið dalaði Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn varð sterkari.

Á 19. öld stóð Repúblikanaflokkurinn fyrir fjölbreytileika og jöfnuð, miklu frekar en Demókrataflokkurinn. Á þessum tíma sóttu Repúblikanar einkum fylgi sitt til ríkjanna í norðausturhluta Bandaríkjanna og til Miðvesturríkjanna, á meðan Demókratar fengu sitt fylgi úr Suðurríkjunum. Þetta hefur breyst nokkuð og sækja nú Demókratar fylgi sitt einkum til þéttbýlli ríkja á ströndunum á meðan Repúblikanar fá sitt fylgi í strjálbýlum ríkjum innanlands.


Hér má sjá skiptingu kjörmanna milli Barack Obama (demókrati) og John McCain (repúblikani) i forsetakosningunum árið 2008.

Einn helsti munurinn á flokkunum í dag er afstaða þeirra til valds alríkisins og ríkjanna. Repúblikanar vilja draga úr völdum alríkisstjórnarinnar (þings, ríkisstjórnar og forseta) og telja að ríkin eigi að bera ábyrgð á fleiri málaflokkum. Demókratar telja hins vegar að alríkisstjórnin eigi að fara með meiri völd.

Þá vilja Repúblikanar afnám reglna á markaði og telja að frjálst viðskiptalíf sé öllum í hag. Þeir vilja ekki setja heildarreglur um lágmarkslaun en vilja lækka skatta á alla, enda auki það hagnað allra. Demókrataflokkurinn vill frekar setja reglur, bæði um starfsemi fyrirtækja og hins opinbera. Hann vill setja reglur um lágmarkslaun og er tilbúinn til að hækka skatta á þá sem þéna mest, enda sé það hlutverk hins opinbera að tryggja ákveðinn jöfnuð í samfélaginu. Gott dæmi um ólíka stefnu þessara flokka og framkvæmd hennar er afstaða þeirra til opinbers sjúkratryggingakerfis.

Þessi tilhneiging til þess að draga úr reglusetningu snýst hins vegar við þegar litið er til einstaklingsins. Þannig eru Repúblikanar líklegri til að vilja takmarka rétt kvenna til fóstureyðinga, rétt samkynhneigðra til að gifta sig og takmarka til dæmis stofnfrumurannsóknir. Demókratar vilja almennt gera getnaðarvarnir og fóstureyðingar aðgengilegar og eru fleiri í hópi þeirra sem styðja bæði stofnfrumurannsóknir og réttindi samkynhneigðra til að ganga í hjónaband. Þó verður að taka fram að afstaða til þessara mála byggist oft á bæði trúarlegum bakgrunni og búsetu frambjóðanda og kjósendahóps hans.

Nokkur munur kemur fram á flokkunum hvað varðar utanríkisstefnu. Repúblikanar eru líklegri til að aðhyllast utanríkisstefnu sem byggir á styrk Bandaríkjanna og vilja að ákvarðanir séu teknar á grundvelli hagsmuna ríkisins eins. Demókratar hafa verið hlynntari þátttöku í alþjóðastofnunum og bandalögum. Þeir kjósa að taka þátt í verkefnum á grundvelli alþjóðlegs samkomulags um hvernig líklegast sé að ná árangri.

Nokkur hugmyndafræðilegur munur er á þessum tveimur stærstu stjórnmálaflokkum í Bandaríkjunum. Þar í landi er vísað til Repúblikanaflokksins sem íhaldsflokks, það er flokks sem vill varðveita hefðbundnar stofnanir samfélagsins, en Demókrataflokksins sem frjálslynds, það er flokks sem byggir á réttindum einstaklinga og samfélagslegu réttlæti. Kosningakerfið gerir það að verkum að flokkarnir leita gjarnan inn á miðjuna og þannig verður munurinn í framkvæmd ekki svo mikill. Helsta muninn má þó greina í því hvernig flokkarnir nálgast reglusetningu um fólk og fyrirtæki.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Mynd:

Höfundur

Silja Bára Ómarsdóttir

prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

Útgáfudagur

6.10.2010

Spyrjandi

Sólveig Spilliaert, Dagur Magnússon

Tilvísun

Silja Bára Ómarsdóttir. „Hver er munurinn á bandaríska Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum?“ Vísindavefurinn, 6. október 2010. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=31827.

Silja Bára Ómarsdóttir. (2010, 6. október). Hver er munurinn á bandaríska Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=31827

Silja Bára Ómarsdóttir. „Hver er munurinn á bandaríska Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum?“ Vísindavefurinn. 6. okt. 2010. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=31827>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á bandaríska Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum?
Í Bandaríkjunum er svokallað tveggja flokka kerfi ráðandi. Það þýðir þó ekki að einungis tveir stjórnmálaflokkar starfi í Bandaríkjunum. Fremur er það svo að stjórnmálakerfið, sem byggir á einmenningskjördæmum, býður upp á það að tveir stærstu flokkarnir verði nær allsráðandi. Þannig sitja langflestir þingmenn í fulltrúadeild bandaríska þingsins í umboði annars hvors stóru flokkanna. Nú (2010) er til skoðunar í sumum ríkjum að breyta forvalsreglum þannig að allir frambjóðendur keppi saman um tilnefningu og þeir tveir sem fá flest atkvæði keppi svo um þingsætið. Þannig gætu tveir fulltrúar repúblikana keppt um sama þingsætið, eða einn óháður og einn demókrati.

Hér er spurt um það hver sé munurinn á flokkunum tveimur sem eru ráðandi í Bandaríkjunum, en það eru Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn. Á Íslandi er algengt að tengja flokkana við íslenska stjórnmálaflokka. Það er nokkrum annmörkum háð þar sem hið pólitíska landslag í Bandaríkjunum er töluvert lengra til hægri en tíðkast á meginlandi Evrópu og á Íslandi. Þó er óhætt að segja að Repúblikanaflokkurinn sé lengra til hægri og Demókrataflokkurinn lengra til vinstri. Hitt er óvíst, hvort Demókrataflokkurinn næði að vera vinstra megin við miðju ef hann flyttist óbreyttur til Íslands.

Hér verður farið stuttlega yfir sögu flokkanna tveggja og dregin fram þau atriði sem helst skilja flokkana að. Rétt er að taka fram að þótt hér sé talað um afstöðu flokkanna má alltaf finna einstaklinga innan þeirra sem hafa ólíka afstöðu.

Demókrataflokkurinn byggir á grunni flokks sem Thomas Jefferson (1743-1826) og Alexander Hamilton (1755/57-1804) stofnuðu árið 1792 og hét upphaflega Democratic Republican Party. Flokkurinn hafði það að markmiði að minnka bilið milli ríkra og fátækra. Hann lagðist gegn stofnsetningu seðlabanka og vildi styrkja réttindi ríkjanna og taldi að þannig yrði velferð best tryggð. Flestir meðlimir flokksins voru bændur, ólíkt helsta andstæðingnum sem var The Federalist Party og byggði á aðild auðjöfra. Demókrataflokkurinn hefur starfað óslitið frá þessum tíma og er því elsti stjórnmálaflokkur Bandaríkjanna.

Um miðja 19. öld var Repúblikanaflokkurinn, gjarnan kallaður „Grand Old Party“ (GOP), stofnaður. Abraham Lincoln (1809-1865) var einn fyrsti leiðtogi flokksins og fyrsti repúblikaninn til að verða forseti. Repúblikanaflokkurinn var settur á fót til að berjast fyrir afnámi þrælahalds, en bændurnir sem réðu lögum og lofum í Demókrataflokknum treystu á vinnuafl þræla til að framfleyta sér. Við þrælastríðið dalaði Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn varð sterkari.

Á 19. öld stóð Repúblikanaflokkurinn fyrir fjölbreytileika og jöfnuð, miklu frekar en Demókrataflokkurinn. Á þessum tíma sóttu Repúblikanar einkum fylgi sitt til ríkjanna í norðausturhluta Bandaríkjanna og til Miðvesturríkjanna, á meðan Demókratar fengu sitt fylgi úr Suðurríkjunum. Þetta hefur breyst nokkuð og sækja nú Demókratar fylgi sitt einkum til þéttbýlli ríkja á ströndunum á meðan Repúblikanar fá sitt fylgi í strjálbýlum ríkjum innanlands.


Hér má sjá skiptingu kjörmanna milli Barack Obama (demókrati) og John McCain (repúblikani) i forsetakosningunum árið 2008.

Einn helsti munurinn á flokkunum í dag er afstaða þeirra til valds alríkisins og ríkjanna. Repúblikanar vilja draga úr völdum alríkisstjórnarinnar (þings, ríkisstjórnar og forseta) og telja að ríkin eigi að bera ábyrgð á fleiri málaflokkum. Demókratar telja hins vegar að alríkisstjórnin eigi að fara með meiri völd.

Þá vilja Repúblikanar afnám reglna á markaði og telja að frjálst viðskiptalíf sé öllum í hag. Þeir vilja ekki setja heildarreglur um lágmarkslaun en vilja lækka skatta á alla, enda auki það hagnað allra. Demókrataflokkurinn vill frekar setja reglur, bæði um starfsemi fyrirtækja og hins opinbera. Hann vill setja reglur um lágmarkslaun og er tilbúinn til að hækka skatta á þá sem þéna mest, enda sé það hlutverk hins opinbera að tryggja ákveðinn jöfnuð í samfélaginu. Gott dæmi um ólíka stefnu þessara flokka og framkvæmd hennar er afstaða þeirra til opinbers sjúkratryggingakerfis.

Þessi tilhneiging til þess að draga úr reglusetningu snýst hins vegar við þegar litið er til einstaklingsins. Þannig eru Repúblikanar líklegri til að vilja takmarka rétt kvenna til fóstureyðinga, rétt samkynhneigðra til að gifta sig og takmarka til dæmis stofnfrumurannsóknir. Demókratar vilja almennt gera getnaðarvarnir og fóstureyðingar aðgengilegar og eru fleiri í hópi þeirra sem styðja bæði stofnfrumurannsóknir og réttindi samkynhneigðra til að ganga í hjónaband. Þó verður að taka fram að afstaða til þessara mála byggist oft á bæði trúarlegum bakgrunni og búsetu frambjóðanda og kjósendahóps hans.

Nokkur munur kemur fram á flokkunum hvað varðar utanríkisstefnu. Repúblikanar eru líklegri til að aðhyllast utanríkisstefnu sem byggir á styrk Bandaríkjanna og vilja að ákvarðanir séu teknar á grundvelli hagsmuna ríkisins eins. Demókratar hafa verið hlynntari þátttöku í alþjóðastofnunum og bandalögum. Þeir kjósa að taka þátt í verkefnum á grundvelli alþjóðlegs samkomulags um hvernig líklegast sé að ná árangri.

Nokkur hugmyndafræðilegur munur er á þessum tveimur stærstu stjórnmálaflokkum í Bandaríkjunum. Þar í landi er vísað til Repúblikanaflokksins sem íhaldsflokks, það er flokks sem vill varðveita hefðbundnar stofnanir samfélagsins, en Demókrataflokksins sem frjálslynds, það er flokks sem byggir á réttindum einstaklinga og samfélagslegu réttlæti. Kosningakerfið gerir það að verkum að flokkarnir leita gjarnan inn á miðjuna og þannig verður munurinn í framkvæmd ekki svo mikill. Helsta muninn má þó greina í því hvernig flokkarnir nálgast reglusetningu um fólk og fyrirtæki.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Mynd:...