Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hver skrifaði Gamla sáttmála og hvað fólst í honum?

Vignir Már Lýðsson, Helga Lára Guðmundsdóttir og Hreiðar Þór Heiðberg

Gamli sáttmáli var samningur milli Íslendinga og Noregskonungs sem fyrst var skrifað undir í Lögréttu á Alþingi árið 1262. Í honum fólst í meginatriðum að Íslendingar gerðust þegnar Noregskonungs og greiddu honum skatt. Landið var þó ekki innlimað í veldi konungs heldur gert að skattlandi líkt og Rómverjar gerðu oft fyrr á öldum. Íbúafjöldi Íslands var á þeim tíma á við stóran hluta Noregs og því eftir miklu að slægjast fyrir konung. Íslendingar öðluðust einnig réttindi með sáttmálanum, meðal annars voru hinir svokölluðu landaurar felldir niður en það var ákveðið hafnargjald sem greitt var við komu til Noregs.


Hákon gamli Hákonarson konungur Noregs 1216-1263 og sonur hans Magnús lagabætir sem tók við af honum árið 1263. Magnús var því fyrsti konungur yfir öllu Íslandi en allt landið komst undir hann árið 1264.

Ástæða þess að gerður var slíkur sáttmáli var að á Íslandi hafði geisað mikill ófriður. Höfðingjadeilur á Sturlungaöld (1220-1262) höfðu leikið menn grátt en ekkert framkvæmdavald var til staðar til að framfylgja lögum. Landið skiptist í sífellt stærri einingar sem mismunandi höfðingjaættir stjórnuðu og var markmið allra að ná sem mestum yfirráðum. Fjöldi hirðmanna Noregskonungs var einnig í landinu og einnig sátu norskir biskupar á Hólum og í Skálholti frá 1238. Norska ríkið átti þess vegna allnokkur ítök hér á landi. Íslendingar þráðu frið og réttaröryggi. Konungi líkaði illa sá ófriður sem hér geisaði og skipaði Gissur Þorvaldsson jarl yfir Íslandi árið 1258 með það að markmiði að koma landinu undir Noreg.

Gamli sáttmáli er oft nefndur Gissurarsáttmáli vegna aðkomu Gissurar Þorvaldssonar að honum. Verkefni hans gekk hægt í fyrstu en Hákon gamli Hákonarson Noregskonungur sendi erindreka hingað árið 1262. Sá hét Hallvarður gullskór og átti að reka á eftir Gissuri. Þeirri Íslandsför lyktaði með því að samþykktur var samningur í Lögréttu sem nefndur var máldagabréf en það var ekki fyrr en á 15. öld að hann fékk heitið Gamli sáttmáli. Einungis tólf menn samþykktu samninginn og voru þeir allir fylgismenn Gissurar úr Norðlendinga- og Sunnlendingafjórðungum. Auk þess samþykkti fulltrúi Sunnlendinga milli Þjórsár og Borgarfjarðar máldagann. Þar með var um helmingur landsins kominn undir Noregskonung.

Á vorþingi á Þverárþingi samþykktu svo Borgfirðingar og Vestfirðingar samninginn ásamt Sunnlendingum austan Þjórsár sem flestir voru Oddaverjar. Nú voru aðeins Austfirðingar eftir en flestir voru þeir af ætt Svínfellinga. Þeir gengu að samningum ári síðar eða árið 1264 og þar með voru Íslendingar allir gengnir Noregskonungi á hönd. Veigamiklar breytingar voru gerðar á stjórnskipun landsins og goðaveldið sem ríkt hafði frá landnámi var fellt niður. Í staðinn komu til sögunnar embættismenn Noregskonungs, meðal annars hirðstjóri, merkismaður og sýslumenn. Lög voru tekin til endurskoðunar og Grágás sem hafði frá fornu fari verið lögbók Íslendinga vék fyrir Járnsíðu árið 1271. Hún vék svo aftur fyrir Jónsbók árið 1281.

Þótt Íslendingar hafi smátt og smátt glatað sjálfstæði sínu í kjölfar Gamla sáttmála þá voru þeim tryggð ákveðin réttindi. Meðal annars var Íslendingum tryggður friður ásamt því að skipaferðir frá Noregi til landsins voru festar í lög. Landaurar voru afnumdir eins og áður var sagt og erfðaskuldir íslenskra manna upp gefnar í Noregi.

Með Kópavogsfundinum 1662 féll Gamli sáttmáli úr gildi. Hins vegar komst hann aftur í umræðuna árið 1838 þegar Danakonungur afsalaði sér einveldi sínu. Jón Sigurðsson var þá að berjast fyrir sjálfstæði Íslendinga og taldi Gamla sáttmála þar með vera kominn aftur í gildi og beitti honum óspart í baráttunni.

Nýlega hefur verið sett fram sú kenning að Gamli sáttmáli sé tilbúningur frá 15. öld. Patricia Pires Boulhosa segir í doktorsritgerð sinni, sem gefin var út á bók árið 2005, að samantekt Gamla sáttmála hafi verið einn þáttur í baráttu íslenskra höfðingja við Noregskonung vegna ágreinings um verslun á 15. öld. Bók Boulhosa kom út á íslensku árið 2006 í þýðingu Más Jónssonar og nefnist Gamli sáttmáli: Tilurð og tilgangur.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Einar Laxness, Íslandssaga a-h, Vaka-Helgafell, Reykjavík 1995.
  • Sögufélag.
Myndir:


Þetta svar er eftir Vigni Má Lýðsson nemanda við Menntaskólann í Reykjavík en byggt á drögum að svari eftir Helgu Láru Guðmundsdóttur og Hreiðar Þór Heiðberg nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2008.

Höfundar

nemandi í Háskóla unga fólksins

nemandi í Háskóla unga fólksins

Útgáfudagur

13.6.2008

Spyrjandi

Karen Einarsdóttir

Tilvísun

Vignir Már Lýðsson, Helga Lára Guðmundsdóttir og Hreiðar Þór Heiðberg. „Hver skrifaði Gamla sáttmála og hvað fólst í honum?“ Vísindavefurinn, 13. júní 2008. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=18233.

Vignir Már Lýðsson, Helga Lára Guðmundsdóttir og Hreiðar Þór Heiðberg. (2008, 13. júní). Hver skrifaði Gamla sáttmála og hvað fólst í honum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=18233

Vignir Már Lýðsson, Helga Lára Guðmundsdóttir og Hreiðar Þór Heiðberg. „Hver skrifaði Gamla sáttmála og hvað fólst í honum?“ Vísindavefurinn. 13. jún. 2008. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=18233>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver skrifaði Gamla sáttmála og hvað fólst í honum?
Gamli sáttmáli var samningur milli Íslendinga og Noregskonungs sem fyrst var skrifað undir í Lögréttu á Alþingi árið 1262. Í honum fólst í meginatriðum að Íslendingar gerðust þegnar Noregskonungs og greiddu honum skatt. Landið var þó ekki innlimað í veldi konungs heldur gert að skattlandi líkt og Rómverjar gerðu oft fyrr á öldum. Íbúafjöldi Íslands var á þeim tíma á við stóran hluta Noregs og því eftir miklu að slægjast fyrir konung. Íslendingar öðluðust einnig réttindi með sáttmálanum, meðal annars voru hinir svokölluðu landaurar felldir niður en það var ákveðið hafnargjald sem greitt var við komu til Noregs.


Hákon gamli Hákonarson konungur Noregs 1216-1263 og sonur hans Magnús lagabætir sem tók við af honum árið 1263. Magnús var því fyrsti konungur yfir öllu Íslandi en allt landið komst undir hann árið 1264.

Ástæða þess að gerður var slíkur sáttmáli var að á Íslandi hafði geisað mikill ófriður. Höfðingjadeilur á Sturlungaöld (1220-1262) höfðu leikið menn grátt en ekkert framkvæmdavald var til staðar til að framfylgja lögum. Landið skiptist í sífellt stærri einingar sem mismunandi höfðingjaættir stjórnuðu og var markmið allra að ná sem mestum yfirráðum. Fjöldi hirðmanna Noregskonungs var einnig í landinu og einnig sátu norskir biskupar á Hólum og í Skálholti frá 1238. Norska ríkið átti þess vegna allnokkur ítök hér á landi. Íslendingar þráðu frið og réttaröryggi. Konungi líkaði illa sá ófriður sem hér geisaði og skipaði Gissur Þorvaldsson jarl yfir Íslandi árið 1258 með það að markmiði að koma landinu undir Noreg.

Gamli sáttmáli er oft nefndur Gissurarsáttmáli vegna aðkomu Gissurar Þorvaldssonar að honum. Verkefni hans gekk hægt í fyrstu en Hákon gamli Hákonarson Noregskonungur sendi erindreka hingað árið 1262. Sá hét Hallvarður gullskór og átti að reka á eftir Gissuri. Þeirri Íslandsför lyktaði með því að samþykktur var samningur í Lögréttu sem nefndur var máldagabréf en það var ekki fyrr en á 15. öld að hann fékk heitið Gamli sáttmáli. Einungis tólf menn samþykktu samninginn og voru þeir allir fylgismenn Gissurar úr Norðlendinga- og Sunnlendingafjórðungum. Auk þess samþykkti fulltrúi Sunnlendinga milli Þjórsár og Borgarfjarðar máldagann. Þar með var um helmingur landsins kominn undir Noregskonung.

Á vorþingi á Þverárþingi samþykktu svo Borgfirðingar og Vestfirðingar samninginn ásamt Sunnlendingum austan Þjórsár sem flestir voru Oddaverjar. Nú voru aðeins Austfirðingar eftir en flestir voru þeir af ætt Svínfellinga. Þeir gengu að samningum ári síðar eða árið 1264 og þar með voru Íslendingar allir gengnir Noregskonungi á hönd. Veigamiklar breytingar voru gerðar á stjórnskipun landsins og goðaveldið sem ríkt hafði frá landnámi var fellt niður. Í staðinn komu til sögunnar embættismenn Noregskonungs, meðal annars hirðstjóri, merkismaður og sýslumenn. Lög voru tekin til endurskoðunar og Grágás sem hafði frá fornu fari verið lögbók Íslendinga vék fyrir Járnsíðu árið 1271. Hún vék svo aftur fyrir Jónsbók árið 1281.

Þótt Íslendingar hafi smátt og smátt glatað sjálfstæði sínu í kjölfar Gamla sáttmála þá voru þeim tryggð ákveðin réttindi. Meðal annars var Íslendingum tryggður friður ásamt því að skipaferðir frá Noregi til landsins voru festar í lög. Landaurar voru afnumdir eins og áður var sagt og erfðaskuldir íslenskra manna upp gefnar í Noregi.

Með Kópavogsfundinum 1662 féll Gamli sáttmáli úr gildi. Hins vegar komst hann aftur í umræðuna árið 1838 þegar Danakonungur afsalaði sér einveldi sínu. Jón Sigurðsson var þá að berjast fyrir sjálfstæði Íslendinga og taldi Gamla sáttmála þar með vera kominn aftur í gildi og beitti honum óspart í baráttunni.

Nýlega hefur verið sett fram sú kenning að Gamli sáttmáli sé tilbúningur frá 15. öld. Patricia Pires Boulhosa segir í doktorsritgerð sinni, sem gefin var út á bók árið 2005, að samantekt Gamla sáttmála hafi verið einn þáttur í baráttu íslenskra höfðingja við Noregskonung vegna ágreinings um verslun á 15. öld. Bók Boulhosa kom út á íslensku árið 2006 í þýðingu Más Jónssonar og nefnist Gamli sáttmáli: Tilurð og tilgangur.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Einar Laxness, Íslandssaga a-h, Vaka-Helgafell, Reykjavík 1995.
  • Sögufélag.
Myndir:


Þetta svar er eftir Vigni Má Lýðsson nemanda við Menntaskólann í Reykjavík en byggt á drögum að svari eftir Helgu Láru Guðmundsdóttur og Hreiðar Þór Heiðberg nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2008. ...