Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvað er séríslenskt?

Árni Björnsson

Þetta er snúin spurning. Þó má draga fram nokkur atriði sem gætu réttlætt þessa einkunn:

  • Eitthvað hefur orðið til á Íslandi og hvergi annars staðar.
  • Eitthvað hefur flust til Íslands og varðveist þar en horfið annars staðar.
  • Eitthvert fjölþjóðlegt fyrirbæri hefur fengið sérstætt snið á Íslandi.

Áður en fjölþjóðleg viðskipti með framleiðsluvörur komu til sögunnar, einkum á 19. og 20. öld, urðu menn í hverju landi að laga tól sín og tæki, matvæli og húsakost að því sem umhverfið krafðist og bauð. Þannig urðu til sértækir brúkshlutir á hverjum stað. Náttúran mótaði einnig frumstæðar trúarhugmyndir fólks áður en fjölþjóðleg trúarbrögð héldu innreið sína, oft með valdboði. Líku gilti um tónsköpun, myndlist og skáldskap.


Af séríslenskum fyrirbærum má sem dæmi nefna gamla tímatalið sem hafði mótast á sérstæðan hátt áður en kirkjan flutti rómverska tímatalið hingað til lands. Einhver viðlíka tímareikningur virðist hafa þekkst víðar í Evrópu á fyrri þúsöldum en hann lét undan tímatali kirkjunnar og týndist að mestu. Hér lifði gamla tímatalið við hlið hins kirkjulega meðal bænda og sjómanna langt fram á 20. öld. Sumar leifar þess sjást enn og má þar nefna sumardaginn fyrsta og þorrablót. Annað séríslenskt hátíðabrigði sem helgaðist af aðstæðum voru öskupokarnir en þeir þekktust allt fram á síðustu áratugi.

Af séríslenskum brúkshlutum mætti nefna mataraskinn. Hann virðist hafa verið hannaður eftir að miðöldum sleppti vegna þess að ekki var lengur rúm fyrir matborð í hinum þröngu baðstofum þar sem heimilisfólkið sat, vann, borðaði og svaf. Önnur uppfinning var nautajárn. Nautajárn voru eins konar skaflaskeifur sem bundin voru á nautgripi ef leiða þurfti kú undir tarf að vetrarlagi þegar svell var á leiðinni. Þetta var fjárhagsleg nauðsyn þar sem of dýrt þótti að hafa naut á hverjum bæ. Svipuð járn hafa fundist frá dögum Rómverja á Bretlandi en þar virðast þau ekki hafa verið í notkun í tvær þúsaldir.

Spyrja má hvort telja beri stuðlasetningu í kveðskap séríslenska. Hún hefur vissulega verið víðar til og varð um tíma reglubundið brageinkenni í germönskum kveðskap. Stuðlasetning hvarf úr þýskum kvæðum um árið 900 en brá fyrir í norskum og enskum kvæðum fram á 14. öld. Eftir það hefur hún einungis haldist við sem reglulegt brageinkenni í íslensku.

Íslendingasögur eru frumlegasta framlag Íslendinga til heimsbókmennta og má ekki blanda þeim saman við konungasögur eða heilagra manna sögur sem víðar eru til. Hvað sem formlegri snilli líður er efnisleg sérstaða þeirra einkum fólgin í því að söguhetjurnar eru óbreyttir bændur ekki síður en höfðingjar.

Þetta eru aðeins fáein dæmi af því sem kalla mætti séríslenskt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum og myndir

Höfundur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Útgáfudagur

13.4.2007

Spyrjandi

Diljá Ámundadóttir

Tilvísun

Árni Björnsson. „Hvað er séríslenskt?“ Vísindavefurinn, 13. apríl 2007. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6590.

Árni Björnsson. (2007, 13. apríl). Hvað er séríslenskt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6590

Árni Björnsson. „Hvað er séríslenskt?“ Vísindavefurinn. 13. apr. 2007. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6590>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er séríslenskt?
Þetta er snúin spurning. Þó má draga fram nokkur atriði sem gætu réttlætt þessa einkunn:

  • Eitthvað hefur orðið til á Íslandi og hvergi annars staðar.
  • Eitthvað hefur flust til Íslands og varðveist þar en horfið annars staðar.
  • Eitthvert fjölþjóðlegt fyrirbæri hefur fengið sérstætt snið á Íslandi.

Áður en fjölþjóðleg viðskipti með framleiðsluvörur komu til sögunnar, einkum á 19. og 20. öld, urðu menn í hverju landi að laga tól sín og tæki, matvæli og húsakost að því sem umhverfið krafðist og bauð. Þannig urðu til sértækir brúkshlutir á hverjum stað. Náttúran mótaði einnig frumstæðar trúarhugmyndir fólks áður en fjölþjóðleg trúarbrögð héldu innreið sína, oft með valdboði. Líku gilti um tónsköpun, myndlist og skáldskap.


Af séríslenskum fyrirbærum má sem dæmi nefna gamla tímatalið sem hafði mótast á sérstæðan hátt áður en kirkjan flutti rómverska tímatalið hingað til lands. Einhver viðlíka tímareikningur virðist hafa þekkst víðar í Evrópu á fyrri þúsöldum en hann lét undan tímatali kirkjunnar og týndist að mestu. Hér lifði gamla tímatalið við hlið hins kirkjulega meðal bænda og sjómanna langt fram á 20. öld. Sumar leifar þess sjást enn og má þar nefna sumardaginn fyrsta og þorrablót. Annað séríslenskt hátíðabrigði sem helgaðist af aðstæðum voru öskupokarnir en þeir þekktust allt fram á síðustu áratugi.

Af séríslenskum brúkshlutum mætti nefna mataraskinn. Hann virðist hafa verið hannaður eftir að miðöldum sleppti vegna þess að ekki var lengur rúm fyrir matborð í hinum þröngu baðstofum þar sem heimilisfólkið sat, vann, borðaði og svaf. Önnur uppfinning var nautajárn. Nautajárn voru eins konar skaflaskeifur sem bundin voru á nautgripi ef leiða þurfti kú undir tarf að vetrarlagi þegar svell var á leiðinni. Þetta var fjárhagsleg nauðsyn þar sem of dýrt þótti að hafa naut á hverjum bæ. Svipuð járn hafa fundist frá dögum Rómverja á Bretlandi en þar virðast þau ekki hafa verið í notkun í tvær þúsaldir.

Spyrja má hvort telja beri stuðlasetningu í kveðskap séríslenska. Hún hefur vissulega verið víðar til og varð um tíma reglubundið brageinkenni í germönskum kveðskap. Stuðlasetning hvarf úr þýskum kvæðum um árið 900 en brá fyrir í norskum og enskum kvæðum fram á 14. öld. Eftir það hefur hún einungis haldist við sem reglulegt brageinkenni í íslensku.

Íslendingasögur eru frumlegasta framlag Íslendinga til heimsbókmennta og má ekki blanda þeim saman við konungasögur eða heilagra manna sögur sem víðar eru til. Hvað sem formlegri snilli líður er efnisleg sérstaða þeirra einkum fólgin í því að söguhetjurnar eru óbreyttir bændur ekki síður en höfðingjar.

Þetta eru aðeins fáein dæmi af því sem kalla mætti séríslenskt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum og myndir

...