Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvenær var söluskattur settur á vöru á Íslandi, hverjir gerðu það og hvers vegna?

Gylfi Magnússon

Söluskattur var innheimtur hérlendis í einni eða annarri mynd frá árinu 1945, að undanskildum árunum 1946 og 1947, allt þar til virðisaukaskattur leysti hann af hólmi árið 1990. Það er því svokölluð Nýsköpunarstjórn, undir forsæti Ólafs Thors, sem var við völd þegar skatturinn var fyrst lagður á. Söluskattur og síðar virðisaukaskattur hafa allt frá upphafi verið mikilvægir tekjustofnar fyrir ríkissjóð. Rökin fyrir álagningu þeirra hafa fyrst og fremst byggt á fjárþörf ríkisins.


Nýsköpunarstjórnin, annað ráðuneyti Ólafs Thors, 1944 - 1947.

Á árunum 1945 til 1960 var söluskatturinn nefndur ýmsum nöfnum svo sem veituskattur, söluskattur, innflutningssöluskattur, framleiðslusjóðsgjald, útflutningssjóðsgjald, farmiðagjald og iðgjaldaskattur. Skattstofnar voru ólíkir eins og nöfnin gefa til kynna. Reyndist þetta kerfi fremur þungt í vöfum og erfitt að hafa eftirlit með því.

Árið 1960 var söluskattskerfinu gjörbreytt og tekinn upp almennur söluskattur. Þá var Ólafur Thors einnig forsætisráðherra en í þetta sinn í svokallaðri Viðreisnarstjórn. Þessi breyting var hluti af víðtækum efnahagsaðgerðum og meðal annars rökstudd með vísun í galla á fyrra fyrirkomulagi sem þá voru orðnir nokkuð augljósir. Almenni söluskatturinn var í fyrstu 3%. Skatthlutfallið hækkaði svo smám saman, í 5,5% árið 1964, 7,5% árið 1965 og síðan í nokkrum áföngum í 22% á áttunda áratugnum. Þá var meðal annars lagt á sérstakt viðlagasjóðsgjald í kjölfar Vestmannaeyjagossins og svokallaður söluskattsauki fundinn upp.

Nokkuð mismunandi var á þessum tíma að hvaða marki matvæli voru söluskattskyld og ýmsar aðrar undanþágur voru einnig frá greiðslu söluskatts. Árið 1988 voru flestar undanþágurnar felldar niður og var ætlunin með því meðal annars að auðvelda fyrirhugaða upptöku virðisaukaskatts. Árið 1988 var ákveðið á Alþingi að leggja á virðisaukaskatt og var hann fyrst innheimtur 1. janúar árið 1990. Virðisaukaskatturinn leysti af hólmi söluskatt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Upphaflegar spurningar voru:

Hvenær var söluskattur settur á vöru á Íslandi? Hver voru rökin fyrir þeirri framkvæmd? Hvaða ríkisstjórn var við völd?

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

8.2.2007

Spyrjandi

Gunnar Þórðarson
Jón Finnbogason

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvenær var söluskattur settur á vöru á Íslandi, hverjir gerðu það og hvers vegna?“ Vísindavefurinn, 8. febrúar 2007. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6492.

Gylfi Magnússon. (2007, 8. febrúar). Hvenær var söluskattur settur á vöru á Íslandi, hverjir gerðu það og hvers vegna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6492

Gylfi Magnússon. „Hvenær var söluskattur settur á vöru á Íslandi, hverjir gerðu það og hvers vegna?“ Vísindavefurinn. 8. feb. 2007. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6492>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær var söluskattur settur á vöru á Íslandi, hverjir gerðu það og hvers vegna?
Söluskattur var innheimtur hérlendis í einni eða annarri mynd frá árinu 1945, að undanskildum árunum 1946 og 1947, allt þar til virðisaukaskattur leysti hann af hólmi árið 1990. Það er því svokölluð Nýsköpunarstjórn, undir forsæti Ólafs Thors, sem var við völd þegar skatturinn var fyrst lagður á. Söluskattur og síðar virðisaukaskattur hafa allt frá upphafi verið mikilvægir tekjustofnar fyrir ríkissjóð. Rökin fyrir álagningu þeirra hafa fyrst og fremst byggt á fjárþörf ríkisins.


Nýsköpunarstjórnin, annað ráðuneyti Ólafs Thors, 1944 - 1947.

Á árunum 1945 til 1960 var söluskatturinn nefndur ýmsum nöfnum svo sem veituskattur, söluskattur, innflutningssöluskattur, framleiðslusjóðsgjald, útflutningssjóðsgjald, farmiðagjald og iðgjaldaskattur. Skattstofnar voru ólíkir eins og nöfnin gefa til kynna. Reyndist þetta kerfi fremur þungt í vöfum og erfitt að hafa eftirlit með því.

Árið 1960 var söluskattskerfinu gjörbreytt og tekinn upp almennur söluskattur. Þá var Ólafur Thors einnig forsætisráðherra en í þetta sinn í svokallaðri Viðreisnarstjórn. Þessi breyting var hluti af víðtækum efnahagsaðgerðum og meðal annars rökstudd með vísun í galla á fyrra fyrirkomulagi sem þá voru orðnir nokkuð augljósir. Almenni söluskatturinn var í fyrstu 3%. Skatthlutfallið hækkaði svo smám saman, í 5,5% árið 1964, 7,5% árið 1965 og síðan í nokkrum áföngum í 22% á áttunda áratugnum. Þá var meðal annars lagt á sérstakt viðlagasjóðsgjald í kjölfar Vestmannaeyjagossins og svokallaður söluskattsauki fundinn upp.

Nokkuð mismunandi var á þessum tíma að hvaða marki matvæli voru söluskattskyld og ýmsar aðrar undanþágur voru einnig frá greiðslu söluskatts. Árið 1988 voru flestar undanþágurnar felldar niður og var ætlunin með því meðal annars að auðvelda fyrirhugaða upptöku virðisaukaskatts. Árið 1988 var ákveðið á Alþingi að leggja á virðisaukaskatt og var hann fyrst innheimtur 1. janúar árið 1990. Virðisaukaskatturinn leysti af hólmi söluskatt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Upphaflegar spurningar voru:

Hvenær var söluskattur settur á vöru á Íslandi? Hver voru rökin fyrir þeirri framkvæmd? Hvaða ríkisstjórn var við völd?
...