Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um tannhvali?

Jón Már Halldórsson

Tannhvalir (Odontoceti) eru annar tveggja undirættbálka núlifandi hvala, en hinn er skíðishvalir (Mysticeti). Til tannhvala teljast tæplega 80 tegundir, en þess ber þó að geta að flokkunarfræðingar eru ekki sammála um nákvæman fjölda tegunda. Tannhvalir eru talsvert útbreiddari en skíðishvalir, en þeir finnast í öllum heimshöfum og í mörgum af helstu stórfljótunum við miðbaug.

Eins og nafnið gefur til kynna eru tennurnar eitt það helsta sem greinir tannhvali frá skíðishvölum. Tennurnar eru þó langt frá því að vera eins í öllum tannhvölum og meðal nokkurra tegunda eru þær reyndar mjög umbreyttar. Hjá sumum tegundum eru tennurnar afar einhæfar, allar af sömu gerð, keilulaga með einfalda rót, en þetta vísar til aðlögunar að mjög einhæfri fæðu. Fjöldi tanna er talsvert breytilegur, til dæmis eru sumar tegundir vatnahöfrunga (Platanistidae) með allt að tvö hundruð tennur, en náhvalir (Monodon monoceros) aðeins með eina tönn sem skagar langt fram úr höfðinu.



Vel tenntur háhyrningur.

Ýmis fleiri áberandi líkamseinkenni skilja að tannhvali og skíðishvali. Tannhvalir eru að jafnaði talsvert minni en skíðishvalir að búrhval (Physeter catodon) undanskildum. Einnig eru tannhvalir aðeins með eitt öndunarop en skíðishvalir hafa hins vegar tvö. Tannhvalir beita einnig bergmálsmiðun við fæðuleit og hefur aðlögun að slíkri skynjun gert það að verkum að hauskúpa þeirra er ósamhverf, en slíkt þekkist ekki á meðal skíðishvala.

Tannhvalir eru nær undantekningalaust hópdýr. Hóparnir geta verið misstórir, allt frá nokkrum dýrum upp í tugi einstaklinga. Stundum sameinast hópar einnig í mjög stóra hópa, jafnvel allt að þúsund dýr eins og þekkist meðal höfrunga. Samskipti á milli einstaklinga hópsins geta verið margbreytileg og flókin og telja vísindamenn samskiptamáta margra tegunda tannhvala vera meðal þess flóknasta sem þekkist í dýraríkinu. Tannhvalir sýna einnig talsverða lærdómsgetu og eru því gjarnan taldir meðal greindari dýra.

Tannhvalir lifa fyrst og fremst á fiski en þó eru til undantekningar frá því. Sem dæmi má nefna að háhyrningar (Orcinus orca) éta önnur sjávarspendýr og svínhvalir veiða djúpsjávarsmokkfiska sér til matar, en smokkfiskar eru ekki fiskar heldur hryggleysingjar. Nánar má lesa um það í svari sama höfundar við spurningunni: Hvernig æxlast smokkfiskar?

Það eru ekki allir sammála um hvernig flokka beri tannhvali í ættir. Hér á eftir er fjallað um einstakar ættir og nokkrar tegundir, en miðað er við að núlifandi tannhvalir skipist í sjö ættir.

Höfrungar (Delphinidae)

Alls eru þekktar rúmlega 30 tegundir höfrunga, sem gerir þá að tegundaríkustu ætt tannhvala. Að háhyrningum (Orchinus orca) undanskildum eru höfrungar tiltölulega litlir af hvölum að vera. Nokkrar tegundir höfrunga finnast hér við land. Hnýðingar (Lagenorhynchus albirostris) eru mest áberandi en auk þess sjást háhyrningar einnig reglulega. Nánar er fjallað um höfrunga í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um höfrunga? og í öðrum svörum sem finna má með því að smella á efnisorðin neðst í þessu svari.

Hvíthveli (Monodontidae)

Aðeins tvær tegundir tilheyra ætt hvíthvela, mjaldur (Delphinapterus leucas) og náhvalur (Monodon monoceros). Þessar tegundir er einkum að finna í Norður-Íshafi. Mjaldurinn finnst þó einnig í aðliggjandi höfum eins og Okhotskhafi og á það til að flækjast upp eftir stórfljótum svo sem Amurfljótinu í Austur-Rússlandi. Nánar er fjallað um náhval í svari sama höfundar við spurningunni: Hver er sérstaða náhvals?



Náhvalurinn er með eina tönn sem skagar fram úr höfðinu.

Hnísur (Phocoenidae)

Hnísur teljast til minnstu núlifandi hvala, en stærstu tegundirnar verða aðeins um 2,5 metrar á lengd. Minnsta tegundin, hin sjaldgæfa Vaquinta (Phocoena sinus) sem lifir við strendur Norður-Ameríku, er aðeins 1,2 -1,5 m á lengd og 30-55 kg að þyngd. Sex tegundir teljast til ættarinnar og er selhnísa eða hnísa (Phocoena phocoena) eina tegundin sem lifir hér við land.

Hnísur halda oftast til í litlum hópum, allt að 10 dýr saman. Þær halda sig venjulega á grunnsævi en geta þó kafað allt niður á 200 metra dýpi. Ólíkt höfrungum er sjaldgæft að hnísur sýni viðlíka loftfimleika og þeir eru þekktir fyrir. Þær eru þó afar hraðsyndar og sem dæmi má nefna að Dalls-hnísan (Phocoenoides dalli), sem lifir í norðanverðu Kyrrahafi, getur náð allt að 55 km hraða á klukkustund þegar hún flýr undan háhyrningum.

Þess má geta að sumir dýrafræðingar telja að hnísur eigi heima í ætt höfrunga, en aðrir vilja flokka þær í sérstaka ætt eins og hér er gert.

Búrhveli (Physeteridae)

Búrhveli er risinn meðal tannhvala en fullorðnir tarfar geta orðið um 20 metra langir. Líkamsvöxturinn er afar sérstæður, höfuðið er einn þriðji af heildarlengdinni og líkaminn allur mjög sterklega byggður. Bægslin eru afar stutt og bakhyrnan er mjög lítil. Kjafturinn er einnig sérstakur, neðri kjálkinn er grannur og með fjölda hvassra tanna en efri kjálkinn er því sem næst tannlaus. Talsvert hefur verið skrifað um búrhval hér á Vísindavefnum og má finna þau svör með því að smella á efnisorðin neðst í þessu svari.

Dvergbúrhveli (Kogiidae)

Tvær tegundir teljast til dvergbúrhvela, litli búrhvalurinn (Kogia breviceps) og dvergbúrhvalurinn (Kogia sima). Báðar tegundirnar lifa í heitum eða heittempruðum sjó umhverfis jörðina. Að vaxtarlagi eru þeir líkir búrhvalnum en þó miklu minni eins og nafnið gefur til kynna. Litli búrhvalurinn er á stærð við höfrung, um 3,5 metrar á lengd og vegur allt að 400 kg. Dvergbúrhvalur er mun minna þekktur, en hann er meðal minnstu hvalategunda, aðeins rúmlega 2,5 metrar á lengd og vegur allt að 250 kg. Dvergbúrhvalurinn getur losað dökkrautt efni þegar hann verður fyrir áreiti sem er sambærilegt við bleklosun kolkrabba. Áður fyrr var hefð fyrir því að telja þessar tegundir innan ættar búrhvela og er það enn gert víða.

Svínshveli eða nefjungar (Ziphidae)

Vitað er um að minnsta kosti 21 tegund svínshvala í 6 ættkvíslum og teljast þeir því vera tegundaríkasta ætt hvala á eftir höfrungum. Svínshvalir eru meðalstórir, á bilinu 3,5 – 13 metrar á lengd og vega á bilinu 1-15 tonn. Helstu útlitseinkenni þeirra eru útvöxtur á trýni, sem minnir óneitanlega á nef, og bratt enni í framhaldi af því.



Andarnefja er algengasti nefjungurinn við Ísland.

Svínshveli eru sennilega sú ætt núlifandi spendýra sem einna minnst er þekkt. Til marks um það fundust nokkrar tegundir svínshvala ekki fyrr en á síðustu 5-20 árum. Svínshvalir eru djúpsjávardýr og halda sig oftast á úhöfunum. Þeir eru taldir geta kafað niður á meira en 1.000 metra dýpi þar sem þeir leita að djúpsjávarsmokkfiskum til að éta. Þeir hafa einstaka köfunarhæfileika og geta verið í kafi í að minnsta kosti hálfa klukkustund. Mælingar hafa þó sýnt að þessi tími getur verið mun lengri eða allt að 80 mínútur.

Innan íslensku fiskveiðilögsögunnar er andarnefjan (Hyperodon ampullatus) mest áberandi svínshvalurinn, en nokkrar aðrar tegundir finnast þó suður af landinu. Má þar nefna gáshnall (Ziphius cavirostris) og norðsnjáldru (Mesoplodon bidens).

Vatnahöfrungar (Platanistidae)

Vatnahöfrungar eru vafalaust frumstæðastir núlifandi hvala. Þeir eru litlir verða stærstir um 3 metrar á lengd. Þeir bera ýmis frumstæð einkenni, til dæmis eru hálsliðirnir ekki samvaxnir líkt og hjá öðrum hvölum. Fimm tegundir teljast til vatnahöfrunga og lifa þær í fljótum í Suður-Ameríku og Asíu.

Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör um hvali sem hægt er að finna með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan eða með því að nota leitarvélina á vefnum.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

21.11.2006

Spyrjandi

Ingibjörg Viktoría Hafsteinsdóttir, f. 1995

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um tannhvali?“ Vísindavefurinn, 21. nóvember 2006. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6395.

Jón Már Halldórsson. (2006, 21. nóvember). Hvað getið þið sagt mér um tannhvali? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6395

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um tannhvali?“ Vísindavefurinn. 21. nóv. 2006. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6395>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um tannhvali?
Tannhvalir (Odontoceti) eru annar tveggja undirættbálka núlifandi hvala, en hinn er skíðishvalir (Mysticeti). Til tannhvala teljast tæplega 80 tegundir, en þess ber þó að geta að flokkunarfræðingar eru ekki sammála um nákvæman fjölda tegunda. Tannhvalir eru talsvert útbreiddari en skíðishvalir, en þeir finnast í öllum heimshöfum og í mörgum af helstu stórfljótunum við miðbaug.

Eins og nafnið gefur til kynna eru tennurnar eitt það helsta sem greinir tannhvali frá skíðishvölum. Tennurnar eru þó langt frá því að vera eins í öllum tannhvölum og meðal nokkurra tegunda eru þær reyndar mjög umbreyttar. Hjá sumum tegundum eru tennurnar afar einhæfar, allar af sömu gerð, keilulaga með einfalda rót, en þetta vísar til aðlögunar að mjög einhæfri fæðu. Fjöldi tanna er talsvert breytilegur, til dæmis eru sumar tegundir vatnahöfrunga (Platanistidae) með allt að tvö hundruð tennur, en náhvalir (Monodon monoceros) aðeins með eina tönn sem skagar langt fram úr höfðinu.



Vel tenntur háhyrningur.

Ýmis fleiri áberandi líkamseinkenni skilja að tannhvali og skíðishvali. Tannhvalir eru að jafnaði talsvert minni en skíðishvalir að búrhval (Physeter catodon) undanskildum. Einnig eru tannhvalir aðeins með eitt öndunarop en skíðishvalir hafa hins vegar tvö. Tannhvalir beita einnig bergmálsmiðun við fæðuleit og hefur aðlögun að slíkri skynjun gert það að verkum að hauskúpa þeirra er ósamhverf, en slíkt þekkist ekki á meðal skíðishvala.

Tannhvalir eru nær undantekningalaust hópdýr. Hóparnir geta verið misstórir, allt frá nokkrum dýrum upp í tugi einstaklinga. Stundum sameinast hópar einnig í mjög stóra hópa, jafnvel allt að þúsund dýr eins og þekkist meðal höfrunga. Samskipti á milli einstaklinga hópsins geta verið margbreytileg og flókin og telja vísindamenn samskiptamáta margra tegunda tannhvala vera meðal þess flóknasta sem þekkist í dýraríkinu. Tannhvalir sýna einnig talsverða lærdómsgetu og eru því gjarnan taldir meðal greindari dýra.

Tannhvalir lifa fyrst og fremst á fiski en þó eru til undantekningar frá því. Sem dæmi má nefna að háhyrningar (Orcinus orca) éta önnur sjávarspendýr og svínhvalir veiða djúpsjávarsmokkfiska sér til matar, en smokkfiskar eru ekki fiskar heldur hryggleysingjar. Nánar má lesa um það í svari sama höfundar við spurningunni: Hvernig æxlast smokkfiskar?

Það eru ekki allir sammála um hvernig flokka beri tannhvali í ættir. Hér á eftir er fjallað um einstakar ættir og nokkrar tegundir, en miðað er við að núlifandi tannhvalir skipist í sjö ættir.

Höfrungar (Delphinidae)

Alls eru þekktar rúmlega 30 tegundir höfrunga, sem gerir þá að tegundaríkustu ætt tannhvala. Að háhyrningum (Orchinus orca) undanskildum eru höfrungar tiltölulega litlir af hvölum að vera. Nokkrar tegundir höfrunga finnast hér við land. Hnýðingar (Lagenorhynchus albirostris) eru mest áberandi en auk þess sjást háhyrningar einnig reglulega. Nánar er fjallað um höfrunga í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um höfrunga? og í öðrum svörum sem finna má með því að smella á efnisorðin neðst í þessu svari.

Hvíthveli (Monodontidae)

Aðeins tvær tegundir tilheyra ætt hvíthvela, mjaldur (Delphinapterus leucas) og náhvalur (Monodon monoceros). Þessar tegundir er einkum að finna í Norður-Íshafi. Mjaldurinn finnst þó einnig í aðliggjandi höfum eins og Okhotskhafi og á það til að flækjast upp eftir stórfljótum svo sem Amurfljótinu í Austur-Rússlandi. Nánar er fjallað um náhval í svari sama höfundar við spurningunni: Hver er sérstaða náhvals?



Náhvalurinn er með eina tönn sem skagar fram úr höfðinu.

Hnísur (Phocoenidae)

Hnísur teljast til minnstu núlifandi hvala, en stærstu tegundirnar verða aðeins um 2,5 metrar á lengd. Minnsta tegundin, hin sjaldgæfa Vaquinta (Phocoena sinus) sem lifir við strendur Norður-Ameríku, er aðeins 1,2 -1,5 m á lengd og 30-55 kg að þyngd. Sex tegundir teljast til ættarinnar og er selhnísa eða hnísa (Phocoena phocoena) eina tegundin sem lifir hér við land.

Hnísur halda oftast til í litlum hópum, allt að 10 dýr saman. Þær halda sig venjulega á grunnsævi en geta þó kafað allt niður á 200 metra dýpi. Ólíkt höfrungum er sjaldgæft að hnísur sýni viðlíka loftfimleika og þeir eru þekktir fyrir. Þær eru þó afar hraðsyndar og sem dæmi má nefna að Dalls-hnísan (Phocoenoides dalli), sem lifir í norðanverðu Kyrrahafi, getur náð allt að 55 km hraða á klukkustund þegar hún flýr undan háhyrningum.

Þess má geta að sumir dýrafræðingar telja að hnísur eigi heima í ætt höfrunga, en aðrir vilja flokka þær í sérstaka ætt eins og hér er gert.

Búrhveli (Physeteridae)

Búrhveli er risinn meðal tannhvala en fullorðnir tarfar geta orðið um 20 metra langir. Líkamsvöxturinn er afar sérstæður, höfuðið er einn þriðji af heildarlengdinni og líkaminn allur mjög sterklega byggður. Bægslin eru afar stutt og bakhyrnan er mjög lítil. Kjafturinn er einnig sérstakur, neðri kjálkinn er grannur og með fjölda hvassra tanna en efri kjálkinn er því sem næst tannlaus. Talsvert hefur verið skrifað um búrhval hér á Vísindavefnum og má finna þau svör með því að smella á efnisorðin neðst í þessu svari.

Dvergbúrhveli (Kogiidae)

Tvær tegundir teljast til dvergbúrhvela, litli búrhvalurinn (Kogia breviceps) og dvergbúrhvalurinn (Kogia sima). Báðar tegundirnar lifa í heitum eða heittempruðum sjó umhverfis jörðina. Að vaxtarlagi eru þeir líkir búrhvalnum en þó miklu minni eins og nafnið gefur til kynna. Litli búrhvalurinn er á stærð við höfrung, um 3,5 metrar á lengd og vegur allt að 400 kg. Dvergbúrhvalur er mun minna þekktur, en hann er meðal minnstu hvalategunda, aðeins rúmlega 2,5 metrar á lengd og vegur allt að 250 kg. Dvergbúrhvalurinn getur losað dökkrautt efni þegar hann verður fyrir áreiti sem er sambærilegt við bleklosun kolkrabba. Áður fyrr var hefð fyrir því að telja þessar tegundir innan ættar búrhvela og er það enn gert víða.

Svínshveli eða nefjungar (Ziphidae)

Vitað er um að minnsta kosti 21 tegund svínshvala í 6 ættkvíslum og teljast þeir því vera tegundaríkasta ætt hvala á eftir höfrungum. Svínshvalir eru meðalstórir, á bilinu 3,5 – 13 metrar á lengd og vega á bilinu 1-15 tonn. Helstu útlitseinkenni þeirra eru útvöxtur á trýni, sem minnir óneitanlega á nef, og bratt enni í framhaldi af því.



Andarnefja er algengasti nefjungurinn við Ísland.

Svínshveli eru sennilega sú ætt núlifandi spendýra sem einna minnst er þekkt. Til marks um það fundust nokkrar tegundir svínshvala ekki fyrr en á síðustu 5-20 árum. Svínshvalir eru djúpsjávardýr og halda sig oftast á úhöfunum. Þeir eru taldir geta kafað niður á meira en 1.000 metra dýpi þar sem þeir leita að djúpsjávarsmokkfiskum til að éta. Þeir hafa einstaka köfunarhæfileika og geta verið í kafi í að minnsta kosti hálfa klukkustund. Mælingar hafa þó sýnt að þessi tími getur verið mun lengri eða allt að 80 mínútur.

Innan íslensku fiskveiðilögsögunnar er andarnefjan (Hyperodon ampullatus) mest áberandi svínshvalurinn, en nokkrar aðrar tegundir finnast þó suður af landinu. Má þar nefna gáshnall (Ziphius cavirostris) og norðsnjáldru (Mesoplodon bidens).

Vatnahöfrungar (Platanistidae)

Vatnahöfrungar eru vafalaust frumstæðastir núlifandi hvala. Þeir eru litlir verða stærstir um 3 metrar á lengd. Þeir bera ýmis frumstæð einkenni, til dæmis eru hálsliðirnir ekki samvaxnir líkt og hjá öðrum hvölum. Fimm tegundir teljast til vatnahöfrunga og lifa þær í fljótum í Suður-Ameríku og Asíu.

Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör um hvali sem hægt er að finna með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan eða með því að nota leitarvélina á vefnum.

Heimildir og myndir:...