Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni?

Jón Már Halldórsson

Í heild hljóðar spurningin svona:
Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni? Hvaða efni eru það sem safnast fyrir í þeim og hvaðan koma þau helst?

Rannsóknir á ísbjörnum eða hvítabjörnum (Ursus maritimus) benda til þess að ófrjósemi meðal þeirra hafi aukist verulega á undanförnum árum. Einnig hafa þær leitt í ljós að ein af hverjum 50 birnum á Svalbarða er vansköpuð sem lýsir sér meðal annars í því að á þeim vex getnaðarlimur, auk þess sem frjósemi þeirra er skert. Líklega má rekja þessa þróun til efna sem koma frá iðnaði sunnar á hnettinum.

Listinn yfir þau efni sem hafa skaðleg áhrif á vistkerfi norðurhjarans telur hundruð efna sem eru notuð í ýmsum greinum iðnaðar, allt frá húsgagnaiðnaði til hátækni- og lyfjaiðnaðar, auk efna sem notuð eru í landbúnaði. Þessi efnasambönd berast norður á bóginn með vindum og hafstraumum þar sem þau safnast síðan fyrir í fæðukeðjunni. Auk þess er talið að sjófuglar eigi talsverðan þátt í dreifingu efnanna.



Ísbjörnum stafar hætta af þrávirkum lífrænum efnum sem upprunin eru frá iðnaði og landbúnaði sunnar á hnettinum en berast á norðurslóðir.

Meðal þeirra efna sem eru skaðleg hvítabjörnum og öðrum lífverum á norðlægum slóðum er svokallað PBDE (e. polybrominated diphenyl ether) sem hefur mikið verið notað í iðnaði vegna eldvarnareiginleika (e. flame retardant) sinna. Þetta efni finnst í sívaxandi styrk eftir því sem ofar dregur í fæðukeðju norðurhjarans. Til að mynda er að jafnaði rúmlega 70 sinnum meira af PBDE í hvítabjörnum en selum, sem eru meginuppistaðan í fæðu hvítabjarna (sjá svar sama höfundar við spurningunni: Er það satt að ísbirnir éti stundum dýr sem eru þrisvar sinnum stærri en þeir sjálfir?). Slíkur vöxtur efna upp eftir fæðukeðjunni nefnist líffræðileg mögnun.

Efnin safnast saman í fituvef dýra þaðan sem þau berast með blóðrásinni til líffæra og valda truflun á starfsemi þeirra. Þau geta raskað starfsemi kynkirtla og skjaldkirtils, valdið skaða á verkan nýrna, lifrar og taugakerfis og veikt ónæmiskerfið þannig að mótstaða gegn algengum veirum dvín. Þessi efni berast ekki einungis í hvítabirni með bráð þeirra heldur einnig frá móður til afkvæmis með fituríkri móðurmjólkinni. Þannig fá húnarnir strax á unga aldri í sig mikið magn eiturefna. Afleiðingin er sú að styrkur mengunarefna í húnum í dag er að öllum líkindum mun meiri en hann var fyrir áratug síðan.

Mörg önnur efni hafa svipuð áhrif og PBDE á dýr efst í fæðukeðjunni, þar með talið hvítabirni, menn og háhyrninga. Sennilega er efnið PCB einna þekktast þeirra en það veldur truflun á innkirtlastarfsemi dýra og ekki þarf mjög mikið magn til þess að hormónaframleiðsla truflist. Hægt er að lesa meira um PCB og önnur þrávirk efni í svari sama höfundar við spurningunni: Hvað eru þrávirk lífræn efni og hvernig berast þau í dýr?

Rannsóknir benda til þess að ástand hvítabjarna sé misslæmt eftir svæðum. Verst er ástandið á austurhluta Grænlands, vesturhluta Rússlands og Svalbarða en mun skárra í Norður-Ameríku (Alaska) og vesturhluta Grænlands. Til dæmis mælist 12 sinnum meira af PCB í hvítabjörnum á Svalbarða en hvítabjörnum í Alaska.



Ísbjarnarhúnum hefur fækkað og líklega má rekja það til mengunar að einhverju leyti.

Höfundur hefur því miður ekki komist yfir tölur um áhrif þessara þrávirku efna á viðkomu stofnsins á menguðustu svæðunum en það er ljóst að syðst á útbreiðslusvæði hvítabjarna, til dæmis við Hudson-flóa í Kanada, hefur húnum fækkað. Þessa fækkun má fyrst og fremst rekja til hlýnandi veðurfars (sjá svar sama höfundar við spurningunni: Deyja hvítabirnir út ef ísinn á heimaslóðum þeirra bráðnar?) en ofangreind efni eru einnig talin eiga hlut að máli á menguðum svæðum. Meðal annars hafa samanburðarrannsóknir á birnum á Svalbarða og í Alaska sýnt að aðeins 11% birna á Svalbarða hafa eignast húna en 48% í Alaska.

Það er ekki aðeins að færri húnar fæðist heldur hafa vísindamenn einnig áhyggjur af afdrifum húna á menguðum svæðum. Samkvæmt rannsóknum Geirs Gabrielsens, eins helsta hvítabjarnarsérfræðings heims, eru húnar á svæðum sem eru mjög menguð af PCB mun líklegri til að deyja á fyrsta ári sökum skaddaðs ónæmiskerfis en húnar á minna menguðum svæðum.

Uppsöfnun þrávirkra efna er í raun afar alvarlegt umhverfisvandamál en því hættir til að hverfa í skuggann af umræðu um gróðurhúsaáhrif og hlýnun andrúmsloftsins. Hins vegar er full ástæða til að gefa þessu mikinn gaum, meðal annars vegna þess að vísindamenn eru almennt sammála um að áhrif ofantalinna efna séu þegar komin í ljós meðal mannfólks. Má þar nefna aukna ófrjósemi (þar á meðal minni sæðisframleiðslu), veikara ónæmiskerfi, minni virkni skjaldkirtils auk fleiri þátta. Málið snýst því ekki bara um velferð hvítabjarna heldur einnig mannkyns. Yfirvöld allra landa þurfa að taka á þessu vandamáli með mun ákveðnari hætti en nú er gert þar sem flest bendir til að innan fárra áratuga verði afleiðingarnar mjög alvarlegar ef ekki er gripið til fyrirbyggjandi aðgerða.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um mengun, til dæmis:

Heimildir og myndir:
  • R. J. Norstrom o.fl. (1998). Chlorinated Hydrocarbon Contaminants in Polar Bears from Eastern Russia, North America, Greenland, and Svalbard: Biomonitoring of Arctic Pollution. Archives of environmental contamination and toxicology, 35:2, bls. 354–367.
  • David Usborne (2006). Toxic Waste Creates Hermaphrodite Arctic Polar Bears. Á: Common Dreams NewsCenter
  • BBC News

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

9.11.2006

Spyrjandi

Lárus Hannesson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni?“ Vísindavefurinn, 9. nóvember 2006. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6369.

Jón Már Halldórsson. (2006, 9. nóvember). Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6369

Jón Már Halldórsson. „Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni?“ Vísindavefurinn. 9. nóv. 2006. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6369>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni?
Í heild hljóðar spurningin svona:

Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni? Hvaða efni eru það sem safnast fyrir í þeim og hvaðan koma þau helst?

Rannsóknir á ísbjörnum eða hvítabjörnum (Ursus maritimus) benda til þess að ófrjósemi meðal þeirra hafi aukist verulega á undanförnum árum. Einnig hafa þær leitt í ljós að ein af hverjum 50 birnum á Svalbarða er vansköpuð sem lýsir sér meðal annars í því að á þeim vex getnaðarlimur, auk þess sem frjósemi þeirra er skert. Líklega má rekja þessa þróun til efna sem koma frá iðnaði sunnar á hnettinum.

Listinn yfir þau efni sem hafa skaðleg áhrif á vistkerfi norðurhjarans telur hundruð efna sem eru notuð í ýmsum greinum iðnaðar, allt frá húsgagnaiðnaði til hátækni- og lyfjaiðnaðar, auk efna sem notuð eru í landbúnaði. Þessi efnasambönd berast norður á bóginn með vindum og hafstraumum þar sem þau safnast síðan fyrir í fæðukeðjunni. Auk þess er talið að sjófuglar eigi talsverðan þátt í dreifingu efnanna.



Ísbjörnum stafar hætta af þrávirkum lífrænum efnum sem upprunin eru frá iðnaði og landbúnaði sunnar á hnettinum en berast á norðurslóðir.

Meðal þeirra efna sem eru skaðleg hvítabjörnum og öðrum lífverum á norðlægum slóðum er svokallað PBDE (e. polybrominated diphenyl ether) sem hefur mikið verið notað í iðnaði vegna eldvarnareiginleika (e. flame retardant) sinna. Þetta efni finnst í sívaxandi styrk eftir því sem ofar dregur í fæðukeðju norðurhjarans. Til að mynda er að jafnaði rúmlega 70 sinnum meira af PBDE í hvítabjörnum en selum, sem eru meginuppistaðan í fæðu hvítabjarna (sjá svar sama höfundar við spurningunni: Er það satt að ísbirnir éti stundum dýr sem eru þrisvar sinnum stærri en þeir sjálfir?). Slíkur vöxtur efna upp eftir fæðukeðjunni nefnist líffræðileg mögnun.

Efnin safnast saman í fituvef dýra þaðan sem þau berast með blóðrásinni til líffæra og valda truflun á starfsemi þeirra. Þau geta raskað starfsemi kynkirtla og skjaldkirtils, valdið skaða á verkan nýrna, lifrar og taugakerfis og veikt ónæmiskerfið þannig að mótstaða gegn algengum veirum dvín. Þessi efni berast ekki einungis í hvítabirni með bráð þeirra heldur einnig frá móður til afkvæmis með fituríkri móðurmjólkinni. Þannig fá húnarnir strax á unga aldri í sig mikið magn eiturefna. Afleiðingin er sú að styrkur mengunarefna í húnum í dag er að öllum líkindum mun meiri en hann var fyrir áratug síðan.

Mörg önnur efni hafa svipuð áhrif og PBDE á dýr efst í fæðukeðjunni, þar með talið hvítabirni, menn og háhyrninga. Sennilega er efnið PCB einna þekktast þeirra en það veldur truflun á innkirtlastarfsemi dýra og ekki þarf mjög mikið magn til þess að hormónaframleiðsla truflist. Hægt er að lesa meira um PCB og önnur þrávirk efni í svari sama höfundar við spurningunni: Hvað eru þrávirk lífræn efni og hvernig berast þau í dýr?

Rannsóknir benda til þess að ástand hvítabjarna sé misslæmt eftir svæðum. Verst er ástandið á austurhluta Grænlands, vesturhluta Rússlands og Svalbarða en mun skárra í Norður-Ameríku (Alaska) og vesturhluta Grænlands. Til dæmis mælist 12 sinnum meira af PCB í hvítabjörnum á Svalbarða en hvítabjörnum í Alaska.



Ísbjarnarhúnum hefur fækkað og líklega má rekja það til mengunar að einhverju leyti.

Höfundur hefur því miður ekki komist yfir tölur um áhrif þessara þrávirku efna á viðkomu stofnsins á menguðustu svæðunum en það er ljóst að syðst á útbreiðslusvæði hvítabjarna, til dæmis við Hudson-flóa í Kanada, hefur húnum fækkað. Þessa fækkun má fyrst og fremst rekja til hlýnandi veðurfars (sjá svar sama höfundar við spurningunni: Deyja hvítabirnir út ef ísinn á heimaslóðum þeirra bráðnar?) en ofangreind efni eru einnig talin eiga hlut að máli á menguðum svæðum. Meðal annars hafa samanburðarrannsóknir á birnum á Svalbarða og í Alaska sýnt að aðeins 11% birna á Svalbarða hafa eignast húna en 48% í Alaska.

Það er ekki aðeins að færri húnar fæðist heldur hafa vísindamenn einnig áhyggjur af afdrifum húna á menguðum svæðum. Samkvæmt rannsóknum Geirs Gabrielsens, eins helsta hvítabjarnarsérfræðings heims, eru húnar á svæðum sem eru mjög menguð af PCB mun líklegri til að deyja á fyrsta ári sökum skaddaðs ónæmiskerfis en húnar á minna menguðum svæðum.

Uppsöfnun þrávirkra efna er í raun afar alvarlegt umhverfisvandamál en því hættir til að hverfa í skuggann af umræðu um gróðurhúsaáhrif og hlýnun andrúmsloftsins. Hins vegar er full ástæða til að gefa þessu mikinn gaum, meðal annars vegna þess að vísindamenn eru almennt sammála um að áhrif ofantalinna efna séu þegar komin í ljós meðal mannfólks. Má þar nefna aukna ófrjósemi (þar á meðal minni sæðisframleiðslu), veikara ónæmiskerfi, minni virkni skjaldkirtils auk fleiri þátta. Málið snýst því ekki bara um velferð hvítabjarna heldur einnig mannkyns. Yfirvöld allra landa þurfa að taka á þessu vandamáli með mun ákveðnari hætti en nú er gert þar sem flest bendir til að innan fárra áratuga verði afleiðingarnar mjög alvarlegar ef ekki er gripið til fyrirbyggjandi aðgerða.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um mengun, til dæmis:

Heimildir og myndir:
  • R. J. Norstrom o.fl. (1998). Chlorinated Hydrocarbon Contaminants in Polar Bears from Eastern Russia, North America, Greenland, and Svalbard: Biomonitoring of Arctic Pollution. Archives of environmental contamination and toxicology, 35:2, bls. 354–367.
  • David Usborne (2006). Toxic Waste Creates Hermaphrodite Arctic Polar Bears. Á: Common Dreams NewsCenter
  • BBC News
...