Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver var Heródótos frá Halikarnassos?

Geir Þ. Þórarinsson

Heródótos frá Halikarnassos var forngrískur sagnaritari, sem skrifaði um sögu Persastríðanna og hefur verið nefndur faðir sagnfræðinnar. Heródótos fæddist um 484 f.Kr. í Halikarnassos, sem var dórísk nýlenduborg í Litlu-Asíu. Hann ferðaðist víða, meðal annars til Samos og grískra nýlendna umhverfis Svartahaf, til Egyptalands og Babýlon. Hann kom til Aþenu en er sagður hafa haldið með nýlenduförum þaðan til Thurii á Suður-Ítalíu þar sem hann lést um 425 f.Kr.

Þótt Cicero kalli Heródótos föður sagnfræðinnar var hann þó ekki fyrstur til að skrifa um liðna atburði. Á undan Heródótosi og samtímis honum voru að störfum ýmsir rithöfundar (logografoi eða logopoioi) sem rituðu í óbundnu máli en engin verka þeirra eru varðveitt nema í brotum. Meðal þeirra voru Hekatajos frá Míletos, Ferekýdes frá Aþenu, Karon frá Lampsakos og Hellanikos frá Lesbos auk annarra. Þeir sömdu meðal annars rit um goðafræði og ættartal og sögu tiltekinna staða, svo sem sögu eyjarinnar Lesbos eða Persaveldis.

Heródótos frá Halikarnassos (um 484 - um 420 f.Kr.).

Á þriðja fjórðungi 5. aldar f.Kr. samdi Heródótos gríðarmikið ritverk á jónískri mállýsku sem ber heitið, Historiai (orðið ἱστορίη, historie merkir „rannsókn“). Ritið er í níu bókum, sem heita eftir menntagyðjunum níu, en bókaskipting á reyndar rætur að rekja til fræðimanna í Alexandríu á hellenískum tíma.

Rit Heródótosar er elsta gríska ritverkið í óbundnu máli sem er varðveitt í heild sinni. Ólíkt „lógógröfunum“ samdi Heródótos ekki sögu tiltekins staðar heldur ákveðinnar atburðarásar. Í upphafi rits síns kveðst hann rita til þess að athafnir manna falli ekki í gleymsku og svo að afrek manna, hvort heldur Grikkja eða útlendinga, verði ekki ólofuð (aklea), né heldur orsakir atburðanna. Fyrir tilurð sagnaritunar var það hlutverk söguljóða eins og til dæmis Hómerskviða og annars kveðskapar að minnast afreka manna (klea andron). Raunar hafði skáldið Símonídes frá Keos samið kvæði um Persastríðin og þar með reist Grikkjum eins konar minnisvarða. En Heródótos tekur að sér að varðveita minningu um liðna atburði og afrek manna á annan hátt en skáldin höfðu gert. Hann fjallar um atburðarásina frá því að fyrst urðu árekstrar milli Grikkja annars vegar og þjóða í austri hins vegar um miðja 6. öld f.Kr. og rekur hana fram til ársins 479 f.Kr. þegar Grikkir höfðu hrundið aftur tilraun Xerxesar Persakonungs til að leggja undir sig Grikkland. Heródótos leitar skýringa á þessum atburðum.

Frásögnin hefst á ýmsum sögusögnum um kvennarán og ásakanir á víxl. Föníkumenn voru sagðir hafa rænt konungsdótturinni Íó Ínakkossdóttur en Grikkir rændu Evrópu og Medeu. Í þessu samhengi segir Heródótos frá sögunni um brottnám Helenu fögru frá Spörtu til Tróju. Allt er þetta goðsagnakennd forsaga, sem Heródótos afgreiðir í örfáum efnisgreinum og segist svo ekki ætla leggja á þær frekara mat. Upphaf atburðanna sem Heródótos ætlar sér að fjalla um rekur hann hins vegar til Krösosar konungs í Lýdíu. Hann lagði undir sig grísku borgríkin í Jóníu í Litlu-Asíu en hóf seinna stríð gegn Persum. Því stríði tapaði hann aftur á móti og þar með komust grísku borgríkin í Litlu-Asíu undir stjórn Persa.

Þegar grísku borgirnar gerðu uppreisn gegn Persum á árunum 499-494 f.Kr. nutu þær stuðnings frá ýmsum borgum í Grikklandi. Þar með höfðu Persar tilefni til afskipta í Grikklandi. Þeir gerðu tvær tilraunir til að leggja undir sig meginland Grikklands. Fyrst sigldi Dareios Persakonungur ásamt miklu liði til Maraþonsvallar árið 490 f.Kr. en lið hans beið ósigur fyrir miklu fámennara liði Grikkja. Þá reyndi sonur hans Xerxes innrás í Grikkland ári síðar. Hann tafðist við Laugaskarð í erfiðri orrustu við Spartverja, tapaði sjóorrustu við Salamis árið 480 f.Kr. og tapaði ári síðar orrustunni við Plataju en þar með var úti um innrásina.

Frá þessum atburðum segir Heródótos með ýmsum útúrdúrum. Í fyrstu bók er til að mynda rakin ævisaga Kýrosar mikla Persakonungs, þar er lýsing á Babýlon og sagt frá landbúnaði í Mesópótamíu. Önnur bók fjallar meira og minna öll um Egyptaland. Í fjórðu bók er sagt frá hernaði Dareiosar gegn Skýþíumönnum og af því tilefni lýsir Heródótos landi Skýþíumanna, háttum þeirra og trúarbrögðum.

Vegna útúrdúranna er heilmikil landafræði og þjóð- og þjóðháttafræði í sögu Heródótosar. Sagnaritun að hætti Heródótosar er því ekki eins þröngur stakkur sniðinn og hjá Þúkýdídesi síðar, en hjá honum varð sagnaritun nánast eingöngu að stjórnmála- og styrjaldarsögu. Frásögn Heródótosar verður líka margbreytilegri og fjörugri. Hann brýtur líka frásögnina upp með ræðum, sem hann leggur í munn gerendum sögunnar en eru þó samdar af Heródótosi sjálfum. Þetta gerðu allir fornir sagnaritarar og er ef til vill arfleifð frá söguljóðum en tæpur helmingur Hómerskviða er í beinni ræðu. Annars eru Hómer og Heródótos ólíkir sögumenn því Hómer er alvitur sögumaður, sem þekkir hugsanir og tilfinningar persóna sinna, en það er Heródótos ekki og segja má að hann fari varlega í að eigna persónum fyrirætlanir. Ræðurnar eru hins vegar stundum dramatískur forboði um óorðna atburði. Hér hafa margir tekið eftir skyldleika frásagnarlistar Heródótosar við harmleikjaskáldin en Krösos konungur er til dæmis afar tragísk persóna.

Guðirnir eru ekki að verki í frásögn Heródótosar með sama hætti og hjá skáldunum þótt í einhverjum skilningi virðist gert ráð fyrir guðlegri forsjón. Heródótos hefur líka vissulega frá mörgu undarlegu og ótrúlegu að segja og stundum er ýjað að einhverju með sögusögnum af véfréttum og draumspám sem túlka má sem guðlega forsjón þótt guðirnir séu ekki beinlínis gerendur eins og hjá Hómer. Reyndar hefur helst verið fundið að efnistökum Heródótosar að hann hafi verið of trúgjarn og ýki en til marks um ýkjurnar hafa til dæmis verið nefndar ágiskanir hans um ótrúlegan fjölda hermanna í liðsveitum Persanna: samkvæmt Heródótosi voru tæplega tvær milljónir manna í liði Xerxesar. En Heródótos segir reyndar á einum stað að honum sé skylt að segja frá því sem sagt hefur verið, þótt honum sé ekki þar með skylt að trúa því og að þetta eigi að gilda um verk hans í heild sinni (7.152).

Það er athyglisvert að Heródótos kveðst greina frá því sem sagt hefur verið (ta legomena) en heimildir hans fyrir atburðum virðast að mestu hafa verið munnlegar. Hann skrifaði um atburði sem áttu sér stað um það leyti sem hann fæddist og hafði fyrir því að tala við sjónarvotta eða aðra sem þekktu til sjónarvotta. Þegar hann segir frá öðru en atburðum, lýsir til dæmis staðháttum eða mannvirkjum og þess háttar, segist hann stundum sjálfur hafa séð með eigin augum en studdist einnig við rit annarra, svo sem Hekatajosar.

Stundum er því ýjað að yfirnáttúrulegum skýringum á atburðum í gegnum orðróm og sögusagnir sem Heródótos hefur eftir öðrum en oftast finnur hann trúverðugri skýringar. Í stað yfirnáttúrulegra skýringa finnur hann stundum skýringar á forsendum þjóðháttafræðinnar. Til dæmis hefur verið bent á að hann geri einhvers konar greinarmun á „hörðum“ og „mjúkum“ þjóðum þar sem munurinn liggur meðal annars í þægindum og munaði sem mildar menn og mildari þjóðirnar hafa tilhneigingu til að bíða ósigur fyrir harðari þjóðum. Persar voru hörð þjóð þegar þeir sigruðu Lýdíumenn en mýktust eftir að ríkidæmi þeirra óx og munaður breiddist út. Grikkir voru hins vegar enn þá óspilltir af munaði þegar þeir sigruðu Persana. Til marks um þetta er lýsingin á ólíku mataræði þeirra í níundu bók. Enn fremur kemur munurinn á Grikkjum og Persum fram í stjórnarfari þeirra: Persar lutu einum manni og bjuggu við alræði konungsins en Grikkir voru á hinn bóginn frjálsir menn í einhverjum skilningi. Munurinn á Grikkjum og öðrum þjóðum í sögu Heródótosar er þó ekki alveg svona einfaldur og varast ber að gera of mikið úr honum.

Heimildir, ítarefni og mynd:
  • Dewald, Carolyn og John Marincola (ritstj.). The Cambridge Companion to Herodotus (Cambridge: Cambridge University Press, 2006).
  • Guðmundur J. Guðmundsson, „Grísk sagnaritun frá Hekateosi til Pólýbíosar“, hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
  • Kurke, Leslie, „Charting the poles of history: Herodotos and Thoukydides“, hjá Oliver Taplin (ritstj.), Literature in the Greek World (Oxford: Oxford University Press, 2001).
  • Lesky, Albin. A History of Greek Literature. Cornelis de Heer og James Willis (þýð.) (Indianapolis: Hackett: 1996).
  • Luce, T.J. The Greek Historians (London: Routledge, 1997).
  • Marincola, John (ritstj.). A Companion to Greek and Roman Historiography (Oxford: Wiley-Blackwell, 2011).
  • Romm, James. Herodotus (New Haven: Yale University Press, 1998).
  • Strassler, Robert B. (ritstj.). The Landmark Herodotus: The Histories (New York: Panteon Books, 2007).
  • Mynd: Herodotus á Wikipedia. Sótt 5. 12. 2011.

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

5.12.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Heródótos frá Halikarnassos?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2011. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61412.

Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 5. desember). Hver var Heródótos frá Halikarnassos? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61412

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Heródótos frá Halikarnassos?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2011. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61412>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Heródótos frá Halikarnassos?
Heródótos frá Halikarnassos var forngrískur sagnaritari, sem skrifaði um sögu Persastríðanna og hefur verið nefndur faðir sagnfræðinnar. Heródótos fæddist um 484 f.Kr. í Halikarnassos, sem var dórísk nýlenduborg í Litlu-Asíu. Hann ferðaðist víða, meðal annars til Samos og grískra nýlendna umhverfis Svartahaf, til Egyptalands og Babýlon. Hann kom til Aþenu en er sagður hafa haldið með nýlenduförum þaðan til Thurii á Suður-Ítalíu þar sem hann lést um 425 f.Kr.

Þótt Cicero kalli Heródótos föður sagnfræðinnar var hann þó ekki fyrstur til að skrifa um liðna atburði. Á undan Heródótosi og samtímis honum voru að störfum ýmsir rithöfundar (logografoi eða logopoioi) sem rituðu í óbundnu máli en engin verka þeirra eru varðveitt nema í brotum. Meðal þeirra voru Hekatajos frá Míletos, Ferekýdes frá Aþenu, Karon frá Lampsakos og Hellanikos frá Lesbos auk annarra. Þeir sömdu meðal annars rit um goðafræði og ættartal og sögu tiltekinna staða, svo sem sögu eyjarinnar Lesbos eða Persaveldis.

Heródótos frá Halikarnassos (um 484 - um 420 f.Kr.).

Á þriðja fjórðungi 5. aldar f.Kr. samdi Heródótos gríðarmikið ritverk á jónískri mállýsku sem ber heitið, Historiai (orðið ἱστορίη, historie merkir „rannsókn“). Ritið er í níu bókum, sem heita eftir menntagyðjunum níu, en bókaskipting á reyndar rætur að rekja til fræðimanna í Alexandríu á hellenískum tíma.

Rit Heródótosar er elsta gríska ritverkið í óbundnu máli sem er varðveitt í heild sinni. Ólíkt „lógógröfunum“ samdi Heródótos ekki sögu tiltekins staðar heldur ákveðinnar atburðarásar. Í upphafi rits síns kveðst hann rita til þess að athafnir manna falli ekki í gleymsku og svo að afrek manna, hvort heldur Grikkja eða útlendinga, verði ekki ólofuð (aklea), né heldur orsakir atburðanna. Fyrir tilurð sagnaritunar var það hlutverk söguljóða eins og til dæmis Hómerskviða og annars kveðskapar að minnast afreka manna (klea andron). Raunar hafði skáldið Símonídes frá Keos samið kvæði um Persastríðin og þar með reist Grikkjum eins konar minnisvarða. En Heródótos tekur að sér að varðveita minningu um liðna atburði og afrek manna á annan hátt en skáldin höfðu gert. Hann fjallar um atburðarásina frá því að fyrst urðu árekstrar milli Grikkja annars vegar og þjóða í austri hins vegar um miðja 6. öld f.Kr. og rekur hana fram til ársins 479 f.Kr. þegar Grikkir höfðu hrundið aftur tilraun Xerxesar Persakonungs til að leggja undir sig Grikkland. Heródótos leitar skýringa á þessum atburðum.

Frásögnin hefst á ýmsum sögusögnum um kvennarán og ásakanir á víxl. Föníkumenn voru sagðir hafa rænt konungsdótturinni Íó Ínakkossdóttur en Grikkir rændu Evrópu og Medeu. Í þessu samhengi segir Heródótos frá sögunni um brottnám Helenu fögru frá Spörtu til Tróju. Allt er þetta goðsagnakennd forsaga, sem Heródótos afgreiðir í örfáum efnisgreinum og segist svo ekki ætla leggja á þær frekara mat. Upphaf atburðanna sem Heródótos ætlar sér að fjalla um rekur hann hins vegar til Krösosar konungs í Lýdíu. Hann lagði undir sig grísku borgríkin í Jóníu í Litlu-Asíu en hóf seinna stríð gegn Persum. Því stríði tapaði hann aftur á móti og þar með komust grísku borgríkin í Litlu-Asíu undir stjórn Persa.

Þegar grísku borgirnar gerðu uppreisn gegn Persum á árunum 499-494 f.Kr. nutu þær stuðnings frá ýmsum borgum í Grikklandi. Þar með höfðu Persar tilefni til afskipta í Grikklandi. Þeir gerðu tvær tilraunir til að leggja undir sig meginland Grikklands. Fyrst sigldi Dareios Persakonungur ásamt miklu liði til Maraþonsvallar árið 490 f.Kr. en lið hans beið ósigur fyrir miklu fámennara liði Grikkja. Þá reyndi sonur hans Xerxes innrás í Grikkland ári síðar. Hann tafðist við Laugaskarð í erfiðri orrustu við Spartverja, tapaði sjóorrustu við Salamis árið 480 f.Kr. og tapaði ári síðar orrustunni við Plataju en þar með var úti um innrásina.

Frá þessum atburðum segir Heródótos með ýmsum útúrdúrum. Í fyrstu bók er til að mynda rakin ævisaga Kýrosar mikla Persakonungs, þar er lýsing á Babýlon og sagt frá landbúnaði í Mesópótamíu. Önnur bók fjallar meira og minna öll um Egyptaland. Í fjórðu bók er sagt frá hernaði Dareiosar gegn Skýþíumönnum og af því tilefni lýsir Heródótos landi Skýþíumanna, háttum þeirra og trúarbrögðum.

Vegna útúrdúranna er heilmikil landafræði og þjóð- og þjóðháttafræði í sögu Heródótosar. Sagnaritun að hætti Heródótosar er því ekki eins þröngur stakkur sniðinn og hjá Þúkýdídesi síðar, en hjá honum varð sagnaritun nánast eingöngu að stjórnmála- og styrjaldarsögu. Frásögn Heródótosar verður líka margbreytilegri og fjörugri. Hann brýtur líka frásögnina upp með ræðum, sem hann leggur í munn gerendum sögunnar en eru þó samdar af Heródótosi sjálfum. Þetta gerðu allir fornir sagnaritarar og er ef til vill arfleifð frá söguljóðum en tæpur helmingur Hómerskviða er í beinni ræðu. Annars eru Hómer og Heródótos ólíkir sögumenn því Hómer er alvitur sögumaður, sem þekkir hugsanir og tilfinningar persóna sinna, en það er Heródótos ekki og segja má að hann fari varlega í að eigna persónum fyrirætlanir. Ræðurnar eru hins vegar stundum dramatískur forboði um óorðna atburði. Hér hafa margir tekið eftir skyldleika frásagnarlistar Heródótosar við harmleikjaskáldin en Krösos konungur er til dæmis afar tragísk persóna.

Guðirnir eru ekki að verki í frásögn Heródótosar með sama hætti og hjá skáldunum þótt í einhverjum skilningi virðist gert ráð fyrir guðlegri forsjón. Heródótos hefur líka vissulega frá mörgu undarlegu og ótrúlegu að segja og stundum er ýjað að einhverju með sögusögnum af véfréttum og draumspám sem túlka má sem guðlega forsjón þótt guðirnir séu ekki beinlínis gerendur eins og hjá Hómer. Reyndar hefur helst verið fundið að efnistökum Heródótosar að hann hafi verið of trúgjarn og ýki en til marks um ýkjurnar hafa til dæmis verið nefndar ágiskanir hans um ótrúlegan fjölda hermanna í liðsveitum Persanna: samkvæmt Heródótosi voru tæplega tvær milljónir manna í liði Xerxesar. En Heródótos segir reyndar á einum stað að honum sé skylt að segja frá því sem sagt hefur verið, þótt honum sé ekki þar með skylt að trúa því og að þetta eigi að gilda um verk hans í heild sinni (7.152).

Það er athyglisvert að Heródótos kveðst greina frá því sem sagt hefur verið (ta legomena) en heimildir hans fyrir atburðum virðast að mestu hafa verið munnlegar. Hann skrifaði um atburði sem áttu sér stað um það leyti sem hann fæddist og hafði fyrir því að tala við sjónarvotta eða aðra sem þekktu til sjónarvotta. Þegar hann segir frá öðru en atburðum, lýsir til dæmis staðháttum eða mannvirkjum og þess háttar, segist hann stundum sjálfur hafa séð með eigin augum en studdist einnig við rit annarra, svo sem Hekatajosar.

Stundum er því ýjað að yfirnáttúrulegum skýringum á atburðum í gegnum orðróm og sögusagnir sem Heródótos hefur eftir öðrum en oftast finnur hann trúverðugri skýringar. Í stað yfirnáttúrulegra skýringa finnur hann stundum skýringar á forsendum þjóðháttafræðinnar. Til dæmis hefur verið bent á að hann geri einhvers konar greinarmun á „hörðum“ og „mjúkum“ þjóðum þar sem munurinn liggur meðal annars í þægindum og munaði sem mildar menn og mildari þjóðirnar hafa tilhneigingu til að bíða ósigur fyrir harðari þjóðum. Persar voru hörð þjóð þegar þeir sigruðu Lýdíumenn en mýktust eftir að ríkidæmi þeirra óx og munaður breiddist út. Grikkir voru hins vegar enn þá óspilltir af munaði þegar þeir sigruðu Persana. Til marks um þetta er lýsingin á ólíku mataræði þeirra í níundu bók. Enn fremur kemur munurinn á Grikkjum og Persum fram í stjórnarfari þeirra: Persar lutu einum manni og bjuggu við alræði konungsins en Grikkir voru á hinn bóginn frjálsir menn í einhverjum skilningi. Munurinn á Grikkjum og öðrum þjóðum í sögu Heródótosar er þó ekki alveg svona einfaldur og varast ber að gera of mikið úr honum.

Heimildir, ítarefni og mynd:
  • Dewald, Carolyn og John Marincola (ritstj.). The Cambridge Companion to Herodotus (Cambridge: Cambridge University Press, 2006).
  • Guðmundur J. Guðmundsson, „Grísk sagnaritun frá Hekateosi til Pólýbíosar“, hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
  • Kurke, Leslie, „Charting the poles of history: Herodotos and Thoukydides“, hjá Oliver Taplin (ritstj.), Literature in the Greek World (Oxford: Oxford University Press, 2001).
  • Lesky, Albin. A History of Greek Literature. Cornelis de Heer og James Willis (þýð.) (Indianapolis: Hackett: 1996).
  • Luce, T.J. The Greek Historians (London: Routledge, 1997).
  • Marincola, John (ritstj.). A Companion to Greek and Roman Historiography (Oxford: Wiley-Blackwell, 2011).
  • Romm, James. Herodotus (New Haven: Yale University Press, 1998).
  • Strassler, Robert B. (ritstj.). The Landmark Herodotus: The Histories (New York: Panteon Books, 2007).
  • Mynd: Herodotus á Wikipedia. Sótt 5. 12. 2011.

...