Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver var Averroes og hvert var framlag hans til fræðanna?

Gunnar Harðarson

Ibn Rushd (1126–1198) eða Averroes, eins og hann nefndist á latínu eftir spænskum miðaldaframburði (Aven Ruiz), var læknir, dómari og heimspekingur í borginni Cordoba á Spáni og var uppi á 12. öld. Cordoba tilheyrði þá arabískumælandi ríki sem nefndist Al-Andalus og var á fyrri hluta aldarinnar undir stjórn fursta af ætt Almoravida. Averroes hét fullu nafni Abu al-Walid Muhammad ibn Ahmad ibn Muhammad ibn Rushd og fæddist inn í fjölskyldu virtra sérfræðinga í lögum (sharia) í Cordoba. Faðir hans og afi höfðu báðir gegnt starfi dómara (qadi) þar í borg og hinn síðarnefndi var um tíma bænaprestur (imam) í Stóru-Moskunni í Cordoba, sem enn stendur og þykir mikil listasmíð.

Laust fyrir miðja 12. öld urðu pólitísk umskipti í Al-Andalus þegar Almohadar hröktu Almoravida frá völdum. Á ferðalagi í Marrakesh, í núverandi Marokkó, komst Averroes í kynni við Abd al-Mu’min, kalífa Almohada, og síðar son hans, Abu Yaqub Yussuf, sem gerði hann að hirðlækni sínum. Averroes varð svo dómari, fyrst í Sevilla, síðan í Cordoba eins og feður hans. Kalífinn yngri varð einnig áhrifavaldur í heimspekiiðkun Averroesar, því að hann bað heimspekinginn Ibn Tufayl um útskýringar á óljósum atriðum í skoðunum heimspekinga sem aftur fól Averroesi verkið. Tók hann þá að skrifa ágrip af og skýringar við rit Aristótelesar sem hann varð einna þekktastur fyrir á Vesturlöndum þegar tímar liðu.

Ibn Rushd (1126-1198) eða Averroes, eins og hann nefndist á latínu. Honum er eignuð svonefnd tvöfeldniskenning um sannleikann.

Um eða upp úr 1194 féll Averroes í ónáð hjá eftirmanni Abu Yaqub Yussuf, Abu Yussuf Yaqub al-Mansur, sem skipaði svo fyrir að bækur hans skyldu brenndar. Hraktist hann í útlegð til Lucena, en fáeinum árum síðar var hann kallaður til Marrakesh þar sem hann bjó þar til hann lést 10. desember 1198 að okkar tímatali.

Averroes lagði fram skerf til fjölmargra fræðigreina, svo sem læknisfræði, lögfræði, stjörnufræði, guðfræði og heimspeki. Ungur að árum varð hann kunnur fyrir rit um almenn atriði læknisfræðinnar, al-Kulliyat. Sú bók nefndist síðar Colliget á latínu og varð, ásamt viðbæti eftir óþekktan höfund um sérstök atriði fræðigreinarinnar, viðtekin kennslubók í læknislist. Þá ritaði hann þrjár bækur sem lúta einkum að tengslum trúarbragða og heimspeki: Kitab Fasl al-maqal (Úrskurðarrit um samræmi heimspeki og trúarbragða), Kashf al-manahidj (Afhjúpun sönnunaraðferða í trúarkenningum) og Tahafut-al-tahafut (Rökleysa rökleysunnar). Hin síðastnefnda hefur að geyma svar Averroesar við andmælum guðfræðingsins og heimspekingsins Al-Ghazali, sem hafði sett fram harða gagnrýni á heimspeki, einkum þó kenningar Al-Farabi og Ibn Sina (Avicenna), í bókinni Tahafut-al-falsafa (Rökleysa heimspekinnar). Þessari gagnrýni svarar Averroes lið fyrir lið í riti sínu.

Averroes greinir á milli þess í hve miklum mæli fólk er móttækilegt fyrir ólíkum tegundum röksemda. Þannig eiga rök mælskulistarinnar hljómgrunn hjá fjöldanum, sennileg rök höfða til sumra en aðeins fáir hafa tök á því að skilja vísindalegar sannanir. Trúarritin eiga sér ytri og innri hlið og fer það eftir hæfileikum hvers og eins þessara hópa hversu vel þeim hentar að skilja þau, bókstaflega eða sem líkingamál. Ein gagnrýnin á Al-Ghazali var einmitt sú að Averroes taldi hæpið að guðfræðingar bæru á borð heimspekilegar sannanir fyrir almenning sem engar forsendur hefði til þess að skilja þær. Afleiðingin yrði einungis sú að grafið væri undan trúarbrögðunum.

Tvöfeldniskenningin um sannleikann, sem svo hefur verið nefnd, hefur verið eignuð Averroesi, sem sé sú kenning að guðfræði og heimspeki kæmust á ólíkum forsendum að ólíkum sannleika sem hvor um sig stangaðist á við hinn en væru eftir sem áður sannleikur. Sjálfur hélt hann því fram að sannleikurinn sem heimspekin kæmist að og sannleikurinn sem trúin birti væri einn og sami sannleikurinn, það er sannleikurinn væri aðeins einn. Misskilninginn kann að mega rekja til þess að Averroes hafnaði kenningum ákveðinna guðfræðinga á þeim forsendum að kenningar þeirra stönguðust á við heimspekilegan sannleika (sem kæmi á hinn bóginn heim og saman við hinn trúarlega).

Fleiri umdeilanleg atriði koma fyrir í ritum Averroesar, til dæmis sú skoðun að heimurinn sé eilífur, að sálin eða skilningurinn sé óefnislegur og einn fyrir mannkynið í heild og að einstaklingssálin haldi því ekki einstaklingseðli sínu eftir dauðann. Slíkar hugmyndir stönguðust á við trúarkenningar, en Averroes taldi hinn heimspekilega skilning réttan og að hann gæti samræmst túlkun ritninganna eða laganna. Þannig mætti sætta sköpunarkenninguna og kenninguna um eilífð heimsins með því að sýna fram á að Guð væri stöðugt að gera heiminn að veruleika en túlka mætti sköpunarkenninguna sem líkingamál fyrir hina heimspekilegu (og aristótelísku) skoðun. Þannig væri sannleikur trúarinnar og heimspekinnar einn og sami sannleikurinn.

Í vestrænni heimspekisögu er Averroes þekktastur fyrir skýringarrit sín um Aristóteles. Þau eru af þrennu tagi, stutt, miðlungs og löng. Stuttu skýringarnar eru efnislegt ágrip af inntaki viðkomandi rits Aristótelesar, miðlungsskýringarnar eru ítarlegri endursögn á efni þeirra og stóru skýringarritin, sem eru mjög ítarleg og hann hóf vinnu við um 1180, voru aðeins við fimm rit (Síðari rökgreiningar, Eðlisfræðina, Um himininn, Um sálina og Frumspekina).

Í skýringarritunum má greina breytingar á afstöðu Averroesar og þróun og endurskoðun tiltekinna túlkana. Tilgangur skýringanna var þó umfram allt sá að setja fram það sem Averroes taldi vera heimspeki Aristótelesar sjálfs, ómengaða, ef svo má segja, af þeirri nýplatónsku túlkun sem forverar hans úr hópi arabískumælandi heimspekinga höfðu hampað í ritum sínum og mátti til að mynda lesa úr verkum Avicenna. Studdist Averroes í þessum efnum meðal annars við við gríska ritskýrandann Alexander af Afrodisías.

Skýringar Averroesar mótuðu skilning vestrænna heimspekinga á verkum Aristótelesar á 13. og 14. öld, en á endurreisnartímanum höfnuðu fornmenntastefnumenn túlkunum Averroesar og kusu að lesa Aristóteles sjálfan á grísku með þeim textafræðilegu aðferðum sem þá voru tiltækar. Averroes hafði svo mikið dálæti á Aristótelesi að hann á að hafa sagt: „Það er trú mín að þessi maður hafi verið fyrirmynd í náttúrunni og það dæmi sem náttúran tók til að sýna mannlega fullkomnun í sinni hæstu mynd.“


Kvikmyndin Al-massir fjallar að hluta um Averroes.

Averroes hafði ekki veruleg áhrif á arabíska heimspeki síns tíma, en töluverð á heimspeki gyðinga (sem áttu mikinn þátt í varðveislu rita hans) og latneska heimspeki, þó með ólíkum hætti, enda ólík rit þýdd á latínu og hebresku. Voru það einkum ritin um samband trúarbragða og heimspeki sem voru lesin hjá gyðingum, en ritskýringarnar við verk Aristótelesar opnuðu skilning á Aristótelesi fyrir heimspekingum 13. aldar í latneskri heimspeki. Tómas af Aquino vísar í ritum sínum til Averroesar með heitinu Commentator (Ritskýrandinn) en Aristóteles er nefndur Philosophus (Heimspekingurinn).

Um 1270 upphófust háværar deilur um svonefndan averroisma við heimspekideildina í París, þar á meðal um tvöfeldniskenninguna um sannleikann. Þeim deilum lyktaði árið 1277 með því að 219 kenningar í heimspeki og guðfræði voru bannaðar og hafði það bann víðtæk áhrif á þróun heimspekinnar á næstu áratugum. Á endurreisnartímanum voru nokkrir frægir averroistar að störfum í ítölskum háskólum og höfðu heimspekingar á borð við Giacomo Zabarella áhrif á nýaristótelíska skólaspeki sem varð viðtekin í löndum mótmælenda um eða upp úr 1600, meðal annars í Kaupmannahöfn og þar með á Íslandi.

Þess má geta að egypski kvikmyndaleikstjórinn Youssef Chahine hefur gert kvikmynd sem fjallar að hluta um Averroes (Al-massir, fr. Destin, e. Destiny) og hlaut hún verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1997.

Heimildir og myndir:

  • Henry Corbin, Histoire de la philosophie islamique, París, 1968.
  • Alain de Libéra, La philosophie médiévale, París, 1993.
  • John Marenbon, Medieval Philosophy. An Historical and Philosophical Introduction, Cambridge, 2007.
  • W. Montgomery-Watt, L’influence de l’Islam sur l’Europe médiévale, París, 1974.
  • A Companion to Philosophy in the Middle Ages, ritstj. Jorge J.E. Gracia og Timothy B. Noone, Oxford, 2006.
  • Philosophy in the Middle Ages: The Christian, Islamic, and Jewish Traditions, ritstj. Arthur Hymann og James J. Walsh, Indianapolis, 1983.
  • The Cambridge Companion to Arabic Philosophy, ritstj. Peter Adamson og Richard C. Taylor, Cambridge, 2004.
  • Mynd af Averroes: Early Islamic philosophy á Wikipedia. Sótt 30.12.2011
  • Mynd úr kvikmyndinni Al-massir: Planetneukoln.tv. Sótt 30.1.2014.

Frekara lesefni:

Höfundur

Gunnar Harðarson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

2.12.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Gunnar Harðarson. „Hver var Averroes og hvert var framlag hans til fræðanna?“ Vísindavefurinn, 2. desember 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61372.

Gunnar Harðarson. (2011, 2. desember). Hver var Averroes og hvert var framlag hans til fræðanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61372

Gunnar Harðarson. „Hver var Averroes og hvert var framlag hans til fræðanna?“ Vísindavefurinn. 2. des. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61372>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Averroes og hvert var framlag hans til fræðanna?
Ibn Rushd (1126–1198) eða Averroes, eins og hann nefndist á latínu eftir spænskum miðaldaframburði (Aven Ruiz), var læknir, dómari og heimspekingur í borginni Cordoba á Spáni og var uppi á 12. öld. Cordoba tilheyrði þá arabískumælandi ríki sem nefndist Al-Andalus og var á fyrri hluta aldarinnar undir stjórn fursta af ætt Almoravida. Averroes hét fullu nafni Abu al-Walid Muhammad ibn Ahmad ibn Muhammad ibn Rushd og fæddist inn í fjölskyldu virtra sérfræðinga í lögum (sharia) í Cordoba. Faðir hans og afi höfðu báðir gegnt starfi dómara (qadi) þar í borg og hinn síðarnefndi var um tíma bænaprestur (imam) í Stóru-Moskunni í Cordoba, sem enn stendur og þykir mikil listasmíð.

Laust fyrir miðja 12. öld urðu pólitísk umskipti í Al-Andalus þegar Almohadar hröktu Almoravida frá völdum. Á ferðalagi í Marrakesh, í núverandi Marokkó, komst Averroes í kynni við Abd al-Mu’min, kalífa Almohada, og síðar son hans, Abu Yaqub Yussuf, sem gerði hann að hirðlækni sínum. Averroes varð svo dómari, fyrst í Sevilla, síðan í Cordoba eins og feður hans. Kalífinn yngri varð einnig áhrifavaldur í heimspekiiðkun Averroesar, því að hann bað heimspekinginn Ibn Tufayl um útskýringar á óljósum atriðum í skoðunum heimspekinga sem aftur fól Averroesi verkið. Tók hann þá að skrifa ágrip af og skýringar við rit Aristótelesar sem hann varð einna þekktastur fyrir á Vesturlöndum þegar tímar liðu.

Ibn Rushd (1126-1198) eða Averroes, eins og hann nefndist á latínu. Honum er eignuð svonefnd tvöfeldniskenning um sannleikann.

Um eða upp úr 1194 féll Averroes í ónáð hjá eftirmanni Abu Yaqub Yussuf, Abu Yussuf Yaqub al-Mansur, sem skipaði svo fyrir að bækur hans skyldu brenndar. Hraktist hann í útlegð til Lucena, en fáeinum árum síðar var hann kallaður til Marrakesh þar sem hann bjó þar til hann lést 10. desember 1198 að okkar tímatali.

Averroes lagði fram skerf til fjölmargra fræðigreina, svo sem læknisfræði, lögfræði, stjörnufræði, guðfræði og heimspeki. Ungur að árum varð hann kunnur fyrir rit um almenn atriði læknisfræðinnar, al-Kulliyat. Sú bók nefndist síðar Colliget á latínu og varð, ásamt viðbæti eftir óþekktan höfund um sérstök atriði fræðigreinarinnar, viðtekin kennslubók í læknislist. Þá ritaði hann þrjár bækur sem lúta einkum að tengslum trúarbragða og heimspeki: Kitab Fasl al-maqal (Úrskurðarrit um samræmi heimspeki og trúarbragða), Kashf al-manahidj (Afhjúpun sönnunaraðferða í trúarkenningum) og Tahafut-al-tahafut (Rökleysa rökleysunnar). Hin síðastnefnda hefur að geyma svar Averroesar við andmælum guðfræðingsins og heimspekingsins Al-Ghazali, sem hafði sett fram harða gagnrýni á heimspeki, einkum þó kenningar Al-Farabi og Ibn Sina (Avicenna), í bókinni Tahafut-al-falsafa (Rökleysa heimspekinnar). Þessari gagnrýni svarar Averroes lið fyrir lið í riti sínu.

Averroes greinir á milli þess í hve miklum mæli fólk er móttækilegt fyrir ólíkum tegundum röksemda. Þannig eiga rök mælskulistarinnar hljómgrunn hjá fjöldanum, sennileg rök höfða til sumra en aðeins fáir hafa tök á því að skilja vísindalegar sannanir. Trúarritin eiga sér ytri og innri hlið og fer það eftir hæfileikum hvers og eins þessara hópa hversu vel þeim hentar að skilja þau, bókstaflega eða sem líkingamál. Ein gagnrýnin á Al-Ghazali var einmitt sú að Averroes taldi hæpið að guðfræðingar bæru á borð heimspekilegar sannanir fyrir almenning sem engar forsendur hefði til þess að skilja þær. Afleiðingin yrði einungis sú að grafið væri undan trúarbrögðunum.

Tvöfeldniskenningin um sannleikann, sem svo hefur verið nefnd, hefur verið eignuð Averroesi, sem sé sú kenning að guðfræði og heimspeki kæmust á ólíkum forsendum að ólíkum sannleika sem hvor um sig stangaðist á við hinn en væru eftir sem áður sannleikur. Sjálfur hélt hann því fram að sannleikurinn sem heimspekin kæmist að og sannleikurinn sem trúin birti væri einn og sami sannleikurinn, það er sannleikurinn væri aðeins einn. Misskilninginn kann að mega rekja til þess að Averroes hafnaði kenningum ákveðinna guðfræðinga á þeim forsendum að kenningar þeirra stönguðust á við heimspekilegan sannleika (sem kæmi á hinn bóginn heim og saman við hinn trúarlega).

Fleiri umdeilanleg atriði koma fyrir í ritum Averroesar, til dæmis sú skoðun að heimurinn sé eilífur, að sálin eða skilningurinn sé óefnislegur og einn fyrir mannkynið í heild og að einstaklingssálin haldi því ekki einstaklingseðli sínu eftir dauðann. Slíkar hugmyndir stönguðust á við trúarkenningar, en Averroes taldi hinn heimspekilega skilning réttan og að hann gæti samræmst túlkun ritninganna eða laganna. Þannig mætti sætta sköpunarkenninguna og kenninguna um eilífð heimsins með því að sýna fram á að Guð væri stöðugt að gera heiminn að veruleika en túlka mætti sköpunarkenninguna sem líkingamál fyrir hina heimspekilegu (og aristótelísku) skoðun. Þannig væri sannleikur trúarinnar og heimspekinnar einn og sami sannleikurinn.

Í vestrænni heimspekisögu er Averroes þekktastur fyrir skýringarrit sín um Aristóteles. Þau eru af þrennu tagi, stutt, miðlungs og löng. Stuttu skýringarnar eru efnislegt ágrip af inntaki viðkomandi rits Aristótelesar, miðlungsskýringarnar eru ítarlegri endursögn á efni þeirra og stóru skýringarritin, sem eru mjög ítarleg og hann hóf vinnu við um 1180, voru aðeins við fimm rit (Síðari rökgreiningar, Eðlisfræðina, Um himininn, Um sálina og Frumspekina).

Í skýringarritunum má greina breytingar á afstöðu Averroesar og þróun og endurskoðun tiltekinna túlkana. Tilgangur skýringanna var þó umfram allt sá að setja fram það sem Averroes taldi vera heimspeki Aristótelesar sjálfs, ómengaða, ef svo má segja, af þeirri nýplatónsku túlkun sem forverar hans úr hópi arabískumælandi heimspekinga höfðu hampað í ritum sínum og mátti til að mynda lesa úr verkum Avicenna. Studdist Averroes í þessum efnum meðal annars við við gríska ritskýrandann Alexander af Afrodisías.

Skýringar Averroesar mótuðu skilning vestrænna heimspekinga á verkum Aristótelesar á 13. og 14. öld, en á endurreisnartímanum höfnuðu fornmenntastefnumenn túlkunum Averroesar og kusu að lesa Aristóteles sjálfan á grísku með þeim textafræðilegu aðferðum sem þá voru tiltækar. Averroes hafði svo mikið dálæti á Aristótelesi að hann á að hafa sagt: „Það er trú mín að þessi maður hafi verið fyrirmynd í náttúrunni og það dæmi sem náttúran tók til að sýna mannlega fullkomnun í sinni hæstu mynd.“


Kvikmyndin Al-massir fjallar að hluta um Averroes.

Averroes hafði ekki veruleg áhrif á arabíska heimspeki síns tíma, en töluverð á heimspeki gyðinga (sem áttu mikinn þátt í varðveislu rita hans) og latneska heimspeki, þó með ólíkum hætti, enda ólík rit þýdd á latínu og hebresku. Voru það einkum ritin um samband trúarbragða og heimspeki sem voru lesin hjá gyðingum, en ritskýringarnar við verk Aristótelesar opnuðu skilning á Aristótelesi fyrir heimspekingum 13. aldar í latneskri heimspeki. Tómas af Aquino vísar í ritum sínum til Averroesar með heitinu Commentator (Ritskýrandinn) en Aristóteles er nefndur Philosophus (Heimspekingurinn).

Um 1270 upphófust háværar deilur um svonefndan averroisma við heimspekideildina í París, þar á meðal um tvöfeldniskenninguna um sannleikann. Þeim deilum lyktaði árið 1277 með því að 219 kenningar í heimspeki og guðfræði voru bannaðar og hafði það bann víðtæk áhrif á þróun heimspekinnar á næstu áratugum. Á endurreisnartímanum voru nokkrir frægir averroistar að störfum í ítölskum háskólum og höfðu heimspekingar á borð við Giacomo Zabarella áhrif á nýaristótelíska skólaspeki sem varð viðtekin í löndum mótmælenda um eða upp úr 1600, meðal annars í Kaupmannahöfn og þar með á Íslandi.

Þess má geta að egypski kvikmyndaleikstjórinn Youssef Chahine hefur gert kvikmynd sem fjallar að hluta um Averroes (Al-massir, fr. Destin, e. Destiny) og hlaut hún verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1997.

Heimildir og myndir:

  • Henry Corbin, Histoire de la philosophie islamique, París, 1968.
  • Alain de Libéra, La philosophie médiévale, París, 1993.
  • John Marenbon, Medieval Philosophy. An Historical and Philosophical Introduction, Cambridge, 2007.
  • W. Montgomery-Watt, L’influence de l’Islam sur l’Europe médiévale, París, 1974.
  • A Companion to Philosophy in the Middle Ages, ritstj. Jorge J.E. Gracia og Timothy B. Noone, Oxford, 2006.
  • Philosophy in the Middle Ages: The Christian, Islamic, and Jewish Traditions, ritstj. Arthur Hymann og James J. Walsh, Indianapolis, 1983.
  • The Cambridge Companion to Arabic Philosophy, ritstj. Peter Adamson og Richard C. Taylor, Cambridge, 2004.
  • Mynd af Averroes: Early Islamic philosophy á Wikipedia. Sótt 30.12.2011
  • Mynd úr kvikmyndinni Al-massir: Planetneukoln.tv. Sótt 30.1.2014.

Frekara lesefni:

...