Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hverjar eru helstu rökvillurnar og hvernig er best að forðast þær?

Geir Þ. Þórarinsson

Allt frá því að Aristóteles samdi ritið Spekirök (Sophistici elenchi) á 4. öld f.Kr. hefur tíðkast meðal rökfræðinga að gera grein fyrir helstu rökvillum. Sennilega er besta leiðin til að forðast rökvillur einfaldlega að kynna sér þær og gefa sér tíma til að fara vandlega yfir eigin röksemdafærslur.

Það eru margar leiðir til að flokka rökvillur. Í einn flokk mætti til dæmis setja formlegar rökvillur en það eru rökvillur sem brjóta beinlínis gegn reglum rökfræðinnar. Játun bakliðar og neitun forliðar eru dæmi um formlegar rökvillur. Játun bakliðar er fólgin í því að fyrst er fullyrt um skilyrðissamband, síðan er bakliðurinn svokallaði játaður og að lokum er ályktað að forliðurinn sé sannur*, til dæmis:

Ef Sigga kann að spila á píanó, þá kann Sigga að spila á hljóðfæri.

Sigga kann að spila á hljóðfæri.

Þess vegna kann Sigga að spila á píanó.

Þetta er rökvilla vegna þess að niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum. Fyrri forsendan er sönn því að píanó er hljóðfæri, svo að hver sá sem kann að spila á píanó kann að spila á hljóðfæri. Ef Sigga kann að spila á gítar, þá er seinni forsendan líka sönn en af því leiðir vitaskuld ekki að Sigga kunni að spila á píanó.

Neitun forliðar er fólgin í því að fyrst er skilyrðissambandið fullyrt, síðan er forliðnum neitað og að lokum er dregin sú ályktun að bakliðurinn sé ósannur, til dæmis:

Ef Sigga kann að spila á píanó, þá kann Sigga að spila á hljóðfæri.

Sigga kann ekki að spila á píanó.

Þess vegna kann Sigga ekki að spila á hljóðfæri.

Þetta er rökvilla vegna þess að eins og í játun bakliðar leiðir niðurstöðuna ekki af forsendunum. Eins og áður er fyrri forsendan sönn en þótt síðari forsendan sé einnig sönn og Sigga kunni ekki að spila á píanó er ekki þar með sagt að hún kunni ekki að spila á eitthvert annað hljóðfæri.

Meðal annarra rökvillna má nefna tvímæli en það er þegar orð í röksemdafærslu er notað í mismunandi merkingu. Eftirfarandi röksemdafærsla gæti verið dæmi um þessa villu: „Jón segist vera trúlaus en játar jafnframt að hann trúi því að Halldór sé í vinnunni. Þess vegna er hann ekki trúlaus.“ Hér er orðið „trúlaus“ notað á tvo vegu. Því er haldið fram að Jón sé ekki trúlaus af því að hann trúir einhverju, til dæmis að Halldór sé í vinnunni. En þegar einhver segist vera trúlaus er sennilegast að hann eigi við að hann trúi ekki á æðri máttarvöld í stað þess að hann trúi bókstaflega engu.

Tvær náskyldar rökvillur eru heildarskekkja og deildarskekkja. Deildarskekkja felst í því að álykta að hlutar af einhverri heild hafi sömu eiginleika og heildin sjálf. Heildarskekkja er aftur á móti að álykta að heildin hafi sömu eiginleika og hlutar hennar.

Dæmi um deildarskekkju væri að álykta að stór hópur manna væri hópur af hávöxnum eða stórum mönnum. Þótt hópurinn sé stór er ekki þar með sagt að hver og einn í hópnum sé stór. Raunar gætu allir í hópnum verið fremur litlir. Hópurinn er hins vegar stór ef í honum eru margir einstaklingar.


Er þetta reiður hópur eða hópur af reiðu fólki?

Aftur á móti væri það dæmi um heildarskekkju að álykta að af því að mennirnir í hópnum væru reiðir væri um reiðan hóp að ræða. Til þess að hægt væri að tala um reiðan hóp manna þyrfti reiði þeirra að beinast að einhverju sameiginlegu, til dæmis vegna þess að mennirnir í hópnum tilheyra sömu starfsstéttinni og kjör þeirra voru skert; það er tæpast hægt að tala um reiðan hóp ef einn í hópnum er reiður af því að eiginkonan yfirgaf hann og annar vegna þess að ekið var á bílinn hans, sá þriðji af því að áskriftargjöldin á uppáhalds tímaritinu hans voru hækkuð og svo framvegis. Þá væri bara um hóp reiðra manna að ræða en ekki reiðan hóp manna.

Svart-hvítt skekkjan svokallaða felst í því að láta sem velja þurfi á milli tiltekinna kosta þegar kostirnir eru í raun fleiri. Eins og nafnið bendir til er villan fólgin í því að láta eins og allt þurfi að vera annaðhvort svart eða hvítt þótt margt annað sé mögulegt.

Leiðandi spurning er skyld rökvilla þar sem svaranda er einungis gert kleift að játa eða neita spurningunni, þótt í raun eigi hvorugt svarið við. Þekkt dæmi er spurningin: „Ertu hættur að berja konuna þína?“ og jafnvel mætti bæta við: „Svaraðu, já eða nei!?“ En sá sem hefur aldrei barið konuna sína getur hvorki svarað játandi né neitandi.

Hringsönnun er villa sem er fólgin í því að niðurstaðan styður forsenduna. Þetta er ein leið til þess að gefa sér það sem átti að sýna fram á.

Ad hominem rök eru nefnd persónurök eða persónuníð á íslensku. Þau felast í að ráðast á persónuna fremur en málflutning hennar, svo sem að benda á að Jón sé glæpamaður í stað þess að svara rökum hans. Þess má geta að heitið ad hominem er stundum notað um það þegar einhver fellst á og styðst við forsendur viðmælanda síns einungis rökræðunnar vegna, en þá er ekki um rökvillu að ræða.

Hræðslurök eða ógnarrök eru fólgin í því að reyna að sannfæra aðra um að gera eitthvað með því að benda á skelfilegar afleiðingar þess að gera það ekki. Stundum eru fótfesturök notuð sem eins konar ógnarrök. Um fótfesturök og hrúgurök, sem eru náskyld fótfesturökum, hefur höfundur þegar fjallað í svörunum Hvað eru sleipurök? og Hvað eru hrúgurök?

Þegar vísað er til almannadóms eða hefða er reynt að sannfæra aðra með því að benda á að af því að flestir séu einhverrar skoðunar hljóti hún að vera rétt, eða að fyrst eitthvað sé hefð hljóti það að vera gott og gilt. Til dæmis gæti einhver reynt að halda því fram að hann megi aka of hratt af því að það geri allir eða að guð hljóti að vera til af því að það trúi því svo margir.

Stundum er reynt að sannfæra aðra með því að höfða til tilhneigingar manna til þess að vilja falla í hópinn. Því er ef til vill haldið fram að margir hafi einhverja skoðun og þess vegna ættir þú að hafa þá skoðun líka. Þetta er mjög algeng auglýsingabrella. Rök af þessu tagi eru nefnd múgrök og eru skyld rökunum að ofan þar sem vísað er til almannadóms.

Nafnatog nefnist rökvilla sem er skyld bæði múgrökum og rökum sem vísa til almannadóms. Haldið er fram að skoðun sé rétt eða reynt er að gera hana álitlegri með því að benda á að þekkt og virt manneskja sé þessarar skoðunar.

Átyllurök ganga út á að andmæla einhverju sem ekki var haldið fram. Ósjaldan eru átyllurök þannig að rök andstæðingsins eru ýkt eða sett fram þannig að auðveldara er að hrekja þau.


Post hoc rökvillan virðist vera nokkuð algeng þegar skýra á hvers vegna fólk læknast af sjúkdómum eins og kvefi. Menn sem verða kvefaðir reyna oft að stemma stigu við kvefinu með ýmsum ráðum. Þegar veikindin lagast er þessum ráðstöfunum þakkaður batinn, en raunin er oft sú að mönnum hefði batnað með tímanum hvað svo sem þeir hefðu gert.

Post hoc rökvillan heitir fullu nafni post hoc ergo propter hoc. Heitið er latneskt og þýðir „á eftir þessu, þess vegna út af þessu“. Villan er fólgin í að álykta að af því að eitt gerist á eftir öðru hljóti hið síðara að orsakast af hinu fyrra.

Ad hoc er latína og þýðir „til þessa“. Orðasambandið er notað í margvíslegu samhengi en þegar talað er um ad hoc rök eða skýringar er átt við eftir á rök og eftir á skýringar. Eftir á rök eru rök sem eru tínd til og notuð til að styðja niðurstöðu sem maður er þegar sannfærður um. Slíkt þarf ekki að fela í sér villu af neinu tagi.

Eftir á skýringu er ætlað að skýra burt vitnisburð sem annars væri á skjön við einhverja kenningu eða tilgátu. Eftir á skýring þarf ekki heldur að fela í sér villu en þó ber að hafa í huga að ef sífellt eru gefnar eftir á skýringar þegar eitthvað brýtur í bága við tiltekna kenningu eða tilgátu, þá hættir hún að vera hrekjanleg og þar með fer lítið fyrir vísindalegu gildi hennar.

Til er aragrúi af rökvillum en hér hafa aðeins verið nefndar nokkrar algengar villur. Hafa ber í huga að sumar villurnar eru til í ýmsum afbrigðum.


* Hér er forliðurinn „Sigga kann að spila á píanó“ og bakliðurinn „Sigga kann að spila á hljóðfæri“. Skilyrðissambandið er sambandið á milli forliðar og bakliðar: „Ef..., þá...“


Heimildir og myndir

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

12.6.2006

Spyrjandi

Sigurður Hólm Gunnarsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hverjar eru helstu rökvillurnar og hvernig er best að forðast þær?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2006. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6009.

Geir Þ. Þórarinsson. (2006, 12. júní). Hverjar eru helstu rökvillurnar og hvernig er best að forðast þær? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6009

Geir Þ. Þórarinsson. „Hverjar eru helstu rökvillurnar og hvernig er best að forðast þær?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2006. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6009>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjar eru helstu rökvillurnar og hvernig er best að forðast þær?
Allt frá því að Aristóteles samdi ritið Spekirök (Sophistici elenchi) á 4. öld f.Kr. hefur tíðkast meðal rökfræðinga að gera grein fyrir helstu rökvillum. Sennilega er besta leiðin til að forðast rökvillur einfaldlega að kynna sér þær og gefa sér tíma til að fara vandlega yfir eigin röksemdafærslur.

Það eru margar leiðir til að flokka rökvillur. Í einn flokk mætti til dæmis setja formlegar rökvillur en það eru rökvillur sem brjóta beinlínis gegn reglum rökfræðinnar. Játun bakliðar og neitun forliðar eru dæmi um formlegar rökvillur. Játun bakliðar er fólgin í því að fyrst er fullyrt um skilyrðissamband, síðan er bakliðurinn svokallaði játaður og að lokum er ályktað að forliðurinn sé sannur*, til dæmis:

Ef Sigga kann að spila á píanó, þá kann Sigga að spila á hljóðfæri.

Sigga kann að spila á hljóðfæri.

Þess vegna kann Sigga að spila á píanó.

Þetta er rökvilla vegna þess að niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum. Fyrri forsendan er sönn því að píanó er hljóðfæri, svo að hver sá sem kann að spila á píanó kann að spila á hljóðfæri. Ef Sigga kann að spila á gítar, þá er seinni forsendan líka sönn en af því leiðir vitaskuld ekki að Sigga kunni að spila á píanó.

Neitun forliðar er fólgin í því að fyrst er skilyrðissambandið fullyrt, síðan er forliðnum neitað og að lokum er dregin sú ályktun að bakliðurinn sé ósannur, til dæmis:

Ef Sigga kann að spila á píanó, þá kann Sigga að spila á hljóðfæri.

Sigga kann ekki að spila á píanó.

Þess vegna kann Sigga ekki að spila á hljóðfæri.

Þetta er rökvilla vegna þess að eins og í játun bakliðar leiðir niðurstöðuna ekki af forsendunum. Eins og áður er fyrri forsendan sönn en þótt síðari forsendan sé einnig sönn og Sigga kunni ekki að spila á píanó er ekki þar með sagt að hún kunni ekki að spila á eitthvert annað hljóðfæri.

Meðal annarra rökvillna má nefna tvímæli en það er þegar orð í röksemdafærslu er notað í mismunandi merkingu. Eftirfarandi röksemdafærsla gæti verið dæmi um þessa villu: „Jón segist vera trúlaus en játar jafnframt að hann trúi því að Halldór sé í vinnunni. Þess vegna er hann ekki trúlaus.“ Hér er orðið „trúlaus“ notað á tvo vegu. Því er haldið fram að Jón sé ekki trúlaus af því að hann trúir einhverju, til dæmis að Halldór sé í vinnunni. En þegar einhver segist vera trúlaus er sennilegast að hann eigi við að hann trúi ekki á æðri máttarvöld í stað þess að hann trúi bókstaflega engu.

Tvær náskyldar rökvillur eru heildarskekkja og deildarskekkja. Deildarskekkja felst í því að álykta að hlutar af einhverri heild hafi sömu eiginleika og heildin sjálf. Heildarskekkja er aftur á móti að álykta að heildin hafi sömu eiginleika og hlutar hennar.

Dæmi um deildarskekkju væri að álykta að stór hópur manna væri hópur af hávöxnum eða stórum mönnum. Þótt hópurinn sé stór er ekki þar með sagt að hver og einn í hópnum sé stór. Raunar gætu allir í hópnum verið fremur litlir. Hópurinn er hins vegar stór ef í honum eru margir einstaklingar.


Er þetta reiður hópur eða hópur af reiðu fólki?

Aftur á móti væri það dæmi um heildarskekkju að álykta að af því að mennirnir í hópnum væru reiðir væri um reiðan hóp að ræða. Til þess að hægt væri að tala um reiðan hóp manna þyrfti reiði þeirra að beinast að einhverju sameiginlegu, til dæmis vegna þess að mennirnir í hópnum tilheyra sömu starfsstéttinni og kjör þeirra voru skert; það er tæpast hægt að tala um reiðan hóp ef einn í hópnum er reiður af því að eiginkonan yfirgaf hann og annar vegna þess að ekið var á bílinn hans, sá þriðji af því að áskriftargjöldin á uppáhalds tímaritinu hans voru hækkuð og svo framvegis. Þá væri bara um hóp reiðra manna að ræða en ekki reiðan hóp manna.

Svart-hvítt skekkjan svokallaða felst í því að láta sem velja þurfi á milli tiltekinna kosta þegar kostirnir eru í raun fleiri. Eins og nafnið bendir til er villan fólgin í því að láta eins og allt þurfi að vera annaðhvort svart eða hvítt þótt margt annað sé mögulegt.

Leiðandi spurning er skyld rökvilla þar sem svaranda er einungis gert kleift að játa eða neita spurningunni, þótt í raun eigi hvorugt svarið við. Þekkt dæmi er spurningin: „Ertu hættur að berja konuna þína?“ og jafnvel mætti bæta við: „Svaraðu, já eða nei!?“ En sá sem hefur aldrei barið konuna sína getur hvorki svarað játandi né neitandi.

Hringsönnun er villa sem er fólgin í því að niðurstaðan styður forsenduna. Þetta er ein leið til þess að gefa sér það sem átti að sýna fram á.

Ad hominem rök eru nefnd persónurök eða persónuníð á íslensku. Þau felast í að ráðast á persónuna fremur en málflutning hennar, svo sem að benda á að Jón sé glæpamaður í stað þess að svara rökum hans. Þess má geta að heitið ad hominem er stundum notað um það þegar einhver fellst á og styðst við forsendur viðmælanda síns einungis rökræðunnar vegna, en þá er ekki um rökvillu að ræða.

Hræðslurök eða ógnarrök eru fólgin í því að reyna að sannfæra aðra um að gera eitthvað með því að benda á skelfilegar afleiðingar þess að gera það ekki. Stundum eru fótfesturök notuð sem eins konar ógnarrök. Um fótfesturök og hrúgurök, sem eru náskyld fótfesturökum, hefur höfundur þegar fjallað í svörunum Hvað eru sleipurök? og Hvað eru hrúgurök?

Þegar vísað er til almannadóms eða hefða er reynt að sannfæra aðra með því að benda á að af því að flestir séu einhverrar skoðunar hljóti hún að vera rétt, eða að fyrst eitthvað sé hefð hljóti það að vera gott og gilt. Til dæmis gæti einhver reynt að halda því fram að hann megi aka of hratt af því að það geri allir eða að guð hljóti að vera til af því að það trúi því svo margir.

Stundum er reynt að sannfæra aðra með því að höfða til tilhneigingar manna til þess að vilja falla í hópinn. Því er ef til vill haldið fram að margir hafi einhverja skoðun og þess vegna ættir þú að hafa þá skoðun líka. Þetta er mjög algeng auglýsingabrella. Rök af þessu tagi eru nefnd múgrök og eru skyld rökunum að ofan þar sem vísað er til almannadóms.

Nafnatog nefnist rökvilla sem er skyld bæði múgrökum og rökum sem vísa til almannadóms. Haldið er fram að skoðun sé rétt eða reynt er að gera hana álitlegri með því að benda á að þekkt og virt manneskja sé þessarar skoðunar.

Átyllurök ganga út á að andmæla einhverju sem ekki var haldið fram. Ósjaldan eru átyllurök þannig að rök andstæðingsins eru ýkt eða sett fram þannig að auðveldara er að hrekja þau.


Post hoc rökvillan virðist vera nokkuð algeng þegar skýra á hvers vegna fólk læknast af sjúkdómum eins og kvefi. Menn sem verða kvefaðir reyna oft að stemma stigu við kvefinu með ýmsum ráðum. Þegar veikindin lagast er þessum ráðstöfunum þakkaður batinn, en raunin er oft sú að mönnum hefði batnað með tímanum hvað svo sem þeir hefðu gert.

Post hoc rökvillan heitir fullu nafni post hoc ergo propter hoc. Heitið er latneskt og þýðir „á eftir þessu, þess vegna út af þessu“. Villan er fólgin í að álykta að af því að eitt gerist á eftir öðru hljóti hið síðara að orsakast af hinu fyrra.

Ad hoc er latína og þýðir „til þessa“. Orðasambandið er notað í margvíslegu samhengi en þegar talað er um ad hoc rök eða skýringar er átt við eftir á rök og eftir á skýringar. Eftir á rök eru rök sem eru tínd til og notuð til að styðja niðurstöðu sem maður er þegar sannfærður um. Slíkt þarf ekki að fela í sér villu af neinu tagi.

Eftir á skýringu er ætlað að skýra burt vitnisburð sem annars væri á skjön við einhverja kenningu eða tilgátu. Eftir á skýring þarf ekki heldur að fela í sér villu en þó ber að hafa í huga að ef sífellt eru gefnar eftir á skýringar þegar eitthvað brýtur í bága við tiltekna kenningu eða tilgátu, þá hættir hún að vera hrekjanleg og þar með fer lítið fyrir vísindalegu gildi hennar.

Til er aragrúi af rökvillum en hér hafa aðeins verið nefndar nokkrar algengar villur. Hafa ber í huga að sumar villurnar eru til í ýmsum afbrigðum.


* Hér er forliðurinn „Sigga kann að spila á píanó“ og bakliðurinn „Sigga kann að spila á hljóðfæri“. Skilyrðissambandið er sambandið á milli forliðar og bakliðar: „Ef..., þá...“


Heimildir og myndir

...