Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hver var Maria Montessori?

Þórdís Þórðardóttir

Æviágrip:

Maria Montessori fæddist í Chiaravelle nálægt Ancona á Ítalíu 31. ágúst 1870 og dó í Noordwijk í Hollandi 6. maí 1952. Hún varð fyrst ítalskra kvenna til þess að ljúka prófi í læknisfræði frá háskólanum í Róm, árið 1896, og starfaði að því loknu með þroskahömluðum börnum á San Giovanni-sjúkrahúsinu þar í borg. Þar skilgreindi hún, fyrst manna, þroskahömlun sem uppeldislegt viðfangsefni í stað þess að telja hana læknisfræðilegt vandamál eins og venjan bauð.

Árið 1901 hóf Montessori á ný reglubundið nám, samhliða kennslu í læknadeild háskólans í Róm og varð prófessor í mannfræði á tímabilinu 1904-1908. Árið 1907 ákvað hún að fórna akademískum starfsframa sínum þegar hún þáði boð um að setja á laggirnar skóla (Casa dei bambini) fyrir ung börn í fátækrahverfinu San Lorenzo í Róm. Skólinn vakti fljótt heimsathygli fyrir afburðanámsárangur barnanna þar og fræðimenn flykktust til Rómar að berja undrið augum. Á heimssýningunni í San Fransisco 1915, þar sem hún sýndi aðferðir Casa dei bambini í „glerhússkennslustofu“ jókst aðdáun fólks á aðferðum hennar enn frekar.

Montessori var virk kvenfrelsiskona og flutti meðal annars erindi um atvinnuþátttöku ítalskra kvenna á kvennaráðstefnu í Berlín árið 1896 og barnaþrælkun á sömu ráðstefnu í London árið 1900. Hún færði rök fyrir því að tækniþróun mundi leysa vinnu kvenna á heimilum af hólmi og að konur mundu öðlast réttindi til jafns við karla. Árið 1912 hélt hún því fram að þær efnahagslegu og þjóðfélagslegu breytingar sem urðu á fyrri hluta 20. aldar beinlínis krefðust þess að konur tækju sér stöðu sem launþegar og hafnaði skoðunum sumra kollega sinna um að jafnrétti kynjanna mundi ganga af fjölskyldum dauðum.

Í Bandaríkjunum var henni vel tekið í fyrstu, en þar eignaðist hún öflugan andstæðing, William Heard Kilpatrick (1887-1965), sem var hægri hönd Johns Deweys (1859-1952), og gaf út harðorða gagnrýni á hugmyndir hennar sem virtust hafa dregið úr vinsældum hennar þar vestra um hríð.

Á fasistatímabilinu á Ítalíu var skólum Montessori lokað og aðferðir hennar bannaðar þegar hún neitaði að börnin gengju í einkennisbúningum fasistahreyfingar Mussolinis. Hún flúði til Spánar en hraktist þaðan til Indlands þegar borgarastyrjöldin braust út á Spáni 1936. Á Indlandi kenndi hún fræði sín og þróaði kennsluaðferðir fyrir börn á grunnskólaaldri allt til ársins 1947. Þá flutti til Hollands og hélt starfi sínu áfram þar. Montessori var þrisvar tilnefnd til Nóbelsverðlauna árin 1949, 1950 og 1951 en hlaut þau aldrei. Mynd hennar prýddi ítalska 1000 líru seðilinn sem var í gildi þar til evran tók við sem gjaldmiðill á Ítalíu árið 2002.

Maria Montessori prýddi ítalska 1000 líru seðilinn. Hann er þó ekki lengur í gildi eftir upptöku evrunnar.

Montessori-aðferðin:

Í kenningum sínum lýsir Montessori menntun og skynjun sem órjúfanlegri heild. Hún taldi næm skynfæri forsendu náms og lagði mikla áherslu á menntun skilningarvitanna (e. education of the senses). Rannsóknaraðferðir hennar áttu rætur í tilraunasálfræði en rannsóknir fóru fram í skólastofum þar sem kennarar fylgdust með og skráðu athafnir barna í þeim tilgangi að öðlast þekkingu á námsleiðum hvers barns fyrir sig. Beitt var nákvæmum athugunum og skráningum á þroska, atferli og námsferli en niðurstöðurnar sýndu að börn hafa innbyggða þörf til að læra með því að framkvæma sjálf og á grundvelli þeirra setti Montessori fyrst manna fram tilgátur og kenningar um næmiskeið barna.

Niðurstöður mælinga hennar sýndu fjögur þroskaskeið (Montessori, 1967) sem skarast og dreifast frá 0-18 ára en skeiðin einkennast af:

  1. næmi fyrir tungumálum, smáatriðum í skipan hluta og fyrirbæra og samskiptum
  2. hvöt til að beita skynsemi, byggja upp siðferði, þróa félagatengsl og þörf fyrir að ná valdi á röksemdum og ímyndum
  3. ójafnvægi, líffræðilegum breytingum og kynþroska, skynjun á réttlæti og persónulegri sómakennd
  4. þörf fyrir sjálfstæði og löngun til skilja menningu, standa á eigin fótum og vinna fyrir sér.
Montessori þróaði leikföng með innbyggðum þrautum sem reyndu á skynfæri og hugsun og hentuðu mismunandi næmiskeiðum. Leikföngin eru þannig úr garði gerð að börn leysa þrautirnar á eigin forsendum án samkeppni við önnur börn, en það taldi Montessori að kæmi í veg fyrir vanmáttartilfinningu hjá börnunum. Montessori taldi mikilvægt að fága skynjun og smekk barnanna og því voru öll leikföng og kennslutæki í Casa dei bambini úr vönduðum efnivið og húsgögn sérhönnuð í hæð barna. Á borðum var vandað postulín, listaverk prýddu veggi og húsakynni og garðar voru fagurlega hannaðir.

Árið 1920 greindi Aðalbjörg Sigurðardóttir frá kenningum Montessori í Skólablaðinu og segir að bækur Montessori hafi þá þegar verið þýddar á ein sextán tungumál. Víst er að bækur hennar hafa síðan verið þýddar á fjölmörg tungumál og fleiri bækur skrifaðar um aðferðir hennar í tímans rás. Hún var einn helsti frumkvöðull umbótauppeldisfræðinnar í Evrópu og taldi menntun felast í færni til að skapa sér sjálfstæða þekkingu sem gagnast í daglegu lífi og til að tileinka sér greinandi og gagnrýna hugsun sem hún taldi forsendu virkrar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Montessori í samtímanum:

Hugmyndafræði Montessori lifir góðu lífi nú í upphafi 21. aldar. Montessori (1912) líkti skólastofnunum við leg sem fóstrar, líkt og Sókrates líkti kennslu við ljósmóðurstörf, en kenningar hennar hafa verið túlkaðar á ýmsa lund. Jane Roland Martin (1992) nefnir Montessori-aðferðina týnda hlekkinn í bandarísku menntakerfi með tilvísun í það að ofbeldis- og skemmdarverk í bandarískum skólum megi rekja til skorts á siðmennt sem ræktuð var í Casa dei Bambini og virtist helsta ástæða þess að dró úr ofbeldi og skemmdarverkum í San Lorenzo meðan skólinn var starfræktur. Þar var lögð áhersla á lýðræðislega kennsluhætti og sjónum beint að námi barna. Skólinn var hugsaður sem æfingasvæði fyrir börn til að þjálfa eigin færni, með kennara á hliðarlínunni til að rétta hjálparhönd þegar á þurfti að halda. Stundatöflur voru sveigjanlegar og áhersla á að börnum liði vel og öðluðust tilfinningu fyrir að tilheyra hópi og færni í samkennd (e. empathy) um leið og þau temdu sér sjálfstæði. Nú er talið að um 22.000 Montessori-skólar séu starfræktir í um það bil 110 löndum (Whitescarver og Cossentino, 2008).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Aðalbjörg Sigurðardóttir (1920). Dr. Maria Montessori. Skólablaðið (12) 8, 104-108.
  • Martin, J. R. (1992). The Schoolhome: Rethinking schools for changing families. Harvard University Press.
  • Montessori, M. (1912). The Montessori method.
  • Montessori, M. (1967). The Absorbent Mind. New York: Delta.
  • Whitescarver og Cossentino (2009). Montessori and the mainstream: a century of Reform in the margins. Teacher College record (110) 12, 2571-2600.

Myndir:

Höfundur

dósent í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ

Útgáfudagur

5.5.2011

Spyrjandi

Ingibjörg Jenný Leifsdóttir

Tilvísun

Þórdís Þórðardóttir. „Hver var Maria Montessori?“ Vísindavefurinn, 5. maí 2011. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59615.

Þórdís Þórðardóttir. (2011, 5. maí). Hver var Maria Montessori? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59615

Þórdís Þórðardóttir. „Hver var Maria Montessori?“ Vísindavefurinn. 5. maí. 2011. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59615>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Maria Montessori?
Æviágrip:

Maria Montessori fæddist í Chiaravelle nálægt Ancona á Ítalíu 31. ágúst 1870 og dó í Noordwijk í Hollandi 6. maí 1952. Hún varð fyrst ítalskra kvenna til þess að ljúka prófi í læknisfræði frá háskólanum í Róm, árið 1896, og starfaði að því loknu með þroskahömluðum börnum á San Giovanni-sjúkrahúsinu þar í borg. Þar skilgreindi hún, fyrst manna, þroskahömlun sem uppeldislegt viðfangsefni í stað þess að telja hana læknisfræðilegt vandamál eins og venjan bauð.

Árið 1901 hóf Montessori á ný reglubundið nám, samhliða kennslu í læknadeild háskólans í Róm og varð prófessor í mannfræði á tímabilinu 1904-1908. Árið 1907 ákvað hún að fórna akademískum starfsframa sínum þegar hún þáði boð um að setja á laggirnar skóla (Casa dei bambini) fyrir ung börn í fátækrahverfinu San Lorenzo í Róm. Skólinn vakti fljótt heimsathygli fyrir afburðanámsárangur barnanna þar og fræðimenn flykktust til Rómar að berja undrið augum. Á heimssýningunni í San Fransisco 1915, þar sem hún sýndi aðferðir Casa dei bambini í „glerhússkennslustofu“ jókst aðdáun fólks á aðferðum hennar enn frekar.

Montessori var virk kvenfrelsiskona og flutti meðal annars erindi um atvinnuþátttöku ítalskra kvenna á kvennaráðstefnu í Berlín árið 1896 og barnaþrælkun á sömu ráðstefnu í London árið 1900. Hún færði rök fyrir því að tækniþróun mundi leysa vinnu kvenna á heimilum af hólmi og að konur mundu öðlast réttindi til jafns við karla. Árið 1912 hélt hún því fram að þær efnahagslegu og þjóðfélagslegu breytingar sem urðu á fyrri hluta 20. aldar beinlínis krefðust þess að konur tækju sér stöðu sem launþegar og hafnaði skoðunum sumra kollega sinna um að jafnrétti kynjanna mundi ganga af fjölskyldum dauðum.

Í Bandaríkjunum var henni vel tekið í fyrstu, en þar eignaðist hún öflugan andstæðing, William Heard Kilpatrick (1887-1965), sem var hægri hönd Johns Deweys (1859-1952), og gaf út harðorða gagnrýni á hugmyndir hennar sem virtust hafa dregið úr vinsældum hennar þar vestra um hríð.

Á fasistatímabilinu á Ítalíu var skólum Montessori lokað og aðferðir hennar bannaðar þegar hún neitaði að börnin gengju í einkennisbúningum fasistahreyfingar Mussolinis. Hún flúði til Spánar en hraktist þaðan til Indlands þegar borgarastyrjöldin braust út á Spáni 1936. Á Indlandi kenndi hún fræði sín og þróaði kennsluaðferðir fyrir börn á grunnskólaaldri allt til ársins 1947. Þá flutti til Hollands og hélt starfi sínu áfram þar. Montessori var þrisvar tilnefnd til Nóbelsverðlauna árin 1949, 1950 og 1951 en hlaut þau aldrei. Mynd hennar prýddi ítalska 1000 líru seðilinn sem var í gildi þar til evran tók við sem gjaldmiðill á Ítalíu árið 2002.

Maria Montessori prýddi ítalska 1000 líru seðilinn. Hann er þó ekki lengur í gildi eftir upptöku evrunnar.

Montessori-aðferðin:

Í kenningum sínum lýsir Montessori menntun og skynjun sem órjúfanlegri heild. Hún taldi næm skynfæri forsendu náms og lagði mikla áherslu á menntun skilningarvitanna (e. education of the senses). Rannsóknaraðferðir hennar áttu rætur í tilraunasálfræði en rannsóknir fóru fram í skólastofum þar sem kennarar fylgdust með og skráðu athafnir barna í þeim tilgangi að öðlast þekkingu á námsleiðum hvers barns fyrir sig. Beitt var nákvæmum athugunum og skráningum á þroska, atferli og námsferli en niðurstöðurnar sýndu að börn hafa innbyggða þörf til að læra með því að framkvæma sjálf og á grundvelli þeirra setti Montessori fyrst manna fram tilgátur og kenningar um næmiskeið barna.

Niðurstöður mælinga hennar sýndu fjögur þroskaskeið (Montessori, 1967) sem skarast og dreifast frá 0-18 ára en skeiðin einkennast af:

  1. næmi fyrir tungumálum, smáatriðum í skipan hluta og fyrirbæra og samskiptum
  2. hvöt til að beita skynsemi, byggja upp siðferði, þróa félagatengsl og þörf fyrir að ná valdi á röksemdum og ímyndum
  3. ójafnvægi, líffræðilegum breytingum og kynþroska, skynjun á réttlæti og persónulegri sómakennd
  4. þörf fyrir sjálfstæði og löngun til skilja menningu, standa á eigin fótum og vinna fyrir sér.
Montessori þróaði leikföng með innbyggðum þrautum sem reyndu á skynfæri og hugsun og hentuðu mismunandi næmiskeiðum. Leikföngin eru þannig úr garði gerð að börn leysa þrautirnar á eigin forsendum án samkeppni við önnur börn, en það taldi Montessori að kæmi í veg fyrir vanmáttartilfinningu hjá börnunum. Montessori taldi mikilvægt að fága skynjun og smekk barnanna og því voru öll leikföng og kennslutæki í Casa dei bambini úr vönduðum efnivið og húsgögn sérhönnuð í hæð barna. Á borðum var vandað postulín, listaverk prýddu veggi og húsakynni og garðar voru fagurlega hannaðir.

Árið 1920 greindi Aðalbjörg Sigurðardóttir frá kenningum Montessori í Skólablaðinu og segir að bækur Montessori hafi þá þegar verið þýddar á ein sextán tungumál. Víst er að bækur hennar hafa síðan verið þýddar á fjölmörg tungumál og fleiri bækur skrifaðar um aðferðir hennar í tímans rás. Hún var einn helsti frumkvöðull umbótauppeldisfræðinnar í Evrópu og taldi menntun felast í færni til að skapa sér sjálfstæða þekkingu sem gagnast í daglegu lífi og til að tileinka sér greinandi og gagnrýna hugsun sem hún taldi forsendu virkrar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Montessori í samtímanum:

Hugmyndafræði Montessori lifir góðu lífi nú í upphafi 21. aldar. Montessori (1912) líkti skólastofnunum við leg sem fóstrar, líkt og Sókrates líkti kennslu við ljósmóðurstörf, en kenningar hennar hafa verið túlkaðar á ýmsa lund. Jane Roland Martin (1992) nefnir Montessori-aðferðina týnda hlekkinn í bandarísku menntakerfi með tilvísun í það að ofbeldis- og skemmdarverk í bandarískum skólum megi rekja til skorts á siðmennt sem ræktuð var í Casa dei Bambini og virtist helsta ástæða þess að dró úr ofbeldi og skemmdarverkum í San Lorenzo meðan skólinn var starfræktur. Þar var lögð áhersla á lýðræðislega kennsluhætti og sjónum beint að námi barna. Skólinn var hugsaður sem æfingasvæði fyrir börn til að þjálfa eigin færni, með kennara á hliðarlínunni til að rétta hjálparhönd þegar á þurfti að halda. Stundatöflur voru sveigjanlegar og áhersla á að börnum liði vel og öðluðust tilfinningu fyrir að tilheyra hópi og færni í samkennd (e. empathy) um leið og þau temdu sér sjálfstæði. Nú er talið að um 22.000 Montessori-skólar séu starfræktir í um það bil 110 löndum (Whitescarver og Cossentino, 2008).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Aðalbjörg Sigurðardóttir (1920). Dr. Maria Montessori. Skólablaðið (12) 8, 104-108.
  • Martin, J. R. (1992). The Schoolhome: Rethinking schools for changing families. Harvard University Press.
  • Montessori, M. (1912). The Montessori method.
  • Montessori, M. (1967). The Absorbent Mind. New York: Delta.
  • Whitescarver og Cossentino (2009). Montessori and the mainstream: a century of Reform in the margins. Teacher College record (110) 12, 2571-2600.

Myndir:...