Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver var Benjamín H.J. Eiríksson og hvert var hans framlag til hagstjórnar á Íslandi?

Ásgeir Jónsson

Krafan um fríverslun við erlendar þjóðir var ein af höfuðkröfum Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu öld. Það var skoðun manna eins og Jóns Sigurðssonar forseta að verslunarfrelsi væri í raun forsenda fyrir þjóðfrelsi og einn af mestu sigrum hans í sjálfstæðisbaráttunni var að fá síðustu leifar dönsku verslunareinokunarinnar numdar á brott árið 1855. Sama átti við um eldheita þjóðernissinna á borð við Einar Benediktsson, sem áleit erlent fjármagn vera forsendu þess að Íslendingar yrðu óháðir Dönum. Það er heldur engum blöðum um það að fletta að iðnvæðing landsins – vélvæðing togaraflotans – var rekin áfram með erlendu fjármagni, hvort sem um var að ræða beina fjárfestingu eða lán frá Íslandsbanka sem var í erlendri eigu.

Hins vegar hafa fáar þjóðir í hinum vestræna heimi snúið svo hratt baki við umheiminum með höftum og bönnum eftir að sjálfstæði var fengið, líkt og Íslendingar. Fullveldið fékkst árið 1918 og íslenska krónan varð þá sjálfstæð mynt. Aðeins tveimur árum síður gengu landsmenn í gegnum fyrstu gjaldeyriskreppuna. Þannig hófst saga gjaldeyrisvandræða og verðbólgu sem hefur raunar staðið óslitin fram á okkar daga. Íslendingar voru aldeilis óviðbúnir að reka eigin mynt og stunda sjálfstæða efnahagsstjórn þegar til átti að taka. Þeir brugðist því við með því draga sig úr alþjóðasamfélaginu. Árið 1930 féll Íslandsbanki, eini einkabanki landsins, í lausafjáráhlaupi og þá var teningunum kastað. Á eftir fylgdu fjármagnshöft og síðan innflutningshöft sem reyrðust þéttar og þéttar að íslensku efnahagslífi með hverju árinu sem leið, í því augnmiði að spara gjaldeyri. Við lok seinni heimsstyrjaldar var Ísland ein ríkasta þjóð Evrópu en gat þó ekki flutt inn í ávexti nema aðeins fyrir jólin!

Framlag Benjamíns H.J. Eiríkssonar til Íslandssögunnar er fyrst og fremst fólgið í því að snúa þessari þróun við og fá landsmenn til þess að fylgja fordæmi Jóns Sigurðssonar með viðskiptafrelsi og reka síðan hagstjórn að erlendri fyrirmynd til þess að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu. Hér lék Benjamín aðalhlutverk vegna þekkingar í hagfræði en einnig vegna óbilandi sannfæringar á gildi markaðsfrelsis. Koma hans hingað til lands eftir nám var því eins og ferskur andblær inn í loftlausan hugmyndaheim íslenskra stjórnmála.

Hagfræðimenntun Benjamíns var að mörgu leyti einstök. Hann stundaði nám bæði í Berlín og Moskvu í upphafi fjórða áratugarins og kynntist af eigin raun helstu alræðishugmyndum tuttugustu aldar, nasisma og kommúnisma. Hann horfði á þinghúsið í Berlín brenna þann 30. janúar 1933 en það varð Hitler að átyllu til að taka sér alræðisvald. Hann fann einnig fyrir hreinsunum Stalíns á eigin skinni, þar sem þýsk unnusta hans var flutt í vinnubúðir og dóttir hans á munaðarleysingjahæli. Þær hurfu báðar. Benjamín er líklega eini Íslendingurinn sem sá bæði Hitler og Stalín með eigin augum.

Menntun Benjamíns er þó einnig einstök frá sjónarmiði nútíma hagvísinda þar sem hann stundaði meistaranám við Stokkhólmsháskóla og kennarar hans voru meðal annars Eli Heckscher (1879-1952), Bertil Ohlin (1899-1979) og Gunnar Myrdal (1898-1987). Svíþjóð var á þessum tíma í fararbroddi í hagfræði í heiminum og nú útskrifast enginn hagfræðinemi án þess að kynnast nöfnum þessara manna. Aukinheldur stundaði Benjamín einnig doktorsnám við Harvard-háskóla og skrifaði doktorsritgerð undir handleiðslu Joseph Schumpeter (1883-1950) sem telst til austurríska skólans í hagfræði. Schumpeter er meðal annars annars höfundur hugtaksins um skapandi eyðileggingu (e. creative destruction) í hagfræði, en það útskýrir hvernig kreppur eru nauðsynlegar til þess að endurnýja efnahagslífið. Nafni hans nú á tímum er þó samt helst haldið á lofti í viðskiptafræði þar sem hann er faðir frumkvöðlafræða í þeirri grein.

Benjamín fékk áhuga á hagfræði vegna þess að hann aðhylltist sósíalisma sem títt var um hagfræðinga hérlendis á tuttugustu öld. Skoðanir hans snerust þó eftir því sem námi hans vatt fram. Að doktorsprófi loknu árið 1946 hóf hann störf hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum allt þar til hann sneri aftur til Íslands árið 1949 sem efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Hugmyndir Benjamíns um opnun utanríkisviðskipta náðu þó ekki strax fram að ganga. Landsmenn sukku dýpra niður í haftabúskapinn allt þar til Viðreisnarstjórnin tók við árið 1960. Benjamín varð hins vegar bankastjóri Framkvæmdabankans árið 1953 sem endurlánaði erlent fjármagn til ýmissa þjóðþrifaverkefna hérlendis. Hann lét þar af störfum árið 1965 vegna vanheilsu á geði en lifði að öðru leyti við góða heilsu allt til ársins 2000.

Benjamín var mjög vel ritfær maður og flest af því sem hann skrifaði miðaði að því að skýra gang efnahagslífsins fyrir bæði almenningi og stjórnmálamönnum. Eftir að hann kom úr námi frá Svíþjóð gaf sjálfur út bók á eigin kostnað er bar heitið Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálum. Þetta er ein merkasta bók sem rituð hefur verið um hagfræði á íslensku. Þar sýnir Benjamín fram á að sú tilhögun að láta Landsbankann vera bæði viðskiptabanka og seðlabanka væri rót vandræðanna í gjaldeyrismálum þjóðarinnar þar sem peningaprentun seðlabankahlutans væri ókeypis fjármögnun fyrir útlánum viðskiptabankahlutans. Þannig væri of mikil peningaprentun – sem væri veitt út í hagkerfið með útlánum Landsbankans – helsta ástæðan fyrir miklum viðskiptahalla landsins sem aftur stuðlaði að haftakerfinu. Samt sem sem áður liðu 20 ár þar til stjórnvöld brugðust við með því að stofna sérstakan seðlabanka. En eins og atvinnumálaráðherra landsins, Skúli Guðmundsson, sagði við Benjamín á þeim tíma: „Hér á Íslandi er allt svo öðruvísi en annars staðar, þess vegna þurfum við enga hagfræðinga“.

Helsta fræðilega verk Benjamíns var doktorsritgerð hans Outline of an Economic Theory sem gefin var út 1954 og fjallar um vexti og tímavirði peninga. Hún hefur fengið mun minni athygli en vert væri.

Eftir Benjamín liggja ritgerðarsöfnin Ég er (1983), Rit 1938-1965: Gefin út í tilefni áttræðisafmælis höfundar 19. október 1990 (1990) og Hér og nú (1992). Enn fremur var ævisaga hans Í stormum sinna tíða rituð af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og gefin út 1996.

Þrátt fyrir veikindi sín hélt Benjamín áfram að rita fjölda greina um efnahagsmál í íslensk blöð, allt fram á síðustu æviár. Greinar hans voru ávallt studdar góðri þekkingu og rökvísi og oft var sem hann væri helsta rödd skynseminnar í almennri þjóðmálaumræðu. Honum var títt gengið um miðbæinn á sínum efri árum og var þar auðþekktur í klæðskerasaumuðum jakkafötum en með skegg og hár niður á bringu.

Sú óþægilega tilfinning læðist oft að þeim sem kynna sér sagnfræði að sagan endurtaki sig með reglulegu millibili og landsmenn séu því aftur komnir á sama stað og árið 1930 þegar efnahagsstefna landsins hefur siglt í strand með gjaldeyriskreppu og bankahruni. Spurningin er aftur á móti sú hvort eftirleikurinn verði sá sami og hvort dyrum verði aftur lokað á umheiminn eða hvort íslenska þjóðin beri gæfu til þess að læra af sögunni og taka við leiðbeiningum frá þeim Jóni Sigurðssyni forseta og Benjamín H.J. Eiríkssyni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • Úr safni GH.

Höfundur

lektor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

18.1.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ásgeir Jónsson. „Hver var Benjamín H.J. Eiríksson og hvert var hans framlag til hagstjórnar á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 18. janúar 2011. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58140.

Ásgeir Jónsson. (2011, 18. janúar). Hver var Benjamín H.J. Eiríksson og hvert var hans framlag til hagstjórnar á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58140

Ásgeir Jónsson. „Hver var Benjamín H.J. Eiríksson og hvert var hans framlag til hagstjórnar á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 18. jan. 2011. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58140>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Benjamín H.J. Eiríksson og hvert var hans framlag til hagstjórnar á Íslandi?
Krafan um fríverslun við erlendar þjóðir var ein af höfuðkröfum Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu öld. Það var skoðun manna eins og Jóns Sigurðssonar forseta að verslunarfrelsi væri í raun forsenda fyrir þjóðfrelsi og einn af mestu sigrum hans í sjálfstæðisbaráttunni var að fá síðustu leifar dönsku verslunareinokunarinnar numdar á brott árið 1855. Sama átti við um eldheita þjóðernissinna á borð við Einar Benediktsson, sem áleit erlent fjármagn vera forsendu þess að Íslendingar yrðu óháðir Dönum. Það er heldur engum blöðum um það að fletta að iðnvæðing landsins – vélvæðing togaraflotans – var rekin áfram með erlendu fjármagni, hvort sem um var að ræða beina fjárfestingu eða lán frá Íslandsbanka sem var í erlendri eigu.

Hins vegar hafa fáar þjóðir í hinum vestræna heimi snúið svo hratt baki við umheiminum með höftum og bönnum eftir að sjálfstæði var fengið, líkt og Íslendingar. Fullveldið fékkst árið 1918 og íslenska krónan varð þá sjálfstæð mynt. Aðeins tveimur árum síður gengu landsmenn í gegnum fyrstu gjaldeyriskreppuna. Þannig hófst saga gjaldeyrisvandræða og verðbólgu sem hefur raunar staðið óslitin fram á okkar daga. Íslendingar voru aldeilis óviðbúnir að reka eigin mynt og stunda sjálfstæða efnahagsstjórn þegar til átti að taka. Þeir brugðist því við með því draga sig úr alþjóðasamfélaginu. Árið 1930 féll Íslandsbanki, eini einkabanki landsins, í lausafjáráhlaupi og þá var teningunum kastað. Á eftir fylgdu fjármagnshöft og síðan innflutningshöft sem reyrðust þéttar og þéttar að íslensku efnahagslífi með hverju árinu sem leið, í því augnmiði að spara gjaldeyri. Við lok seinni heimsstyrjaldar var Ísland ein ríkasta þjóð Evrópu en gat þó ekki flutt inn í ávexti nema aðeins fyrir jólin!

Framlag Benjamíns H.J. Eiríkssonar til Íslandssögunnar er fyrst og fremst fólgið í því að snúa þessari þróun við og fá landsmenn til þess að fylgja fordæmi Jóns Sigurðssonar með viðskiptafrelsi og reka síðan hagstjórn að erlendri fyrirmynd til þess að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu. Hér lék Benjamín aðalhlutverk vegna þekkingar í hagfræði en einnig vegna óbilandi sannfæringar á gildi markaðsfrelsis. Koma hans hingað til lands eftir nám var því eins og ferskur andblær inn í loftlausan hugmyndaheim íslenskra stjórnmála.

Hagfræðimenntun Benjamíns var að mörgu leyti einstök. Hann stundaði nám bæði í Berlín og Moskvu í upphafi fjórða áratugarins og kynntist af eigin raun helstu alræðishugmyndum tuttugustu aldar, nasisma og kommúnisma. Hann horfði á þinghúsið í Berlín brenna þann 30. janúar 1933 en það varð Hitler að átyllu til að taka sér alræðisvald. Hann fann einnig fyrir hreinsunum Stalíns á eigin skinni, þar sem þýsk unnusta hans var flutt í vinnubúðir og dóttir hans á munaðarleysingjahæli. Þær hurfu báðar. Benjamín er líklega eini Íslendingurinn sem sá bæði Hitler og Stalín með eigin augum.

Menntun Benjamíns er þó einnig einstök frá sjónarmiði nútíma hagvísinda þar sem hann stundaði meistaranám við Stokkhólmsháskóla og kennarar hans voru meðal annars Eli Heckscher (1879-1952), Bertil Ohlin (1899-1979) og Gunnar Myrdal (1898-1987). Svíþjóð var á þessum tíma í fararbroddi í hagfræði í heiminum og nú útskrifast enginn hagfræðinemi án þess að kynnast nöfnum þessara manna. Aukinheldur stundaði Benjamín einnig doktorsnám við Harvard-háskóla og skrifaði doktorsritgerð undir handleiðslu Joseph Schumpeter (1883-1950) sem telst til austurríska skólans í hagfræði. Schumpeter er meðal annars annars höfundur hugtaksins um skapandi eyðileggingu (e. creative destruction) í hagfræði, en það útskýrir hvernig kreppur eru nauðsynlegar til þess að endurnýja efnahagslífið. Nafni hans nú á tímum er þó samt helst haldið á lofti í viðskiptafræði þar sem hann er faðir frumkvöðlafræða í þeirri grein.

Benjamín fékk áhuga á hagfræði vegna þess að hann aðhylltist sósíalisma sem títt var um hagfræðinga hérlendis á tuttugustu öld. Skoðanir hans snerust þó eftir því sem námi hans vatt fram. Að doktorsprófi loknu árið 1946 hóf hann störf hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum allt þar til hann sneri aftur til Íslands árið 1949 sem efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Hugmyndir Benjamíns um opnun utanríkisviðskipta náðu þó ekki strax fram að ganga. Landsmenn sukku dýpra niður í haftabúskapinn allt þar til Viðreisnarstjórnin tók við árið 1960. Benjamín varð hins vegar bankastjóri Framkvæmdabankans árið 1953 sem endurlánaði erlent fjármagn til ýmissa þjóðþrifaverkefna hérlendis. Hann lét þar af störfum árið 1965 vegna vanheilsu á geði en lifði að öðru leyti við góða heilsu allt til ársins 2000.

Benjamín var mjög vel ritfær maður og flest af því sem hann skrifaði miðaði að því að skýra gang efnahagslífsins fyrir bæði almenningi og stjórnmálamönnum. Eftir að hann kom úr námi frá Svíþjóð gaf sjálfur út bók á eigin kostnað er bar heitið Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálum. Þetta er ein merkasta bók sem rituð hefur verið um hagfræði á íslensku. Þar sýnir Benjamín fram á að sú tilhögun að láta Landsbankann vera bæði viðskiptabanka og seðlabanka væri rót vandræðanna í gjaldeyrismálum þjóðarinnar þar sem peningaprentun seðlabankahlutans væri ókeypis fjármögnun fyrir útlánum viðskiptabankahlutans. Þannig væri of mikil peningaprentun – sem væri veitt út í hagkerfið með útlánum Landsbankans – helsta ástæðan fyrir miklum viðskiptahalla landsins sem aftur stuðlaði að haftakerfinu. Samt sem sem áður liðu 20 ár þar til stjórnvöld brugðust við með því að stofna sérstakan seðlabanka. En eins og atvinnumálaráðherra landsins, Skúli Guðmundsson, sagði við Benjamín á þeim tíma: „Hér á Íslandi er allt svo öðruvísi en annars staðar, þess vegna þurfum við enga hagfræðinga“.

Helsta fræðilega verk Benjamíns var doktorsritgerð hans Outline of an Economic Theory sem gefin var út 1954 og fjallar um vexti og tímavirði peninga. Hún hefur fengið mun minni athygli en vert væri.

Eftir Benjamín liggja ritgerðarsöfnin Ég er (1983), Rit 1938-1965: Gefin út í tilefni áttræðisafmælis höfundar 19. október 1990 (1990) og Hér og nú (1992). Enn fremur var ævisaga hans Í stormum sinna tíða rituð af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og gefin út 1996.

Þrátt fyrir veikindi sín hélt Benjamín áfram að rita fjölda greina um efnahagsmál í íslensk blöð, allt fram á síðustu æviár. Greinar hans voru ávallt studdar góðri þekkingu og rökvísi og oft var sem hann væri helsta rödd skynseminnar í almennri þjóðmálaumræðu. Honum var títt gengið um miðbæinn á sínum efri árum og var þar auðþekktur í klæðskerasaumuðum jakkafötum en með skegg og hár niður á bringu.

Sú óþægilega tilfinning læðist oft að þeim sem kynna sér sagnfræði að sagan endurtaki sig með reglulegu millibili og landsmenn séu því aftur komnir á sama stað og árið 1930 þegar efnahagsstefna landsins hefur siglt í strand með gjaldeyriskreppu og bankahruni. Spurningin er aftur á móti sú hvort eftirleikurinn verði sá sami og hvort dyrum verði aftur lokað á umheiminn eða hvort íslenska þjóðin beri gæfu til þess að læra af sögunni og taka við leiðbeiningum frá þeim Jóni Sigurðssyni forseta og Benjamín H.J. Eiríkssyni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • Úr safni GH.
...