Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvers vegna lygnir oft á kvöldin?

Trausti Jónsson

Á flestum veðurstöðvum er meðalvindhraði í hámarki milli kl. 16 og 18, en síðan lægir nokkuð ört, mest milli klukkan 20 og 22. Að jafnaði er vindur hægastur undir morgun, á sumrin milli kl. 4 og 6. Að sumarlagi munar gjarnan um 2 m/s á meðalvindhraða dags og nætur, oftast þó meira í björtu veðri. Samfara breytingum í vindhraða snýst vindur oftast á áttinni, blæs af hafi að deginum, en af landi að nóttu. Regluleg dægursveifla vindhraða er meiri á sumri en vetri, á vetrum ræður tilfallandi staða þrýstikerfa mestu um vindhraða, auk þess sem lítill munur er þá á geislunarbúskap dags og nætur.

Tvennt veldur því að vindur er að meðaltali meiri að degi en nóttu. Mishitun lands- og sjávaryfirborðs kemur af stað haf- og landgoluhringrás eins og nánar er vikið að hér að neðan. Hitunin á daginn hefur einnig þau áhrif að stöðugleiki lofts næst jörðu minnkar, litlir uppstreymissveipir mynda ókyrrð (kviku) og vindhviður, jafnvel þó eiginleg hafgola nái sér ekki á strik. Vindur er af þessum ástæðum báðum mestur síðdegis þegar land er heitast og loft óstöðugast. Um það leyti er hitamunur lands og sjávar mestur.

Á sólríkum dögum hitnar yfirborð lands mun meira en yfirborð sjávar. Ástæður má telja nokkrar. Í fyrsta lagi er varmarýmd vatns meiri en þurrlendis (varmarýmd segir til um það hve mikinn varma (orku) þurfi til þess að hita efni um til dæmis eina gráðu – eftir því sem varmarýmdin er meiri verður upphitunin hægari). Í öðru lagi er vatnið að hluta til gegnsætt, hluti orku sólargeislanna berst niður fyrir yfirborð og í þriðja lagi fer hluti geislunarorku á vatnsflöt í uppgufun. Á nóttunni glatar þurrlendi fljótt varma úr yfirborði, en sjór kólnar síður vegna meiri varmarýmdar. Sjórinn er nokkurn veginn jafnheitur á nóttu sem degi. Að jafnaði er því hlýrra á daginn yfir landi en yfir sjó, en oft öfugt að nóttu. Rétt er þó að hafa í huga að ekki er allt þurrlendi eins hvað varðar varma- og geislunareiginleika.



Einhvern tíma morguns er loft ámóta hlýtt yfir landi og sjó, sólin hitar landið sem hitar síðan loftið sem þá þenst út við að hlýna. Ágætt er að hugsa sér súlu af lofti sem bólgnar bæði upp á við og til hliðanna. Við þetta verða breytingar á þrýstingi við jörð og svonefnd hitalægð myndast yfir landinu. Í fyrsta lagi fellur þrýstingur vegna hliðarþenslunnar, en í öðru lagi kólnar loft í háloftum við það að loftið undir þrýstir því upp á við. Þetta veldur því að yfirþrýstingur verður efst í súlunni yfir landi miðað við sjó og þar streymir loft frá landi til sjávar. En við það að loft berst út úr loftsúlunni ofan til fellur þrýstingur við yfirborð og hann verður þar lægri yfir landi en yfir sjó og lægð hefur myndast. Loft streymir inn í lægðina frá sjó og inn á land, hafgolan er orðin til, útstreymi í efri lögum er mætt með innstreymi í þeim neðstu. Núningur við jörð veldur því að loft getur streymt hraðar út að ofan heldur en nýtt loft kemur inn að neðan. Nokkra klukkutíma tekur því að koma hafgolunni í gang og hún er nokkra klukkutíma að ljúka sér af. Hiti er víðast hvar hæstur um kl.15 að deginum, en hafgolan er í hámarki 1-2 klukkustundum síðar. Uppstreymi yfir landinu er síðan mætt með niðurstreymi yfir sjónum og hringrásin er fullkomnuð. Sjávarloftið er oft talsvert kaldara en landloftið og því getur kólnað snögglega þegar hafgolan ryðst inn á landið.

Um kvöldið liggur trúlega fremur þunnt lag af svölu sjávarlofti inni yfir landinu en vind hefur lægt að mestu. Loftið fær nú tækifæri til að kólna enn meir og rétt áður en sólin kemur upp næsta dag er það ef til vill orðið kaldara en það loft sem heldur sér yfir sjónum. Sólin þarf nú að byrja á því að hita það upp áður en uppstreymið nær til landloftsins frá því daginn áður. Stundum nær veik landgola sér á strik að næturlagi, það fer þó mjög eftir staðháttum og hún er mun veikari en hafgolan.

Þegar hafgolan er komin af stað stefnir hún fyrst beint á land sé vindur hægur fyrir (það er að segja ekki truflaður af þrýstivindum lægða- og hæðakerfa). Dalir og firðir beina köldu og til þess að gera þungu sjávarloftinu þannig að það leitast við að streyma framhjá fyrirstöðum og vindstrengir geta myndast. Þar sem landslag er opið við ströndina getur svigkraftur jarðar haft áhrif á vindstefnuna. Dægurhringur vindátta er mjög breytilegur frá einum stað til annars.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um vind, til dæmis:

Ítarefni:

Mynd: An Introduction to Global Change - University of Florida.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

20.12.2005

Spyrjandi

Hrafnhildur Geirsdóttir
Dagur Gunnarsson

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvers vegna lygnir oft á kvöldin?“ Vísindavefurinn, 20. desember 2005. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5500.

Trausti Jónsson. (2005, 20. desember). Hvers vegna lygnir oft á kvöldin? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5500

Trausti Jónsson. „Hvers vegna lygnir oft á kvöldin?“ Vísindavefurinn. 20. des. 2005. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5500>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna lygnir oft á kvöldin?
Á flestum veðurstöðvum er meðalvindhraði í hámarki milli kl. 16 og 18, en síðan lægir nokkuð ört, mest milli klukkan 20 og 22. Að jafnaði er vindur hægastur undir morgun, á sumrin milli kl. 4 og 6. Að sumarlagi munar gjarnan um 2 m/s á meðalvindhraða dags og nætur, oftast þó meira í björtu veðri. Samfara breytingum í vindhraða snýst vindur oftast á áttinni, blæs af hafi að deginum, en af landi að nóttu. Regluleg dægursveifla vindhraða er meiri á sumri en vetri, á vetrum ræður tilfallandi staða þrýstikerfa mestu um vindhraða, auk þess sem lítill munur er þá á geislunarbúskap dags og nætur.

Tvennt veldur því að vindur er að meðaltali meiri að degi en nóttu. Mishitun lands- og sjávaryfirborðs kemur af stað haf- og landgoluhringrás eins og nánar er vikið að hér að neðan. Hitunin á daginn hefur einnig þau áhrif að stöðugleiki lofts næst jörðu minnkar, litlir uppstreymissveipir mynda ókyrrð (kviku) og vindhviður, jafnvel þó eiginleg hafgola nái sér ekki á strik. Vindur er af þessum ástæðum báðum mestur síðdegis þegar land er heitast og loft óstöðugast. Um það leyti er hitamunur lands og sjávar mestur.

Á sólríkum dögum hitnar yfirborð lands mun meira en yfirborð sjávar. Ástæður má telja nokkrar. Í fyrsta lagi er varmarýmd vatns meiri en þurrlendis (varmarýmd segir til um það hve mikinn varma (orku) þurfi til þess að hita efni um til dæmis eina gráðu – eftir því sem varmarýmdin er meiri verður upphitunin hægari). Í öðru lagi er vatnið að hluta til gegnsætt, hluti orku sólargeislanna berst niður fyrir yfirborð og í þriðja lagi fer hluti geislunarorku á vatnsflöt í uppgufun. Á nóttunni glatar þurrlendi fljótt varma úr yfirborði, en sjór kólnar síður vegna meiri varmarýmdar. Sjórinn er nokkurn veginn jafnheitur á nóttu sem degi. Að jafnaði er því hlýrra á daginn yfir landi en yfir sjó, en oft öfugt að nóttu. Rétt er þó að hafa í huga að ekki er allt þurrlendi eins hvað varðar varma- og geislunareiginleika.



Einhvern tíma morguns er loft ámóta hlýtt yfir landi og sjó, sólin hitar landið sem hitar síðan loftið sem þá þenst út við að hlýna. Ágætt er að hugsa sér súlu af lofti sem bólgnar bæði upp á við og til hliðanna. Við þetta verða breytingar á þrýstingi við jörð og svonefnd hitalægð myndast yfir landinu. Í fyrsta lagi fellur þrýstingur vegna hliðarþenslunnar, en í öðru lagi kólnar loft í háloftum við það að loftið undir þrýstir því upp á við. Þetta veldur því að yfirþrýstingur verður efst í súlunni yfir landi miðað við sjó og þar streymir loft frá landi til sjávar. En við það að loft berst út úr loftsúlunni ofan til fellur þrýstingur við yfirborð og hann verður þar lægri yfir landi en yfir sjó og lægð hefur myndast. Loft streymir inn í lægðina frá sjó og inn á land, hafgolan er orðin til, útstreymi í efri lögum er mætt með innstreymi í þeim neðstu. Núningur við jörð veldur því að loft getur streymt hraðar út að ofan heldur en nýtt loft kemur inn að neðan. Nokkra klukkutíma tekur því að koma hafgolunni í gang og hún er nokkra klukkutíma að ljúka sér af. Hiti er víðast hvar hæstur um kl.15 að deginum, en hafgolan er í hámarki 1-2 klukkustundum síðar. Uppstreymi yfir landinu er síðan mætt með niðurstreymi yfir sjónum og hringrásin er fullkomnuð. Sjávarloftið er oft talsvert kaldara en landloftið og því getur kólnað snögglega þegar hafgolan ryðst inn á landið.

Um kvöldið liggur trúlega fremur þunnt lag af svölu sjávarlofti inni yfir landinu en vind hefur lægt að mestu. Loftið fær nú tækifæri til að kólna enn meir og rétt áður en sólin kemur upp næsta dag er það ef til vill orðið kaldara en það loft sem heldur sér yfir sjónum. Sólin þarf nú að byrja á því að hita það upp áður en uppstreymið nær til landloftsins frá því daginn áður. Stundum nær veik landgola sér á strik að næturlagi, það fer þó mjög eftir staðháttum og hún er mun veikari en hafgolan.

Þegar hafgolan er komin af stað stefnir hún fyrst beint á land sé vindur hægur fyrir (það er að segja ekki truflaður af þrýstivindum lægða- og hæðakerfa). Dalir og firðir beina köldu og til þess að gera þungu sjávarloftinu þannig að það leitast við að streyma framhjá fyrirstöðum og vindstrengir geta myndast. Þar sem landslag er opið við ströndina getur svigkraftur jarðar haft áhrif á vindstefnuna. Dægurhringur vindátta er mjög breytilegur frá einum stað til annars.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um vind, til dæmis:

Ítarefni:

Mynd: An Introduction to Global Change - University of Florida.

...