Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um breiðnef?

Jón Már Halldórsson

Breiðnefurinn (Ornithorhynchus anatinus) er spendýr, þótt enga hafi hann spenana. Hann nærir ungviði sitt á mjólk sem smitast út um húðina líkt og hjá mjónefnum (Tachyglossus aculeatus). Breiðnefurinn telst til ættbálks nefdýra (Monotremata) rétt eins og mjónefurinn, en nefdýr eru ein þriggja greina spendýra (Mammalia).

Breiðnefurinn er óvenjulegur útlits. Sterklegur bolurinn er þakinn þykkum feldi sem gerður er úr tvenns konar hárum, stífum ytri burstahárum og mjúkum innri hárum sem eru ullarkennd. Breiðnefurinn er nokkuð stærri en mjónefur, hann verður um 60 cm á lengd og vegur um það bil 2 kg. Hann er dökkur á lit, svartur eða dökkbrúnn á baki, síðum og hala en ljósari, gulbrúnn eða ljósgrár á kviði.



Breiðnefurinn hefur afar sérstætt útlit, meðal annars breitt nef sem minnir á andarnef og spaðalaga sundskott svipað og bjórinn hefur.

Breiðnefurinn hefur sérkennilegt, breitt og sterklegt sundskott sem er spaðalaga og minnir á skott hjá bjórnum enda hefur breiðnefurinn þróast við samskonar lifnaðarhætti og hinn norður ameríski bjór. Hann gerir að vísu ekki stíflur í árfarvegi líkt og bjórinn heldur grefur sig í bakka.

Sérkennilegast við breiðnefinn er þó hið breiða og flata trýni, sem minnir mjög á andarnef. Það ber þó að taka fram hér að trýni breiðnefsins er ekki hart eins og fuglsgoggur heldur gert úr mjúku holdi og brjóski. Trýnið er þakið ótal skyntaugum sem gerir það afar næmt. Tvær litlar nasir sitja framarlega á trýninu og er dýrið afar lyktnæmt.

Breiðnefir hafa ekki tennur, heldur hornörður í tungurótum sem koma á móti hornplötum í efra gómi, líkt og hjá mjónefnum. Með þessum örðum aftur í kokinu skera þeir og merja fæðu sína. Í jaðri neðra nefskoltsins er mikið og flókið pípunet, sem dýrið notar líkt og hvalskíði til að sía smádýr úr vatni eða leðju sem það rótar upp af botninum, líkt og fjölmargar tegundir andfugla gera. Þegar breiðnefurinn veiðir, opnar hann því yfirleitt ekki kjaftinn heldur sogar vatnið í gegnum þessar pípur, svo safnar hann fæðunni í sérstaka kinnpoka bak við munnopi.

Breiðnefir hafa engin ytri eyru heldur einungis smá húðfellingu sem þeir nota til að opna og loka hlustunum. Þrátt fyrir það virðast þeir hafa ágæta heyrn. Hins vegar eru augun smá, aðeins um 6 mm í þvermál, og sjónin afar illa þroskuð. Þegar breiðnefurinn kafar færist hlífðarblikhimna fyrir augun.

Fæturnir eru mjög stuttir, tærnar eru fimm og á þeim öllum eru kröftugar klær. Milli tánna eru sundfit sem geta verið það mikil um sig að þau ná út fyrir klærnar. Innan á ökklabeini afturfótanna er hornspori. Á karldýrinu liggur rás frá eiturkirtli í lærinu út í sporann og er breiðnefurinn að því er best er vitað eitt af þeim sex núlifandi spendýrum sem nota eitur til veiða eða sjálfsvarnar.

Það sem heillar líffræðinga mest í þróunarsögu breiðnefsins er það hversu kynfæri hans eru lík kynfærum skriðdýra og fugla. Líkt og þessir hópar hefur breiðnefurinn sameiginlega gotrauf fyrir endaþarm, þvagrás og kynrás. Einnig er öll beinagerð í bóggrind lík því sem skriðdýr hafa, meðal annars eru breiðnefurinn með samskonar krummanefsbein og skriðdýr en krummanefsbein er bein sem tengir herðablað við bringubeinið.

Breiðnefurinn er ekki útbreiddur um alla Ástralíu eins og mjónefurinn, heldur lifir hann aðeins á austanverðu meginlandinu og á Tasmaníu eins og sést á myndinni hér til hliðar. Kjörlendi hans eru ár- og vatnsbakkar, en inn í þá grefur hann sér bæli og í vatninu leitar hann sér fæðu. Breiðnefir geta ekki lifað í þeim hlutum Ástralíu þar sem skiptast á miklir þurrkar og regntímar því hann þarf alltaf að hafa aðgang að vatni.

Breiðnefir eru afar klunnalegir og seinfærir á þurru landi og reyna að sleppa við langa göngutúra enda tiltölulega berskjaldaðir. Þeir eru hins vegar ákaflega vel aðlagaðir að vatnalífi, með vatnshrindandi hárfeld, augu og eyru sem hægt er að loka, mjög vel þróuð sundfit milli tánna og breitt og flatt skott. Þeir eyða þó ekki löngum tíma í vatni hverju sinni heldur liggja í góðu yfirlæti í bæli sínu yfir daginn og um miðjar nætur. Þeirra tími er í ljósaskiptum kvölds og morgna, þá fara þeir í vatnið til að leita sér að fæðu en þeir geta einnig verið virkir yfir daginn í þoku og rigningu.

Fæða breiðnefsins er alls kyns smádýr sem hann finnur á árbotninum svo sem vatnaskordýr af ýmsum tegundum, smákrabbar og vatnarækjur, sniglar, ormar, halakörtur og smáfiskur.



Ungar breiðnefsins eru afar óþroskaðir þegar þeir skríða úr eggi.

Breiðnefurinn verpir eggjum líkt og fuglar og skriðdýr. Hann verpir oftast tveimur eggjum en þrjú egg eru einnig algeng. Eftir 10-12 daga útungun í bælinu brýtur unginn sér leið út. Hann er afar óþroskaður, nakinn og blindur. Strax eftir útungun fara ungarnir upp á kvið móður sinnar og fá mjólk að drekka. Mjólkin seytlar út um húð móðurinnar og ungarnir sleikja feldinn.

Nákvæm stofnstærð breiðnefsins er ekki þekkt en hann er ekki talinn vera í útrýmingarhættu og virðist hafa haldið sömu útbreiðslu og á tímum landnáms Evrópumanna í Ástralíu. Hann er þó viðkvæmur og fjölmörg framandi rándýr sem hafa bæst við fánu Ástralíu ógna honum. Má þar nefna ketti, hunda, refi og rottur. Auk þess festast breiðnefir í netum veiðimanna. Kanínur hafa líka reynst þeim mikil ógnun. Þær grafa sér göng og bæli í árbakka á sama hátt breiðnefir en vegna þess hversu þeim hefur fjölgað ört á sumum stöðum hafa bakkarnir verið svo sundurgrafnir að breiðnefir hafa flúið staðina og þannig hrakist undan kanínunum.

Heimildir og myndir:

  • Augee, Michael L. Platypus. World Book Encyclopedia. 2001.
  • M. Messer, A.S. Weiss, D.C. Shaw og M. Westerman (1998-03). Evolution of the Monotremes: Phylogenetic Relationship to Marsupials and Eutherians, and Estimation of Divergence Dates Based on α-Lactalbumin Amino Acid Sequences. Journal of Mammalian Evolution (Springer Netherlands) 5 (1): 95–105.
  • Macdonald, D. (ritstj.). 2001. The Encyclopedia of Mammals. Oxford, Oxford University Press.
  • Mynd af breiðnef: infonews.co.nz. Sótt 12. 4. 2010.
  • Kort: Platypus á Wikipedia. Sótt 12. 4. 2010.
  • Mynd af breiðnef með unga: Spectacular Planet. Sótt 12. 4. 2010.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

12.4.2010

Spyrjandi

Sindri Jóhannsson, Elín Sigurðardóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um breiðnef?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2010. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=54972.

Jón Már Halldórsson. (2010, 12. apríl). Hvað getið þið sagt mér um breiðnef? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=54972

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um breiðnef?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2010. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=54972>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um breiðnef?
Breiðnefurinn (Ornithorhynchus anatinus) er spendýr, þótt enga hafi hann spenana. Hann nærir ungviði sitt á mjólk sem smitast út um húðina líkt og hjá mjónefnum (Tachyglossus aculeatus). Breiðnefurinn telst til ættbálks nefdýra (Monotremata) rétt eins og mjónefurinn, en nefdýr eru ein þriggja greina spendýra (Mammalia).

Breiðnefurinn er óvenjulegur útlits. Sterklegur bolurinn er þakinn þykkum feldi sem gerður er úr tvenns konar hárum, stífum ytri burstahárum og mjúkum innri hárum sem eru ullarkennd. Breiðnefurinn er nokkuð stærri en mjónefur, hann verður um 60 cm á lengd og vegur um það bil 2 kg. Hann er dökkur á lit, svartur eða dökkbrúnn á baki, síðum og hala en ljósari, gulbrúnn eða ljósgrár á kviði.



Breiðnefurinn hefur afar sérstætt útlit, meðal annars breitt nef sem minnir á andarnef og spaðalaga sundskott svipað og bjórinn hefur.

Breiðnefurinn hefur sérkennilegt, breitt og sterklegt sundskott sem er spaðalaga og minnir á skott hjá bjórnum enda hefur breiðnefurinn þróast við samskonar lifnaðarhætti og hinn norður ameríski bjór. Hann gerir að vísu ekki stíflur í árfarvegi líkt og bjórinn heldur grefur sig í bakka.

Sérkennilegast við breiðnefinn er þó hið breiða og flata trýni, sem minnir mjög á andarnef. Það ber þó að taka fram hér að trýni breiðnefsins er ekki hart eins og fuglsgoggur heldur gert úr mjúku holdi og brjóski. Trýnið er þakið ótal skyntaugum sem gerir það afar næmt. Tvær litlar nasir sitja framarlega á trýninu og er dýrið afar lyktnæmt.

Breiðnefir hafa ekki tennur, heldur hornörður í tungurótum sem koma á móti hornplötum í efra gómi, líkt og hjá mjónefnum. Með þessum örðum aftur í kokinu skera þeir og merja fæðu sína. Í jaðri neðra nefskoltsins er mikið og flókið pípunet, sem dýrið notar líkt og hvalskíði til að sía smádýr úr vatni eða leðju sem það rótar upp af botninum, líkt og fjölmargar tegundir andfugla gera. Þegar breiðnefurinn veiðir, opnar hann því yfirleitt ekki kjaftinn heldur sogar vatnið í gegnum þessar pípur, svo safnar hann fæðunni í sérstaka kinnpoka bak við munnopi.

Breiðnefir hafa engin ytri eyru heldur einungis smá húðfellingu sem þeir nota til að opna og loka hlustunum. Þrátt fyrir það virðast þeir hafa ágæta heyrn. Hins vegar eru augun smá, aðeins um 6 mm í þvermál, og sjónin afar illa þroskuð. Þegar breiðnefurinn kafar færist hlífðarblikhimna fyrir augun.

Fæturnir eru mjög stuttir, tærnar eru fimm og á þeim öllum eru kröftugar klær. Milli tánna eru sundfit sem geta verið það mikil um sig að þau ná út fyrir klærnar. Innan á ökklabeini afturfótanna er hornspori. Á karldýrinu liggur rás frá eiturkirtli í lærinu út í sporann og er breiðnefurinn að því er best er vitað eitt af þeim sex núlifandi spendýrum sem nota eitur til veiða eða sjálfsvarnar.

Það sem heillar líffræðinga mest í þróunarsögu breiðnefsins er það hversu kynfæri hans eru lík kynfærum skriðdýra og fugla. Líkt og þessir hópar hefur breiðnefurinn sameiginlega gotrauf fyrir endaþarm, þvagrás og kynrás. Einnig er öll beinagerð í bóggrind lík því sem skriðdýr hafa, meðal annars eru breiðnefurinn með samskonar krummanefsbein og skriðdýr en krummanefsbein er bein sem tengir herðablað við bringubeinið.

Breiðnefurinn er ekki útbreiddur um alla Ástralíu eins og mjónefurinn, heldur lifir hann aðeins á austanverðu meginlandinu og á Tasmaníu eins og sést á myndinni hér til hliðar. Kjörlendi hans eru ár- og vatnsbakkar, en inn í þá grefur hann sér bæli og í vatninu leitar hann sér fæðu. Breiðnefir geta ekki lifað í þeim hlutum Ástralíu þar sem skiptast á miklir þurrkar og regntímar því hann þarf alltaf að hafa aðgang að vatni.

Breiðnefir eru afar klunnalegir og seinfærir á þurru landi og reyna að sleppa við langa göngutúra enda tiltölulega berskjaldaðir. Þeir eru hins vegar ákaflega vel aðlagaðir að vatnalífi, með vatnshrindandi hárfeld, augu og eyru sem hægt er að loka, mjög vel þróuð sundfit milli tánna og breitt og flatt skott. Þeir eyða þó ekki löngum tíma í vatni hverju sinni heldur liggja í góðu yfirlæti í bæli sínu yfir daginn og um miðjar nætur. Þeirra tími er í ljósaskiptum kvölds og morgna, þá fara þeir í vatnið til að leita sér að fæðu en þeir geta einnig verið virkir yfir daginn í þoku og rigningu.

Fæða breiðnefsins er alls kyns smádýr sem hann finnur á árbotninum svo sem vatnaskordýr af ýmsum tegundum, smákrabbar og vatnarækjur, sniglar, ormar, halakörtur og smáfiskur.



Ungar breiðnefsins eru afar óþroskaðir þegar þeir skríða úr eggi.

Breiðnefurinn verpir eggjum líkt og fuglar og skriðdýr. Hann verpir oftast tveimur eggjum en þrjú egg eru einnig algeng. Eftir 10-12 daga útungun í bælinu brýtur unginn sér leið út. Hann er afar óþroskaður, nakinn og blindur. Strax eftir útungun fara ungarnir upp á kvið móður sinnar og fá mjólk að drekka. Mjólkin seytlar út um húð móðurinnar og ungarnir sleikja feldinn.

Nákvæm stofnstærð breiðnefsins er ekki þekkt en hann er ekki talinn vera í útrýmingarhættu og virðist hafa haldið sömu útbreiðslu og á tímum landnáms Evrópumanna í Ástralíu. Hann er þó viðkvæmur og fjölmörg framandi rándýr sem hafa bæst við fánu Ástralíu ógna honum. Má þar nefna ketti, hunda, refi og rottur. Auk þess festast breiðnefir í netum veiðimanna. Kanínur hafa líka reynst þeim mikil ógnun. Þær grafa sér göng og bæli í árbakka á sama hátt breiðnefir en vegna þess hversu þeim hefur fjölgað ört á sumum stöðum hafa bakkarnir verið svo sundurgrafnir að breiðnefir hafa flúið staðina og þannig hrakist undan kanínunum.

Heimildir og myndir:

  • Augee, Michael L. Platypus. World Book Encyclopedia. 2001.
  • M. Messer, A.S. Weiss, D.C. Shaw og M. Westerman (1998-03). Evolution of the Monotremes: Phylogenetic Relationship to Marsupials and Eutherians, and Estimation of Divergence Dates Based on α-Lactalbumin Amino Acid Sequences. Journal of Mammalian Evolution (Springer Netherlands) 5 (1): 95–105.
  • Macdonald, D. (ritstj.). 2001. The Encyclopedia of Mammals. Oxford, Oxford University Press.
  • Mynd af breiðnef: infonews.co.nz. Sótt 12. 4. 2010.
  • Kort: Platypus á Wikipedia. Sótt 12. 4. 2010.
  • Mynd af breiðnef með unga: Spectacular Planet. Sótt 12. 4. 2010.
...