Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Getur þú sagt mér allt um stjörnuþokur?

Sunna Borg Dalberg og Heiða María Sigurðardóttir

Með stjörnuþoku, eða vetrarbraut, er átt við þyrpingu stjarna, geimefna og ýmissa lofttegunda, aðallega vetnis og helíns (en þau frumefni mynda 98% af masssa alheimsins). Þær mynduðust nær allar við þéttingu efnis við upphaf alheimsins. Stjörnuþokur eru gífurlega stórar. Til marks um það má nefna að áætlað er að í einni stjörnuþoku séu yfir 100 milljarðar stjarna eða sóla. Eins og Sævar Helgi Bragason og Tryggvi Þorgeirsson benda á í svari sínu, Hvað eru margar stjörnur í geimnum?, eru um 100-400 milljarðar stjarna í Vetrarbrautinni, stjörnuþokunni sem sólkerfið okkar tilheyrir. Lesa má meira um Vetrarbrautina í svarinu Hvað er vetrarbrautin okkar stór? eftir Sævar Helga Bragason.

Til eru þrjár tegundir stjörnuþoka. Vetrarbrautin okkar og Andrómeda, næsta stjörnuþoka við okkar, eru báðar þyrilþokur. Nafnið er dregið af lögun þyrilþokanna þar sem efnið þyrlast hratt um miðju þeirra og myndar eins konar spíral eða gorm. Sporvöluþokur eru svo egg- eða kúlulaga, og snúast hægar en þyrilþokur. Aðrar stjörnuþokur eru óreglulegar þokur.


Stjörnuþokan NGC 4414 er þyrilþoka í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi.

Nálægar stjörnuþokur mynda saman klasa eða þyrpingu. Vetrarbrautin er ein stærsta stjörnuþokan í 30 þokna þyrpingu sem kallast Grenndarhópurinn, og er um þrjár milljónir ljósára í þvermál. Grenndarhópurinn telst samt í raun frekar lítill, ef miðað er við að í sumum þyrpingum eru mörg þúsund stjörnuþokur. Þyrpingar dragast svo að hvor annarri og geta þannig myndað svokallaðar ofurþyrpingar. Þannig tilheyrir Grenndarhópurinn Grenndar-ofurþyrpingunni, ásamt þyrpingum eins og Meyjarþyrpingunni, en í henni eru yfir 2000 vetrarbrautir. Um þetta má lesa í svarinu Er alheimurinn bara eitt sólkerfi eða út um allt? eftir Sævar Helga Bragason.

Í sumum stjörnuþokum er engin nýmyndun stjarna. Í öðrum verða stjörnur til úr glóandi gasskýjum, geimryki og öðrum efnum. Þyngdarkrafturinn sér til þess að agnirnar dragast hver að annarri í efnisklumpa sem saman geta myndað stjörnur. Þessar stjörnuþyrpingar kallast lausþyrpingar. Myndun lausþyrpinga verður ekki nema á mjög köldum svæðum, sem eru um eða undir 10 kelvinstigum. Sé hitinn meiri nær þyngdarkrafturinn ekki að yfirvinna hreyfingar sameindanna og þétting efnisins verður lítil.

Lausþyrpingarnar sundrast að lokum, þar sem massi þeirra er ekki nægjanlega mikill til þess að þyngdarkrafturinn geti haldið þeim saman. Í fjarlægum stjörnuþokum er aftur á móti að finna annars konar stjörnuþyrpingar sem nefnast kúluþyrpingar. Í kúluþyrpingum eru gamlar risastjörnur með svo mikinn massa að þær dragast hvor að annarri og haldast saman í einum hóp.

Heimildir og mynd

  • Galaxy. Encyclopædia Britannica Online.
  • Íslenska alfræðiorðabókin (3. bindi). 1988. Ritstjórar: Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Reykjavík, Örn og Örlygur.
  • Stjörnuþokur. Geimurinn: Heimasíðukeppni grunnskólanemenda í Reykjavík.
  • Þorbjörn Rúnarsson. Jar113: Inngangur að stjörnufræði.
  • Myndin er af Galaxy. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.


Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.

Höfundar

nemandi í Háskóla unga fólksins

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

22.9.2005

Spyrjandi

Stefán Sigurðarson

Tilvísun

Sunna Borg Dalberg og Heiða María Sigurðardóttir. „Getur þú sagt mér allt um stjörnuþokur?“ Vísindavefurinn, 22. september 2005. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5283.

Sunna Borg Dalberg og Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 22. september). Getur þú sagt mér allt um stjörnuþokur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5283

Sunna Borg Dalberg og Heiða María Sigurðardóttir. „Getur þú sagt mér allt um stjörnuþokur?“ Vísindavefurinn. 22. sep. 2005. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5283>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur þú sagt mér allt um stjörnuþokur?
Með stjörnuþoku, eða vetrarbraut, er átt við þyrpingu stjarna, geimefna og ýmissa lofttegunda, aðallega vetnis og helíns (en þau frumefni mynda 98% af masssa alheimsins). Þær mynduðust nær allar við þéttingu efnis við upphaf alheimsins. Stjörnuþokur eru gífurlega stórar. Til marks um það má nefna að áætlað er að í einni stjörnuþoku séu yfir 100 milljarðar stjarna eða sóla. Eins og Sævar Helgi Bragason og Tryggvi Þorgeirsson benda á í svari sínu, Hvað eru margar stjörnur í geimnum?, eru um 100-400 milljarðar stjarna í Vetrarbrautinni, stjörnuþokunni sem sólkerfið okkar tilheyrir. Lesa má meira um Vetrarbrautina í svarinu Hvað er vetrarbrautin okkar stór? eftir Sævar Helga Bragason.

Til eru þrjár tegundir stjörnuþoka. Vetrarbrautin okkar og Andrómeda, næsta stjörnuþoka við okkar, eru báðar þyrilþokur. Nafnið er dregið af lögun þyrilþokanna þar sem efnið þyrlast hratt um miðju þeirra og myndar eins konar spíral eða gorm. Sporvöluþokur eru svo egg- eða kúlulaga, og snúast hægar en þyrilþokur. Aðrar stjörnuþokur eru óreglulegar þokur.


Stjörnuþokan NGC 4414 er þyrilþoka í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi.

Nálægar stjörnuþokur mynda saman klasa eða þyrpingu. Vetrarbrautin er ein stærsta stjörnuþokan í 30 þokna þyrpingu sem kallast Grenndarhópurinn, og er um þrjár milljónir ljósára í þvermál. Grenndarhópurinn telst samt í raun frekar lítill, ef miðað er við að í sumum þyrpingum eru mörg þúsund stjörnuþokur. Þyrpingar dragast svo að hvor annarri og geta þannig myndað svokallaðar ofurþyrpingar. Þannig tilheyrir Grenndarhópurinn Grenndar-ofurþyrpingunni, ásamt þyrpingum eins og Meyjarþyrpingunni, en í henni eru yfir 2000 vetrarbrautir. Um þetta má lesa í svarinu Er alheimurinn bara eitt sólkerfi eða út um allt? eftir Sævar Helga Bragason.

Í sumum stjörnuþokum er engin nýmyndun stjarna. Í öðrum verða stjörnur til úr glóandi gasskýjum, geimryki og öðrum efnum. Þyngdarkrafturinn sér til þess að agnirnar dragast hver að annarri í efnisklumpa sem saman geta myndað stjörnur. Þessar stjörnuþyrpingar kallast lausþyrpingar. Myndun lausþyrpinga verður ekki nema á mjög köldum svæðum, sem eru um eða undir 10 kelvinstigum. Sé hitinn meiri nær þyngdarkrafturinn ekki að yfirvinna hreyfingar sameindanna og þétting efnisins verður lítil.

Lausþyrpingarnar sundrast að lokum, þar sem massi þeirra er ekki nægjanlega mikill til þess að þyngdarkrafturinn geti haldið þeim saman. Í fjarlægum stjörnuþokum er aftur á móti að finna annars konar stjörnuþyrpingar sem nefnast kúluþyrpingar. Í kúluþyrpingum eru gamlar risastjörnur með svo mikinn massa að þær dragast hvor að annarri og haldast saman í einum hóp.

Heimildir og mynd

  • Galaxy. Encyclopædia Britannica Online.
  • Íslenska alfræðiorðabókin (3. bindi). 1988. Ritstjórar: Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Reykjavík, Örn og Örlygur.
  • Stjörnuþokur. Geimurinn: Heimasíðukeppni grunnskólanemenda í Reykjavík.
  • Þorbjörn Rúnarsson. Jar113: Inngangur að stjörnufræði.
  • Myndin er af Galaxy. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.


Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005....