Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um útburð barna í heiðni á Íslandi?

Brynja Björnsdóttir

Þrátt fyrir skort á ritheimildum frá heiðnum tíma á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum er sú skoðun ríkjandi meðal fræðimanna að útburður á börnum hafi verið stundaður í norrænum samfélögum í heiðni. Heimildir um útburðinn sem fræðimenn styðjast við eru Íslendingabók og Íslendingasögur og -þættir, það er Harðar saga, Vatnsdæla saga, Finnboga saga ramma, Gunnlaugs saga ormstungu, Reykdæla saga, Þorsteins þáttur uxafóts og Þorsteins þáttur tjaldstæðings.

Samkvæmt sögunum virðist barnaútburður hafa verið frjáls í heiðni, og ástæður fyrir útburði verið af ýmsum toga. Í Gunnlaugs sögu er draumur um slæm örlög ófæddrar dóttur ástæða fyrir útburði stúlkubarns. Í Finnboga sögu er útburður drengs, hefndaraðgerð eiginmanns gagnvart konu sinni. Hefnd og reiði er ástæða fyrir útburði stúlkubarns í Harðar sögu. Í Þorsteins þætti uxafóts er drengur borinn út vegna þess að hann er óskilgetinn og faðirinn neitar að kvænast móðurinni. Langvarandi fjarvist heimilisföður er ástæða útburðar í Þorsteins þætti tjaldstæðings. Í Reykdæla sögu er frásögn af útburði barna sem fórnargjafir til goðanna sem úrræði í vetrarhörkum og hallæri.

Sögurnar segja frá meintum útburði fjögurra drengja og tveggja stúlkubarna. Karlmaður í fjölskyldunni, faðir, eða bróðir barnshafandi konu, hafði samkvæmt sögunum vald til að ákveða hvort barnið sem fæddist skyldi alið upp eða borið út. Karlmennirnir sem þarna um ræðir voru goðar, höfðingjar og auðugir menn og þeir létu þræla, fóstra eða smala bera barnið út. Í tveimur tilfellum var skipunum ekki hlýtt heldur farið með börnin á laun til ættingja en annars voru börnin skilin eftir úti á víðavangi til að deyja, úti í skógi, stundum í skjóli með flesk í munni, eða kastað út í á.

Fyrrnefndar sögur eiga að endurspegla samfélag og siði sem er löngu horfið. Elsta sagan er rituð í byrjun 13. aldar og sú yngsta í lok 14. aldar. Ritunartími sagnanna vekur óhjákvæmilega þá spurningu hversu mikla vitneskju kristnir sagnaritar höfðu um barnaútburð í heiðnum sið. Þrátt fyrir þessa annmarka íslenskra útburðarsagna hafa fræðimenn dregið af þeim, og ekki síst af innskotum höfunda sagnanna, þær ályktanir að það hafi einkum verið börn fátækra og þræla sem voru borin út, frekar stúlkur en drengir og enn fremur að nafnagjöf hafi bjargað börnum frá útburði. Jafnframt hefur verið sýnt fram á rittengsl sagnanna við þekktar erlendar útburðarsögur. Áhrif erlendra rita á sögurnar er augljós vitnisburður um þekkingu íslenskra sagnaritara á erlendum ritum sem þeir vissu kannski meira um en heiðinn tíma á Íslandi.

Í frásögn Íslendingabókar af lögtöku kristni á Íslandi greinir Ari fróði frá kristnitökulögunum sem samþykkt voru. Fram kemur að „um barnaútburð skyldu standa hin fornu lög og um hrossakjötsát“, þessi orð hafa fræðimenn túlkað og skilið þannig að útburður á börnum hafi verið leyfður í heiðnum sið og heimilaður áfram við kristnitökuna. Flestir fræðimenn hafa skilið ákvæðin um barnaútburð og hrossakjötsát í einu samhengi sem ívilnun við fátæka alþýðu en sá skilningur kemur fyrst fram í kristnitökufrásögn í Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu sem rituð var snemma á 14. öld. Almennt hafa fræðimenn lítið velt fyrir sér vísun Ara í forn lög um barnaútburð, fyrir utan Bo Almquist og Halldór Laxness.

Almquist vekur athygli á að Ari notar orðið lög en ekki venju eða sið um barnaútburð og undrast að fræðimenn hafi ekki veitt þessu athygli og bendir á að ef barnaútburður hafi verið almennt viðurkennt athæfi án takmarkana í heiðni þá hafi varla verið þörf á löggjöf. Halldór bendir á vísun Ara í sameiginlegan uppruna fornra norskra og íslenskra laga. En samkæmt Ara voru hin norsku Gulaþingslög fyrirmynd hinna fornu laga Íslendinga, það er Úlfljótslaga. Halldór telur að af orðum Ara megi skilja að „Úlfljótslög sem hafi haldið sérstakan póst þar sem settar væru reglur um barnaútburð,“ og að þarna gæti verið stuðst við forn ákvæði í forn norskum lögum þar sem tekið er fram hvers konar vanskapnaður skuli vera á barninu svo það sé útburðarskylt.

Af eldri Gulaþingslögum hefur einungis kristinréttur varðveist og eru þar nokkur ákvæði sem eignuð eru Ólafi helga Noregskonungi frá því um 1020. Þar kemur fram að börn sem fæðast með ákveðinn vanskapnað skuli skíra en síðan borin út og látin deyja. Afskipti Ólafs af kristnihaldi Íslendinga og þögn heimilda um hvaða kristinréttur var í gildi hér á landi þar til kristinréttur biskupanna Þorláks og Ketils tók gildi 1122-1133, gæti bent til þess að Gulaþingslög hafi gilt hér á landi og lög landanna um barnaútburð í heiðni hafi verið sambærileg, það er heimilað útburð á börnum sem fæddust með ákveðinn vanskapnað. Samsvarandi ákvæði er að finna í öðrum norskum landshlutalögum en mismunur er á hvaða vanskapnað lögin tilgreina.

Í enskum og rómverskum kirkjulögum frá þessum tíma er hvergi minnst á meðferð né útburð vanskapaðra barna og er því líklegt að lögin séu heiðin að uppruna og hafi haldið gildi sínu eftir kristnun Noregs og líklega líka á Íslandi. Af þessu má draga þá ályktun að útburður barna í heiðni hafi ekki verið frjáls heldur háður ákveðnum reglum og skilyrðum, það er börn sem fæddust með ákveðinn fæðingargalla eins og til dæmis klofna vör og góm og/eða klumbufót, mátti bera út.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Almquist, Bo: „Folk Beliefs and Phylology: Some Thougts Evoked by Juha Pentikäinen´s Thesis, The Nordic Dead-Child Tradition.“ Arv Tidskrift för nordiske folkminnes forskning, vol. 27 ( 1971), bls. 69-95.
  • Borgfirðingasögur. Útg. Sigurður Nordal og Guðni Jónsson. Íslensk fornrit III. Reykjavík 1938.
  • Halldór Laxness: „Fáeinar athuganir um kristinréttarákvæði elstu“. Tímarit Máls og menningar 37( 1976), bls. 19-39.
  • Harðar saga. Útg. Þórhallur Vilmundarson og Bjarni Vilhjálmsson. Íslensk fornrit XIII. Reykjavík 1991.
  • Íslendingabók Landnámabók. Útg. Jakob Benediktsson. Íslensk fornrit I. Reykjavík 1986.
  • Kjalnesinga saga. Útg. Jóhannes Halldórsson. Íslensk fornrit XIV. Reykjavík 1959.
  • Ljósvetninga saga. Útg. Björn Sigfússon. Íslensk fornrit X. Reykjavík 1940.
  • Ólafs saga en mesta. Útg. Ólafur Halldórsson. Editiones Arnamagnæane Series A, vol 2. Kaupmannahöfn 1961.
  • Vatnsdæla saga. Útg. Einar Ólafur Sveinsson. Íslensk fornrit VIII. Reykjavík 1939.

Óprentaðar heimildir:
  • Brynja Björnsdóttir: „Forn lög um barnaútburð skulu standa. Um barnaútburð á elstu tíð“, óprentuð BA-ritgerð frá Háskóla Íslands, 2008.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Ég er forvitin um þann heiðna sið að bera út börn. Getið þið sagt mér hverjir gerðu það, hvernig þetta var gert og hvaða sögur eru til um það?

Höfundur

M.A.-nemi í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

16.4.2009

Spyrjandi

Heiða María Sigurðardóttir, Valgerður Bachmann

Tilvísun

Brynja Björnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um útburð barna í heiðni á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 16. apríl 2009. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=51818.

Brynja Björnsdóttir. (2009, 16. apríl). Hvað getið þið sagt mér um útburð barna í heiðni á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=51818

Brynja Björnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um útburð barna í heiðni á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 16. apr. 2009. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=51818>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um útburð barna í heiðni á Íslandi?
Þrátt fyrir skort á ritheimildum frá heiðnum tíma á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum er sú skoðun ríkjandi meðal fræðimanna að útburður á börnum hafi verið stundaður í norrænum samfélögum í heiðni. Heimildir um útburðinn sem fræðimenn styðjast við eru Íslendingabók og Íslendingasögur og -þættir, það er Harðar saga, Vatnsdæla saga, Finnboga saga ramma, Gunnlaugs saga ormstungu, Reykdæla saga, Þorsteins þáttur uxafóts og Þorsteins þáttur tjaldstæðings.

Samkvæmt sögunum virðist barnaútburður hafa verið frjáls í heiðni, og ástæður fyrir útburði verið af ýmsum toga. Í Gunnlaugs sögu er draumur um slæm örlög ófæddrar dóttur ástæða fyrir útburði stúlkubarns. Í Finnboga sögu er útburður drengs, hefndaraðgerð eiginmanns gagnvart konu sinni. Hefnd og reiði er ástæða fyrir útburði stúlkubarns í Harðar sögu. Í Þorsteins þætti uxafóts er drengur borinn út vegna þess að hann er óskilgetinn og faðirinn neitar að kvænast móðurinni. Langvarandi fjarvist heimilisföður er ástæða útburðar í Þorsteins þætti tjaldstæðings. Í Reykdæla sögu er frásögn af útburði barna sem fórnargjafir til goðanna sem úrræði í vetrarhörkum og hallæri.

Sögurnar segja frá meintum útburði fjögurra drengja og tveggja stúlkubarna. Karlmaður í fjölskyldunni, faðir, eða bróðir barnshafandi konu, hafði samkvæmt sögunum vald til að ákveða hvort barnið sem fæddist skyldi alið upp eða borið út. Karlmennirnir sem þarna um ræðir voru goðar, höfðingjar og auðugir menn og þeir létu þræla, fóstra eða smala bera barnið út. Í tveimur tilfellum var skipunum ekki hlýtt heldur farið með börnin á laun til ættingja en annars voru börnin skilin eftir úti á víðavangi til að deyja, úti í skógi, stundum í skjóli með flesk í munni, eða kastað út í á.

Fyrrnefndar sögur eiga að endurspegla samfélag og siði sem er löngu horfið. Elsta sagan er rituð í byrjun 13. aldar og sú yngsta í lok 14. aldar. Ritunartími sagnanna vekur óhjákvæmilega þá spurningu hversu mikla vitneskju kristnir sagnaritar höfðu um barnaútburð í heiðnum sið. Þrátt fyrir þessa annmarka íslenskra útburðarsagna hafa fræðimenn dregið af þeim, og ekki síst af innskotum höfunda sagnanna, þær ályktanir að það hafi einkum verið börn fátækra og þræla sem voru borin út, frekar stúlkur en drengir og enn fremur að nafnagjöf hafi bjargað börnum frá útburði. Jafnframt hefur verið sýnt fram á rittengsl sagnanna við þekktar erlendar útburðarsögur. Áhrif erlendra rita á sögurnar er augljós vitnisburður um þekkingu íslenskra sagnaritara á erlendum ritum sem þeir vissu kannski meira um en heiðinn tíma á Íslandi.

Í frásögn Íslendingabókar af lögtöku kristni á Íslandi greinir Ari fróði frá kristnitökulögunum sem samþykkt voru. Fram kemur að „um barnaútburð skyldu standa hin fornu lög og um hrossakjötsát“, þessi orð hafa fræðimenn túlkað og skilið þannig að útburður á börnum hafi verið leyfður í heiðnum sið og heimilaður áfram við kristnitökuna. Flestir fræðimenn hafa skilið ákvæðin um barnaútburð og hrossakjötsát í einu samhengi sem ívilnun við fátæka alþýðu en sá skilningur kemur fyrst fram í kristnitökufrásögn í Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu sem rituð var snemma á 14. öld. Almennt hafa fræðimenn lítið velt fyrir sér vísun Ara í forn lög um barnaútburð, fyrir utan Bo Almquist og Halldór Laxness.

Almquist vekur athygli á að Ari notar orðið lög en ekki venju eða sið um barnaútburð og undrast að fræðimenn hafi ekki veitt þessu athygli og bendir á að ef barnaútburður hafi verið almennt viðurkennt athæfi án takmarkana í heiðni þá hafi varla verið þörf á löggjöf. Halldór bendir á vísun Ara í sameiginlegan uppruna fornra norskra og íslenskra laga. En samkæmt Ara voru hin norsku Gulaþingslög fyrirmynd hinna fornu laga Íslendinga, það er Úlfljótslaga. Halldór telur að af orðum Ara megi skilja að „Úlfljótslög sem hafi haldið sérstakan póst þar sem settar væru reglur um barnaútburð,“ og að þarna gæti verið stuðst við forn ákvæði í forn norskum lögum þar sem tekið er fram hvers konar vanskapnaður skuli vera á barninu svo það sé útburðarskylt.

Af eldri Gulaþingslögum hefur einungis kristinréttur varðveist og eru þar nokkur ákvæði sem eignuð eru Ólafi helga Noregskonungi frá því um 1020. Þar kemur fram að börn sem fæðast með ákveðinn vanskapnað skuli skíra en síðan borin út og látin deyja. Afskipti Ólafs af kristnihaldi Íslendinga og þögn heimilda um hvaða kristinréttur var í gildi hér á landi þar til kristinréttur biskupanna Þorláks og Ketils tók gildi 1122-1133, gæti bent til þess að Gulaþingslög hafi gilt hér á landi og lög landanna um barnaútburð í heiðni hafi verið sambærileg, það er heimilað útburð á börnum sem fæddust með ákveðinn vanskapnað. Samsvarandi ákvæði er að finna í öðrum norskum landshlutalögum en mismunur er á hvaða vanskapnað lögin tilgreina.

Í enskum og rómverskum kirkjulögum frá þessum tíma er hvergi minnst á meðferð né útburð vanskapaðra barna og er því líklegt að lögin séu heiðin að uppruna og hafi haldið gildi sínu eftir kristnun Noregs og líklega líka á Íslandi. Af þessu má draga þá ályktun að útburður barna í heiðni hafi ekki verið frjáls heldur háður ákveðnum reglum og skilyrðum, það er börn sem fæddust með ákveðinn fæðingargalla eins og til dæmis klofna vör og góm og/eða klumbufót, mátti bera út.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Almquist, Bo: „Folk Beliefs and Phylology: Some Thougts Evoked by Juha Pentikäinen´s Thesis, The Nordic Dead-Child Tradition.“ Arv Tidskrift för nordiske folkminnes forskning, vol. 27 ( 1971), bls. 69-95.
  • Borgfirðingasögur. Útg. Sigurður Nordal og Guðni Jónsson. Íslensk fornrit III. Reykjavík 1938.
  • Halldór Laxness: „Fáeinar athuganir um kristinréttarákvæði elstu“. Tímarit Máls og menningar 37( 1976), bls. 19-39.
  • Harðar saga. Útg. Þórhallur Vilmundarson og Bjarni Vilhjálmsson. Íslensk fornrit XIII. Reykjavík 1991.
  • Íslendingabók Landnámabók. Útg. Jakob Benediktsson. Íslensk fornrit I. Reykjavík 1986.
  • Kjalnesinga saga. Útg. Jóhannes Halldórsson. Íslensk fornrit XIV. Reykjavík 1959.
  • Ljósvetninga saga. Útg. Björn Sigfússon. Íslensk fornrit X. Reykjavík 1940.
  • Ólafs saga en mesta. Útg. Ólafur Halldórsson. Editiones Arnamagnæane Series A, vol 2. Kaupmannahöfn 1961.
  • Vatnsdæla saga. Útg. Einar Ólafur Sveinsson. Íslensk fornrit VIII. Reykjavík 1939.

Óprentaðar heimildir:
  • Brynja Björnsdóttir: „Forn lög um barnaútburð skulu standa. Um barnaútburð á elstu tíð“, óprentuð BA-ritgerð frá Háskóla Íslands, 2008.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Ég er forvitin um þann heiðna sið að bera út börn. Getið þið sagt mér hverjir gerðu það, hvernig þetta var gert og hvaða sögur eru til um það?...