Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hversu nálægt háspennulínum er talið óhætt að búa?

Þorgeir Sigurðsson

Við hönnun og lagningu á íslenskum háspennulínum er þess gætt að þær liggi ekki of nálægt öðrum mannvirkjum. Almennt gildir að fjarlægð á milli íbúðarhúss og háspennulínu skuli vera að minnsta kosti 10 metrar og meiri ef línan stendur hærra en mannvirkið. Upplýsingar um leyfilegar fjarlægðir má meðal annars finna á vefsíðu Löggildingarstofu1. Ákvæði um lágmarksfjarlægð á milli mannvirkja og háspennulína eru sett í íslenska reglugerð nr. 264/1971 með áorðnum breytingum vegna hættu sem getur stafað af því að háspennulínur sláist utan í mannvirki, til dæmis ef staurar brotna í illviðrum. Víða erlendis gilda ekki slíkar reglur.

Alþjóðaráðið um varnir gegn ójónandi geislun (ICNIRP) hefur sett mörk um hversu mikið segulsvið og rafsvið megi vera í umhverfi almennings2. Það fer eftir ýmsu, meðal annars spennu og hæð staura, hversu mikið seglusvið og rafsvið er í kringum háspennulínur. Gera má ráð fyrir að í kringum íslenskar háspennulínur sé styrkur sviðanna vel undir mörkum ICNIRP jafnvel alveg undir línum.


Gera má ráð fyrir að í kringum íslenskar háspennulínur sé styrkur segul- og rafsviðs vel undir mörkum Alþjóðaráðsins um varnir gegn ójónandi geislun, jafnvel alveg undir línum.

Mörk ICNIRP miðast við líffræðileg áhrif sem eru almennt þekkt og viðurkennd (til dæmis vegna upphitunar). Sumir hafa áhyggjur af því að segulsvið frá háspennulínum geti valdið krabbameini. Óvissa ríkir um það en athygli manna hefur helst beinst að barnahvítblæði að þessu leyti.

Alþjóðlega krabbameinsrannsóknastofnunin (IARC) hefur metið þau gögn sem liggja fyrir um hugsanlega skaðsemi segulsviða og flokkað segulsvið frá háspennulínum sem hugsanlegan krabbameinsvald fyrir barnahvítblæði3. Ekki hefur tekist að framkalla áhrif í tilraunastofum eða á dýrum en þessi flokkun IARC er byggð á gögnum um tíðni barnahvítblæðis hjá þeim sem búa við meira segulsvið en 0,3 – 0,4 µT (míkrótesla, sem er 1 milljónasti úr tesla. Mælieiningin tesla er notuð til að mæla segulsvið eða þéttleika segullflæðis). Mjög erfitt er að skera úr um hvort segulsviðið sé í raun orsakavaldur þar sem barnahvítblæði er sjaldgjæfur sjúkdómur og ekki er hægt að útiloka aðra orsakavalda.

Samkvæmt upplýsingum sænsku Geislavarnanna fær um það bil eitt sænskt barn af hverjum 25.000 barnahvítblæði á ári, eða samtals um 80 börn. Um það bil 25.000 börn í Svíþjóð búa nálægt háspennulínum. Ef líkurnar á þessum sjúkdómi tvöfaldast hjá þeim mundi það þýða að tala sem ella væri 80 börn á ári mundi breytast í 81. -- Þessar tölur eru meðal annars athyglisverðar vegna þess að lagt hefur verið til á Alþingi hvað eftir annað að hefja rannsóknir hér á landi á áhrifum háspennulína á krabbamein. Hugsanleg tíðni krabbameins af þessum völdum er hins vegar svo lítil að við gætum aðeins gert ráð fyrir að finna hér á landi eitt dæmi um þetta á hverjum 20-50 árum. Það yrði því býsna seinlegt að byggja marktækar rannsóknir á slíkum tölum.

Þeir sem enga áhættu vilja taka varðandi segulsvið frá háspennulínum þyrftu að búa svo langt frá þeim að segulsviðið sé orðið minna en 0,3 - 0,4 µT. Það fer eftir gerð háspennulínunnar hversu fjarlægðin þarf að vera mikil til þess en 75-100 metrar ættu að vera nóg fyrir flestar línur eins og sjá má hér fyrir neðan á skýringamynd með dæmigerðum gildum frá sænsku Geislavörnunum4.



Segulsvið frá mismunandi gerðum háspennulína í 0-150 m fjarlægð frá línunum.

Þess ber að lokum að geta að segulsvið af sömu tíðni (50Hz) með þetta litlum styrkleika er víða í umhverfi manna af öðrum ástæðum en frá háspennulínum eins og til dæmis má sjá á vefsíðu hjá Landsvirkjun5.

Tilvísarnir:
  1. Reglur um fjarlægðir á milli háspennulína og mannvirkja á vefsíðu Löggildingarstofu.
  2. Guidelines for limiting exposure to time-varying electric, magnetic, and electromagnetic fields (up to 300 GHz). Þessar leiðeiningar frá Alþjóða geislavarnaráðinu fyrir ójónandi geislun ICNIRP birtust áður sem grein í tímaritinu Health Physics í apríl 1998, bindi 74, númer 4, bls. 494-522.
  3. Mat IARC á rafsegulsviðum á lágri tíðni. 2002. Volume 80. Non-Ionizing Radiation, Part 1: Static and Extremely Low-Frequency (ELF) Electric and Magnetic Fields
  4. Grein á vefsíðu sænsku geislavarnanna: Kan kraftledningen orsaka cancer om man bor nära den?
  5. Vefsíða hjá Landsvirkjun um segulsvið.

Mynd af háspennumastri: Landsnet. Sótt 7.9.2011.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Getur nálægð við háspennulínur valdið heilsutjóni? Hversu nálægt slíkum línum er talið ráðlegt að búa?

Höfundur

fagstjóri ójónandi geislunar hjá Geislavörnum ríkisins

Útgáfudagur

13.12.2004

Spyrjandi

Sigurður Arnarson

Tilvísun

Þorgeir Sigurðsson. „Hversu nálægt háspennulínum er talið óhætt að búa? “ Vísindavefurinn, 13. desember 2004. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4657.

Þorgeir Sigurðsson. (2004, 13. desember). Hversu nálægt háspennulínum er talið óhætt að búa? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4657

Þorgeir Sigurðsson. „Hversu nálægt háspennulínum er talið óhætt að búa? “ Vísindavefurinn. 13. des. 2004. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4657>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu nálægt háspennulínum er talið óhætt að búa?
Við hönnun og lagningu á íslenskum háspennulínum er þess gætt að þær liggi ekki of nálægt öðrum mannvirkjum. Almennt gildir að fjarlægð á milli íbúðarhúss og háspennulínu skuli vera að minnsta kosti 10 metrar og meiri ef línan stendur hærra en mannvirkið. Upplýsingar um leyfilegar fjarlægðir má meðal annars finna á vefsíðu Löggildingarstofu1. Ákvæði um lágmarksfjarlægð á milli mannvirkja og háspennulína eru sett í íslenska reglugerð nr. 264/1971 með áorðnum breytingum vegna hættu sem getur stafað af því að háspennulínur sláist utan í mannvirki, til dæmis ef staurar brotna í illviðrum. Víða erlendis gilda ekki slíkar reglur.

Alþjóðaráðið um varnir gegn ójónandi geislun (ICNIRP) hefur sett mörk um hversu mikið segulsvið og rafsvið megi vera í umhverfi almennings2. Það fer eftir ýmsu, meðal annars spennu og hæð staura, hversu mikið seglusvið og rafsvið er í kringum háspennulínur. Gera má ráð fyrir að í kringum íslenskar háspennulínur sé styrkur sviðanna vel undir mörkum ICNIRP jafnvel alveg undir línum.


Gera má ráð fyrir að í kringum íslenskar háspennulínur sé styrkur segul- og rafsviðs vel undir mörkum Alþjóðaráðsins um varnir gegn ójónandi geislun, jafnvel alveg undir línum.

Mörk ICNIRP miðast við líffræðileg áhrif sem eru almennt þekkt og viðurkennd (til dæmis vegna upphitunar). Sumir hafa áhyggjur af því að segulsvið frá háspennulínum geti valdið krabbameini. Óvissa ríkir um það en athygli manna hefur helst beinst að barnahvítblæði að þessu leyti.

Alþjóðlega krabbameinsrannsóknastofnunin (IARC) hefur metið þau gögn sem liggja fyrir um hugsanlega skaðsemi segulsviða og flokkað segulsvið frá háspennulínum sem hugsanlegan krabbameinsvald fyrir barnahvítblæði3. Ekki hefur tekist að framkalla áhrif í tilraunastofum eða á dýrum en þessi flokkun IARC er byggð á gögnum um tíðni barnahvítblæðis hjá þeim sem búa við meira segulsvið en 0,3 – 0,4 µT (míkrótesla, sem er 1 milljónasti úr tesla. Mælieiningin tesla er notuð til að mæla segulsvið eða þéttleika segullflæðis). Mjög erfitt er að skera úr um hvort segulsviðið sé í raun orsakavaldur þar sem barnahvítblæði er sjaldgjæfur sjúkdómur og ekki er hægt að útiloka aðra orsakavalda.

Samkvæmt upplýsingum sænsku Geislavarnanna fær um það bil eitt sænskt barn af hverjum 25.000 barnahvítblæði á ári, eða samtals um 80 börn. Um það bil 25.000 börn í Svíþjóð búa nálægt háspennulínum. Ef líkurnar á þessum sjúkdómi tvöfaldast hjá þeim mundi það þýða að tala sem ella væri 80 börn á ári mundi breytast í 81. -- Þessar tölur eru meðal annars athyglisverðar vegna þess að lagt hefur verið til á Alþingi hvað eftir annað að hefja rannsóknir hér á landi á áhrifum háspennulína á krabbamein. Hugsanleg tíðni krabbameins af þessum völdum er hins vegar svo lítil að við gætum aðeins gert ráð fyrir að finna hér á landi eitt dæmi um þetta á hverjum 20-50 árum. Það yrði því býsna seinlegt að byggja marktækar rannsóknir á slíkum tölum.

Þeir sem enga áhættu vilja taka varðandi segulsvið frá háspennulínum þyrftu að búa svo langt frá þeim að segulsviðið sé orðið minna en 0,3 - 0,4 µT. Það fer eftir gerð háspennulínunnar hversu fjarlægðin þarf að vera mikil til þess en 75-100 metrar ættu að vera nóg fyrir flestar línur eins og sjá má hér fyrir neðan á skýringamynd með dæmigerðum gildum frá sænsku Geislavörnunum4.



Segulsvið frá mismunandi gerðum háspennulína í 0-150 m fjarlægð frá línunum.

Þess ber að lokum að geta að segulsvið af sömu tíðni (50Hz) með þetta litlum styrkleika er víða í umhverfi manna af öðrum ástæðum en frá háspennulínum eins og til dæmis má sjá á vefsíðu hjá Landsvirkjun5.

Tilvísarnir:
  1. Reglur um fjarlægðir á milli háspennulína og mannvirkja á vefsíðu Löggildingarstofu.
  2. Guidelines for limiting exposure to time-varying electric, magnetic, and electromagnetic fields (up to 300 GHz). Þessar leiðeiningar frá Alþjóða geislavarnaráðinu fyrir ójónandi geislun ICNIRP birtust áður sem grein í tímaritinu Health Physics í apríl 1998, bindi 74, númer 4, bls. 494-522.
  3. Mat IARC á rafsegulsviðum á lágri tíðni. 2002. Volume 80. Non-Ionizing Radiation, Part 1: Static and Extremely Low-Frequency (ELF) Electric and Magnetic Fields
  4. Grein á vefsíðu sænsku geislavarnanna: Kan kraftledningen orsaka cancer om man bor nära den?
  5. Vefsíða hjá Landsvirkjun um segulsvið.

Mynd af háspennumastri: Landsnet. Sótt 7.9.2011.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Getur nálægð við háspennulínur valdið heilsutjóni? Hversu nálægt slíkum línum er talið ráðlegt að búa?
...