Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvaða risaeðlur fyrir utan grameðlur, ef einhverjar, átu nashyrningseðlur?

Jón Már Halldórsson

Nashyrningseðlan (e. triceratops, Triceratops horridus) var uppi seint á krítartímabilinu (fyrir um 72-65 miljónum ára). Hún var plöntuæta og hafði þrjú horn, tvö sem sköguðu fram á við ofan við augun og voru allt að einn metri á lengd, og eitt minna sem stóð upp frá efri kjálkanum líkt og hjá nashyrningum í dag. Þess vegna er tegundin kölluð nashyrningseðla á íslensku. Höfuð hennar var gríðarlega stórt eða um 3 metrar á lengd, um það bil þriðjungur af heildarlengdinni sem gat náð 9 metrum. Hún vó 6-12 tonn.

Menn hafa deilt um það hversu margar tegundir nashyrningseðlna hafi verið til á sínum tíma. Hér verður rætt um nashyrningseðlur sem aðeins eina tegund, Triceratops horridus. Fyrri hluti tegundarheitisins er úr grísku og þýðir „andlit með þrjú horn“. Sá seinni er úr latínu og þýðir meðal annars „hræðilegur“ og „ógnvekjandi“. Saman má fá út úr því að nashyrningseðlur hafi verið með „ógnvekjandi andlit með þremur hornum“. Þær eru flokkaðar í risaeðluættina Ceratopsidae.

John Bell Hatcher (1861-1904) (til vinstri) og Othniel Marsh (1831-1899).

Nashyrningseðlan lifði þar sem nú eru vestanverð Bandaríkin og Kanada, á sama tíma og grameðlan (Tyrannosaurus rex) var uppi á svipuðum slóðum. Bandaríski steingervingafræðingurinn John Bell Hatcher (1861-1904) var fyrstur til að finna hauskúpu af nashyrningseðlu, árið 1888. Hinn frægi steingervingafræðingur Othniel Marsh (1831-1839) gaf skepnunni nafnið „triceratops“. Fyrst álitu menn að um steingerðar leifar útdauðs vísundar væri að ræða, en Marsh sá að hér væri fundin löngu útdauð risaeðlutegund.

Nashyrningseðlan var ákaflega vel vopnum búin. Auk stóru hornanna hafði hún mikla beinplötu á höfðinu sem veitti góða vörn við árásum kjötæta á háls hennar.

Beinagrind nashyrningseðlu.

Steingervingafræðingar í Bandaríkjunum hafa mikið velt fyrir sér tannaförum sem hægt er að greina á beinum nashyrningseðlna. Vísindamenn höfðu lengst af tengt þau við grameðluna og talið að hún hafi verið mikið rándýr og veitt nashyrningseðlur. Ýmsar kenningar hafa þó komið fram hin seinni ár um að grameðlan hafi verið hrææta og aðeins lagst á dauðar nashyrningseðlur. Steingervingafræðingurinn Gregory M. Erickson rannsakaði fyrir rúmum áratug bitför á steingerðum leifum nashyrningseðlna og annarrar risaeðlutegundar, Edmontosaurus. Hann kom fram með kenningu um að grameðlan hafi drepið þessi dýr og djúp bitför sýni að grameðlan hafi ráðist á dýrin, bitið stór stykki úr holdi þeirra og látið þeim síðan blæða út - aðferð áþekk þeirri sem hvítháfurinn (Carcharodon carcharias) beitir.

Erickson greindi tvenns konar gerðir af rispum á beinum nashyrningseðlna. Aðra telur hann vera eftir bitið sem dró dýrið til dauða. Þar sé um að ræða djúpar og langar rispur á beinvef nashyrningseðlunnar eftir vígtennur grameðlunnar. Hina gerðina, smáar og fínar rispur eftir framtennur eðlunnar, aðallega eftir hryggjarsúlunni og stærstu fótleggjabeinum nashyrningseðlunnar, segir Erickson hafa komið þegar grameðlan hafi verið að naga kjötið af beinum dauðrar bráðinnar.

Nashyrningseðla, teikning eftir Charles R. Knight (1874-1953).

Ekki er auðvelt að greina atferli löngu útdauðra dýrategunda þegar þær skilja aðeins eftir sig steingerð bein. Því verður spurningunni sem hér er varpað fram í raun ekki svarað, því vísindamenn greinir á um hvort grameðlan hafi drepið nashyrningseðluna sér til matar eða lagst á hræ hennar. Greiningar Ericksons og fleiri vísindamanna, hafa einungis beinst að grameðlunni og vera má að hún hafi verið eina rándýrið sem hafði stærð og afl til að ráða við nashyrningseðluna á þessum slóðum og á þessum tíma - ef hún réðst á nashyrningseðluna á annað borð.

Heimildir og myndir:


Tengd svör á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

7.11.2003

Spyrjandi

Elín Elísabet Einarsdóttir, f. 1992

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvaða risaeðlur fyrir utan grameðlur, ef einhverjar, átu nashyrningseðlur?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2003. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3847.

Jón Már Halldórsson. (2003, 7. nóvember). Hvaða risaeðlur fyrir utan grameðlur, ef einhverjar, átu nashyrningseðlur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3847

Jón Már Halldórsson. „Hvaða risaeðlur fyrir utan grameðlur, ef einhverjar, átu nashyrningseðlur?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2003. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3847>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða risaeðlur fyrir utan grameðlur, ef einhverjar, átu nashyrningseðlur?
Nashyrningseðlan (e. triceratops, Triceratops horridus) var uppi seint á krítartímabilinu (fyrir um 72-65 miljónum ára). Hún var plöntuæta og hafði þrjú horn, tvö sem sköguðu fram á við ofan við augun og voru allt að einn metri á lengd, og eitt minna sem stóð upp frá efri kjálkanum líkt og hjá nashyrningum í dag. Þess vegna er tegundin kölluð nashyrningseðla á íslensku. Höfuð hennar var gríðarlega stórt eða um 3 metrar á lengd, um það bil þriðjungur af heildarlengdinni sem gat náð 9 metrum. Hún vó 6-12 tonn.

Menn hafa deilt um það hversu margar tegundir nashyrningseðlna hafi verið til á sínum tíma. Hér verður rætt um nashyrningseðlur sem aðeins eina tegund, Triceratops horridus. Fyrri hluti tegundarheitisins er úr grísku og þýðir „andlit með þrjú horn“. Sá seinni er úr latínu og þýðir meðal annars „hræðilegur“ og „ógnvekjandi“. Saman má fá út úr því að nashyrningseðlur hafi verið með „ógnvekjandi andlit með þremur hornum“. Þær eru flokkaðar í risaeðluættina Ceratopsidae.

John Bell Hatcher (1861-1904) (til vinstri) og Othniel Marsh (1831-1899).

Nashyrningseðlan lifði þar sem nú eru vestanverð Bandaríkin og Kanada, á sama tíma og grameðlan (Tyrannosaurus rex) var uppi á svipuðum slóðum. Bandaríski steingervingafræðingurinn John Bell Hatcher (1861-1904) var fyrstur til að finna hauskúpu af nashyrningseðlu, árið 1888. Hinn frægi steingervingafræðingur Othniel Marsh (1831-1839) gaf skepnunni nafnið „triceratops“. Fyrst álitu menn að um steingerðar leifar útdauðs vísundar væri að ræða, en Marsh sá að hér væri fundin löngu útdauð risaeðlutegund.

Nashyrningseðlan var ákaflega vel vopnum búin. Auk stóru hornanna hafði hún mikla beinplötu á höfðinu sem veitti góða vörn við árásum kjötæta á háls hennar.

Beinagrind nashyrningseðlu.

Steingervingafræðingar í Bandaríkjunum hafa mikið velt fyrir sér tannaförum sem hægt er að greina á beinum nashyrningseðlna. Vísindamenn höfðu lengst af tengt þau við grameðluna og talið að hún hafi verið mikið rándýr og veitt nashyrningseðlur. Ýmsar kenningar hafa þó komið fram hin seinni ár um að grameðlan hafi verið hrææta og aðeins lagst á dauðar nashyrningseðlur. Steingervingafræðingurinn Gregory M. Erickson rannsakaði fyrir rúmum áratug bitför á steingerðum leifum nashyrningseðlna og annarrar risaeðlutegundar, Edmontosaurus. Hann kom fram með kenningu um að grameðlan hafi drepið þessi dýr og djúp bitför sýni að grameðlan hafi ráðist á dýrin, bitið stór stykki úr holdi þeirra og látið þeim síðan blæða út - aðferð áþekk þeirri sem hvítháfurinn (Carcharodon carcharias) beitir.

Erickson greindi tvenns konar gerðir af rispum á beinum nashyrningseðlna. Aðra telur hann vera eftir bitið sem dró dýrið til dauða. Þar sé um að ræða djúpar og langar rispur á beinvef nashyrningseðlunnar eftir vígtennur grameðlunnar. Hina gerðina, smáar og fínar rispur eftir framtennur eðlunnar, aðallega eftir hryggjarsúlunni og stærstu fótleggjabeinum nashyrningseðlunnar, segir Erickson hafa komið þegar grameðlan hafi verið að naga kjötið af beinum dauðrar bráðinnar.

Nashyrningseðla, teikning eftir Charles R. Knight (1874-1953).

Ekki er auðvelt að greina atferli löngu útdauðra dýrategunda þegar þær skilja aðeins eftir sig steingerð bein. Því verður spurningunni sem hér er varpað fram í raun ekki svarað, því vísindamenn greinir á um hvort grameðlan hafi drepið nashyrningseðluna sér til matar eða lagst á hræ hennar. Greiningar Ericksons og fleiri vísindamanna, hafa einungis beinst að grameðlunni og vera má að hún hafi verið eina rándýrið sem hafði stærð og afl til að ráða við nashyrningseðluna á þessum slóðum og á þessum tíma - ef hún réðst á nashyrningseðluna á annað borð.

Heimildir og myndir:


Tengd svör á Vísindavefnum eftir sama höfund:...