Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað eru verðbætur?

Gylfi Magnússon

Með verðbótum er átt við að reynt er að taka tillit til breytinga á verðlagi þegar fjárupphæðir eru reiknaðar og bæta þeim sem á að fá fé verðlagsbreytingu þannig að hann geti keypt það sama fyrir féð með verðbótum og hann hefði getað keypt fyrir féð án verðbóta ef verðlag hefði ekkert breyst. Breytingar á verðlagi eru oftast verðbólga, það er að segja að verð á vörum og þjónustu hækkar með tímanum, en einnig þekkist verðhjöðnun; verð á vörum og þjónustu lækkar þá með tímanum. Ef verðlag lækkar verða verðbætur neikvæð stærð.

Verðlagsbreytingar eru reiknaðar út frá verðvísitölum, á Íslandi oftast vísitölu neysluverðs sem Hagstofan reiknar út. Hægt er að semja um verðbætur í ýmsum viðskiptum en einna algengast er að það sé gert í lánsviðskiptum eða kjarasamningum, enda er þá oft samið til nokkurs tíma í senn.

Skoðum tvö einföld dæmi um notkun þessa, annað úr kjarasamningi og hitt úr lánsviðskiptum. Gerum ráð fyrir að samið hafi verið um 1.000 krónur á tímann til tveggja ára og að eftir fyrra árið eigi laun að hækka í takti við verðlagsbreytingar það ár. Gerum enn fremur ráð fyrir að verðlagsvísitalan hafi verið 200 stig í upphafi samningstímans en sé 210 stig ári síðar. Þá hefur verðbólga mælst 5% því að 210 er 5% meira en 200, sem má sjá með því að reikna:
(210/200) - 1= 0,05 = 5%.
Þar með fæst að tímakaupið á að hækka um 5% og verða 1.050 síðara árið. Það má einnig reikna sem:
1.000*210/200 = 1.050.
Hækkun vísitölunnar um 5% þýðir að verð á þeim vörum og þeirri þjónustu sem miðað er við hefur hækkað um að meðaltali 5% en vitaskuld er þess að vænta að sumt hafi hækkað meira en þetta en annað minna og jafnvel lækkað í verði. Það er því ekki víst að þær vörur og sú þjónusta sem launþeginn kaupir alla jafna hafi hækkað um nákvæmlega 5%; kaupmáttur launa hans getur því breyst eitthvað þrátt fyrir verðbæturnar.

Skoðum síðan dæmi um lánsviðskipti og gerum aftur ráð fyrir því að horft sé til eins árs þótt raunar sé óheimilt á Íslandi að semja um verðtryggingu í lánsviðskiptum til svo skamms tíma. Maður nokkur leggur 1.000 krónur inn á bankabók sem ber 4% vexti auk verðtryggingar. Þetta eru að sjálfsögðu lánsviðskipti því að maðurinn lánar bankanum féð eins og nafnið innlán gefur til kynna. Gerum eins og áður ráð fyrir að verðlagsvísitalan sé 200 stig þegar lagt er inn og 210 stig ári síðar. Þar með á inneign mannsins að hækka um 5% vegna verðbóta og 4% vegna vaxta og verða:
1.000 * 210/200 * (1+4%) = 1.000 * 1,05 * 1,04 = 1.092
Takið eftir því að þótt 5% + 4% séu 9% þá vex innstæðan ekki um 9% að nafnverði heldur 9,2%. Ástæðan er að hækkun vegna verðbótanna og hækkun vegna raunvaxtanna margfaldast saman. Þetta má líka hugsa þannig að maðurinn fái verðbætur á vextina eða vexti á verðbæturnar.

Innlánsreikningar í íslenskum fjármálastofnunum eru ýmist verðtryggðir eða óverðtryggðir. Flestir eru óverðtryggðir, meðal annars vegna þess að óheimilt er að verðtryggja innlán sem bundin eru til skemmri tíma en þriggja ára. Bæði bankar og sparisjóðir bjóða verðtryggða innlánsreikninga sem bundnir eru til þriggja ára eða lengri tíma.

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvað eru verðbætur? Fær sá sem á peninga á inneignarreikningi verðbætur í þensluástandi?

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

6.6.2003

Spyrjandi

Bryndís Valgeirsdóttir

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvað eru verðbætur?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2003. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3484.

Gylfi Magnússon. (2003, 6. júní). Hvað eru verðbætur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3484

Gylfi Magnússon. „Hvað eru verðbætur?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2003. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3484>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru verðbætur?
Með verðbótum er átt við að reynt er að taka tillit til breytinga á verðlagi þegar fjárupphæðir eru reiknaðar og bæta þeim sem á að fá fé verðlagsbreytingu þannig að hann geti keypt það sama fyrir féð með verðbótum og hann hefði getað keypt fyrir féð án verðbóta ef verðlag hefði ekkert breyst. Breytingar á verðlagi eru oftast verðbólga, það er að segja að verð á vörum og þjónustu hækkar með tímanum, en einnig þekkist verðhjöðnun; verð á vörum og þjónustu lækkar þá með tímanum. Ef verðlag lækkar verða verðbætur neikvæð stærð.

Verðlagsbreytingar eru reiknaðar út frá verðvísitölum, á Íslandi oftast vísitölu neysluverðs sem Hagstofan reiknar út. Hægt er að semja um verðbætur í ýmsum viðskiptum en einna algengast er að það sé gert í lánsviðskiptum eða kjarasamningum, enda er þá oft samið til nokkurs tíma í senn.

Skoðum tvö einföld dæmi um notkun þessa, annað úr kjarasamningi og hitt úr lánsviðskiptum. Gerum ráð fyrir að samið hafi verið um 1.000 krónur á tímann til tveggja ára og að eftir fyrra árið eigi laun að hækka í takti við verðlagsbreytingar það ár. Gerum enn fremur ráð fyrir að verðlagsvísitalan hafi verið 200 stig í upphafi samningstímans en sé 210 stig ári síðar. Þá hefur verðbólga mælst 5% því að 210 er 5% meira en 200, sem má sjá með því að reikna:
(210/200) - 1= 0,05 = 5%.
Þar með fæst að tímakaupið á að hækka um 5% og verða 1.050 síðara árið. Það má einnig reikna sem:
1.000*210/200 = 1.050.
Hækkun vísitölunnar um 5% þýðir að verð á þeim vörum og þeirri þjónustu sem miðað er við hefur hækkað um að meðaltali 5% en vitaskuld er þess að vænta að sumt hafi hækkað meira en þetta en annað minna og jafnvel lækkað í verði. Það er því ekki víst að þær vörur og sú þjónusta sem launþeginn kaupir alla jafna hafi hækkað um nákvæmlega 5%; kaupmáttur launa hans getur því breyst eitthvað þrátt fyrir verðbæturnar.

Skoðum síðan dæmi um lánsviðskipti og gerum aftur ráð fyrir því að horft sé til eins árs þótt raunar sé óheimilt á Íslandi að semja um verðtryggingu í lánsviðskiptum til svo skamms tíma. Maður nokkur leggur 1.000 krónur inn á bankabók sem ber 4% vexti auk verðtryggingar. Þetta eru að sjálfsögðu lánsviðskipti því að maðurinn lánar bankanum féð eins og nafnið innlán gefur til kynna. Gerum eins og áður ráð fyrir að verðlagsvísitalan sé 200 stig þegar lagt er inn og 210 stig ári síðar. Þar með á inneign mannsins að hækka um 5% vegna verðbóta og 4% vegna vaxta og verða:
1.000 * 210/200 * (1+4%) = 1.000 * 1,05 * 1,04 = 1.092
Takið eftir því að þótt 5% + 4% séu 9% þá vex innstæðan ekki um 9% að nafnverði heldur 9,2%. Ástæðan er að hækkun vegna verðbótanna og hækkun vegna raunvaxtanna margfaldast saman. Þetta má líka hugsa þannig að maðurinn fái verðbætur á vextina eða vexti á verðbæturnar.

Innlánsreikningar í íslenskum fjármálastofnunum eru ýmist verðtryggðir eða óverðtryggðir. Flestir eru óverðtryggðir, meðal annars vegna þess að óheimilt er að verðtryggja innlán sem bundin eru til skemmri tíma en þriggja ára. Bæði bankar og sparisjóðir bjóða verðtryggða innlánsreikninga sem bundnir eru til þriggja ára eða lengri tíma.

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvað eru verðbætur? Fær sá sem á peninga á inneignarreikningi verðbætur í þensluástandi?
...