Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver var Zaraþústra?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Zaraþústra var spámaður í Persíu, þar sem nú er Íran. Hann var upphafsmaður þeirra trúarbragða sem kennd eru við hann, Zaraþústratrúar. Ekki er með öllu ljóst hvenær Zaraþústra var uppi og hafa ártöl allt frá 6000 til 600 fyrir okkar tímatal verið nefnd. Líklegast þykir að hann hafi verið uppi einhvern tíma milli 1500 og 1000, hugsanlega kringum 1200. Þótt þeir sem aðhyllast Zaraþústratrú séu nú á dögum innan við 200 þúsund var þessi trú á sínum tíma ríkistrú í Persíu. Boðskapur Zaraþústra hafði gífurleg áhrif á seinni tíma trúarbrögð svo sem gyðingdóm, kristni og íslam og er talað um Zaraþústra sem fyrsta boðbera eingyðistrúar.

Samkvæmt goðsögnum fæddist Zaraþústra hlæjandi og allur heimurinn fagnaði fæðingu hans. Sagt var að forspár um fæðingu hans hefðu verið til frá upphafi tíma. Illir andar reyndu að koma barninu fyrir kattarnef en það var undir verndarhendi hins góða. Upp úr þrítugu fór Zaraþústra að fá vitranir og hafnaði fjölgyðistrúnni sem á tíma hans var ríkjandi í Persíu. Hann boðaði trú á góðan, almáttugan guð, Ahura Mazda, sem ætti í baráttu við hið illa, Angra Mainyu.



Zaraþústra boðaði að mennirnir hefðu frjálsan vilja og gætu valið að fylgja hinu góða eða hinu illa. Sálir hinna réttlátu ættu svo vísa himnavist en sálir hinna ranglátu færu til helvítis. Þegar baráttu góðs og ills lyki, og hið góða sigraði hið illa, yrði heimurinn fyrir eins konar endurnýjun, Frashokereti, þar sem dauðir rísa upp. Að auki herma goðsagnir Zaraþústratrúarmanna að heiminum muni fæðast þrír frelsarar af hreinum meyjum. Skyldleikinn við þau eingyðistrúarbrögð sem við þekkjum betur nú á dögum í okkar heimshluta ætti að vera augljós.

Goðsagnir herma að Zaraþústra hafi framið mörg kraftaverk og meðal annars hafi hann snúið konungi nokkrum til trúar sinnar með því að lækna uppáhalds hestinn hans. Sagt er að Zaraþústra hafi verið myrtur við bænaiðkun, 77 ára gamall.

Sú trú sem Zaraþústra boðaði varð ríkistrú þriggja stórvelda í Persíu frá 6. öld f.o.t. til 7. aldar o.t. og var hún trúlega valdamestu trúarbrögð heims á þeim tíma. Með útbreiðslu íslam varð Zaraþústratrú undir og urðu áhangendur hennar fyrir miklum ofsóknum. Þrátt fyrir ofsóknirnar öldum saman er enn að finna um 20 þúsund manna ættflokk í Írak sem aðhyllist trúna og kallast sá ættflokkur gabr eða Zardushti. Stærri ættflokk, Parsa, er að finna í Indlandi en þeir eru nú um 110 þúsund. Parsar eru komnir af hópi Zaraþústratrúarfólks sem flúði ofsóknir í Persíu á 10. öld og settist að í Indlandi.

Samkvæmt hefðinni geta utanaðkomandi ekki snúist til Zaraþústratrúar heldur þarf fólk að fæðast inn í hana. Augljós afleiðing þessarar hefðar er að áhangendum trúarinnar fer smám saman fækkandi og hefur hefðin orðið umdeild á síðari tímum. Sumt Zaraþústratrúarfólk vill taka upp frjálslyndari stefnu í þessum efnum.

Helsta trúarrit Zaraþústratrúar er hin heilaga bók Avesta. Í henni eru meðal annars Gatha, 17 sálmar í fimm bálkum sem Saraþústra mun sjálfur hafa ort. Að auki má nefna Pahlavi-textana sem eru mun yngri en Avesta.

Eldur er mikið notaður við trúarathafnir í Zaraþústratrú en hann er tákn fyrir ljós Guðs og Asha, hið réttláta alltumlykjandi náttúrulögmál. Sumir, sérstaklega þeir sem hafa viljað gera lítið úr Zaraþústratrú, hafa túlkað þetta sem svo að trúin feli í sér dýrkun á eldi en þeir sem aðhyllast trúna segja þetta mikinn misskilning. Lykilatriði í trúariðkuninni er að feta hinn þrefalda veg: góðar hugsanir, góð orð og góðar gjörðir.

Heimildir:

Mynd af Saraþústra: Temple of Zoroaster

Mynd af Ahura Mazda: arteHistoria

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

30.12.2003

Spyrjandi

Sveinbjörn Finnsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver var Zaraþústra?“ Vísindavefurinn, 30. desember 2003. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2980.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 30. desember). Hver var Zaraþústra? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2980

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver var Zaraþústra?“ Vísindavefurinn. 30. des. 2003. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2980>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Zaraþústra?
Zaraþústra var spámaður í Persíu, þar sem nú er Íran. Hann var upphafsmaður þeirra trúarbragða sem kennd eru við hann, Zaraþústratrúar. Ekki er með öllu ljóst hvenær Zaraþústra var uppi og hafa ártöl allt frá 6000 til 600 fyrir okkar tímatal verið nefnd. Líklegast þykir að hann hafi verið uppi einhvern tíma milli 1500 og 1000, hugsanlega kringum 1200. Þótt þeir sem aðhyllast Zaraþústratrú séu nú á dögum innan við 200 þúsund var þessi trú á sínum tíma ríkistrú í Persíu. Boðskapur Zaraþústra hafði gífurleg áhrif á seinni tíma trúarbrögð svo sem gyðingdóm, kristni og íslam og er talað um Zaraþústra sem fyrsta boðbera eingyðistrúar.

Samkvæmt goðsögnum fæddist Zaraþústra hlæjandi og allur heimurinn fagnaði fæðingu hans. Sagt var að forspár um fæðingu hans hefðu verið til frá upphafi tíma. Illir andar reyndu að koma barninu fyrir kattarnef en það var undir verndarhendi hins góða. Upp úr þrítugu fór Zaraþústra að fá vitranir og hafnaði fjölgyðistrúnni sem á tíma hans var ríkjandi í Persíu. Hann boðaði trú á góðan, almáttugan guð, Ahura Mazda, sem ætti í baráttu við hið illa, Angra Mainyu.



Zaraþústra boðaði að mennirnir hefðu frjálsan vilja og gætu valið að fylgja hinu góða eða hinu illa. Sálir hinna réttlátu ættu svo vísa himnavist en sálir hinna ranglátu færu til helvítis. Þegar baráttu góðs og ills lyki, og hið góða sigraði hið illa, yrði heimurinn fyrir eins konar endurnýjun, Frashokereti, þar sem dauðir rísa upp. Að auki herma goðsagnir Zaraþústratrúarmanna að heiminum muni fæðast þrír frelsarar af hreinum meyjum. Skyldleikinn við þau eingyðistrúarbrögð sem við þekkjum betur nú á dögum í okkar heimshluta ætti að vera augljós.

Goðsagnir herma að Zaraþústra hafi framið mörg kraftaverk og meðal annars hafi hann snúið konungi nokkrum til trúar sinnar með því að lækna uppáhalds hestinn hans. Sagt er að Zaraþústra hafi verið myrtur við bænaiðkun, 77 ára gamall.

Sú trú sem Zaraþústra boðaði varð ríkistrú þriggja stórvelda í Persíu frá 6. öld f.o.t. til 7. aldar o.t. og var hún trúlega valdamestu trúarbrögð heims á þeim tíma. Með útbreiðslu íslam varð Zaraþústratrú undir og urðu áhangendur hennar fyrir miklum ofsóknum. Þrátt fyrir ofsóknirnar öldum saman er enn að finna um 20 þúsund manna ættflokk í Írak sem aðhyllist trúna og kallast sá ættflokkur gabr eða Zardushti. Stærri ættflokk, Parsa, er að finna í Indlandi en þeir eru nú um 110 þúsund. Parsar eru komnir af hópi Zaraþústratrúarfólks sem flúði ofsóknir í Persíu á 10. öld og settist að í Indlandi.

Samkvæmt hefðinni geta utanaðkomandi ekki snúist til Zaraþústratrúar heldur þarf fólk að fæðast inn í hana. Augljós afleiðing þessarar hefðar er að áhangendum trúarinnar fer smám saman fækkandi og hefur hefðin orðið umdeild á síðari tímum. Sumt Zaraþústratrúarfólk vill taka upp frjálslyndari stefnu í þessum efnum.

Helsta trúarrit Zaraþústratrúar er hin heilaga bók Avesta. Í henni eru meðal annars Gatha, 17 sálmar í fimm bálkum sem Saraþústra mun sjálfur hafa ort. Að auki má nefna Pahlavi-textana sem eru mun yngri en Avesta.

Eldur er mikið notaður við trúarathafnir í Zaraþústratrú en hann er tákn fyrir ljós Guðs og Asha, hið réttláta alltumlykjandi náttúrulögmál. Sumir, sérstaklega þeir sem hafa viljað gera lítið úr Zaraþústratrú, hafa túlkað þetta sem svo að trúin feli í sér dýrkun á eldi en þeir sem aðhyllast trúna segja þetta mikinn misskilning. Lykilatriði í trúariðkuninni er að feta hinn þrefalda veg: góðar hugsanir, góð orð og góðar gjörðir.

Heimildir:

Mynd af Saraþústra: Temple of Zoroaster

Mynd af Ahura Mazda: arteHistoria...