Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvenær var hinn svokallaði „nefskattur“ Margrétar Thatcher afnuminn?

Gylfi Magnússon

Þangað til árið 1989 stóðu tveir tekjustofnar einkum undir rekstri breskra sveitarfélaga, annars vegar fasteignagjöld og hins vegar hlutdeild sveitarfélaganna í sköttum sem innheimtir voru af landstjórninni og úthlutað til sveitarfélaga eftir tilteknum reglum. Fasteignagjöldin áttu sér langa sögu, að minnsta kosti til ársins 1601. Báðir þessir tekjustofnar höfðu ýmsa galla, fasteignagjöldin lögðust mjög misþungt á íbúa sveitarfélaga og byggðu meðal annars á umdeildu fasteignamati. Stór hluti íbúa greiddi engin fasteignagjöld og þar af leiðandi ekkert beint til þeirra sveitarfélaga sem þeir bjuggu í. Millifærslurnar frá landstjórninni höfðu meðal annars þann galla að í þeim fólst ekki nægur hvati til ráðdeildar í rekstri sveitarfélaga, þau sem eyddu miklu fengu meira frá landstjórninni.

Í kosningunum 1974 var það eitt af kosningaloforðum Margrétar Thatcher og Íhaldsflokksins breska að hætta innheimtu fasteignagjaldanna. Íhaldsflokkurinn tapaði þeim kosningum svo að þessari áætlun var ekki hrint í framkvæmd þá. Þegar Íhaldsflokkurinn undir forystu Thatcher komst síðan til valda árið 1979 var ýmislegt reynt til að gera rekstur breskra sveitarfélaga skilvirkari. Það var þó ekki fyrr en 1989 sem innheimtu fasteignagjaldanna var hætt. Það var einungis gert í Skotlandi það ár en í Englandi og Wales árið eftir. Í staðinn var sveitarfélögum gert að innheimta ákveðið gjald af sérhverjum fullorðnum íbúa. Gjaldið átti að vera það sama fyrir flesta íbúa hvers sveitarfélags en mismunandi eftir sveitarfélögum. Þeir sem voru mjög tekjulágir áttu að fá nokkurn afslátt, allt að 80%. Þeir allra tekjulægstu fengu svo nokkra hækkun á opinberum bótum til að vega upp á móti þeim 20% sem eftir stóðu.

Skattur sem er lagður jafnt á alla, það er allir greiða sömu krónutölu, er kallaður nefskattur. Þessum breska skatti svipaði nokkuð til nefskatts en strangt til tekið var hann það þó ekki vegna þess að þeir tekjulægstu greiddu minna en aðrir. Nefskattar hafa ýmsa kosti, einkum að innheimta þeirra er einföld og að þeir draga til dæmis ekki úr hvata til vinnu með sama hætti og tekjuskattar. Helsti galli nefskatta er augljóslega að þeir leggjast þyngst á þá sem hafa lágar tekjur, þeir geta þurft að greiða hátt hlutfall af tekjum sínum þegar allir greiða sömu krónutölu. Vegna þessa galla er sjaldgæft að lagðir séu á nefskattar. Af þeim gjöldum sem hið opinbera á Íslandi leggur á kemst afnotagjald Ríkisútvarpsins einna næst því að vera nefskattur. Strangt til tekið telst afnotagjaldið þó ekki nefskattur, meðal annars vegna þess að það er lagt á fjölskyldur en ekki einstaklinga svo að þeir sem búa einir borga meira en aðrir.

Skemmst er frá því að segja að þessi breska skattlagning varð afar óvinsæl. Kröftug mótmæli brutust út og sums staðar urðu óeirðir. Umtalsverður hluti íbúa neitaði að greiða og fjölmargir reyndu að komast hjá því að skatturinn væri lagður á þá með því að reyna að koma sér af skrám sveitarfélaga. Þess utan reyndist kostnaður við innheimtuna mun meiri en við innheimtu fasteignagjaldanna áður.

Óánægjan með skattinn var einn þeirra þátta sem grófu undan stuðningi við Thatcher innan Íhaldsflokksins og olli því að fylgi við flokkinn í skoðanakönnunum fór minnkandi. Svo fór að í nóvember 1990 skipti flokkurinn um leiðtoga og John Major tók við. Ríkisstjórn Major lýsti því fljótlega yfir að hætt yrði innheimtu skattsins og árið 1993 var því alveg hætt. John Major vann kosningar árið 1992 en tapaði síðan árið 1997 og ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forystu Tony Blair tók við völdum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • „Fiscal illusion and political accountability: Theory and evidence from two local tax regimes in Britain“ eftir Norman Gemmell, Oliver Morrissey og Abuzer Pinar, Public Choice, 110. árg. bls. 199-224 (2002).
  • „Lessons from the British poll tax disaster“ eftir Peter Smith, National Tax Journal, 44. árg. bls. 421-434 (1991).

Mynd:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

30.12.2003

Spyrjandi

Jóhann Ingi Kristinsson,
f. 1985

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvenær var hinn svokallaði „nefskattur“ Margrétar Thatcher afnuminn?“ Vísindavefurinn, 30. desember 2003. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2978.

Gylfi Magnússon. (2003, 30. desember). Hvenær var hinn svokallaði „nefskattur“ Margrétar Thatcher afnuminn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2978

Gylfi Magnússon. „Hvenær var hinn svokallaði „nefskattur“ Margrétar Thatcher afnuminn?“ Vísindavefurinn. 30. des. 2003. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2978>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær var hinn svokallaði „nefskattur“ Margrétar Thatcher afnuminn?
Þangað til árið 1989 stóðu tveir tekjustofnar einkum undir rekstri breskra sveitarfélaga, annars vegar fasteignagjöld og hins vegar hlutdeild sveitarfélaganna í sköttum sem innheimtir voru af landstjórninni og úthlutað til sveitarfélaga eftir tilteknum reglum. Fasteignagjöldin áttu sér langa sögu, að minnsta kosti til ársins 1601. Báðir þessir tekjustofnar höfðu ýmsa galla, fasteignagjöldin lögðust mjög misþungt á íbúa sveitarfélaga og byggðu meðal annars á umdeildu fasteignamati. Stór hluti íbúa greiddi engin fasteignagjöld og þar af leiðandi ekkert beint til þeirra sveitarfélaga sem þeir bjuggu í. Millifærslurnar frá landstjórninni höfðu meðal annars þann galla að í þeim fólst ekki nægur hvati til ráðdeildar í rekstri sveitarfélaga, þau sem eyddu miklu fengu meira frá landstjórninni.

Í kosningunum 1974 var það eitt af kosningaloforðum Margrétar Thatcher og Íhaldsflokksins breska að hætta innheimtu fasteignagjaldanna. Íhaldsflokkurinn tapaði þeim kosningum svo að þessari áætlun var ekki hrint í framkvæmd þá. Þegar Íhaldsflokkurinn undir forystu Thatcher komst síðan til valda árið 1979 var ýmislegt reynt til að gera rekstur breskra sveitarfélaga skilvirkari. Það var þó ekki fyrr en 1989 sem innheimtu fasteignagjaldanna var hætt. Það var einungis gert í Skotlandi það ár en í Englandi og Wales árið eftir. Í staðinn var sveitarfélögum gert að innheimta ákveðið gjald af sérhverjum fullorðnum íbúa. Gjaldið átti að vera það sama fyrir flesta íbúa hvers sveitarfélags en mismunandi eftir sveitarfélögum. Þeir sem voru mjög tekjulágir áttu að fá nokkurn afslátt, allt að 80%. Þeir allra tekjulægstu fengu svo nokkra hækkun á opinberum bótum til að vega upp á móti þeim 20% sem eftir stóðu.

Skattur sem er lagður jafnt á alla, það er allir greiða sömu krónutölu, er kallaður nefskattur. Þessum breska skatti svipaði nokkuð til nefskatts en strangt til tekið var hann það þó ekki vegna þess að þeir tekjulægstu greiddu minna en aðrir. Nefskattar hafa ýmsa kosti, einkum að innheimta þeirra er einföld og að þeir draga til dæmis ekki úr hvata til vinnu með sama hætti og tekjuskattar. Helsti galli nefskatta er augljóslega að þeir leggjast þyngst á þá sem hafa lágar tekjur, þeir geta þurft að greiða hátt hlutfall af tekjum sínum þegar allir greiða sömu krónutölu. Vegna þessa galla er sjaldgæft að lagðir séu á nefskattar. Af þeim gjöldum sem hið opinbera á Íslandi leggur á kemst afnotagjald Ríkisútvarpsins einna næst því að vera nefskattur. Strangt til tekið telst afnotagjaldið þó ekki nefskattur, meðal annars vegna þess að það er lagt á fjölskyldur en ekki einstaklinga svo að þeir sem búa einir borga meira en aðrir.

Skemmst er frá því að segja að þessi breska skattlagning varð afar óvinsæl. Kröftug mótmæli brutust út og sums staðar urðu óeirðir. Umtalsverður hluti íbúa neitaði að greiða og fjölmargir reyndu að komast hjá því að skatturinn væri lagður á þá með því að reyna að koma sér af skrám sveitarfélaga. Þess utan reyndist kostnaður við innheimtuna mun meiri en við innheimtu fasteignagjaldanna áður.

Óánægjan með skattinn var einn þeirra þátta sem grófu undan stuðningi við Thatcher innan Íhaldsflokksins og olli því að fylgi við flokkinn í skoðanakönnunum fór minnkandi. Svo fór að í nóvember 1990 skipti flokkurinn um leiðtoga og John Major tók við. Ríkisstjórn Major lýsti því fljótlega yfir að hætt yrði innheimtu skattsins og árið 1993 var því alveg hætt. John Major vann kosningar árið 1992 en tapaði síðan árið 1997 og ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forystu Tony Blair tók við völdum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • „Fiscal illusion and political accountability: Theory and evidence from two local tax regimes in Britain“ eftir Norman Gemmell, Oliver Morrissey og Abuzer Pinar, Public Choice, 110. árg. bls. 199-224 (2002).
  • „Lessons from the British poll tax disaster“ eftir Peter Smith, National Tax Journal, 44. árg. bls. 421-434 (1991).

Mynd:...