Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Náði Hitler að ráðast inn í Moskvu?

G. Jökull Gíslason

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað getið þið sagt mér um innrás Hitlers í Moskvu?

Í bók sinni og pólitískri stefnuyfirlýsingu Mein Kampf (Baráttan mín) hafði Hitler gefið út að til þess að þýska ríkið gæti dafnað og þrifist þá þyrfti það að stækka. Til þess horfði hann til Austur-Evrópu. Hitler leit svo á að Þjóðverjar væru herraþjóð en Austur-Evrópubúar væru af síðri kynstofni. Því til viðbótar litu nasistar á kommúnista sem sína helstu pólitísku andstæðinga.

Eftir að Hitler og nasistar komust til valda vígbjuggu þeir Þýskaland og gerðu kröfur til landyfirráða í kring um sig. Í fyrstu gátu þeir það án þess að lenda í vopnuðum átökum en það breyttist með innrásinni í Pólland 1. september 1939. Það kom heimsbyggðinni í opna skjöldu þegar Þjóðverjar og Sovétmenn gerðu með sér ekki-árásarsamning skömmu áður en það tryggði austurlandamæri Þjóðverja á meðan þeir sigurðu Pólland og síðar Vestur-Evrópu, Danmörk og Noreg.

Í lok árs 1940 gaf Hitler út foringjatilskipun 21 um innrás í Sovétríkin. Innrásin fékk nafnið Aðgerð Barbarossa. Á þeim tíma voru herir Þýskalands vígvanir og vígreifir. Þeir höfðu att kappi við öflugustu heri Evrópu og sigrað þá auðveldlega. Á sama tíma höfðu Sovétmenn barist við smáríkið Finnland og gengið afar illa. Hitler lét meira að segja hafa eftir sér að Sovétríkin væru eins og fúið hús, það þyrfti aðeins að sparka upp hurðinni og þá mundi húsið allt hrynja.

Ljósmynd af frumriti foringjatilskipunar 21 um innrás í Sovétríkin.

Þýskaland, ásamt bandamönnum þess Ungverjum, Rúmenum, Ítölum, Slóvökum og Finnum, söfnuðu saman einum stærsta innrásarher sögunnar fram til þessa. Herir þeirra töldu nálægt fjórar milljónir hermanna í 153 herdeildum. Gífurleg bjartsýni einkenndi alla skiplagningu Þjóðverja. Þeir sáu fyrir sér skammvinnt stríð þar sem landher Sovétríkjnna yrði gereytt. Það átti að leiða til allgerar uppgjafar og hruns kommúnismans.

Innrásin hófst þann 22. júní 1941 og gekk vonum framar í upphafi. Þrátt fyrir ýmsar viðvaranir hafði Stalín neitað að setja hersveitir sínar á viðbúnaðarstig til að styggja ekki Þjóðverja og Rauði herinn var illa búinn til að verjast. Stór hluti flughersins var eyðilagður á jörðu niðri og landherinn í slæmri stöðu til að verjast. Rauði herinn leið líka skelfilega fyrir hreinsanir Stalíns sem hafði látið taka af lífi mjög marga af hæfustu herforingjum hersins á árunum fyrir stríð. Þá sem eftir voru skorti allt frumkvæði. Oft framfylgdu þeir úreltum skipunum frá yfirstjórn sem tók ekkert mið af atburðum á vígstöðvunum.

Þýskur hermaður við hlið brennandi rússnesks skriðdreka á fyrstu dögum Barbarossa.

Þjóðverjar unnu í upphafi hvern sigurinn á fætur öðrum. Þeir náðu mörgum mikilvægum svæðum og tóku hundruð þúsunda stríðsfanga. Fljótlega kom þó í ljós að Þjóðverjar höfðu vanmetið styrk Rauða hersins og sovéska stjórnkerfisins. Þá voru fjarlægðir í Rússlandi slíkar að áróðursmeistarar nasista hættu að birta kort, því þrátt fyrir alla velgengnina þá var enn langt eftir til Moskvu. Í lok júlí sýndu Sovétríkin engin merki um uppgjöf. Þá deildi Hitler við hershöfðingja sína. Í upphafi höfðu markmið innrásarinnar verið illa skilgreind. Hershöfðingjarnir vildu í lok júlí stefna á Moskvu en Hitler vildi tryggja hliðar víglínunnar og stefnan var sett á Leníngrad og Kíev.

Enn á ný unnu Þjóðverjar stórsigra og tóku enn fleiri stríðsfanga en tókst ekki að sigra Leníngrad sem var hneppt í langvinnt umsátur. Það var ekki fyrr en í september að stefnan var sett á Moskvu. Herir Þjóðverja voru orðnir lúnir og aðflutningar voru erfiðir. Lokasóknin gegn Moskvu fékk titilinn Aðgerð Typhoon og hófst 2. október. Á þessum tíma höfðu Sovétmenn misst stóran hluta fasta hers síns og í eina skiptið í stríðinu voru Þjóðverjar fjölmennari. Lokasóknin hófst í byrjun október. Á sama tíma hófst haust svonefnt rasputitsa-tímabil, þegar miklar rigningar breyttu jarðveginum í leðju og ekki hjálpaði það til að vegakerfið í Rússlandi á þeim tíma var afar frumstætt. Óhætt er að segja að sókn Þjóðverja hafi sokkið í drullu. Sovétmenn sem voru mun nær birgðastöðum sínum nýttu þennan tíma mjög vel til að styrkja varnir sínar. Þegar fyrstu frostin hertu jörðina tókst Þjóðverjum að herða sóknina en þeir þurftu að flytja allar sínar birgðir um 2000 km frá Þýskalandi og innrásin hafði reynst þeim mun dýrkeyptari en þeir höfðu nokkurn tíma reiknað með. Þann 2. desember komst þýska 258 fótgönguliðaherdeildin í 24 km fjarlægð frá Moskvu og sá turnana í Kreml. Það var það næsta sem þeir komust að Moskvu því á sama tíma hófst rússneski veturinn fyrir alvöru og þýsku herirnir voru engan veginn tilbúnir að mæta þeim gífurlegu frosthörkum sem fylgdu.

Rasputitsa. Á vorin og aftur síðla hausts breyta árstíðabundnar rigningar jarðveginum í leðju sem gerir alla flutninga afar erfiða.

Á þessum sex mánuðum höfðu um þrjár milljónir sovéskra hermanna fallið og aðrar þrjár milljónir höfðu verið teknar til fanga. Þar á ofan höfðu þeir misst yfir 20.000 flugvélar og annað eins af skriðdrekum. Það er sorgleg saga að Þjóðverjar fóru mjög illa með rússnesku stríðsfangana fyrsta árið og flestir sultu þeir í hel. Það var ekki fyrr en árið 1941 þegar Þjóðverjar áttuðu sig á því að þetta yrði langvinnt stríð að þeir fóru að fara aðeins betur með rússneska stríðsfanga og nýttu þá sem vinnuafl.

Þjóðverjar höfðu misst mun minna. Um 200.000 höfðu fallið og rúmlega 600.000 voru særðir, en veturinn átti eftir að reynast þeim mjög erfiður. Það var vísbending um það sem koma skyldi að þrátt fyrir gífurleg afhroð á fyrstu mánuðunum þá náðu Sovétmenn að byggja upp heri sína á ný og hófu gagnsókn áður en árið var úti.

Rússneskir stríðsfangar. Þjóðverjar unnu kerfisbundið í því að svelta þá til dauða.

Innrás Þjóðverja inn í Sovétríkin 1941 hefur valdið miklum vangaveltum og ágiskunum um hvort Þjóðverjar hefðu getað unnið Rússa. Spurningin „Hvað ef þeir hefðu strax tekið stefnuna á Moskvu?“ stendur þar hæst. Um það er erfitt að segja. Það dugði Napóleon ekki að sigra Moskvu og herir Sovétmanna við Kíev voru mjög stórir og hefðu væntanlega getað hafið gagnsókn. Aðalatriðið er samt að Þýskaland sem var rétt um 70 milljón manna ríki sagði 170 milljón manna risaríki stríð á hendur. Hernaðaráætlun Þjóðverja var bjartsýn í meira lagi og hafði gert ráð fyrir að sigra hratt og að Sovétríkin myndu fljótt gefast upp. Þegar það gekk ekki eftir, tók við þriggja ára stöðug styrjöld þar sem Þýskaland endaði í átökum við Sovétríkin, Bretland og Bandaríkin. Það stríð gat bara endað á einn veg.

Átökin á austurvígstöðvunum stóðu samfleytt í 1418 daga. Í Rússlandi eru þau kölluð Föðurlandsstríðið mikla. Það átti eftir að kosta ríflega 30 milljón manns lífið.

Myndir:

Höfundur

G. Jökull Gíslason

rithöfundur og stundakennari hjá Endurmenntun HÍ

Útgáfudagur

3.7.2015

Spyrjandi

Ingvar Hreiðarsson

Tilvísun

G. Jökull Gíslason. „Náði Hitler að ráðast inn í Moskvu?“ Vísindavefurinn, 3. júlí 2015. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=27171.

G. Jökull Gíslason. (2015, 3. júlí). Náði Hitler að ráðast inn í Moskvu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=27171

G. Jökull Gíslason. „Náði Hitler að ráðast inn í Moskvu?“ Vísindavefurinn. 3. júl. 2015. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=27171>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Náði Hitler að ráðast inn í Moskvu?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Hvað getið þið sagt mér um innrás Hitlers í Moskvu?

Í bók sinni og pólitískri stefnuyfirlýsingu Mein Kampf (Baráttan mín) hafði Hitler gefið út að til þess að þýska ríkið gæti dafnað og þrifist þá þyrfti það að stækka. Til þess horfði hann til Austur-Evrópu. Hitler leit svo á að Þjóðverjar væru herraþjóð en Austur-Evrópubúar væru af síðri kynstofni. Því til viðbótar litu nasistar á kommúnista sem sína helstu pólitísku andstæðinga.

Eftir að Hitler og nasistar komust til valda vígbjuggu þeir Þýskaland og gerðu kröfur til landyfirráða í kring um sig. Í fyrstu gátu þeir það án þess að lenda í vopnuðum átökum en það breyttist með innrásinni í Pólland 1. september 1939. Það kom heimsbyggðinni í opna skjöldu þegar Þjóðverjar og Sovétmenn gerðu með sér ekki-árásarsamning skömmu áður en það tryggði austurlandamæri Þjóðverja á meðan þeir sigurðu Pólland og síðar Vestur-Evrópu, Danmörk og Noreg.

Í lok árs 1940 gaf Hitler út foringjatilskipun 21 um innrás í Sovétríkin. Innrásin fékk nafnið Aðgerð Barbarossa. Á þeim tíma voru herir Þýskalands vígvanir og vígreifir. Þeir höfðu att kappi við öflugustu heri Evrópu og sigrað þá auðveldlega. Á sama tíma höfðu Sovétmenn barist við smáríkið Finnland og gengið afar illa. Hitler lét meira að segja hafa eftir sér að Sovétríkin væru eins og fúið hús, það þyrfti aðeins að sparka upp hurðinni og þá mundi húsið allt hrynja.

Ljósmynd af frumriti foringjatilskipunar 21 um innrás í Sovétríkin.

Þýskaland, ásamt bandamönnum þess Ungverjum, Rúmenum, Ítölum, Slóvökum og Finnum, söfnuðu saman einum stærsta innrásarher sögunnar fram til þessa. Herir þeirra töldu nálægt fjórar milljónir hermanna í 153 herdeildum. Gífurleg bjartsýni einkenndi alla skiplagningu Þjóðverja. Þeir sáu fyrir sér skammvinnt stríð þar sem landher Sovétríkjnna yrði gereytt. Það átti að leiða til allgerar uppgjafar og hruns kommúnismans.

Innrásin hófst þann 22. júní 1941 og gekk vonum framar í upphafi. Þrátt fyrir ýmsar viðvaranir hafði Stalín neitað að setja hersveitir sínar á viðbúnaðarstig til að styggja ekki Þjóðverja og Rauði herinn var illa búinn til að verjast. Stór hluti flughersins var eyðilagður á jörðu niðri og landherinn í slæmri stöðu til að verjast. Rauði herinn leið líka skelfilega fyrir hreinsanir Stalíns sem hafði látið taka af lífi mjög marga af hæfustu herforingjum hersins á árunum fyrir stríð. Þá sem eftir voru skorti allt frumkvæði. Oft framfylgdu þeir úreltum skipunum frá yfirstjórn sem tók ekkert mið af atburðum á vígstöðvunum.

Þýskur hermaður við hlið brennandi rússnesks skriðdreka á fyrstu dögum Barbarossa.

Þjóðverjar unnu í upphafi hvern sigurinn á fætur öðrum. Þeir náðu mörgum mikilvægum svæðum og tóku hundruð þúsunda stríðsfanga. Fljótlega kom þó í ljós að Þjóðverjar höfðu vanmetið styrk Rauða hersins og sovéska stjórnkerfisins. Þá voru fjarlægðir í Rússlandi slíkar að áróðursmeistarar nasista hættu að birta kort, því þrátt fyrir alla velgengnina þá var enn langt eftir til Moskvu. Í lok júlí sýndu Sovétríkin engin merki um uppgjöf. Þá deildi Hitler við hershöfðingja sína. Í upphafi höfðu markmið innrásarinnar verið illa skilgreind. Hershöfðingjarnir vildu í lok júlí stefna á Moskvu en Hitler vildi tryggja hliðar víglínunnar og stefnan var sett á Leníngrad og Kíev.

Enn á ný unnu Þjóðverjar stórsigra og tóku enn fleiri stríðsfanga en tókst ekki að sigra Leníngrad sem var hneppt í langvinnt umsátur. Það var ekki fyrr en í september að stefnan var sett á Moskvu. Herir Þjóðverja voru orðnir lúnir og aðflutningar voru erfiðir. Lokasóknin gegn Moskvu fékk titilinn Aðgerð Typhoon og hófst 2. október. Á þessum tíma höfðu Sovétmenn misst stóran hluta fasta hers síns og í eina skiptið í stríðinu voru Þjóðverjar fjölmennari. Lokasóknin hófst í byrjun október. Á sama tíma hófst haust svonefnt rasputitsa-tímabil, þegar miklar rigningar breyttu jarðveginum í leðju og ekki hjálpaði það til að vegakerfið í Rússlandi á þeim tíma var afar frumstætt. Óhætt er að segja að sókn Þjóðverja hafi sokkið í drullu. Sovétmenn sem voru mun nær birgðastöðum sínum nýttu þennan tíma mjög vel til að styrkja varnir sínar. Þegar fyrstu frostin hertu jörðina tókst Þjóðverjum að herða sóknina en þeir þurftu að flytja allar sínar birgðir um 2000 km frá Þýskalandi og innrásin hafði reynst þeim mun dýrkeyptari en þeir höfðu nokkurn tíma reiknað með. Þann 2. desember komst þýska 258 fótgönguliðaherdeildin í 24 km fjarlægð frá Moskvu og sá turnana í Kreml. Það var það næsta sem þeir komust að Moskvu því á sama tíma hófst rússneski veturinn fyrir alvöru og þýsku herirnir voru engan veginn tilbúnir að mæta þeim gífurlegu frosthörkum sem fylgdu.

Rasputitsa. Á vorin og aftur síðla hausts breyta árstíðabundnar rigningar jarðveginum í leðju sem gerir alla flutninga afar erfiða.

Á þessum sex mánuðum höfðu um þrjár milljónir sovéskra hermanna fallið og aðrar þrjár milljónir höfðu verið teknar til fanga. Þar á ofan höfðu þeir misst yfir 20.000 flugvélar og annað eins af skriðdrekum. Það er sorgleg saga að Þjóðverjar fóru mjög illa með rússnesku stríðsfangana fyrsta árið og flestir sultu þeir í hel. Það var ekki fyrr en árið 1941 þegar Þjóðverjar áttuðu sig á því að þetta yrði langvinnt stríð að þeir fóru að fara aðeins betur með rússneska stríðsfanga og nýttu þá sem vinnuafl.

Þjóðverjar höfðu misst mun minna. Um 200.000 höfðu fallið og rúmlega 600.000 voru særðir, en veturinn átti eftir að reynast þeim mjög erfiður. Það var vísbending um það sem koma skyldi að þrátt fyrir gífurleg afhroð á fyrstu mánuðunum þá náðu Sovétmenn að byggja upp heri sína á ný og hófu gagnsókn áður en árið var úti.

Rússneskir stríðsfangar. Þjóðverjar unnu kerfisbundið í því að svelta þá til dauða.

Innrás Þjóðverja inn í Sovétríkin 1941 hefur valdið miklum vangaveltum og ágiskunum um hvort Þjóðverjar hefðu getað unnið Rússa. Spurningin „Hvað ef þeir hefðu strax tekið stefnuna á Moskvu?“ stendur þar hæst. Um það er erfitt að segja. Það dugði Napóleon ekki að sigra Moskvu og herir Sovétmanna við Kíev voru mjög stórir og hefðu væntanlega getað hafið gagnsókn. Aðalatriðið er samt að Þýskaland sem var rétt um 70 milljón manna ríki sagði 170 milljón manna risaríki stríð á hendur. Hernaðaráætlun Þjóðverja var bjartsýn í meira lagi og hafði gert ráð fyrir að sigra hratt og að Sovétríkin myndu fljótt gefast upp. Þegar það gekk ekki eftir, tók við þriggja ára stöðug styrjöld þar sem Þýskaland endaði í átökum við Sovétríkin, Bretland og Bandaríkin. Það stríð gat bara endað á einn veg.

Átökin á austurvígstöðvunum stóðu samfleytt í 1418 daga. Í Rússlandi eru þau kölluð Föðurlandsstríðið mikla. Það átti eftir að kosta ríflega 30 milljón manns lífið.

Myndir:

...