Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hverjir hafa fengið friðarverðlaun Nóbels og þá fyrir hvað?

Stefán Jónsson

Þegar þetta er skrifað (árið 2002) eru 101 ár síðan friðarverðlaun Nóbels voru veitt í fyrsta sinn. Að vísu hefur það gerst 19 sinnum að verðlaunin væru ekki veitt, en á móti kemur að 25 sinnum hefur þeim verið skipt á milli tveggja og einu sinni milli þriggja. Alls eru því 109 aðilar sem hafa fengið þau í tímans rás. Þetta eru greinilega of margir til að telja alla upp í stuttu svari, en hins vegar er hægt að sjá lista yfir þá á heimasíðu norsku Nóbelsverðlaunanefndarinnar.

Sama má raunar segja um ástæður verðlaunaveitinganna: Þær eru of margvíslegar til að hægt sé með góðu móti að nefna þær allar. Engu að síður er hægt að greina nokkuð skýra stefnu í vali nefndarinnar á verðlaunahöfum.

Frá stofnun verðlaunasjóðsins og fram til 1914 voru flestir verðlaunahafarnir virkir í einhvers konar félagasamtökum friðarsinna eða mannvina. Sem dæmi mætti nefna fyrstu verðlaunahafana frá 1901. Það voru þeir Jean Henry Dunant, sem stofnaði Alþjóða Rauða krossinn, og Frédéric Passy, sem hafði stofnað eina fyrstu frönsku friðarhreyfinguna.

Frá þessu voru þó tvær merkilegar undantekningar. Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti hlaut verðlaunin 1906 en Elihu Root, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna hlaut þau 1913. Hvorugur var eiginlegur friðarsinni né rak friðvænlega stefnu að öllu leyti. Báðir höfðu hins vegar miðlað málum í deilum milli ríkja, og þannig stöðvað eða hindrað stríð, þegar það þjónaði stjórnmálamarkmiðum þeirra.

Eins og gefur að skilja þótti ekki rétt að veita nein verðlaun meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð. Þá voru heldur engir sem gátu talist vinna að friði, nema Alþjóða Rauði krossinn sem fékk verðlaunin 1917.

Eftir stríðið gegndi auðvitað öðru máli. Þá varð líka nokkur stefnubreyting því að verðlaunum til friðarsamtaka eða fulltrúa þeirra snarfækkaði, en verðlaunum til stjórnmálamanna fjölgaði að sama skapi. Á þriðja áratugnum voru flestir verðlaunahafarnir á einhvern hátt tengdir þýðingarmiklum milliríkjasamningum eða Þjóðabandalaginu, sem var undanfari Sameinuðu þjóðanna og byggðist á svipuðum grunni. Til dæmis hafði megnið af verðlaunahöfum áranna 1925 og 1926 haft hönd í bagga með Locarno-samkomulaginu þar sem landamæri Þýskalands voru ákvörðuð meðal annars. Einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Þjóðabandalagsins, Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti, hlaut verðlaunin fyrir árið 1919. Svipaða sögu er að segja af fjórða áratugnum. Þá gerðist það til dæmis þrisvar að starfsmenn Þjóðabandalagsins hlytu verðlaun.

Meðan á seinna heimsstríðinu stóð voru að sjálfsögðu ekki veitt nein verðlaun en eftir að því lauk gerðist það aftur að stefna Nóbelsnefndarinnar breyttist. Annars vegar urðu verðlaunin alþjóðlegri. Á fyrri hluta aldarinnar var yfirgnæfandi meirihluti þeirra veittur Evrópu- eða Bandaríkjamönnum og nánast alltaf fyrir eitthvað sem snerti þessa heimshluta öðrum fremur. Árið 1950 voru verðlaunin veitt bandaríkjamanninum Ralph Bunche fyrir að hafa miðlað málum í deilu Araba og Gyðinga um Palestínu. Upp frá því hefur varla nema um fjórðungur verðlaunanna tengst Vesturlöndum.

Á hinn bóginn breyttist skilningur nefndarinnar á friði. Í erfðaskrá Nobels er kveðið skýrt á um það að verðlaunin skuli veitt þeim sem hefði
unnið mest eða best starf við að efla bræðralag meðal þjóða, afnema eða minnka fasta heri, halda friðarráðstefnur eða stuðla að þeim.
Þessu fylgdi nefndin nákvæmlega fram til 1960 en þá komu friðarverðlaunin í hlut Suður-Afríkubúans Alberts Luthuli. Hann var Zúlú-maður og barðist með friðsamlegum aðferðum fyrir réttindum svartra og gegn aðskilnaði kynþáttanna. Með öðrum orðum barðist hann fyrir bræðralagi, innan samfélags, en ekki milli þeirra.

Ef samfélagslegt óréttlæti er skilið sem nokkurs konar ófriður milli þjóðfélagshópa má vissulega telja þetta friðarbaráttu, auk þess sem líklegt er að friður innan þjóða stuðli að friði milli þjóða, meðal annars vegna fordæmis. Í samræmi við það hefur nóbelsnefndin oft heiðrað baráttumenn fyrir réttlæti. Það er þó skilyrði að baráttuaðferðirnar séu friðsamlegar. Besta dæmið um svona baráttumann er sennilega Martin Luther King, sem var verðlaunaður árið 1964.

Að ýmsu öðru leyti eru verðlaunaveitingarnar nokkuð svipaðar á síðari og fyrri helmingi aldarinnar. Mannúðarsamtök eða sérlegir mannvinir hafa hlotið nokkur verðlaun. Til dæmis mætti nefna: Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (1954 og 1981), Alþjóða Rauða krossinn (1963), Amnesty International (1977), lækninn Albert Schweitzer (1952) og nunnuna móður Teresu (1979). Sameinuðu þjóðirnar hafa hins vegar tekið við af Þjóðabandalaginu sem tíður viðtakandi verðlaunanna. Frá stofnun SÞ hefur það gerst ellefu sinnum að starfsmenn samtakanna, eða stofnanir tengdar þeim, hafi fengið verðlaun, nú síðast í fyrra.

Oft hafa stjórnmálamenn líka verið heiðraðir og stundum hefur það vakið heiftarlegar deilur. Til að mynda var verðlaunum ársins 1994 skipt milli Yassers Arafat, leiðtoga PLO og ísraelsku ráðherranna Yitzhaks Rabin og Shimonar Peres. Þeir höfðu raunar gert friðarsamkomulag, en voru að öðru leyti alls engir friðarenglar. Samkomulagið kom heldur ekki að miklu haldi því Palestínudeilan geisar enn án afláts svo sem kunnugt er. Þessi verðlaun eru annars merkileg fyrir það að þetta er í eina skiptið sem þau hafa skipst milli þriggja.

Stundum er eins og verðlaununum sé ætlað að vera sérstaklega táknræn. Þetta á til dæmis við um verðlaunin til Rigobertu Menchú Tum. Hún er Indjáni frá Gvatemala og hefur barist mikið fyrir réttindum Indjána sem oft mega sæta grimmdarlegri kúgun. Þegar hún hlaut verðlaunin árið 1992 voru liðin slétt 500 ár frá því að Kólumbus kom fyrst til Ameríku og halla tók undan fæti fyrir Indjánum.

Undanfarin ár hefur tilefni verðlaunaveitinganna verið ansi fjölbreytt. Árið 1998 hlutu stjórnmálamennirnir John Hume og David Trimble þau fyrir að stuðla að friði á Norður-Írlandi, 1999 komu þau í hlut mannúðarsamtakanna Lækna án landamæra, 2000 voru þau veitt Kóreubúanum Kim Dae Jung fyrir baráttu hans fyrir lýðræði og sáttum á Kóreuskaganum og 2001 komu þau í hlut Kofis Annan og Sameinuðu þjóðanna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

13.8.2002

Spyrjandi

Steinþór Helgi Arnsteinsson,
f. 1984

Tilvísun

Stefán Jónsson. „Hverjir hafa fengið friðarverðlaun Nóbels og þá fyrir hvað?“ Vísindavefurinn, 13. ágúst 2002. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2641.

Stefán Jónsson. (2002, 13. ágúst). Hverjir hafa fengið friðarverðlaun Nóbels og þá fyrir hvað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2641

Stefán Jónsson. „Hverjir hafa fengið friðarverðlaun Nóbels og þá fyrir hvað?“ Vísindavefurinn. 13. ágú. 2002. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2641>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjir hafa fengið friðarverðlaun Nóbels og þá fyrir hvað?
Þegar þetta er skrifað (árið 2002) eru 101 ár síðan friðarverðlaun Nóbels voru veitt í fyrsta sinn. Að vísu hefur það gerst 19 sinnum að verðlaunin væru ekki veitt, en á móti kemur að 25 sinnum hefur þeim verið skipt á milli tveggja og einu sinni milli þriggja. Alls eru því 109 aðilar sem hafa fengið þau í tímans rás. Þetta eru greinilega of margir til að telja alla upp í stuttu svari, en hins vegar er hægt að sjá lista yfir þá á heimasíðu norsku Nóbelsverðlaunanefndarinnar.

Sama má raunar segja um ástæður verðlaunaveitinganna: Þær eru of margvíslegar til að hægt sé með góðu móti að nefna þær allar. Engu að síður er hægt að greina nokkuð skýra stefnu í vali nefndarinnar á verðlaunahöfum.

Frá stofnun verðlaunasjóðsins og fram til 1914 voru flestir verðlaunahafarnir virkir í einhvers konar félagasamtökum friðarsinna eða mannvina. Sem dæmi mætti nefna fyrstu verðlaunahafana frá 1901. Það voru þeir Jean Henry Dunant, sem stofnaði Alþjóða Rauða krossinn, og Frédéric Passy, sem hafði stofnað eina fyrstu frönsku friðarhreyfinguna.

Frá þessu voru þó tvær merkilegar undantekningar. Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti hlaut verðlaunin 1906 en Elihu Root, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna hlaut þau 1913. Hvorugur var eiginlegur friðarsinni né rak friðvænlega stefnu að öllu leyti. Báðir höfðu hins vegar miðlað málum í deilum milli ríkja, og þannig stöðvað eða hindrað stríð, þegar það þjónaði stjórnmálamarkmiðum þeirra.

Eins og gefur að skilja þótti ekki rétt að veita nein verðlaun meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð. Þá voru heldur engir sem gátu talist vinna að friði, nema Alþjóða Rauði krossinn sem fékk verðlaunin 1917.

Eftir stríðið gegndi auðvitað öðru máli. Þá varð líka nokkur stefnubreyting því að verðlaunum til friðarsamtaka eða fulltrúa þeirra snarfækkaði, en verðlaunum til stjórnmálamanna fjölgaði að sama skapi. Á þriðja áratugnum voru flestir verðlaunahafarnir á einhvern hátt tengdir þýðingarmiklum milliríkjasamningum eða Þjóðabandalaginu, sem var undanfari Sameinuðu þjóðanna og byggðist á svipuðum grunni. Til dæmis hafði megnið af verðlaunahöfum áranna 1925 og 1926 haft hönd í bagga með Locarno-samkomulaginu þar sem landamæri Þýskalands voru ákvörðuð meðal annars. Einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Þjóðabandalagsins, Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti, hlaut verðlaunin fyrir árið 1919. Svipaða sögu er að segja af fjórða áratugnum. Þá gerðist það til dæmis þrisvar að starfsmenn Þjóðabandalagsins hlytu verðlaun.

Meðan á seinna heimsstríðinu stóð voru að sjálfsögðu ekki veitt nein verðlaun en eftir að því lauk gerðist það aftur að stefna Nóbelsnefndarinnar breyttist. Annars vegar urðu verðlaunin alþjóðlegri. Á fyrri hluta aldarinnar var yfirgnæfandi meirihluti þeirra veittur Evrópu- eða Bandaríkjamönnum og nánast alltaf fyrir eitthvað sem snerti þessa heimshluta öðrum fremur. Árið 1950 voru verðlaunin veitt bandaríkjamanninum Ralph Bunche fyrir að hafa miðlað málum í deilu Araba og Gyðinga um Palestínu. Upp frá því hefur varla nema um fjórðungur verðlaunanna tengst Vesturlöndum.

Á hinn bóginn breyttist skilningur nefndarinnar á friði. Í erfðaskrá Nobels er kveðið skýrt á um það að verðlaunin skuli veitt þeim sem hefði
unnið mest eða best starf við að efla bræðralag meðal þjóða, afnema eða minnka fasta heri, halda friðarráðstefnur eða stuðla að þeim.
Þessu fylgdi nefndin nákvæmlega fram til 1960 en þá komu friðarverðlaunin í hlut Suður-Afríkubúans Alberts Luthuli. Hann var Zúlú-maður og barðist með friðsamlegum aðferðum fyrir réttindum svartra og gegn aðskilnaði kynþáttanna. Með öðrum orðum barðist hann fyrir bræðralagi, innan samfélags, en ekki milli þeirra.

Ef samfélagslegt óréttlæti er skilið sem nokkurs konar ófriður milli þjóðfélagshópa má vissulega telja þetta friðarbaráttu, auk þess sem líklegt er að friður innan þjóða stuðli að friði milli þjóða, meðal annars vegna fordæmis. Í samræmi við það hefur nóbelsnefndin oft heiðrað baráttumenn fyrir réttlæti. Það er þó skilyrði að baráttuaðferðirnar séu friðsamlegar. Besta dæmið um svona baráttumann er sennilega Martin Luther King, sem var verðlaunaður árið 1964.

Að ýmsu öðru leyti eru verðlaunaveitingarnar nokkuð svipaðar á síðari og fyrri helmingi aldarinnar. Mannúðarsamtök eða sérlegir mannvinir hafa hlotið nokkur verðlaun. Til dæmis mætti nefna: Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (1954 og 1981), Alþjóða Rauða krossinn (1963), Amnesty International (1977), lækninn Albert Schweitzer (1952) og nunnuna móður Teresu (1979). Sameinuðu þjóðirnar hafa hins vegar tekið við af Þjóðabandalaginu sem tíður viðtakandi verðlaunanna. Frá stofnun SÞ hefur það gerst ellefu sinnum að starfsmenn samtakanna, eða stofnanir tengdar þeim, hafi fengið verðlaun, nú síðast í fyrra.

Oft hafa stjórnmálamenn líka verið heiðraðir og stundum hefur það vakið heiftarlegar deilur. Til að mynda var verðlaunum ársins 1994 skipt milli Yassers Arafat, leiðtoga PLO og ísraelsku ráðherranna Yitzhaks Rabin og Shimonar Peres. Þeir höfðu raunar gert friðarsamkomulag, en voru að öðru leyti alls engir friðarenglar. Samkomulagið kom heldur ekki að miklu haldi því Palestínudeilan geisar enn án afláts svo sem kunnugt er. Þessi verðlaun eru annars merkileg fyrir það að þetta er í eina skiptið sem þau hafa skipst milli þriggja.

Stundum er eins og verðlaununum sé ætlað að vera sérstaklega táknræn. Þetta á til dæmis við um verðlaunin til Rigobertu Menchú Tum. Hún er Indjáni frá Gvatemala og hefur barist mikið fyrir réttindum Indjána sem oft mega sæta grimmdarlegri kúgun. Þegar hún hlaut verðlaunin árið 1992 voru liðin slétt 500 ár frá því að Kólumbus kom fyrst til Ameríku og halla tók undan fæti fyrir Indjánum.

Undanfarin ár hefur tilefni verðlaunaveitinganna verið ansi fjölbreytt. Árið 1998 hlutu stjórnmálamennirnir John Hume og David Trimble þau fyrir að stuðla að friði á Norður-Írlandi, 1999 komu þau í hlut mannúðarsamtakanna Lækna án landamæra, 2000 voru þau veitt Kóreubúanum Kim Dae Jung fyrir baráttu hans fyrir lýðræði og sáttum á Kóreuskaganum og 2001 komu þau í hlut Kofis Annan og Sameinuðu þjóðanna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:...