Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvers vegna vex svona mikil hvönn í kringum fyrrum mannabústaði í Aðalvík og á Hornströndum?

Arnlín Óladóttir



Ætihvönn, Angelica archangelica, er af sveipjurtaætt. Tvær undirtegundir eru þekktar: Angelica archangelica archangelica sem vex norðar og inn til landsins í Evrópu (fjellkvann á norsku) og Angelica archangelica litoralis sem vex sunnar og meðfram ströndum, (strandkvann á norsku). Á Íslandi vex líklega aðeins undirtegundin archangelica. Útbreiðsla tegundarinnar er frá Tékklandi, um Vestur-Asíu, upp í Himalayjafjöll, norður um Rússland, um Skandinavíu og til Færeyja, Íslands og Grænlands. Hún vex eingöngu í rökum jarðvegi sem loftar vel um, svo sem á árbökkum og í röku gras- eða skóglendi.

Hvönn hefur lengi verið nýtt til matar, í lyf, sem bætiefni og í ilmvötn. Hún er ræktuð í Bretlandi, Þýskalandi og víðar þó að eitthvað hafi dregið úr því á síðustu öld. Laufin eru notuð sem krydd og ræturnar í víngerð í vermút og í líkjöra. Flestar rannsóknir sem hafa farið fram á hvönn á síðustu áratugum lúta að efnainnihaldi hennar vegna lyfjaþróunar. Nýjar íslenskar rannsóknir sýna að hvönn hefur lækningamátt og er nú unnið að ræktunarleiðbeiningum, þannig að hún verði til í nægu magni og aðgengileg fyrir lyfja- og bætiefnaframleiðslu. Náttúruleg hvannstóð á frjósömu, aðgengilegu landi eru sjaldgæf vegna þess hve lítið beitarþol hvönnin hefur.

Hvönn er fjölær. Hún fjölgar sér eingöngu með fræjum, blómstrar einu sinni og deyr síðan. Einkenni slíkra tegunda er mikið fræmagn og sveiflukennd stofnstærð. Í rannsókn þar sem fræ voru sótt víðsvegar um Skandinavíu, þar á meðal til Íslands (Heimaey), og ræktuð saman í garði við Turku í Finnlandi, blómstruðu langflestar plönturnar á 3. og 4. ári. Norðlægir stofnar og stofnar frá sjávarsíðunni blómstruðu þó seinna. Íslensk hvönn er talin ná 2-7 ára aldri eftir vaxtarstað og næringarástandi hans. Fræin dreifast lítið nema með straumvatni. Hvönnin er skordýrafrjóvguð og myndar mikið magn af hunangsvökva.

Ætihvönn er eins og aðrar norrænar tegundir aðlöguð að stuttum vaxtartíma, löngum sólargangi og miklum breytileika í vaxtarskilyrðum eftir landslagi. Hins vegar er óvenjulegt að hvönnin fjölgar sér eingöngu með fræjum, en flestar norrænar tegundir grípa einnig til kynlausrar fjölgunar til að bæta upp óöryggið við fræsetningu. Þar sem sumarið er stutt er mikilvægt að fræsetning verði sem fyrst svo að þau nái að þroskast. Hins vegar þarf tegund sem treystir á skordýrafrjóvgun að dreifa blómgunartíma vegna þess að veðurskilyrði fyrir skordýr eru ótrygg. Blómgun hvannar byrjar með einum sveip efst og síðan blómstra sveipir á hliðargreinum ögn neðar á stönglinum. Þannig dreifist blómgun á 2 - 3 vikur sem líða frá því fyrsti sveipur opnast og að hinum síðasta. Efsti sveipur er langstærstur og einnig fyrstur að ná fullum þroska.



Hvönn á Hornströndum

Hvönn hefur verið nýtt frá fornu fari á Hornströndum og hefur snemma talist til verðmæta þar. Þeir fóstbræður, Þorgeir og Þormóður, lögðu sig til að mynda niður við það að skera hvannir dagstund á milli frægðarverka, en frásögnin af ferð þeirra í bjargið til hvannatekju er jafnframt elsta heimild sem til er um gróður á Hornströndum.

Í Jarðabók frá 1710, er hvannatekja og rætur talið til hlunninda í innanverðum Jökulfjörðum og á öllum bæjum í Fljótavík. Annars er ekki minnst á hana. Yfirleitt er talið nóg af hvönn á svæðinu og jafnvel komu menn um langan veg eftir henni, til dæmis kvarta Kvíabændur yfir að hvönnin brúkist af ýmsum í óþakklæti og leyfisleysi. Á Steinólfsstöðum og Marðareyri í Veiðileysufirði, er hvannatekja næg en brúkast lítið.

Þórleifur Bjarnason segir í Hornstrendingabók (1976) að Aðalvíkingar hafi sótt hvönn og skarfakál undir Ritinn og að Hesteyringar hafi sótt eftir þessum hlunnindum inn í Lónfjörð. Hvönnin og skarfakálið var geymt í súr til vetrarins og kom í stað grauta eða til drýginda saman við grauta.

Nýting hennar var með þeim hætti að rætur voru grafnar upp að einhverju marki, þó að stönglarnir væru aðalfæðan. Rætur voru einnig nýttar til lækninga. Í Lækningabók sr Einars Jónssonar (1704-1784), á Skinnastað í Þingeyjarsýslu segir til dæmis „hennar tempran er heit og þurr, mótstríðandi þeim meinum sem þar eru í móti. Hún dregur út eitur og leysir blóð, gjörir heitan líkama.“

Hvönn er viðkvæm fyrir beit og hverfur fljótt úr beittu landi. Má því telja líklegt að útbreiðsla hennar hafi dregist mjög saman frá landnámi. Örnefni kennd við hvönn eru 10 á Hornströndum, en líklegt má telja að örnefni lýsi fremur því sem sérstakt er en algengt. Ferð þeirra fóstbræðra í Hornbjarg gefur einnig til kynna að þá þegar hafi hvönn eingöngu vaxið við sérstakar aðstæður. Fugladritið hefur valdið því að mikill áburður og frjósemi var á bjargsyllum og hvönnin því verið þar við kjöraðstæður auk þess sem búpeningur komst ekki að henni til beitar. Fram á 20. öldina var hvönn víða í hamrabökkum með sjó og sóttu menn eftir henni langar leiðir. Það má því gera ráð fyrir því að hún hafi þá ekki vaxið í neinum mæli í grennd við bæina.

Eftir að byggð lagðist af og gróður fékk frið fyrir beit hefur hvönnin lagt undir sig heimatúnin víða á Hornströndum. Frjósemi túnanna sem komin er til vegna langvarandi ræktunar býr henni kjöraðstæður. Ræktunin fólst í friðun túnanna hluta sumars, húsdýraáburði og öðrum lífrænum áburði og haust- og vorbeit með tilheyrandi áburðargjöf.

Útbreiðsla hvannar virðist hafa verið takmörkuð á meðan byggð hélst á Hornströndum og því ráðgáta hvernig hún hefur náð slíkri útbreiðslu á fáum áratugum. Ein skýringin er sú að hún hafi verið ræktuð í afgirtum görðum til skrauts og/eða nytja. Ekki hefur fengist nein staðfesting á því, en á myndum sem Hjálmar R. Bárðarson tók víða um Hornstrandir sumrið 1939, sjást afgirtar garðholur víða við bæjarhús.

Þung snjóalög á Hornströndum og tilheyrandi vatnselgur í leysingum gætu einnig aukið dreifigetu hvannarfræja og skýrt að hluta til dreifingu hennar. Víða á svæðinu liggja taumar af hvönn frá klettum hátt í fjöllum, meðfram vatnsfarvegum og niður á túnin. Þetta er til dæmis mjög áberandi í Aðalvík og Fljótavík.

Önnur svör um hvönn á Vísindavefnum:

Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd? eftir Sigmund Guðbjarnason

Getur hvönn valdið uppblæstri? eftir Þóru Ellen Þórhallsdóttur



Mynd af ætihvönn: Botanischer Garten der Ruhr-Universität Bochum

Mynd af Hornströndum: Iceland Worldwide

Höfundur

plöntuvistfræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða

Útgáfudagur

20.6.2002

Spyrjandi

Eiríkur Þormóðsson

Tilvísun

Arnlín Óladóttir. „Hvers vegna vex svona mikil hvönn í kringum fyrrum mannabústaði í Aðalvík og á Hornströndum?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2002. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2511.

Arnlín Óladóttir. (2002, 20. júní). Hvers vegna vex svona mikil hvönn í kringum fyrrum mannabústaði í Aðalvík og á Hornströndum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2511

Arnlín Óladóttir. „Hvers vegna vex svona mikil hvönn í kringum fyrrum mannabústaði í Aðalvík og á Hornströndum?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2002. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2511>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna vex svona mikil hvönn í kringum fyrrum mannabústaði í Aðalvík og á Hornströndum?


Ætihvönn, Angelica archangelica, er af sveipjurtaætt. Tvær undirtegundir eru þekktar: Angelica archangelica archangelica sem vex norðar og inn til landsins í Evrópu (fjellkvann á norsku) og Angelica archangelica litoralis sem vex sunnar og meðfram ströndum, (strandkvann á norsku). Á Íslandi vex líklega aðeins undirtegundin archangelica. Útbreiðsla tegundarinnar er frá Tékklandi, um Vestur-Asíu, upp í Himalayjafjöll, norður um Rússland, um Skandinavíu og til Færeyja, Íslands og Grænlands. Hún vex eingöngu í rökum jarðvegi sem loftar vel um, svo sem á árbökkum og í röku gras- eða skóglendi.

Hvönn hefur lengi verið nýtt til matar, í lyf, sem bætiefni og í ilmvötn. Hún er ræktuð í Bretlandi, Þýskalandi og víðar þó að eitthvað hafi dregið úr því á síðustu öld. Laufin eru notuð sem krydd og ræturnar í víngerð í vermút og í líkjöra. Flestar rannsóknir sem hafa farið fram á hvönn á síðustu áratugum lúta að efnainnihaldi hennar vegna lyfjaþróunar. Nýjar íslenskar rannsóknir sýna að hvönn hefur lækningamátt og er nú unnið að ræktunarleiðbeiningum, þannig að hún verði til í nægu magni og aðgengileg fyrir lyfja- og bætiefnaframleiðslu. Náttúruleg hvannstóð á frjósömu, aðgengilegu landi eru sjaldgæf vegna þess hve lítið beitarþol hvönnin hefur.

Hvönn er fjölær. Hún fjölgar sér eingöngu með fræjum, blómstrar einu sinni og deyr síðan. Einkenni slíkra tegunda er mikið fræmagn og sveiflukennd stofnstærð. Í rannsókn þar sem fræ voru sótt víðsvegar um Skandinavíu, þar á meðal til Íslands (Heimaey), og ræktuð saman í garði við Turku í Finnlandi, blómstruðu langflestar plönturnar á 3. og 4. ári. Norðlægir stofnar og stofnar frá sjávarsíðunni blómstruðu þó seinna. Íslensk hvönn er talin ná 2-7 ára aldri eftir vaxtarstað og næringarástandi hans. Fræin dreifast lítið nema með straumvatni. Hvönnin er skordýrafrjóvguð og myndar mikið magn af hunangsvökva.

Ætihvönn er eins og aðrar norrænar tegundir aðlöguð að stuttum vaxtartíma, löngum sólargangi og miklum breytileika í vaxtarskilyrðum eftir landslagi. Hins vegar er óvenjulegt að hvönnin fjölgar sér eingöngu með fræjum, en flestar norrænar tegundir grípa einnig til kynlausrar fjölgunar til að bæta upp óöryggið við fræsetningu. Þar sem sumarið er stutt er mikilvægt að fræsetning verði sem fyrst svo að þau nái að þroskast. Hins vegar þarf tegund sem treystir á skordýrafrjóvgun að dreifa blómgunartíma vegna þess að veðurskilyrði fyrir skordýr eru ótrygg. Blómgun hvannar byrjar með einum sveip efst og síðan blómstra sveipir á hliðargreinum ögn neðar á stönglinum. Þannig dreifist blómgun á 2 - 3 vikur sem líða frá því fyrsti sveipur opnast og að hinum síðasta. Efsti sveipur er langstærstur og einnig fyrstur að ná fullum þroska.



Hvönn á Hornströndum

Hvönn hefur verið nýtt frá fornu fari á Hornströndum og hefur snemma talist til verðmæta þar. Þeir fóstbræður, Þorgeir og Þormóður, lögðu sig til að mynda niður við það að skera hvannir dagstund á milli frægðarverka, en frásögnin af ferð þeirra í bjargið til hvannatekju er jafnframt elsta heimild sem til er um gróður á Hornströndum.

Í Jarðabók frá 1710, er hvannatekja og rætur talið til hlunninda í innanverðum Jökulfjörðum og á öllum bæjum í Fljótavík. Annars er ekki minnst á hana. Yfirleitt er talið nóg af hvönn á svæðinu og jafnvel komu menn um langan veg eftir henni, til dæmis kvarta Kvíabændur yfir að hvönnin brúkist af ýmsum í óþakklæti og leyfisleysi. Á Steinólfsstöðum og Marðareyri í Veiðileysufirði, er hvannatekja næg en brúkast lítið.

Þórleifur Bjarnason segir í Hornstrendingabók (1976) að Aðalvíkingar hafi sótt hvönn og skarfakál undir Ritinn og að Hesteyringar hafi sótt eftir þessum hlunnindum inn í Lónfjörð. Hvönnin og skarfakálið var geymt í súr til vetrarins og kom í stað grauta eða til drýginda saman við grauta.

Nýting hennar var með þeim hætti að rætur voru grafnar upp að einhverju marki, þó að stönglarnir væru aðalfæðan. Rætur voru einnig nýttar til lækninga. Í Lækningabók sr Einars Jónssonar (1704-1784), á Skinnastað í Þingeyjarsýslu segir til dæmis „hennar tempran er heit og þurr, mótstríðandi þeim meinum sem þar eru í móti. Hún dregur út eitur og leysir blóð, gjörir heitan líkama.“

Hvönn er viðkvæm fyrir beit og hverfur fljótt úr beittu landi. Má því telja líklegt að útbreiðsla hennar hafi dregist mjög saman frá landnámi. Örnefni kennd við hvönn eru 10 á Hornströndum, en líklegt má telja að örnefni lýsi fremur því sem sérstakt er en algengt. Ferð þeirra fóstbræðra í Hornbjarg gefur einnig til kynna að þá þegar hafi hvönn eingöngu vaxið við sérstakar aðstæður. Fugladritið hefur valdið því að mikill áburður og frjósemi var á bjargsyllum og hvönnin því verið þar við kjöraðstæður auk þess sem búpeningur komst ekki að henni til beitar. Fram á 20. öldina var hvönn víða í hamrabökkum með sjó og sóttu menn eftir henni langar leiðir. Það má því gera ráð fyrir því að hún hafi þá ekki vaxið í neinum mæli í grennd við bæina.

Eftir að byggð lagðist af og gróður fékk frið fyrir beit hefur hvönnin lagt undir sig heimatúnin víða á Hornströndum. Frjósemi túnanna sem komin er til vegna langvarandi ræktunar býr henni kjöraðstæður. Ræktunin fólst í friðun túnanna hluta sumars, húsdýraáburði og öðrum lífrænum áburði og haust- og vorbeit með tilheyrandi áburðargjöf.

Útbreiðsla hvannar virðist hafa verið takmörkuð á meðan byggð hélst á Hornströndum og því ráðgáta hvernig hún hefur náð slíkri útbreiðslu á fáum áratugum. Ein skýringin er sú að hún hafi verið ræktuð í afgirtum görðum til skrauts og/eða nytja. Ekki hefur fengist nein staðfesting á því, en á myndum sem Hjálmar R. Bárðarson tók víða um Hornstrandir sumrið 1939, sjást afgirtar garðholur víða við bæjarhús.

Þung snjóalög á Hornströndum og tilheyrandi vatnselgur í leysingum gætu einnig aukið dreifigetu hvannarfræja og skýrt að hluta til dreifingu hennar. Víða á svæðinu liggja taumar af hvönn frá klettum hátt í fjöllum, meðfram vatnsfarvegum og niður á túnin. Þetta er til dæmis mjög áberandi í Aðalvík og Fljótavík.

Önnur svör um hvönn á Vísindavefnum:

Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd? eftir Sigmund Guðbjarnason

Getur hvönn valdið uppblæstri? eftir Þóru Ellen Þórhallsdóttur



Mynd af ætihvönn: Botanischer Garten der Ruhr-Universität Bochum

Mynd af Hornströndum: Iceland Worldwide...