Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hver var Caroline Herschel og hvert var hennar framlag til stjörnufræðinnar?

Sævar Helgi Bragason

Caroline Lucretia Herschel (1750-1848) var breskur stjörnufræðingur. Hún er kunnust fyrir að uppgötva átta halastjörnur og dvergvetrabrautina M110 sem er fylgivetrarbraut Andrómeduþokunnar. Caroline var systir stjörnufræðingsins Williams Herschel (1738-1822) sem var tólf árum eldri en hún og er frægur fyrir að hafa uppgötvað Úranus. Saman voru þau einir færustu sjónaukasmiðir heims á síðari hluta átjándu aldar og í upphafi þeirrar nítjándu.

Caroline Herschel fæddist 16. mars árið 1750 í Hannover í Þýskalandi inn í mikla tónlistarfjölskyldu, ein sex systkina. Öll börnin nutu góðrar kennslu í stærðfræði, frönsku og tónlist nema Caroline því móðir hennar vildi að dóttir sín yrði ráðskona. Faðir hennar veitti henni engu að síður grunnmenntun þrátt fyrir mótbárur eiginkonu sinnar.

Tíu ára gömul veiktist Caroline sem hamlaði eðlilegum vexti. Hún var því afar fíngerð og lágvaxin, rétt rúmlega 140 cm á hæð, og að sögn ekkert sérstaklega fríð. Fjölskylda hennar taldi þess vegna að hún myndi aldrei giftast, sem hún gerði aldrei, og því væri best að hún yrði ráðskona.

Árið 1766 flutti bróðir hennar William til Bath á Englandi. Þar gerðist hann organisti og tónlistarkennari. Ári síðar lést faðir þeirra sem varð til þess að Caroline hóf að vinna í eldhúsi fjölskyldunnar. Árið 1772 bauð William henni að flytja til sín til Englands og þekktist hún boðið. Þar vann hún sem ráðskona bróður síns milli þess að hann kenndi henni söng en hún þótti fyrirtakssöngkona.

William heillaðist snemma af stjörnufræði en áhugamálið spratt fyrst og fremst upp til að drepa tímann á næturnar. Á kvöldin lagðist hann til rekkju eftir langan vinnudag með mjólkurglas og stjörnufræðibók við hönd. Morguninn eftir hélt hann fyrirlestur fyrir Caroline um það sem hann hafði lært kvöldið áður. Caroline heillaðist fljótt líka af stjörnufræði og hóf að hjálpa William við smíði og notkun sjónauka. Í staðinn kenndi William systur sinni stærðfræði sem átti eftir að koma sér vel. Caroline þótti einstaklega lagin við að slípa og pússa spegla og koma sjónaukunum fyrir á sjónaukastæðin. Sú vinna krafðist nefnilega þolinmæði og natni sem William bjó ekki yfir. Hann reiddi sig þess vegna á stuðning hennar.

Áhugi Williams á sjónaukum var knúinn áfram af þörf til að sjá sífellt lengra út í geiminn. Árið 1781 skilaði það árangri þegar hann uppgötvaði nýja reikistjörnu sem síðar hlaut nafnið Úranus. Ári síðar varð Herschel hirðstjörnufræðingur Georgs III Englandskonungs. Starfið veitti honum nægan tíma og tekjur til að sinna stjörnuathugunum og smíða stærri sjónauka.

Þrjátíu og tveggja ára gömul varð Caroline lærlingur bróður síns. Að áeggjan hans hóf hún að gera eigin athuganir árið 1782. Milli 1783 og 1787 uppgötvaði hún M110 sem er fylgivetrarbraut Andrómeduþokunnar og átta halastjörnur. Ljóst er af skrifum hennar að hún óskaði þess að fá laun fyrir starf sitt. Árið 1796 varð henni að ósk sinni þegar Georg III veitti henni árslaun fyrir framlag sitt til vísinda — fyrst kvenna.

Árið 1788 kvæntist William ríkri ekkju sem olli spennu í sambandi systkinanna. Caroline leit mjög upp til bróður síns og varð þess vegna bitur og afbrýðisöm. Hún fyrirleit þá sem reyndu að koma upp á milli þeirra. Þrátt fyrir viðleitni eiginkonu Williams til að koma á góðu sambandi við systur hans reyndist það árangurslaust.

Skömmu fyrir aldamótin 1800 sýndu athuganir Williams að heilmikið ósamræmi var milli athugana hans og stjörnuskrár Johns Flamsteed (1646–1719) svo að erfitt var að nota skrána. William hafði sjálfur ekki tíma til að leiðrétta hana en hvatti systur sína til þess. Það gerði hún samviskusamlega og árið 1798 kom út ný og leiðrétt stjörnuskrá á vegum Konunglega breska stjarnvísindafélagsins.

Árið 1822 lést William og flutti Caroline þá aftur til Hannover þar sem hún hélt athugunum sínum áfram. Hún staðfesti uppgötvanir bróður síns og tók saman skrár yfir þokur til að hjálpa frænda sínum John (1792-1871), syni Williams. Konunglega breska stjarnvísindafélagið þótti svo mikið til framlags Caroline koma að henni var veitt gullmedalía, æðsta viðurkenning félagsins, árið 1828. Kona hlaut þessi verðlaun ekki aftur fyrr en árið 1996. Árið 1835 var hún gerð að heiðursfélaga í stjarnvísindafélaginu og þremur árum síðar var hún kjörin félagi í Konunglegu írsku akademíunni en þá var mjög sjaldgæft að konur fengju slíka viðurkenningu. Árið 1846 veitti síðan Prússakonungur henni gullmedalíu fyrir framlag sitt til vísinda.

Caroline lést háöldruð í Hannover þann 9. janúar árið 1848. Smástirnið 281 Lucretia, sem fannst árið 1888, var nefnt henni til heiðurs sem og gígurinn C. Herschel á tunglinu.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

15.7.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Hver var Caroline Herschel og hvert var hennar framlag til stjörnufræðinnar?“ Vísindavefurinn, 15. júlí 2011. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60282.

Sævar Helgi Bragason. (2011, 15. júlí). Hver var Caroline Herschel og hvert var hennar framlag til stjörnufræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60282

Sævar Helgi Bragason. „Hver var Caroline Herschel og hvert var hennar framlag til stjörnufræðinnar?“ Vísindavefurinn. 15. júl. 2011. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60282>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Caroline Herschel og hvert var hennar framlag til stjörnufræðinnar?
Caroline Lucretia Herschel (1750-1848) var breskur stjörnufræðingur. Hún er kunnust fyrir að uppgötva átta halastjörnur og dvergvetrabrautina M110 sem er fylgivetrarbraut Andrómeduþokunnar. Caroline var systir stjörnufræðingsins Williams Herschel (1738-1822) sem var tólf árum eldri en hún og er frægur fyrir að hafa uppgötvað Úranus. Saman voru þau einir færustu sjónaukasmiðir heims á síðari hluta átjándu aldar og í upphafi þeirrar nítjándu.

Caroline Herschel fæddist 16. mars árið 1750 í Hannover í Þýskalandi inn í mikla tónlistarfjölskyldu, ein sex systkina. Öll börnin nutu góðrar kennslu í stærðfræði, frönsku og tónlist nema Caroline því móðir hennar vildi að dóttir sín yrði ráðskona. Faðir hennar veitti henni engu að síður grunnmenntun þrátt fyrir mótbárur eiginkonu sinnar.

Tíu ára gömul veiktist Caroline sem hamlaði eðlilegum vexti. Hún var því afar fíngerð og lágvaxin, rétt rúmlega 140 cm á hæð, og að sögn ekkert sérstaklega fríð. Fjölskylda hennar taldi þess vegna að hún myndi aldrei giftast, sem hún gerði aldrei, og því væri best að hún yrði ráðskona.

Árið 1766 flutti bróðir hennar William til Bath á Englandi. Þar gerðist hann organisti og tónlistarkennari. Ári síðar lést faðir þeirra sem varð til þess að Caroline hóf að vinna í eldhúsi fjölskyldunnar. Árið 1772 bauð William henni að flytja til sín til Englands og þekktist hún boðið. Þar vann hún sem ráðskona bróður síns milli þess að hann kenndi henni söng en hún þótti fyrirtakssöngkona.

William heillaðist snemma af stjörnufræði en áhugamálið spratt fyrst og fremst upp til að drepa tímann á næturnar. Á kvöldin lagðist hann til rekkju eftir langan vinnudag með mjólkurglas og stjörnufræðibók við hönd. Morguninn eftir hélt hann fyrirlestur fyrir Caroline um það sem hann hafði lært kvöldið áður. Caroline heillaðist fljótt líka af stjörnufræði og hóf að hjálpa William við smíði og notkun sjónauka. Í staðinn kenndi William systur sinni stærðfræði sem átti eftir að koma sér vel. Caroline þótti einstaklega lagin við að slípa og pússa spegla og koma sjónaukunum fyrir á sjónaukastæðin. Sú vinna krafðist nefnilega þolinmæði og natni sem William bjó ekki yfir. Hann reiddi sig þess vegna á stuðning hennar.

Áhugi Williams á sjónaukum var knúinn áfram af þörf til að sjá sífellt lengra út í geiminn. Árið 1781 skilaði það árangri þegar hann uppgötvaði nýja reikistjörnu sem síðar hlaut nafnið Úranus. Ári síðar varð Herschel hirðstjörnufræðingur Georgs III Englandskonungs. Starfið veitti honum nægan tíma og tekjur til að sinna stjörnuathugunum og smíða stærri sjónauka.

Þrjátíu og tveggja ára gömul varð Caroline lærlingur bróður síns. Að áeggjan hans hóf hún að gera eigin athuganir árið 1782. Milli 1783 og 1787 uppgötvaði hún M110 sem er fylgivetrarbraut Andrómeduþokunnar og átta halastjörnur. Ljóst er af skrifum hennar að hún óskaði þess að fá laun fyrir starf sitt. Árið 1796 varð henni að ósk sinni þegar Georg III veitti henni árslaun fyrir framlag sitt til vísinda — fyrst kvenna.

Árið 1788 kvæntist William ríkri ekkju sem olli spennu í sambandi systkinanna. Caroline leit mjög upp til bróður síns og varð þess vegna bitur og afbrýðisöm. Hún fyrirleit þá sem reyndu að koma upp á milli þeirra. Þrátt fyrir viðleitni eiginkonu Williams til að koma á góðu sambandi við systur hans reyndist það árangurslaust.

Skömmu fyrir aldamótin 1800 sýndu athuganir Williams að heilmikið ósamræmi var milli athugana hans og stjörnuskrár Johns Flamsteed (1646–1719) svo að erfitt var að nota skrána. William hafði sjálfur ekki tíma til að leiðrétta hana en hvatti systur sína til þess. Það gerði hún samviskusamlega og árið 1798 kom út ný og leiðrétt stjörnuskrá á vegum Konunglega breska stjarnvísindafélagsins.

Árið 1822 lést William og flutti Caroline þá aftur til Hannover þar sem hún hélt athugunum sínum áfram. Hún staðfesti uppgötvanir bróður síns og tók saman skrár yfir þokur til að hjálpa frænda sínum John (1792-1871), syni Williams. Konunglega breska stjarnvísindafélagið þótti svo mikið til framlags Caroline koma að henni var veitt gullmedalía, æðsta viðurkenning félagsins, árið 1828. Kona hlaut þessi verðlaun ekki aftur fyrr en árið 1996. Árið 1835 var hún gerð að heiðursfélaga í stjarnvísindafélaginu og þremur árum síðar var hún kjörin félagi í Konunglegu írsku akademíunni en þá var mjög sjaldgæft að konur fengju slíka viðurkenningu. Árið 1846 veitti síðan Prússakonungur henni gullmedalíu fyrir framlag sitt til vísinda.

Caroline lést háöldruð í Hannover þann 9. janúar árið 1848. Smástirnið 281 Lucretia, sem fannst árið 1888, var nefnt henni til heiðurs sem og gígurinn C. Herschel á tunglinu.

Heimildir:

Myndir:...