Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver var Konrad Lorenz og hvert var framlag hans til vísindanna?

Örnólfur Thorlacius (1931-2017)

Konrad Zacharias Lorenz, austurrískur dýrafræðingur, fæddist 7. nóvember 1903 á óðali ættarinnar í Altenburg, nærri Vínarborg, og andaðist þar 27. febrúar 1989. Hann var einn af forvígismönnum um rannsóknir á hegðun eða atferli dýra. Sjálfur kallaði hann þessa fræðigrein framan af dýrasálfræði, en síðar festist við hana heitið ethologia, sem útleggst atferlisfræði.1

Faðir hans, Adolf Lorenz, var bæklunarlæknir, ekki aðeins þekktur og virtur í heimalandi sínu, því hann rak áratugum saman í hjáverkum stofu í New York og sinnti þar meðal annarra forseta Bandaríkjanna, Theodore Roosevelt. Hann var um skeið orðaður við Nóbelsverðlaun fyrir nýstárlegar aðferðir við mjaðmaviðgerð, en aldrei tilnefndur. Þegar Konrad fæddist var faðir hans nær fimmtugur, og móðirin, Emma, 43 ára. Fyrir áttu hjónin einn son, og var átján ára aldursmunur á bræðrunum. Eldri bróðirinn, Albert, fetaði í fótspor föður síns og gerðist bæklunarlæknir. Frá því í bernsku hafði Konrad óþrjótandi áhuga á dýrum og fylgdist grannt með þeim í umhverfi sínu. Áður en hann varð læs las móðir hans fyrir hann þýðingu á ævintýri sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf um sveitadreng sem ferðaðist í álögum í líki búálfs með flokki gæsa yfir endilanga Svíþjóð.2 Eftir það ætlaði Konrad að verða gæs þegar hann yrði stór, en lét sér síðar nægja að rannsaka hætti þeirra meir en nokkurra annarra dýra.

Að loknu stúdentsprófi í Vín 1921 hóf hann að ósk föður síns læknisnám við virtan háskóla í New York, Columbia University. Pilturinn virðist ekki hafa unað hag sínum þar vestra, í það minnsta fluttist hann eftir eins árs nám til Vínarborgar og lauk þar læknisnámi 1928 með titlinum Dr. med.

Ekki er svo að sjá sem doktorinn hafi fundið hjá sér köllun til að bæta heilsu meðbræðra sinna og -systra. Hugur hans beindist frekar að grunnrannsóknum. Áður en hann lauk læknisnámi gerðist hann aðstoðarmaður við Líffærafræðistofnun Vínarháskóla, undir stjórn Ferdinands Hochstetters prófessors. Að Hochstetter drógust austurrískir stúdentar sem aðhylltust þjóðernisstefnu þýskra nasista, og Lorenz virðist snemma hafa hrifist af ýmsu í boðskap þeirra. Auk þess veitti Hochstetter Lorenz aðstöðu til að rannsaka atferli dýra, þótt það væri ekki á verksviði Líffærafræðistofnunarinnar, og árið 1933 lauk hann í annað sinn doktorsprófi frá Vínarháskóla, að þessu sinni Dr. phil. í dýrafræði. Síðar fékk hann viðbótartitil, Dr. habil. eins konar meirapróf meðal doktora í nokkrum Evrópulöndum, sem opnar berandanum leið að kennslu og rannsóknum í háskólum.

Lorenz fylgdist meðal annars með atferli grágæsa í náttúrunni og tók þá eftir fyrirbæri, sem kallað hefur verið hæning (e. imprinting), þar sem ungviði, í þessu tilviki gæsarungi nýskriðinn úr eggi, laðast að því fyrsta sem fyrir augu ber. Yfirleitt er það móðirin, en Lorenz tók síðar í frægri tilraun að sér hlutverk gæsamömmu og á myndum má sjá hann marséra með ungahópinn á eftir sér út í vatn til sunds.

Hæning er það þegar ungviði laðast að því fyrsta sem fyrir augu ber.

Árið 1935 lét Hochstetter af störfum. Eftirmaður hans lagði blátt bann við því að atferlisrannsóknum yrði sinnt innan stofnunarinnar, þar sem sú heimssýn, sem ráðandi öfl innan líffræði aðhyllast, og mótar mjög störf Lorenz, hugnaðist ekki ráðamönnum í Vín. Lorenz sagði þá upp stöðu sinni á Líffærafræðistofnuninni og sinnti um sinn ólaunuðum rannsóknum á áhugsviði sínu við Vínarháskóla. Þessi heimssýn (þ. Weltanschauung), sem alla tíð var grunnurinn undir rannsóknum og niðurstöðum Lorenz, var þróunarkenning Darwins. Mun rómverska kirkjan hafa stjórnað afstöðu veraldlegra yfirvalda í Austurríki í þeim efnum.

Árið 1937 gekk Konrad Lorenz að eiga æskuvinkonu sína og skólasystur í læknisnáminu, Margarethe Gebhardt. Að loknu grunnnámi í læknisfræði lagði hún stund á kvenlækningar. Þau eignuðust tvær dætur og einn son, og má segja að hún hafi verið fyrirvinna fjölskyldunnar meðan eiginmaðurinn sinnti illa eða ekki launuðum rannsóknum í óþökk austurrískra yfirvalda, og raunar lengur.

En þegar heimssýn þróunarkenningarinnar brást Lorenz í brauðstritinu, kom önnur heimssýn honum til bjargar, hugmyndafræði þýskra þjóðernisjafnaðarmanna. Nasistar tóku þessum unga vísindamanni fagnandi, þó ekki fyrr en eftir úttekt á hugmyndum hans og arískum uppruna. Skoðanir hans féllu að nokkru leyti að boðskap nasista, og hann lýsti yfir algerri hollustu við pólitíska stefnu þeirra, enda stóð framabrautin honum nú opin. Lorenz fékk árið 1938 styrk til rannsókna á samanburði á atferli villtra grágæsa, aligæsa og kynblendinga þeirra. Síðar yfirfærði hann útkomu þessara rannsókna á menn, sem að sumra mati voru ekki forsendur fyrir. Árið 1940 var hann ráðinn prófessor í sálarfræði við Háskólann í Königsberg í Austur-Prússlandi, að fyrirmælum stjórnvalda í Berlín en í óþökk heimspekideildar skólans.

Því embætti gegndi hann aðeins rúmt ár. Í október 1941 var hann kvaddur til herþjónustu og tók brátt við starfi geðlæknis á hersjúkrahúsi í Póllandi. Þaðan var hann sendur vorið 1942 til Hvíta-Rússlands sem herlæknir en varð stríðsfangi Sovétmanna tveimur mánuðum síðar.3

Í Rússlandi beið hans ærinn starfi við að sinna hermönnum, sem niðurbrotnir voru á líkama og sál af vannæringu, vosbúð og hörmungum stríðsins. Brátt kom í ljós að skilningur Lorenz á ástandi sjúklinganna var mun betri en sovéskra starfsbræðra hans, og hann tengdist mörgum þeirra vináttuböndum og náði sæmilegum tökum á tungu þeirra. Þar segist hann hafa áttað sig á því hve margt var líkt með uppeldisaðferðum þýskra nasista og sovéskra marxista; hvort tveggja var innræting og heilaþvottur.

Þegar tími gafst tók Lorenz til við skriftir, og fékkst við heimspekileg vandamál − um eðli þekkingar. Fyrst fór hann leynt með þessa iðju, en Rússar reyndust honum velviljaðir, og árið 1948 fékk hann, að fangavist lokinni, að hafa ritið með sér óritskoðað heim til Austurríkis gegn drengskaparheiti um að það fjallaði ekki um stjórnmál. Það varð síðar (1973) uppistaða í bókinni Die Rückseite des Spiegels, Bakhlið spegilsins, er fjallar um uppruna mannlegrar þekkingar sem samþróun (þ. Koevolution) meðfæddrar arfgerðar og áunninnar menningar.

Heim kominn til Austurríkis í febrúar 1948 afneitaði Konrad Lorenz fyrri lofsorðum sínum um nasismann og baðst afsökunar á þeim. Margir telja að hollusta hans við valdhafa Þriðja ríkisins á sínum tíma verði fremur rakin til hagkvæmni en hugsjóna. Úr því fæst víst aldrei skorið, en kannski hefur hann séð einhvern meðalveg.

Löngu eftir að þúsundáraríki Hitlers var hrunið lýsti Lorenz til dæmis áhyggjum sínum af offjölgun mannkyns, þar sem undirmálsmönnum og glæpalýð fjölgaði örar en þeim sem æðri væru um vitsmuni og siðgæði. Í viðtali, þegar hann tók við Nóbelsverðlaunum 1973, talaði hann um Verhaustierung, „ummyndun í húsdýr,“ þar sem mannskepnan væri að úrkynja sjálfa sig með ónáttúrlegu erfðavali.

Þegar Lorenz sneri heim frá Rússlandi var uppgjöri við stríðsglæpamenn í Austurríki að mestu lokið, og menn sem verið höfðu hliðhollir nasistum töldust í vaxandi mæli tækir í embætti. Hann virðist því ekki hafa þurft að gjalda pólitískrar fortíðar sinnar, en var brátt kallaður til að veita forstöðu rannsóknastöðvum um atferli dýra í Austurríki og í Þýskalandi, og var auk þess sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við þekkta háskóla, svo nokkuð sé nefnt.

Myndir:


1 Margt af því sem hér fer á eftir er sótt á Netið, einkum í þýska útgáfu af Wikipedíu og fleiri greinar á því tungumáli, sem eru margar gleggri og greinarbetri en samsvarandi pistlar á ensku.

2 Selma Lagerlöf 1906-1907. Nils Holgerssons underbara resa genom Sverige.

3 Samkvæmt sumum heimildum var Lorenz ekki sendur á austurvígstöðvarnar og handtekinn sem stríðsfangi fyrr en 1944. Það sem hér er skráð er sótt í æviágrip, sem Lorenz skráði sjálfur þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin 1973: Konrad Lorenz – Autobiography.

Höfundur

líffræðingur, fyrrv. rektor Menntaskólans við Hamrahlíð

Útgáfudagur

15.6.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hver var Konrad Lorenz og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 15. júní 2011. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59953.

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). (2011, 15. júní). Hver var Konrad Lorenz og hvert var framlag hans til vísindanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59953

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hver var Konrad Lorenz og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 15. jún. 2011. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59953>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Konrad Lorenz og hvert var framlag hans til vísindanna?
Konrad Zacharias Lorenz, austurrískur dýrafræðingur, fæddist 7. nóvember 1903 á óðali ættarinnar í Altenburg, nærri Vínarborg, og andaðist þar 27. febrúar 1989. Hann var einn af forvígismönnum um rannsóknir á hegðun eða atferli dýra. Sjálfur kallaði hann þessa fræðigrein framan af dýrasálfræði, en síðar festist við hana heitið ethologia, sem útleggst atferlisfræði.1

Faðir hans, Adolf Lorenz, var bæklunarlæknir, ekki aðeins þekktur og virtur í heimalandi sínu, því hann rak áratugum saman í hjáverkum stofu í New York og sinnti þar meðal annarra forseta Bandaríkjanna, Theodore Roosevelt. Hann var um skeið orðaður við Nóbelsverðlaun fyrir nýstárlegar aðferðir við mjaðmaviðgerð, en aldrei tilnefndur. Þegar Konrad fæddist var faðir hans nær fimmtugur, og móðirin, Emma, 43 ára. Fyrir áttu hjónin einn son, og var átján ára aldursmunur á bræðrunum. Eldri bróðirinn, Albert, fetaði í fótspor föður síns og gerðist bæklunarlæknir. Frá því í bernsku hafði Konrad óþrjótandi áhuga á dýrum og fylgdist grannt með þeim í umhverfi sínu. Áður en hann varð læs las móðir hans fyrir hann þýðingu á ævintýri sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf um sveitadreng sem ferðaðist í álögum í líki búálfs með flokki gæsa yfir endilanga Svíþjóð.2 Eftir það ætlaði Konrad að verða gæs þegar hann yrði stór, en lét sér síðar nægja að rannsaka hætti þeirra meir en nokkurra annarra dýra.

Að loknu stúdentsprófi í Vín 1921 hóf hann að ósk föður síns læknisnám við virtan háskóla í New York, Columbia University. Pilturinn virðist ekki hafa unað hag sínum þar vestra, í það minnsta fluttist hann eftir eins árs nám til Vínarborgar og lauk þar læknisnámi 1928 með titlinum Dr. med.

Ekki er svo að sjá sem doktorinn hafi fundið hjá sér köllun til að bæta heilsu meðbræðra sinna og -systra. Hugur hans beindist frekar að grunnrannsóknum. Áður en hann lauk læknisnámi gerðist hann aðstoðarmaður við Líffærafræðistofnun Vínarháskóla, undir stjórn Ferdinands Hochstetters prófessors. Að Hochstetter drógust austurrískir stúdentar sem aðhylltust þjóðernisstefnu þýskra nasista, og Lorenz virðist snemma hafa hrifist af ýmsu í boðskap þeirra. Auk þess veitti Hochstetter Lorenz aðstöðu til að rannsaka atferli dýra, þótt það væri ekki á verksviði Líffærafræðistofnunarinnar, og árið 1933 lauk hann í annað sinn doktorsprófi frá Vínarháskóla, að þessu sinni Dr. phil. í dýrafræði. Síðar fékk hann viðbótartitil, Dr. habil. eins konar meirapróf meðal doktora í nokkrum Evrópulöndum, sem opnar berandanum leið að kennslu og rannsóknum í háskólum.

Lorenz fylgdist meðal annars með atferli grágæsa í náttúrunni og tók þá eftir fyrirbæri, sem kallað hefur verið hæning (e. imprinting), þar sem ungviði, í þessu tilviki gæsarungi nýskriðinn úr eggi, laðast að því fyrsta sem fyrir augu ber. Yfirleitt er það móðirin, en Lorenz tók síðar í frægri tilraun að sér hlutverk gæsamömmu og á myndum má sjá hann marséra með ungahópinn á eftir sér út í vatn til sunds.

Hæning er það þegar ungviði laðast að því fyrsta sem fyrir augu ber.

Árið 1935 lét Hochstetter af störfum. Eftirmaður hans lagði blátt bann við því að atferlisrannsóknum yrði sinnt innan stofnunarinnar, þar sem sú heimssýn, sem ráðandi öfl innan líffræði aðhyllast, og mótar mjög störf Lorenz, hugnaðist ekki ráðamönnum í Vín. Lorenz sagði þá upp stöðu sinni á Líffærafræðistofnuninni og sinnti um sinn ólaunuðum rannsóknum á áhugsviði sínu við Vínarháskóla. Þessi heimssýn (þ. Weltanschauung), sem alla tíð var grunnurinn undir rannsóknum og niðurstöðum Lorenz, var þróunarkenning Darwins. Mun rómverska kirkjan hafa stjórnað afstöðu veraldlegra yfirvalda í Austurríki í þeim efnum.

Árið 1937 gekk Konrad Lorenz að eiga æskuvinkonu sína og skólasystur í læknisnáminu, Margarethe Gebhardt. Að loknu grunnnámi í læknisfræði lagði hún stund á kvenlækningar. Þau eignuðust tvær dætur og einn son, og má segja að hún hafi verið fyrirvinna fjölskyldunnar meðan eiginmaðurinn sinnti illa eða ekki launuðum rannsóknum í óþökk austurrískra yfirvalda, og raunar lengur.

En þegar heimssýn þróunarkenningarinnar brást Lorenz í brauðstritinu, kom önnur heimssýn honum til bjargar, hugmyndafræði þýskra þjóðernisjafnaðarmanna. Nasistar tóku þessum unga vísindamanni fagnandi, þó ekki fyrr en eftir úttekt á hugmyndum hans og arískum uppruna. Skoðanir hans féllu að nokkru leyti að boðskap nasista, og hann lýsti yfir algerri hollustu við pólitíska stefnu þeirra, enda stóð framabrautin honum nú opin. Lorenz fékk árið 1938 styrk til rannsókna á samanburði á atferli villtra grágæsa, aligæsa og kynblendinga þeirra. Síðar yfirfærði hann útkomu þessara rannsókna á menn, sem að sumra mati voru ekki forsendur fyrir. Árið 1940 var hann ráðinn prófessor í sálarfræði við Háskólann í Königsberg í Austur-Prússlandi, að fyrirmælum stjórnvalda í Berlín en í óþökk heimspekideildar skólans.

Því embætti gegndi hann aðeins rúmt ár. Í október 1941 var hann kvaddur til herþjónustu og tók brátt við starfi geðlæknis á hersjúkrahúsi í Póllandi. Þaðan var hann sendur vorið 1942 til Hvíta-Rússlands sem herlæknir en varð stríðsfangi Sovétmanna tveimur mánuðum síðar.3

Í Rússlandi beið hans ærinn starfi við að sinna hermönnum, sem niðurbrotnir voru á líkama og sál af vannæringu, vosbúð og hörmungum stríðsins. Brátt kom í ljós að skilningur Lorenz á ástandi sjúklinganna var mun betri en sovéskra starfsbræðra hans, og hann tengdist mörgum þeirra vináttuböndum og náði sæmilegum tökum á tungu þeirra. Þar segist hann hafa áttað sig á því hve margt var líkt með uppeldisaðferðum þýskra nasista og sovéskra marxista; hvort tveggja var innræting og heilaþvottur.

Þegar tími gafst tók Lorenz til við skriftir, og fékkst við heimspekileg vandamál − um eðli þekkingar. Fyrst fór hann leynt með þessa iðju, en Rússar reyndust honum velviljaðir, og árið 1948 fékk hann, að fangavist lokinni, að hafa ritið með sér óritskoðað heim til Austurríkis gegn drengskaparheiti um að það fjallaði ekki um stjórnmál. Það varð síðar (1973) uppistaða í bókinni Die Rückseite des Spiegels, Bakhlið spegilsins, er fjallar um uppruna mannlegrar þekkingar sem samþróun (þ. Koevolution) meðfæddrar arfgerðar og áunninnar menningar.

Heim kominn til Austurríkis í febrúar 1948 afneitaði Konrad Lorenz fyrri lofsorðum sínum um nasismann og baðst afsökunar á þeim. Margir telja að hollusta hans við valdhafa Þriðja ríkisins á sínum tíma verði fremur rakin til hagkvæmni en hugsjóna. Úr því fæst víst aldrei skorið, en kannski hefur hann séð einhvern meðalveg.

Löngu eftir að þúsundáraríki Hitlers var hrunið lýsti Lorenz til dæmis áhyggjum sínum af offjölgun mannkyns, þar sem undirmálsmönnum og glæpalýð fjölgaði örar en þeim sem æðri væru um vitsmuni og siðgæði. Í viðtali, þegar hann tók við Nóbelsverðlaunum 1973, talaði hann um Verhaustierung, „ummyndun í húsdýr,“ þar sem mannskepnan væri að úrkynja sjálfa sig með ónáttúrlegu erfðavali.

Þegar Lorenz sneri heim frá Rússlandi var uppgjöri við stríðsglæpamenn í Austurríki að mestu lokið, og menn sem verið höfðu hliðhollir nasistum töldust í vaxandi mæli tækir í embætti. Hann virðist því ekki hafa þurft að gjalda pólitískrar fortíðar sinnar, en var brátt kallaður til að veita forstöðu rannsóknastöðvum um atferli dýra í Austurríki og í Þýskalandi, og var auk þess sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við þekkta háskóla, svo nokkuð sé nefnt.

Myndir:


1 Margt af því sem hér fer á eftir er sótt á Netið, einkum í þýska útgáfu af Wikipedíu og fleiri greinar á því tungumáli, sem eru margar gleggri og greinarbetri en samsvarandi pistlar á ensku.

2 Selma Lagerlöf 1906-1907. Nils Holgerssons underbara resa genom Sverige.

3 Samkvæmt sumum heimildum var Lorenz ekki sendur á austurvígstöðvarnar og handtekinn sem stríðsfangi fyrr en 1944. Það sem hér er skráð er sótt í æviágrip, sem Lorenz skráði sjálfur þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin 1973: Konrad Lorenz – Autobiography.

...