Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvers konar fiskar eru bláfiskar?

Jón Már Halldórsson

Bláfiskar (Coelacanth) eru hópur holdugga, skyldir lungnafiskum og öðrum fiskum sem taldir eru hafa dáið út á devon-tímabili (416-359,2 milljón ár) jarðsögunnar. Áður en lifandi eintak fannst í Indlandshafi nærri ströndum Suður-Afríku árið 1938 töldu náttúrufræðingar að bláfiskurinn hefði dáið út seint á krítartímabilinu (145,5-65,5 milljón ár).

Nú eru þekktar tvær tegundir bláfiska, Latimeria chalumnae og Latimeria menadoensis og finnast þær báðar við strendur Indlandshafs. Vistfræði bláfiska hefur talsvert verið rannsökuð á undanförnum áratugum þar sem þessir fiskar eru að mörgu leyti einstakir, til dæmis út frá lífssögu fiska á jörðinni enda eru bláfiskar afar fornir. Þeir eru komnir af ætt fiska sem döfnuðu best á fyrri hluta miðlífsaldar.

Bláfiskur af tegundinni Latimeria chalumnae. Eintakið er 170 cm og vegur 60 kg.

Bláfiskar eru virkastir á næturnar. Á daginn halda þeir kyrru fyrir í hellum eða sprungum á 100 til 500 metra dýpi en færa sig einnig niður í dýpri sjó. Þar halda þeir kyrru fyrir í köldum sjó í einhvers konar móki og þá hægist á efnaskiptum þeirra. Vísindamenn telja að dvöl þeirra í hellum og sprungum yfir daginn spari einnig orku þar sem sjávarstrauma nýtur þar ekki við.

Fjölmargir staðir, svo sem hafsbotninn við Anjouan- og Kómoreyjar, eru kjörbúsvæði fyrir bláfiska en þar finnast ótal neðansjávarhellar vegna eldvirkni sem er þar á sjávarbotninum. Á næturnar fer bláfiskurinn í fæðuleit. Hann fer þá um og veiðir fiska, aðallega botnlæga fiska sem hann kemst í tæri við. Bláfiskar verða seint taldir til torfufiska en þó geta fjölmargir fiskar deilt saman helli án vandræða. Aftur á móti hafa þeir sitt „persónulega“ svæði og forðast snertingu við aðra fiska.

Helstu óvinir bláfiska eru stærri ránfiskar, svo sem hákarlar. Hákarlabit hefur fundist á lifandi fiskum auk þess sem gnótt er af hákörlum á helstu búsvæðum bláfisksins, svo sem við Kómoreyjar og Reunion. Ef hákarl nálgast bláfisk þá bregst sá síðarnefndi við með kröftugu flóttaviðbragði. Bláfiskar hrygna ungviðum (e. ovoviviparity) eða með öðrum orðum þá geymir móðirin eggin í líkama sínum þar til þau hafa klakist. Hinn langi meðgöngutími móðurinnar þykir merkilegur en hann mun vera rúmt ár. Hrygnurnar eru yfirleitt stærri en hængarnir.

Bláfiskur af tegundinni Latimeria menadoensis.

Þó sjávarlíffræðingar hafi safnað umtalsverðum upplýsingum um þessar merkilegu tegundir sem við köllum hér bláfiska þá er ekki vitað um stofnstærðir eða hvort tegundirnar standi tæpt stofnvistfræðilega. Líffræðingurinn Hans Fricke sem stundað hefur rannsóknir á fiskunum taldi á árunum 1988 til 1994 alls sextíu fiska í hverri köfun en árið 1995 taldi hann aðeins fjörutíu á svæði sem telst til helstu kjörbúsvæða bláfiska. Hvort um er að ræða eðlilegar náttúrulegar sveiflur eða afleiðingu ofveiði verður vart sagt til um en bláfiskar lenda oft í netum fiskimanna sem eru við veiðar á olíufiski (Ruvettus pretiosus). Veiðar á þessum fiskum fara iðulega fram á næturnar, líkt og veiðar bláfiska.

Stjórnvöld fjölmargra strandríkja þar sem bláfiskur lifir hafa nú sett í framkvæmd svæðalokanir ef bláfiskar koma upp með veiðarfærum fiskimanna sem eru á olíufiskveiðum. Þetta er mjög til bóta fyrir verndun tegunda bláfisksins. Árið 1987 voru stofnuð samtök sem nefnast Coelacanth Conservation Council sem stuðla eiga að verndun bláfiska. Allt hefur þetta hjálpað til við að auka stofnstærð bláfiskategundanna tveggja og tryggja framtíð þeirra.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Nelson, Joseph S. Fishes of the World. Hoboken, NJ: John Wiley, 2006.
  • Fricke, H., and R. Plante. "Habitat Requirements of the Living Coelacanth Latimeria Chalumnae at Grande Comore, Indian Ocean." Naturwissenschaften 75 (1988): 149-51. P
  • Fricke, H., Hissmann, K., Schauer, J. and Plante, R. "Yet more danger for coelacanths." Nature, Vol. 374, Issue 6520, pp. 314 (1995). London.

Myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

17.5.2011

Spyrjandi

Bergrós Fríða Jónasdóttir, f. 1997

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar fiskar eru bláfiskar?“ Vísindavefurinn, 17. maí 2011. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59506.

Jón Már Halldórsson. (2011, 17. maí). Hvers konar fiskar eru bláfiskar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59506

Jón Már Halldórsson. „Hvers konar fiskar eru bláfiskar?“ Vísindavefurinn. 17. maí. 2011. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59506>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar fiskar eru bláfiskar?
Bláfiskar (Coelacanth) eru hópur holdugga, skyldir lungnafiskum og öðrum fiskum sem taldir eru hafa dáið út á devon-tímabili (416-359,2 milljón ár) jarðsögunnar. Áður en lifandi eintak fannst í Indlandshafi nærri ströndum Suður-Afríku árið 1938 töldu náttúrufræðingar að bláfiskurinn hefði dáið út seint á krítartímabilinu (145,5-65,5 milljón ár).

Nú eru þekktar tvær tegundir bláfiska, Latimeria chalumnae og Latimeria menadoensis og finnast þær báðar við strendur Indlandshafs. Vistfræði bláfiska hefur talsvert verið rannsökuð á undanförnum áratugum þar sem þessir fiskar eru að mörgu leyti einstakir, til dæmis út frá lífssögu fiska á jörðinni enda eru bláfiskar afar fornir. Þeir eru komnir af ætt fiska sem döfnuðu best á fyrri hluta miðlífsaldar.

Bláfiskur af tegundinni Latimeria chalumnae. Eintakið er 170 cm og vegur 60 kg.

Bláfiskar eru virkastir á næturnar. Á daginn halda þeir kyrru fyrir í hellum eða sprungum á 100 til 500 metra dýpi en færa sig einnig niður í dýpri sjó. Þar halda þeir kyrru fyrir í köldum sjó í einhvers konar móki og þá hægist á efnaskiptum þeirra. Vísindamenn telja að dvöl þeirra í hellum og sprungum yfir daginn spari einnig orku þar sem sjávarstrauma nýtur þar ekki við.

Fjölmargir staðir, svo sem hafsbotninn við Anjouan- og Kómoreyjar, eru kjörbúsvæði fyrir bláfiska en þar finnast ótal neðansjávarhellar vegna eldvirkni sem er þar á sjávarbotninum. Á næturnar fer bláfiskurinn í fæðuleit. Hann fer þá um og veiðir fiska, aðallega botnlæga fiska sem hann kemst í tæri við. Bláfiskar verða seint taldir til torfufiska en þó geta fjölmargir fiskar deilt saman helli án vandræða. Aftur á móti hafa þeir sitt „persónulega“ svæði og forðast snertingu við aðra fiska.

Helstu óvinir bláfiska eru stærri ránfiskar, svo sem hákarlar. Hákarlabit hefur fundist á lifandi fiskum auk þess sem gnótt er af hákörlum á helstu búsvæðum bláfisksins, svo sem við Kómoreyjar og Reunion. Ef hákarl nálgast bláfisk þá bregst sá síðarnefndi við með kröftugu flóttaviðbragði. Bláfiskar hrygna ungviðum (e. ovoviviparity) eða með öðrum orðum þá geymir móðirin eggin í líkama sínum þar til þau hafa klakist. Hinn langi meðgöngutími móðurinnar þykir merkilegur en hann mun vera rúmt ár. Hrygnurnar eru yfirleitt stærri en hængarnir.

Bláfiskur af tegundinni Latimeria menadoensis.

Þó sjávarlíffræðingar hafi safnað umtalsverðum upplýsingum um þessar merkilegu tegundir sem við köllum hér bláfiska þá er ekki vitað um stofnstærðir eða hvort tegundirnar standi tæpt stofnvistfræðilega. Líffræðingurinn Hans Fricke sem stundað hefur rannsóknir á fiskunum taldi á árunum 1988 til 1994 alls sextíu fiska í hverri köfun en árið 1995 taldi hann aðeins fjörutíu á svæði sem telst til helstu kjörbúsvæða bláfiska. Hvort um er að ræða eðlilegar náttúrulegar sveiflur eða afleiðingu ofveiði verður vart sagt til um en bláfiskar lenda oft í netum fiskimanna sem eru við veiðar á olíufiski (Ruvettus pretiosus). Veiðar á þessum fiskum fara iðulega fram á næturnar, líkt og veiðar bláfiska.

Stjórnvöld fjölmargra strandríkja þar sem bláfiskur lifir hafa nú sett í framkvæmd svæðalokanir ef bláfiskar koma upp með veiðarfærum fiskimanna sem eru á olíufiskveiðum. Þetta er mjög til bóta fyrir verndun tegunda bláfisksins. Árið 1987 voru stofnuð samtök sem nefnast Coelacanth Conservation Council sem stuðla eiga að verndun bláfiska. Allt hefur þetta hjálpað til við að auka stofnstærð bláfiskategundanna tveggja og tryggja framtíð þeirra.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Nelson, Joseph S. Fishes of the World. Hoboken, NJ: John Wiley, 2006.
  • Fricke, H., and R. Plante. "Habitat Requirements of the Living Coelacanth Latimeria Chalumnae at Grande Comore, Indian Ocean." Naturwissenschaften 75 (1988): 149-51. P
  • Fricke, H., Hissmann, K., Schauer, J. and Plante, R. "Yet more danger for coelacanths." Nature, Vol. 374, Issue 6520, pp. 314 (1995). London.

Myndir:...