Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur?

Þorbergur Þórsson

Thomas Robert Malthus var hagfræðingur og prestur. Hann fæddist í febrúar 1766 á sveitasetri föður síns í Surrey á Englandi og dó í desember 1834 í Bath á Englandi. Hann er talinn einn áhrifamestu klassísku hagfræðinganna, ásamt þeim Adam Smith, David Ricardo og John Stuart Mill (1806-1873).1

Daniel Malthus (1730-1800) faðir hans var herramaður á enska vísu sem hafði áhuga á bókmenntum, vísindum og garðyrkju. Hann eignaðist tvo syni og var Thomas sá yngri. Í minningargrein um Malthus eldri í Tímariti herramanna (The Gentleman‘s Magazine)2 segir að hann hafi verið „sérvitur persóna í þrengsta skilningi orðsins“ en það var líka sagt um hann að hann hefði „verið afskaplega viðfelldinn og mjög góðviljaður eins og fátæklingar sem bjuggu í grennd við hann hafi fengið að kynnast.“3

Herrasetur Daniels Malthusar og æskuheimili sona hans, the Rookery, nálægt Dorking í Surrey.

Malthus eldri þekkti David Hume (1711-1776) og var aðdáandi og vinur Jean-Jacques Rousseaus (1712-1778). Þessir tveir heimspekingar voru einmitt vinir um skeið og þeir komu í heimsókn til Malthusar eldri á herrasetrið fáeinum vikum eftir að sonurinn Thomas fæddist og hafa væntanlega fengið að skoða ungabarnið.4

Þegar Malthus yngri eltist reyndist hann framúrskarandi nemandi, en faðir hans, lesandi, vinur og aðdáandi Rousseaus, sendi hann til róttækra kennara til náms.5 Einn kennaranna lýsti því í bréfi þegar Malthus var fjórtán ára, hvílíkt yndi hann hefði af slagsmálum slagsmálanna vegna. Hann og mótherji hans „væru þó heimsins bestu vinir þegar slagsmálum lyki og lærðu saman, hjálpuðust að og þætti mjög vænt hvorum um annan og meira en öðrum drengjum í skólanum.“6

Árið 1784 fór Malthus til náms í Jesus College í Cambridge-háskóla. Þar lærði hann meðal annars bókmenntir og sögu, en hann hafði frá unglingsárum haft mikinn áhuga á þeim greinum og fékk verðlaun fyrir frammistöðu í latneskum og enskum stíl.7 Í frístundum hafði hann gaman af krikket og að vera á skautum og hann var þekktur fyrir að vera glaðvær og skemmtilegur félagi. En hann lærði einnig stærðfræði og útskrifaðist úr grunnnámi í fremstu röð í stærðfræði í sínum árgangi, eða í níunda sæti af öllum útskriftarnemum skólans á útskriftarári sínu.

Samtímamenn Malthusar lýstu honum svo að hann væri myndarlegur, með ljóst og liðað hár, dökk augu, hár og grannur. Hann fæddist með skarð í vör og góm sem spillti tali hans nokkuð.8

Malthus lauk BA-prófi árið 1788 og fékk prestvígslu um svipað leyti, enda hafði staðið til að hann yrði prestur. Hann fékk stöðu sem félagi (e. fellow) í Jesus College 1793 og bjó þar með hléum þar til hann hvarf úr þeirri stöðu og kvæntist árið 1804.

Árið 1793 kom út bók eftir heimspekinginn William Godwin (1756-1836),9 Rannsókn á pólitísku réttlæti (Enquiry Concerning Political Justice). Þar koma fram sjónarmið um jöfnuð manna og trú á að mannkynið geti bætt sig og fullkomnað í krafti skynsemi sinnar. Þar komu líka fram róttæk stjórnleysissjónarmið, til dæmis um að ríkisvaldið spilli valdamönnum og öðru fólki.10 Feðgarnir Daniel og Thomas ræddu oft um efni þessarar bókar og það var faðirinn sem var uppnuminn af bókinni en sonurinn gat ekki alveg trúað boðskapnum. Að endingu tók hann saman minnisblað handa föður sínum með andmælum gegn stjórnleysisstefnunni og fullkomnunartrúnni. Faðirinn varð hrifinn af minnisblaðinu og hvatti son sinn til útgáfu þess. Minnisblaðið óx og varð að bók sem kom fyrst út árið 1798 og heitir Ritgerð um lögmál sem stýra mannfjöldanum (Essay on the Principle of Population). Þessi bók gerði höfund sinn fljótt frægan eða alræmdan, þótt hún væri að vísu gefin út í fyrstu án þess að nafn höfundar kæmi fram eins og algengt var á þessum árum. Og bókin átti eftir að vaxa. Í upphafi var hún um 50.000 orð, en fimm árum síðar kom gerbreytt önnur útgáfa út og þá voru orðin 250.000. Frá sjónarhóli nútímamanna er fyrsta útgáfan þó sennilega talin best og það er hún sem oftast er gefin út.11

Malthus fór í mikil ferðalög um Evrópu skömmu eftir fyrstu útgáfuna til að rannsaka fólksfjölgunarmálin betur. Árið 1803 fékk hann brauð sem tryggði honum sæmilegar tekjur og hann hélt því alla ævi þótt hann byggi annars staðar og léti aðstoðarpresta um að sinna embættisverkum.12

Eftir að hann kvæntist tók hann við starfi hjá Austur-Indíaskólanum við stofnun hans árið 1805 en hann var stofnaður til þess að mennta embættismenn Austur-Indíafélagsins. Hann fékk stöðu prófessors í stjórnmálahagfræði í þessum skóla og var fyrsti maðurinn sem gegndi slíkri stöðu í Bretlandi. Hann gegndi þessu starfi til æviloka.

Austur-Indíaskólinn í Haileybury.

Nokkrum árum síðar kynntist hann David Ricardo (1772-1823), kaupsýslumanni sem hafði ritað um hagfræði. Um 1810 fór fram umræða um verðbólgu sem Ricardo kenndi Englandsbanka um. Malthus hafði gagnrýnt einhver atriði í grein Ricardos og Ricardo brást við með svari. Í framhaldi sendi Malthus honum bréf árið 1811 og óskaði eftir að þeir gætu hist og rætt málin í einrúmi í stað þess að deila á prenti. Í framhaldi tókst með þeim vinátta sem entist meðan báðir lifðu. Þeir héldu þó alltaf áfram að vera ósammála um margt í hagfræðilegum efnum, en Ricardo var mikill aðdáandi ritgerðar hans um mannfjölda.

Malthus vann lengi að því að gefa út sína eigin útgáfu af Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith (1723-1790), og ætlaði að hafa með í útgáfunni ýmsar skýringar og útleggingar, en Malthus notaði þessa bók lengst af við kennslu í Austur-Indíaskólanum. Því miður varð ekkert úr útgáfu á bókinni. Hann gaf út ýmsa bæklinga og ritgerðir. Má þar nefna bækling um kornlögin 1814 (kornlögin snerust um að vernda landbúnað í Bretlandi með innflutningshömlum. Ricardo vinur Malthusar var eindreginn andstæðingur þeirra, en Malthus ekki). Einnig má nefna bækling um rentu 1815, en um sama leyti komu aðrir höfundar einnig fram með svipaða greiningu á rentu. Árið 1820 gaf hann út seinni bók sína, Lögmál stjórnmálahagfræðinnar með hliðsjón af hagnýtri beitingu þeirra (The Principles of Political Economy considered with a view to their Practical Application).

Malthus var þekktur hagfræðingur í Bretlandi um sína daga. En skoðanir hans höfðu að sumu leyti hörkulegan blæ. Hann taldi til dæmis að ýmsar hugmyndir um að bæta hag hinna fátækustu vera sjálfskæðar, það er ekki bæta hag þeirra í reynd. Dæmi um það voru hugmyndir um úrbætur í húsnæðismálum fátækra.

Malthus eignaðist þrjú börn með konu sinni. En börnin eignuðust ekki afkomendur. Bróðir hans eignaðist hins vegar fjölda afkomenda. Í minningargrein um Malthus sem birtist í Tímariti herramanna (Gentleman‘s Magazine) árið 1835 segir meðal annars að maður „sem hafi þekkt hann náið í næstum fimmtíu ár hafi næstum aldrei séð hann komast í uppnám, aldrei reiðan og aldrei úr hófi kátan eða leiðan ...“ Á sama stað segir í minningargreininni: „Hr. Malthus var hávaxinn og fallega byggður og hann leit út og kom fram sem fullkominn herramaður.“13

Myndir:


1 Í þessu svari er talsvert byggt á ritgerðum í John Eatwell, Murray Milgate og Peter Newman (ritstjórar): The New Palgrave, A dictionary of Economics. Macmillan Press Limited, London, 1998. Einna mest hefur verið litið til ritgerðarinnar: „Malthus, Thomas Robert“, eftir J. M. Pullen. Þá er stuðst við æviágrip um Malthus eftir J. M. Keynes. „Robert Malthus“ sem birtist í ritgerðasafni hans, Essays in Biography, Mercury Books, London 1961, bls. 81-124. Einnig hefur verið höfð hliðsjón af umfjöllun um Malthus og klassísku hagfræðingana í Mark Blaug: Economic Theory in Retrospect, 5. útg., Cambridge University Press, Cambridge, 1999. Auk þess má nefna bækurnar I. H. Rima: Development of Economic Analysis, 5. útgáfa, Richard D. Irwin Inc., USA, 1991, og Charles E. Staley: A History of Economic Thought: From Aristotle to Arrow, Blackwell Publishers, Oxford, 1989.

2 The Gentleman‘s Magazine, febrúar 1800, bls 177. Tilvitnun fengin frá Keynes, bls. 83. Orðrétt hljóðar tilvitnunin svo: „ ... an eccentric character in the strictest sense of the term.“

3 Keynes, „Robert Malthus“, bls. 83. Hann hefur tilvitnunina frá Manning og Bray, History of Surrey. Bray þessi mun hafa tengst Malthusi fjölskylduböndum.

4 Keynes, „Robert Malthus“, bls. 84.

5 „Malthus, Thomas Robert“, Palgrave, bls. 281.

6 „Malthus, Thomas Robert“, Palgrave, bls. 280.

7 Keynes, „Robert Malthus“, bls. 94.

8 „Malthus, Thomas Robert“, Palgrave, bls. 280.

9 Þess má geta að William Godwin giftist Mary Wollstonecraft, sem er þekkt í sögu kvenréttindabaráttunnar, og þau áttu saman dótturina Mary Shelley, höfund skáldsögunnar um Frankenstein.

10 „William Godwin“. The Oxford Companion to Philosophy. Ritstj. Ted Honderich. OUP 1995, bls. 321.

11 J. M. Keynes er að minnsta kosti þessarar skoðunar. Sjá á bls. 98 í ritgerð hans um Malthus.

12 Keynes, „Robert Malthus“, bls. 96.

13 Fyrri tilvitnunin fengin frá Keynes, „Robert Malthus“, bls. 95 neðanmáls. Síðari tilvitnunin fengin úr sömu ritgerð Keynes, bls. 110. Báðar vísa til bls. 325 í Gentleman‘s Magazine, 1835.

Höfundur

hagfræðingur

Útgáfudagur

20.4.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þorbergur Þórsson. „Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2011. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59467.

Þorbergur Þórsson. (2011, 20. apríl). Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59467

Þorbergur Þórsson. „Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur?“ Vísindavefurinn. 20. apr. 2011. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59467>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Thomas Malthus og fyrir hvað er hann helst þekktur?
Thomas Robert Malthus var hagfræðingur og prestur. Hann fæddist í febrúar 1766 á sveitasetri föður síns í Surrey á Englandi og dó í desember 1834 í Bath á Englandi. Hann er talinn einn áhrifamestu klassísku hagfræðinganna, ásamt þeim Adam Smith, David Ricardo og John Stuart Mill (1806-1873).1

Daniel Malthus (1730-1800) faðir hans var herramaður á enska vísu sem hafði áhuga á bókmenntum, vísindum og garðyrkju. Hann eignaðist tvo syni og var Thomas sá yngri. Í minningargrein um Malthus eldri í Tímariti herramanna (The Gentleman‘s Magazine)2 segir að hann hafi verið „sérvitur persóna í þrengsta skilningi orðsins“ en það var líka sagt um hann að hann hefði „verið afskaplega viðfelldinn og mjög góðviljaður eins og fátæklingar sem bjuggu í grennd við hann hafi fengið að kynnast.“3

Herrasetur Daniels Malthusar og æskuheimili sona hans, the Rookery, nálægt Dorking í Surrey.

Malthus eldri þekkti David Hume (1711-1776) og var aðdáandi og vinur Jean-Jacques Rousseaus (1712-1778). Þessir tveir heimspekingar voru einmitt vinir um skeið og þeir komu í heimsókn til Malthusar eldri á herrasetrið fáeinum vikum eftir að sonurinn Thomas fæddist og hafa væntanlega fengið að skoða ungabarnið.4

Þegar Malthus yngri eltist reyndist hann framúrskarandi nemandi, en faðir hans, lesandi, vinur og aðdáandi Rousseaus, sendi hann til róttækra kennara til náms.5 Einn kennaranna lýsti því í bréfi þegar Malthus var fjórtán ára, hvílíkt yndi hann hefði af slagsmálum slagsmálanna vegna. Hann og mótherji hans „væru þó heimsins bestu vinir þegar slagsmálum lyki og lærðu saman, hjálpuðust að og þætti mjög vænt hvorum um annan og meira en öðrum drengjum í skólanum.“6

Árið 1784 fór Malthus til náms í Jesus College í Cambridge-háskóla. Þar lærði hann meðal annars bókmenntir og sögu, en hann hafði frá unglingsárum haft mikinn áhuga á þeim greinum og fékk verðlaun fyrir frammistöðu í latneskum og enskum stíl.7 Í frístundum hafði hann gaman af krikket og að vera á skautum og hann var þekktur fyrir að vera glaðvær og skemmtilegur félagi. En hann lærði einnig stærðfræði og útskrifaðist úr grunnnámi í fremstu röð í stærðfræði í sínum árgangi, eða í níunda sæti af öllum útskriftarnemum skólans á útskriftarári sínu.

Samtímamenn Malthusar lýstu honum svo að hann væri myndarlegur, með ljóst og liðað hár, dökk augu, hár og grannur. Hann fæddist með skarð í vör og góm sem spillti tali hans nokkuð.8

Malthus lauk BA-prófi árið 1788 og fékk prestvígslu um svipað leyti, enda hafði staðið til að hann yrði prestur. Hann fékk stöðu sem félagi (e. fellow) í Jesus College 1793 og bjó þar með hléum þar til hann hvarf úr þeirri stöðu og kvæntist árið 1804.

Árið 1793 kom út bók eftir heimspekinginn William Godwin (1756-1836),9 Rannsókn á pólitísku réttlæti (Enquiry Concerning Political Justice). Þar koma fram sjónarmið um jöfnuð manna og trú á að mannkynið geti bætt sig og fullkomnað í krafti skynsemi sinnar. Þar komu líka fram róttæk stjórnleysissjónarmið, til dæmis um að ríkisvaldið spilli valdamönnum og öðru fólki.10 Feðgarnir Daniel og Thomas ræddu oft um efni þessarar bókar og það var faðirinn sem var uppnuminn af bókinni en sonurinn gat ekki alveg trúað boðskapnum. Að endingu tók hann saman minnisblað handa föður sínum með andmælum gegn stjórnleysisstefnunni og fullkomnunartrúnni. Faðirinn varð hrifinn af minnisblaðinu og hvatti son sinn til útgáfu þess. Minnisblaðið óx og varð að bók sem kom fyrst út árið 1798 og heitir Ritgerð um lögmál sem stýra mannfjöldanum (Essay on the Principle of Population). Þessi bók gerði höfund sinn fljótt frægan eða alræmdan, þótt hún væri að vísu gefin út í fyrstu án þess að nafn höfundar kæmi fram eins og algengt var á þessum árum. Og bókin átti eftir að vaxa. Í upphafi var hún um 50.000 orð, en fimm árum síðar kom gerbreytt önnur útgáfa út og þá voru orðin 250.000. Frá sjónarhóli nútímamanna er fyrsta útgáfan þó sennilega talin best og það er hún sem oftast er gefin út.11

Malthus fór í mikil ferðalög um Evrópu skömmu eftir fyrstu útgáfuna til að rannsaka fólksfjölgunarmálin betur. Árið 1803 fékk hann brauð sem tryggði honum sæmilegar tekjur og hann hélt því alla ævi þótt hann byggi annars staðar og léti aðstoðarpresta um að sinna embættisverkum.12

Eftir að hann kvæntist tók hann við starfi hjá Austur-Indíaskólanum við stofnun hans árið 1805 en hann var stofnaður til þess að mennta embættismenn Austur-Indíafélagsins. Hann fékk stöðu prófessors í stjórnmálahagfræði í þessum skóla og var fyrsti maðurinn sem gegndi slíkri stöðu í Bretlandi. Hann gegndi þessu starfi til æviloka.

Austur-Indíaskólinn í Haileybury.

Nokkrum árum síðar kynntist hann David Ricardo (1772-1823), kaupsýslumanni sem hafði ritað um hagfræði. Um 1810 fór fram umræða um verðbólgu sem Ricardo kenndi Englandsbanka um. Malthus hafði gagnrýnt einhver atriði í grein Ricardos og Ricardo brást við með svari. Í framhaldi sendi Malthus honum bréf árið 1811 og óskaði eftir að þeir gætu hist og rætt málin í einrúmi í stað þess að deila á prenti. Í framhaldi tókst með þeim vinátta sem entist meðan báðir lifðu. Þeir héldu þó alltaf áfram að vera ósammála um margt í hagfræðilegum efnum, en Ricardo var mikill aðdáandi ritgerðar hans um mannfjölda.

Malthus vann lengi að því að gefa út sína eigin útgáfu af Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith (1723-1790), og ætlaði að hafa með í útgáfunni ýmsar skýringar og útleggingar, en Malthus notaði þessa bók lengst af við kennslu í Austur-Indíaskólanum. Því miður varð ekkert úr útgáfu á bókinni. Hann gaf út ýmsa bæklinga og ritgerðir. Má þar nefna bækling um kornlögin 1814 (kornlögin snerust um að vernda landbúnað í Bretlandi með innflutningshömlum. Ricardo vinur Malthusar var eindreginn andstæðingur þeirra, en Malthus ekki). Einnig má nefna bækling um rentu 1815, en um sama leyti komu aðrir höfundar einnig fram með svipaða greiningu á rentu. Árið 1820 gaf hann út seinni bók sína, Lögmál stjórnmálahagfræðinnar með hliðsjón af hagnýtri beitingu þeirra (The Principles of Political Economy considered with a view to their Practical Application).

Malthus var þekktur hagfræðingur í Bretlandi um sína daga. En skoðanir hans höfðu að sumu leyti hörkulegan blæ. Hann taldi til dæmis að ýmsar hugmyndir um að bæta hag hinna fátækustu vera sjálfskæðar, það er ekki bæta hag þeirra í reynd. Dæmi um það voru hugmyndir um úrbætur í húsnæðismálum fátækra.

Malthus eignaðist þrjú börn með konu sinni. En börnin eignuðust ekki afkomendur. Bróðir hans eignaðist hins vegar fjölda afkomenda. Í minningargrein um Malthus sem birtist í Tímariti herramanna (Gentleman‘s Magazine) árið 1835 segir meðal annars að maður „sem hafi þekkt hann náið í næstum fimmtíu ár hafi næstum aldrei séð hann komast í uppnám, aldrei reiðan og aldrei úr hófi kátan eða leiðan ...“ Á sama stað segir í minningargreininni: „Hr. Malthus var hávaxinn og fallega byggður og hann leit út og kom fram sem fullkominn herramaður.“13

Myndir:


1 Í þessu svari er talsvert byggt á ritgerðum í John Eatwell, Murray Milgate og Peter Newman (ritstjórar): The New Palgrave, A dictionary of Economics. Macmillan Press Limited, London, 1998. Einna mest hefur verið litið til ritgerðarinnar: „Malthus, Thomas Robert“, eftir J. M. Pullen. Þá er stuðst við æviágrip um Malthus eftir J. M. Keynes. „Robert Malthus“ sem birtist í ritgerðasafni hans, Essays in Biography, Mercury Books, London 1961, bls. 81-124. Einnig hefur verið höfð hliðsjón af umfjöllun um Malthus og klassísku hagfræðingana í Mark Blaug: Economic Theory in Retrospect, 5. útg., Cambridge University Press, Cambridge, 1999. Auk þess má nefna bækurnar I. H. Rima: Development of Economic Analysis, 5. útgáfa, Richard D. Irwin Inc., USA, 1991, og Charles E. Staley: A History of Economic Thought: From Aristotle to Arrow, Blackwell Publishers, Oxford, 1989.

2 The Gentleman‘s Magazine, febrúar 1800, bls 177. Tilvitnun fengin frá Keynes, bls. 83. Orðrétt hljóðar tilvitnunin svo: „ ... an eccentric character in the strictest sense of the term.“

3 Keynes, „Robert Malthus“, bls. 83. Hann hefur tilvitnunina frá Manning og Bray, History of Surrey. Bray þessi mun hafa tengst Malthusi fjölskylduböndum.

4 Keynes, „Robert Malthus“, bls. 84.

5 „Malthus, Thomas Robert“, Palgrave, bls. 281.

6 „Malthus, Thomas Robert“, Palgrave, bls. 280.

7 Keynes, „Robert Malthus“, bls. 94.

8 „Malthus, Thomas Robert“, Palgrave, bls. 280.

9 Þess má geta að William Godwin giftist Mary Wollstonecraft, sem er þekkt í sögu kvenréttindabaráttunnar, og þau áttu saman dótturina Mary Shelley, höfund skáldsögunnar um Frankenstein.

10 „William Godwin“. The Oxford Companion to Philosophy. Ritstj. Ted Honderich. OUP 1995, bls. 321.

11 J. M. Keynes er að minnsta kosti þessarar skoðunar. Sjá á bls. 98 í ritgerð hans um Malthus.

12 Keynes, „Robert Malthus“, bls. 96.

13 Fyrri tilvitnunin fengin frá Keynes, „Robert Malthus“, bls. 95 neðanmáls. Síðari tilvitnunin fengin úr sömu ritgerð Keynes, bls. 110. Báðar vísa til bls. 325 í Gentleman‘s Magazine, 1835....