Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvert var framlag Adams Smiths til hagfræðinnar?

Þorbergur Þórsson

Nú á tímum er Adams Smiths einkum minnst fyrir framlag sitt til hagfræðinnar og er Auðlegð þjóðanna (An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations) oft sögð marka upphaf hagfræðinnar sem vísindagreinar. Auðlegð þjóðanna er löng bók, tæplega eitt þúsund blaðsíður að lengd. Hún er í fimm mislöngum hlutum eða bókum. Hún er skrifuð í allt öðrum anda en síðar hefur tíðkast meðal hagfræðinga. Stíll og efnistök eru frjálsleg og afslöppuð. Textinn er nákvæmlega stílaður og tilþrifamikill á tilgerðarlausan og eðlilegan hátt. Höfundurinn tínir til fróðleik úr öllum áttum og vísar til almennrar lífsreynslu og skýrir mál sitt með margvíslegum dæmisögum.

Ógerningur er að lýsa þessu mikla verki í fáum orðum. Þó má fá hugmynd um það af ágripi efnisyfirlits. Fyrsta bókin fjallar um verkaskiptingu, um uppruna og gagnsemi peninga, um vöruverð, vinnulaun, hagnað og fleira. Önnur bókin fjallar um fjármagn og þar á meðal um mannauð, hin þriðja um sögulega þróun, um það hvernig samfélögin þroskast og dafna með verslun og iðnaði og um mikilvægi ýmissa stofnana samfélagsins í því sambandi. Fjórða bókin fjallar um kaupauðgisstefnuna (merkantílisma) og um milliríkjaverslun og rekstur nýlendna. Loks fjallar fimmta bókin um ríkisvaldið, hlutverk þess, útgjöld og fjármögnun.

Til þess að gefa nánari hugmynd um verkið má lýsa stuttlega einum þræði verksins, því efni sem er í forgrunni í fyrstu köflum bókarinnar og lýsir upp aðra umfjöllun í henni.

Adam Smith fjallar um títuprjónagerð í bók sinni.
Myndin sýnir títuprjónaverksmiðju.

Bókin hefst á umfjöllun um verkaskiptingu og á fyrstu blaðsíðum hennar birtist fræg lýsing á títuprjónagerð. Verkaskiptingin gerir það að verkum að meðan óvanur maður og fákunnandi gæti ef til vill búið til tuttugu títuprjóna eða jafnvel aðeins einn á dag, geta tíu menn, sem vinna hver fyrir sig að sínum hluta verksins, búið til „rúmlega fjörutíu og átta þúsund títuprjóna á dag“. Með verkaskiptingunni eykst framleiðnin sem sagt hundraðfalt og ef til vill þúsund eða mörgþúsundfalt. Verkaskiptingin gerir það að verkum að „duglegur og sparsamur bóndi“ í Evrópu býr í reynd „við betri kost en margur Afríkukóngurinn“.1 Verkaskiptingin byggist á því að fólk geti átt viðskipti sín á milli, því hún felst í því að menn framleiða ekki allt það sem þeir þurfa sjálfir, heldur reiða sig á aðra. Hér eru að verki ósýnileg öfl markaðarins sem beina mönnum til þess að sérhæfa sig og einbeita sér að því að ná árangri í starfi sem nágrannar þeirra kunna að meta. Í þessu samhengi má benda á að Smith var oft ofarlega í huga að athafnir manna hafa bæði þær afleiðingar sem eru fyrirætlaðar og einnig afleiðingar sem ekki eru fyrirætlaðar – ófyrirætlaðar afleiðingar. Til dæmis þannig að þegar menn reyna að nýta hæfileika sína til að búa til verðmæta hluti og selja þá til að bæta sinn eigin hag þá bæta þeir hag samfélagsins ósjálfrátt um leið. Þessi ósýnilegu öfl sem valda því að hagur samfélagsins batnar þegar menn hugsa um sinn eigin hag geta ekki verkað almennilega nema samfélagið sé sæmilega öruggt og eignarréttur tryggur, enda felur sérhæfing einstaklinganna í sér að þeir verða hver öðrum háðari en áður. Í þessu samhengi hefur verið talað um ósýnilega hönd markaðarins, sem oft er kennd við Smith. (Smith minntist þó aðeins þrisvar sinnum á ósýnilegar hendur í bókum sínum, og aðeins einu sinni í Auðlegðinni.2)

En þessi öfl sem hvetja fólk til að sérhæfa sig og auka framleiðni sína um leið hafa á sér skuggahlið. Það er nefnilega hætt við að fólk verði óskaplega heimskt ef það sinnir aðeins einu verki eða athöfn. Greind og skilningur manna mótast mjög af hversdagslegri iðju þeirra, segir Smith. Það er óhollt, forheimskandi og siðspillandi fyrir menn að fást of mikið við það sama, til dæmis einhæf störf.

Hér hefur lítillega verið drepið á eina hlið á hugsun Smiths en hagfræði hans er voldugt verk sem lýst er í þykkri og efnisríkri bók.

Það má ekki skilja það svo að hagfræðinni hafi lostið niður, nánast alskapaðri, í huga þessa eina manns. Því fer auðvitað fjarri. Margir aðrir höfundar höfðu skrifað skarplega um hagfræðileg efni á undan honum. Hér var minnst á verkaskiptingu, en menn höfðu til dæmis komið auga á kosti hennar og framleiðniaukningu sem hún gæti gefið af sér nokkrum áratugum áður en Smith fór að skrifa um hagfræði.

Stundum er talað um að snilli Smiths hafi falist í því, að hann gat dregið saman í eina fræðilega heild það sem menn höfðu áður hugsað um hagfræði, en ekki í því að hann hafi verið sérlega frumlegur. Þannig ritar til dæmis hagfræðingurinn Joseph Schumpeter (1883-1950) um Adam Smith, en Schumpeter getur reyndar alls ekki talist vera neinn aðdáandi Smiths.3 Þessi skoðun er sennilega ekki með öllu sanngjörn. Það má nefna dæmi um þetta af hugtakinu viðskiptakostnaður. Ronald Coase (1910-) fékk Nóbelsverðlaun árið 1991 fyrir það meðal annars að smíða það hugtak og innleiða í hagfræðina. Þetta gerði Coase með ritgerð sem hann birti árið 1937 sem fjallar um eðli fyrirtækja. Þegar Nóbelsverðlaun eru veitt, er venja að verðlaunahafar haldi fyrirlestur um hugðarefni sín. Í fyrirlestri sínum minntist Coase nokkuð á Adam Smith. Hann sagði að á þeim rúmu tvö hundruð árum sem liðin væru frá því Auðlegð þjóðanna var gefin út, hafi helsta starf hagfræðinga verið að fylla inn í eyður í kerfi Smiths, leiðrétta villur sem hann gerði og skerpa verulega greiningar hans. Svo sagði Coase að hann vissi aðeins um einn hluta hagvísindanna þar sem viðskiptakostnaði hefði verið beitt til að skýra meiri háttar efnahagslegt fyrirbæri, áður en hann gerði slíkt sjálfur í sinni ritgerð árið 1937. Væri það greining Adams Smiths á tilurð og gagnsemi peninga. Skýring Smiths á þessu efni væri sú að peningar drægju úr viðskiptakostnaði.4 Aðrir hagfræðingar hafa látið orð falla í líka veru um aðra þætti í kenningum hans. Til dæmis má nefna vinnumarkaðsfræði hans og einnig mætti ef til vill nefna notkun hans og lýsingu á hugtakinu mannauður.5

Stytta af Adam Smith í Edinborg, Skotlandi.

Í ljósi þess að Joseph Schumpeter var enginn aðdáandi Adams Smiths má vitna aftur í þann ágæta höfund til að lýsa áhrifum Smiths í hagfræði. Með því má varast að ýkja áhrif Smiths eða lofsyngja hann um of. Þegar Schumpeter hefur lýst því að Auðlegð Smiths hafi verið gefin út í furðu mörgum útgáfum á átjándu öld segir hann:
... en það er ekkert í samanburði við hinn raunverulega árangur verksins, sem ekki er svo auðvelt að mæla: Frá því um það bil 1790 og áfram varð Smith kennari, sem kenndi ekki almenningi eða byrjendum, heldur fagmönnunum og sér í lagi prófessorunum. Hugsun margra þeirra, þar á meðal Ricardos (1772-1823), byrjaði hjá honum og þeir náðu flestir aldrei neitt lengra en hann. Í hálfa öld eða meira, svona gróft áætlað þar til Lögmál J. S. Mills6 kom út (1848) og fór að hafa áhrif, var það hjá Adam Smith sem flestir venjulegir hagfræðingar fengu megnið af hugmyndum sínum.7

Þess má að lokum geta að áhugi á Adam Smith og verkum hans virðist síst fara minnkandi.8 Fyrstu þrjár bækur verksins voru þýddar á íslensku á tíunda áratug síðustu aldar og gefnar út í einu bindi árið 1997 (Bókafélagið, þýðing svarshöfundar). Sem dæmi um handhæga nýlega útgáfu á frummálinu með að því er virðist mjög góðum skýringum má nefna Oxford World Classics útgáfuna í ritstjórn Kathryn Sutherlands (1983, 1998, 2008). Oxford University Press gaf einnig út ritsafn Smiths í svonefndri Glasgow-útgáfu, sem er vönduð fræðileg útgáfa af verkunum. Auðlegð þjóðanna er þar í tveimur bindum sem komu út 1976. Liberty Fund bókaútgáfan gaf út endurprentun þessarar útgáfu af ritsafni Smiths árið 1981.

Nýleg ævisaga Adams Smiths, The Life of Adam Smith eftir Ian Simpson Ross (OUP) kom út í annarri útgáfu á árinu 2010.

Ítarefni:

Myndir:


1Adam Smith, Auðlegð þjóðanna. Íslensk þýðing eftir Þorberg Þórsson. Bókafélagið, Reykjavík 1997, bls. 14.

2Nánar tiltekið í 9. efnisgrein 2. kafla IV. bókar. Þessi kafli fjallar um milliríkjaverslun. Þegar Smith nefnir ósýnilega hönd í þessum kafla talar hann einmitt um að venjulegir einstaklingar reyni sem best þeir geti að auka árlegar tekjur samfélagsins, en með því ætli þeir sér ekki að bæta hag almennings, né viti þeir hversu mikið þeir bæti hann. Þeir ætli sér eingöngu að bæta sinn eigin hag. Þeim sé í því, eins og svo mörgu öðru, eins og leiðbeint af ósýnilegri hönd til að stuðla að markmiði sem þeir höfðu þó enga áætlun um að ná.

3Joseph Schumpeter. History of Economic Analysis (1954? Ártals ekki getið) Sjá á bls. 181-194.

4Sjá fyrirlestur Coase sem hann hélt þegar hann tók við nóbelsverðlaunum sínum árið 1991. http://nobelprize.org/nobel_prizes/economics/laureates/1991/coase-lecture.html. Reyndar má lesa ritgerð Coase sem hér var minnst á í íslenskri þýðingu svarshöfundar á vef Seðlabankans: http://www.sedlabanki.is/uploads/files/Ft98-1_6.pdf. Umfjöllun Smiths um þetta efni kemur einkum fram í 4. kafla 1. bókar, Um uppruna peninga og not þeirra.

5Smith fjallar um mannauð í 10. kafla fyrstu bókar, í umfjöllun um vinnumarkað og vinnulaun. Þar segir hann meðal annars: „Það má bera mann, sem hefur kostað mikilli vinnu og tíma í að mennta sig til einhvers starfs sem krefst sérlega mikillar leikni og kunnáttu, saman við eina af þessum dýru vélum [það er dýran vélabúnað sem menn kaupa og setja upp til að nota í framleiðslu, innskot]. Þess verður að vænta, að verkin sem hann lærir að vinna muni endurgjalda honum öll útgjöld menntunar hans umfram og ofan á venjuleg laun ásamt að minnsta kosti venjulegum hagnaði af jafn verðmætu fjármagni ...“ Um sjónarmið hagfræðinga um umfjöllun Smiths um þetta efni mætti til dæmis nefna aðgengilega umfjöllun Gary Becker í Nóbelsfyrirlestri árið 1992: http://nobelprize.org/nobel_prizes/economics/laureates/1992/becker-lecture.pdf.

6John Stuart Mill. Principles of Political Economy with some of their Applications to Social Philosophy. London 1848. Sjá: http://www.econlib.org/library/Mill/mlP.html.

7Joseph Schumpeter. History of Economic Analysis (1954? Ártals ekki getið), bls. 193-194.

8Meðal nýlegra bóka þar sem meðal annars er talsvert fjallað um Smith og fræði hans mætti nefna Economic Sentiments eftir Emmu Rothschild, The Idea of Justice eftir Amartya Sen og The Virtues of Enlightenment eftir Charles Griswold.

Höfundur

hagfræðingur

Útgáfudagur

24.2.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þorbergur Þórsson. „Hvert var framlag Adams Smiths til hagfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 24. febrúar 2011. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58688.

Þorbergur Þórsson. (2011, 24. febrúar). Hvert var framlag Adams Smiths til hagfræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58688

Þorbergur Þórsson. „Hvert var framlag Adams Smiths til hagfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 24. feb. 2011. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58688>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvert var framlag Adams Smiths til hagfræðinnar?
Nú á tímum er Adams Smiths einkum minnst fyrir framlag sitt til hagfræðinnar og er Auðlegð þjóðanna (An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations) oft sögð marka upphaf hagfræðinnar sem vísindagreinar. Auðlegð þjóðanna er löng bók, tæplega eitt þúsund blaðsíður að lengd. Hún er í fimm mislöngum hlutum eða bókum. Hún er skrifuð í allt öðrum anda en síðar hefur tíðkast meðal hagfræðinga. Stíll og efnistök eru frjálsleg og afslöppuð. Textinn er nákvæmlega stílaður og tilþrifamikill á tilgerðarlausan og eðlilegan hátt. Höfundurinn tínir til fróðleik úr öllum áttum og vísar til almennrar lífsreynslu og skýrir mál sitt með margvíslegum dæmisögum.

Ógerningur er að lýsa þessu mikla verki í fáum orðum. Þó má fá hugmynd um það af ágripi efnisyfirlits. Fyrsta bókin fjallar um verkaskiptingu, um uppruna og gagnsemi peninga, um vöruverð, vinnulaun, hagnað og fleira. Önnur bókin fjallar um fjármagn og þar á meðal um mannauð, hin þriðja um sögulega þróun, um það hvernig samfélögin þroskast og dafna með verslun og iðnaði og um mikilvægi ýmissa stofnana samfélagsins í því sambandi. Fjórða bókin fjallar um kaupauðgisstefnuna (merkantílisma) og um milliríkjaverslun og rekstur nýlendna. Loks fjallar fimmta bókin um ríkisvaldið, hlutverk þess, útgjöld og fjármögnun.

Til þess að gefa nánari hugmynd um verkið má lýsa stuttlega einum þræði verksins, því efni sem er í forgrunni í fyrstu köflum bókarinnar og lýsir upp aðra umfjöllun í henni.

Adam Smith fjallar um títuprjónagerð í bók sinni.
Myndin sýnir títuprjónaverksmiðju.

Bókin hefst á umfjöllun um verkaskiptingu og á fyrstu blaðsíðum hennar birtist fræg lýsing á títuprjónagerð. Verkaskiptingin gerir það að verkum að meðan óvanur maður og fákunnandi gæti ef til vill búið til tuttugu títuprjóna eða jafnvel aðeins einn á dag, geta tíu menn, sem vinna hver fyrir sig að sínum hluta verksins, búið til „rúmlega fjörutíu og átta þúsund títuprjóna á dag“. Með verkaskiptingunni eykst framleiðnin sem sagt hundraðfalt og ef til vill þúsund eða mörgþúsundfalt. Verkaskiptingin gerir það að verkum að „duglegur og sparsamur bóndi“ í Evrópu býr í reynd „við betri kost en margur Afríkukóngurinn“.1 Verkaskiptingin byggist á því að fólk geti átt viðskipti sín á milli, því hún felst í því að menn framleiða ekki allt það sem þeir þurfa sjálfir, heldur reiða sig á aðra. Hér eru að verki ósýnileg öfl markaðarins sem beina mönnum til þess að sérhæfa sig og einbeita sér að því að ná árangri í starfi sem nágrannar þeirra kunna að meta. Í þessu samhengi má benda á að Smith var oft ofarlega í huga að athafnir manna hafa bæði þær afleiðingar sem eru fyrirætlaðar og einnig afleiðingar sem ekki eru fyrirætlaðar – ófyrirætlaðar afleiðingar. Til dæmis þannig að þegar menn reyna að nýta hæfileika sína til að búa til verðmæta hluti og selja þá til að bæta sinn eigin hag þá bæta þeir hag samfélagsins ósjálfrátt um leið. Þessi ósýnilegu öfl sem valda því að hagur samfélagsins batnar þegar menn hugsa um sinn eigin hag geta ekki verkað almennilega nema samfélagið sé sæmilega öruggt og eignarréttur tryggur, enda felur sérhæfing einstaklinganna í sér að þeir verða hver öðrum háðari en áður. Í þessu samhengi hefur verið talað um ósýnilega hönd markaðarins, sem oft er kennd við Smith. (Smith minntist þó aðeins þrisvar sinnum á ósýnilegar hendur í bókum sínum, og aðeins einu sinni í Auðlegðinni.2)

En þessi öfl sem hvetja fólk til að sérhæfa sig og auka framleiðni sína um leið hafa á sér skuggahlið. Það er nefnilega hætt við að fólk verði óskaplega heimskt ef það sinnir aðeins einu verki eða athöfn. Greind og skilningur manna mótast mjög af hversdagslegri iðju þeirra, segir Smith. Það er óhollt, forheimskandi og siðspillandi fyrir menn að fást of mikið við það sama, til dæmis einhæf störf.

Hér hefur lítillega verið drepið á eina hlið á hugsun Smiths en hagfræði hans er voldugt verk sem lýst er í þykkri og efnisríkri bók.

Það má ekki skilja það svo að hagfræðinni hafi lostið niður, nánast alskapaðri, í huga þessa eina manns. Því fer auðvitað fjarri. Margir aðrir höfundar höfðu skrifað skarplega um hagfræðileg efni á undan honum. Hér var minnst á verkaskiptingu, en menn höfðu til dæmis komið auga á kosti hennar og framleiðniaukningu sem hún gæti gefið af sér nokkrum áratugum áður en Smith fór að skrifa um hagfræði.

Stundum er talað um að snilli Smiths hafi falist í því, að hann gat dregið saman í eina fræðilega heild það sem menn höfðu áður hugsað um hagfræði, en ekki í því að hann hafi verið sérlega frumlegur. Þannig ritar til dæmis hagfræðingurinn Joseph Schumpeter (1883-1950) um Adam Smith, en Schumpeter getur reyndar alls ekki talist vera neinn aðdáandi Smiths.3 Þessi skoðun er sennilega ekki með öllu sanngjörn. Það má nefna dæmi um þetta af hugtakinu viðskiptakostnaður. Ronald Coase (1910-) fékk Nóbelsverðlaun árið 1991 fyrir það meðal annars að smíða það hugtak og innleiða í hagfræðina. Þetta gerði Coase með ritgerð sem hann birti árið 1937 sem fjallar um eðli fyrirtækja. Þegar Nóbelsverðlaun eru veitt, er venja að verðlaunahafar haldi fyrirlestur um hugðarefni sín. Í fyrirlestri sínum minntist Coase nokkuð á Adam Smith. Hann sagði að á þeim rúmu tvö hundruð árum sem liðin væru frá því Auðlegð þjóðanna var gefin út, hafi helsta starf hagfræðinga verið að fylla inn í eyður í kerfi Smiths, leiðrétta villur sem hann gerði og skerpa verulega greiningar hans. Svo sagði Coase að hann vissi aðeins um einn hluta hagvísindanna þar sem viðskiptakostnaði hefði verið beitt til að skýra meiri háttar efnahagslegt fyrirbæri, áður en hann gerði slíkt sjálfur í sinni ritgerð árið 1937. Væri það greining Adams Smiths á tilurð og gagnsemi peninga. Skýring Smiths á þessu efni væri sú að peningar drægju úr viðskiptakostnaði.4 Aðrir hagfræðingar hafa látið orð falla í líka veru um aðra þætti í kenningum hans. Til dæmis má nefna vinnumarkaðsfræði hans og einnig mætti ef til vill nefna notkun hans og lýsingu á hugtakinu mannauður.5

Stytta af Adam Smith í Edinborg, Skotlandi.

Í ljósi þess að Joseph Schumpeter var enginn aðdáandi Adams Smiths má vitna aftur í þann ágæta höfund til að lýsa áhrifum Smiths í hagfræði. Með því má varast að ýkja áhrif Smiths eða lofsyngja hann um of. Þegar Schumpeter hefur lýst því að Auðlegð Smiths hafi verið gefin út í furðu mörgum útgáfum á átjándu öld segir hann:
... en það er ekkert í samanburði við hinn raunverulega árangur verksins, sem ekki er svo auðvelt að mæla: Frá því um það bil 1790 og áfram varð Smith kennari, sem kenndi ekki almenningi eða byrjendum, heldur fagmönnunum og sér í lagi prófessorunum. Hugsun margra þeirra, þar á meðal Ricardos (1772-1823), byrjaði hjá honum og þeir náðu flestir aldrei neitt lengra en hann. Í hálfa öld eða meira, svona gróft áætlað þar til Lögmál J. S. Mills6 kom út (1848) og fór að hafa áhrif, var það hjá Adam Smith sem flestir venjulegir hagfræðingar fengu megnið af hugmyndum sínum.7

Þess má að lokum geta að áhugi á Adam Smith og verkum hans virðist síst fara minnkandi.8 Fyrstu þrjár bækur verksins voru þýddar á íslensku á tíunda áratug síðustu aldar og gefnar út í einu bindi árið 1997 (Bókafélagið, þýðing svarshöfundar). Sem dæmi um handhæga nýlega útgáfu á frummálinu með að því er virðist mjög góðum skýringum má nefna Oxford World Classics útgáfuna í ritstjórn Kathryn Sutherlands (1983, 1998, 2008). Oxford University Press gaf einnig út ritsafn Smiths í svonefndri Glasgow-útgáfu, sem er vönduð fræðileg útgáfa af verkunum. Auðlegð þjóðanna er þar í tveimur bindum sem komu út 1976. Liberty Fund bókaútgáfan gaf út endurprentun þessarar útgáfu af ritsafni Smiths árið 1981.

Nýleg ævisaga Adams Smiths, The Life of Adam Smith eftir Ian Simpson Ross (OUP) kom út í annarri útgáfu á árinu 2010.

Ítarefni:

Myndir:


1Adam Smith, Auðlegð þjóðanna. Íslensk þýðing eftir Þorberg Þórsson. Bókafélagið, Reykjavík 1997, bls. 14.

2Nánar tiltekið í 9. efnisgrein 2. kafla IV. bókar. Þessi kafli fjallar um milliríkjaverslun. Þegar Smith nefnir ósýnilega hönd í þessum kafla talar hann einmitt um að venjulegir einstaklingar reyni sem best þeir geti að auka árlegar tekjur samfélagsins, en með því ætli þeir sér ekki að bæta hag almennings, né viti þeir hversu mikið þeir bæti hann. Þeir ætli sér eingöngu að bæta sinn eigin hag. Þeim sé í því, eins og svo mörgu öðru, eins og leiðbeint af ósýnilegri hönd til að stuðla að markmiði sem þeir höfðu þó enga áætlun um að ná.

3Joseph Schumpeter. History of Economic Analysis (1954? Ártals ekki getið) Sjá á bls. 181-194.

4Sjá fyrirlestur Coase sem hann hélt þegar hann tók við nóbelsverðlaunum sínum árið 1991. http://nobelprize.org/nobel_prizes/economics/laureates/1991/coase-lecture.html. Reyndar má lesa ritgerð Coase sem hér var minnst á í íslenskri þýðingu svarshöfundar á vef Seðlabankans: http://www.sedlabanki.is/uploads/files/Ft98-1_6.pdf. Umfjöllun Smiths um þetta efni kemur einkum fram í 4. kafla 1. bókar, Um uppruna peninga og not þeirra.

5Smith fjallar um mannauð í 10. kafla fyrstu bókar, í umfjöllun um vinnumarkað og vinnulaun. Þar segir hann meðal annars: „Það má bera mann, sem hefur kostað mikilli vinnu og tíma í að mennta sig til einhvers starfs sem krefst sérlega mikillar leikni og kunnáttu, saman við eina af þessum dýru vélum [það er dýran vélabúnað sem menn kaupa og setja upp til að nota í framleiðslu, innskot]. Þess verður að vænta, að verkin sem hann lærir að vinna muni endurgjalda honum öll útgjöld menntunar hans umfram og ofan á venjuleg laun ásamt að minnsta kosti venjulegum hagnaði af jafn verðmætu fjármagni ...“ Um sjónarmið hagfræðinga um umfjöllun Smiths um þetta efni mætti til dæmis nefna aðgengilega umfjöllun Gary Becker í Nóbelsfyrirlestri árið 1992: http://nobelprize.org/nobel_prizes/economics/laureates/1992/becker-lecture.pdf.

6John Stuart Mill. Principles of Political Economy with some of their Applications to Social Philosophy. London 1848. Sjá: http://www.econlib.org/library/Mill/mlP.html.

7Joseph Schumpeter. History of Economic Analysis (1954? Ártals ekki getið), bls. 193-194.

8Meðal nýlegra bóka þar sem meðal annars er talsvert fjallað um Smith og fræði hans mætti nefna Economic Sentiments eftir Emmu Rothschild, The Idea of Justice eftir Amartya Sen og The Virtues of Enlightenment eftir Charles Griswold....