Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvar var Leopold von Ranke og hvert var hans framlag til sagnfræðinnar?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Árið 1810 var stofnaður háskóli í Berlínarborg. Hann var liður í framsókn þýskrar menningar í Prússlandi, sem hafði Berlín að höfuðborg, framsókn sem var meðal annars knúin af særðum metnaði eftir að her Napóleons Frakkakeisara hafði vaðið yfir landið á fyrsta áratug aldarinnar. Berlínarháskóli varð þekktur fyrir nýjungar í mörgum fræðigreinum, meðal annars í sagnfræði, sem hér er til umræðu.

Um leið og Berlínarháskóli var stofnaður var maður að nafni Barthold Georg Niebuhr (1776–1831) ráðinn til að halda þar fyrirlestra. Hann valdi sér sögu Rómaveldis að viðfangsefni og fór út á nýstárlegar brautir í sagnfræði. Hann lagði megináherslu á skyldu sagnfræðingsins að halda sig við sannleikann einan og sýndi um leið fram á hvað frásagnarheimildir voru einatt litaðar af sjónarmiðum sögumanna og því hæpnir vitnisburðir um það sem raunverulega gerðist. Þannig má segja að Niebuhr hafi lagt grunn að vísindalegri, gagnrýninni sagnfræði.

Það kom þó ekki í hlut Niebuhr að verða tákn hinnar nýju sagnfræði heldur lærisveins hans, Leopolds von Ranke (1795–1886). Hann var einkum menntaður í guðfræði og málfræði en varð prófessor í sagnfræði við Berlínarháskóla árið 1825. Hann þróaði heimildarýni Niebuhr áfram og gaf út um hana sérstaka ritgerð, Zur Kritik neuerer Geschichtschreiber (Gagnrýni á söguritara síðari tíma). Þar mótaði hann slagorð stefnu sinnar, sagði að sagnfræðingar ættu ekki að dæma eða skálda heldur einfaldlega segja wie es eigentlich gewesen, hvernig sagan hefði raunverulega verið. Þetta virðist einfaldur boðskapur nú, en á sínum tíma sló hann í gegn um allan háskólaheiminn. Hvar sem skrifað var um sagnfræði á 19. öld var vitnað til þessara orða á frummálinu: wie es eigentlich gewesen.

Óhjákvæmilega dettur manni í hug að Ranke hafi rænt frægðinni af upphafsmanninum Niebuhr, en sjálfur dró hann enga dul á að hann hefði lært af Niebuhr. Hvers vegna fékk heimurinn þá Ranke-skóla í sagnfræði fremur en Niebuhr-skóla? Að hluta til var ástæðan sú að Ranke var nýjungamaður í háskólakennslu. Hann lagði megináherslu á æfingar, það sem nú mundi kallað umræðutímar í Háskóla Íslands, fremur en fyrirlestra, og þjálfaði nemendur sína þannig til fræðistarfa. Önnur ástæða er sú að hann var sjálfur afburðagóður sagnfræðingur og skrifaði litríkan texta, fjarri þeim þurrpumpulega stíl sem sumir lærisveinar hans hafa talið til dyggða Ranke-skólans.

Hann var lengi að verki við Berlínarháskóla, ein 48 ár, og fjallaði einkum um sögu nýaldar í Evrópu, þar sem fyrirrennarar hans höfðu aðallega fengist við fornaldarsögu. Fyrsta stórvirki Ranke var Saga rómverskra og germanskra þjóða 1494–1535, þar sem hann sýndi hvernig menning Evrópu hefði orðið til úr samruna þessara tveggja menningarheima. Síðar skrifaði hann sögu Frakka á 16. og 17. öld í fimm bindum og sögu Englendinga á 17. öld í níu bindum. – Sagnfræðingar 19. aldar gátu verið gríðarlega langorðir. – Hann skrifaði um uppruna styrjalda sem leiddi af frönsku stjórnarbyltingunni, á árunum 1791 og 1792. Sögu heimalands síns, Prússlands, rakti hann til 1813.



Humboldt-háskólinn í Berlín þar sem Leopold von Ranke stundaði sín fræði. Myndin er frá um 1850 en á þeim tíma var Ranke við skólann.

Eftir á hefur oft verið sagt um Ranke að hann hafi ekki stundað það hlutleysi sem hann boðaði. Hann hafi beitt mælskubrögðum til að ná tilfinningalegum áhrifum og verið hlutdrægur talsmaður ríkisvaldsins, eins og tíðkaðist mjög í Prússlandi á hans tíma. Svo er aftur á móti bent á að hann hafi sýnt hlutleysi og hlutlægni í að kenna Austurríkismönnum og Prússum um styrjaldirnar á árunum 1791 og 1792, fremur en andstæðingum þeirra, Frökkum.

Ranke-skólinn var tortrygginn á frásagnarheimildir vegna þess að sögumenn væru hlutdrægir. Því var lagt kapp á að safna skjölum og nýta þau sem mest. Áhrif skólans voru framan af einkum þau að tekið var að gefa út forn skjöl. Í íslenskri söguiðkun er Íslenzkt fornbréfasafn fyrsti ávöxtur stefnunnar, en Jón Sigurðsson forseti gaf út fyrsta heftið af fyrsta bindi þess árið 1857, rúmum þremur áratugum eftir að Ranke kvaddi sér hljóðs um heimildarýni. Í söguritun ruddi Ranke-skóli sér til rúms á Norðurlöndum á síðustu áratugum 19. aldar. Norðmenn telja sterk áhrif frá honum á Gustav Storm (1845–1903) sem varð prófessor 1877. Í Danmörku urðu skýrari tímamót með Kristian Erslev (1852–1930) sem fékk stöðu við Kaupmannahafnar-háskóla árið 1883. Í Svíþjóð er talað um þessa stefnu sem Weibull-skóla, og er hún þá kennd við Lauritz Weibull (1873–1960), sem varð ekki prófessor fyrr en 1919. Sumum höfundum finnst of langt á milli Ranke á annan veginn og Erslev eða Weibull á hinn til að rétt sé að telja þá til sömu stefnu eða viðmiðs (e. paradigm). Frekar megi segja að þeir síðartöldu, og lærisveinar þeirra, hafi kippt Ranke út úr viðmiði sínu og gert hann að nokkurs konar spámanni stefnu sinnar.

Á Íslandi átti heimildarýniskólinn sérstaklega erfitt uppdráttar, enda eigum við einstaklega auðugar og skemmtilegar frásagnarheimildir um fyrstu aldir byggðar í landinu og allt að því ómótstæðilegt að nota þær. Árið 1903 gaf Bogi Th. Melsteð (1860–1929) út fyrsta bindið af Íslendinga sögu sinni. Í formála fagnar hann því að „prófessor Kr. Erslev hefur stofnað „kritiskan“ sagnfræðingaskóla í Danmörku.“ En sá skóli hafði ekki haft meiri áhrif á Boga en svo að bindið er lítið annað en endursögn á Landnámabók. Og næsta bindi, 1910, var 570 blaðsíðna löng endursögn á Íslendingasögum. Í ritun okkar um fyrstu aldir Íslandssögunnar verður tæpast talað um veruleg áhrif frá Ranke-skóla fyrr en í Íslendinga sögu Jóns Jóhannessonar (1909–1957) 1956. Um síðari aldir var fyrr tekið að skrifa rit sem voru aðallega reist á skjalaheimildum. Meðal elstu meiri háttar rannsóknarrita má þar telja Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787 eftir Jón J. Aðils (1869–1920), sem kom út 1919.

Heimildir og myndir:
  • Alfræðibækur ýmsar.
  • Barnes, Harry Elmer: A History of Historical Writing. 2nd rev. ed. New York 1963.
  • Bogi Th. Melsteð: Íslendinga saga I–II. Kaupmannahöfn 1903–10.
  • Clausen, H.P.: Hvad er historie? København 1963.
  • Dahl, Ottar: Norsk historieforskning i 19. og 20. Århundre. Oslo 1959.
  • Dansk historievidenskabs krise. En undersøgelse af dansk historievidenskabs tradition af Hanne Eriksen o.fl. Odense 1977.
  • Gunnar Karlsson: Inngangur að miðöldum. Handbók í íslenskri miðaldasögu I. Reykjavík 2007.
  • Þórhallur Vilmundarson: Um sagnfræði. Þróun sagnaritunar. Heimspekikenningar um sögu. Heimildafræði. Reykjavík 1969.
  • Mynd: Encyclopædia Britannica On. Mynd eftir J. Schrader frá árinu 1868. Sótt 17. 2. 2011.
  • Mynd af Humboldt-háskóla í Berlín: Wikipedia.org. Sótt 17. 2. 2011.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

18.2.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvar var Leopold von Ranke og hvert var hans framlag til sagnfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 18. febrúar 2011. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58447.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2011, 18. febrúar). Hvar var Leopold von Ranke og hvert var hans framlag til sagnfræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58447

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvar var Leopold von Ranke og hvert var hans framlag til sagnfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 18. feb. 2011. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58447>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar var Leopold von Ranke og hvert var hans framlag til sagnfræðinnar?
Árið 1810 var stofnaður háskóli í Berlínarborg. Hann var liður í framsókn þýskrar menningar í Prússlandi, sem hafði Berlín að höfuðborg, framsókn sem var meðal annars knúin af særðum metnaði eftir að her Napóleons Frakkakeisara hafði vaðið yfir landið á fyrsta áratug aldarinnar. Berlínarháskóli varð þekktur fyrir nýjungar í mörgum fræðigreinum, meðal annars í sagnfræði, sem hér er til umræðu.

Um leið og Berlínarháskóli var stofnaður var maður að nafni Barthold Georg Niebuhr (1776–1831) ráðinn til að halda þar fyrirlestra. Hann valdi sér sögu Rómaveldis að viðfangsefni og fór út á nýstárlegar brautir í sagnfræði. Hann lagði megináherslu á skyldu sagnfræðingsins að halda sig við sannleikann einan og sýndi um leið fram á hvað frásagnarheimildir voru einatt litaðar af sjónarmiðum sögumanna og því hæpnir vitnisburðir um það sem raunverulega gerðist. Þannig má segja að Niebuhr hafi lagt grunn að vísindalegri, gagnrýninni sagnfræði.

Það kom þó ekki í hlut Niebuhr að verða tákn hinnar nýju sagnfræði heldur lærisveins hans, Leopolds von Ranke (1795–1886). Hann var einkum menntaður í guðfræði og málfræði en varð prófessor í sagnfræði við Berlínarháskóla árið 1825. Hann þróaði heimildarýni Niebuhr áfram og gaf út um hana sérstaka ritgerð, Zur Kritik neuerer Geschichtschreiber (Gagnrýni á söguritara síðari tíma). Þar mótaði hann slagorð stefnu sinnar, sagði að sagnfræðingar ættu ekki að dæma eða skálda heldur einfaldlega segja wie es eigentlich gewesen, hvernig sagan hefði raunverulega verið. Þetta virðist einfaldur boðskapur nú, en á sínum tíma sló hann í gegn um allan háskólaheiminn. Hvar sem skrifað var um sagnfræði á 19. öld var vitnað til þessara orða á frummálinu: wie es eigentlich gewesen.

Óhjákvæmilega dettur manni í hug að Ranke hafi rænt frægðinni af upphafsmanninum Niebuhr, en sjálfur dró hann enga dul á að hann hefði lært af Niebuhr. Hvers vegna fékk heimurinn þá Ranke-skóla í sagnfræði fremur en Niebuhr-skóla? Að hluta til var ástæðan sú að Ranke var nýjungamaður í háskólakennslu. Hann lagði megináherslu á æfingar, það sem nú mundi kallað umræðutímar í Háskóla Íslands, fremur en fyrirlestra, og þjálfaði nemendur sína þannig til fræðistarfa. Önnur ástæða er sú að hann var sjálfur afburðagóður sagnfræðingur og skrifaði litríkan texta, fjarri þeim þurrpumpulega stíl sem sumir lærisveinar hans hafa talið til dyggða Ranke-skólans.

Hann var lengi að verki við Berlínarháskóla, ein 48 ár, og fjallaði einkum um sögu nýaldar í Evrópu, þar sem fyrirrennarar hans höfðu aðallega fengist við fornaldarsögu. Fyrsta stórvirki Ranke var Saga rómverskra og germanskra þjóða 1494–1535, þar sem hann sýndi hvernig menning Evrópu hefði orðið til úr samruna þessara tveggja menningarheima. Síðar skrifaði hann sögu Frakka á 16. og 17. öld í fimm bindum og sögu Englendinga á 17. öld í níu bindum. – Sagnfræðingar 19. aldar gátu verið gríðarlega langorðir. – Hann skrifaði um uppruna styrjalda sem leiddi af frönsku stjórnarbyltingunni, á árunum 1791 og 1792. Sögu heimalands síns, Prússlands, rakti hann til 1813.



Humboldt-háskólinn í Berlín þar sem Leopold von Ranke stundaði sín fræði. Myndin er frá um 1850 en á þeim tíma var Ranke við skólann.

Eftir á hefur oft verið sagt um Ranke að hann hafi ekki stundað það hlutleysi sem hann boðaði. Hann hafi beitt mælskubrögðum til að ná tilfinningalegum áhrifum og verið hlutdrægur talsmaður ríkisvaldsins, eins og tíðkaðist mjög í Prússlandi á hans tíma. Svo er aftur á móti bent á að hann hafi sýnt hlutleysi og hlutlægni í að kenna Austurríkismönnum og Prússum um styrjaldirnar á árunum 1791 og 1792, fremur en andstæðingum þeirra, Frökkum.

Ranke-skólinn var tortrygginn á frásagnarheimildir vegna þess að sögumenn væru hlutdrægir. Því var lagt kapp á að safna skjölum og nýta þau sem mest. Áhrif skólans voru framan af einkum þau að tekið var að gefa út forn skjöl. Í íslenskri söguiðkun er Íslenzkt fornbréfasafn fyrsti ávöxtur stefnunnar, en Jón Sigurðsson forseti gaf út fyrsta heftið af fyrsta bindi þess árið 1857, rúmum þremur áratugum eftir að Ranke kvaddi sér hljóðs um heimildarýni. Í söguritun ruddi Ranke-skóli sér til rúms á Norðurlöndum á síðustu áratugum 19. aldar. Norðmenn telja sterk áhrif frá honum á Gustav Storm (1845–1903) sem varð prófessor 1877. Í Danmörku urðu skýrari tímamót með Kristian Erslev (1852–1930) sem fékk stöðu við Kaupmannahafnar-háskóla árið 1883. Í Svíþjóð er talað um þessa stefnu sem Weibull-skóla, og er hún þá kennd við Lauritz Weibull (1873–1960), sem varð ekki prófessor fyrr en 1919. Sumum höfundum finnst of langt á milli Ranke á annan veginn og Erslev eða Weibull á hinn til að rétt sé að telja þá til sömu stefnu eða viðmiðs (e. paradigm). Frekar megi segja að þeir síðartöldu, og lærisveinar þeirra, hafi kippt Ranke út úr viðmiði sínu og gert hann að nokkurs konar spámanni stefnu sinnar.

Á Íslandi átti heimildarýniskólinn sérstaklega erfitt uppdráttar, enda eigum við einstaklega auðugar og skemmtilegar frásagnarheimildir um fyrstu aldir byggðar í landinu og allt að því ómótstæðilegt að nota þær. Árið 1903 gaf Bogi Th. Melsteð (1860–1929) út fyrsta bindið af Íslendinga sögu sinni. Í formála fagnar hann því að „prófessor Kr. Erslev hefur stofnað „kritiskan“ sagnfræðingaskóla í Danmörku.“ En sá skóli hafði ekki haft meiri áhrif á Boga en svo að bindið er lítið annað en endursögn á Landnámabók. Og næsta bindi, 1910, var 570 blaðsíðna löng endursögn á Íslendingasögum. Í ritun okkar um fyrstu aldir Íslandssögunnar verður tæpast talað um veruleg áhrif frá Ranke-skóla fyrr en í Íslendinga sögu Jóns Jóhannessonar (1909–1957) 1956. Um síðari aldir var fyrr tekið að skrifa rit sem voru aðallega reist á skjalaheimildum. Meðal elstu meiri háttar rannsóknarrita má þar telja Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787 eftir Jón J. Aðils (1869–1920), sem kom út 1919.

Heimildir og myndir:
  • Alfræðibækur ýmsar.
  • Barnes, Harry Elmer: A History of Historical Writing. 2nd rev. ed. New York 1963.
  • Bogi Th. Melsteð: Íslendinga saga I–II. Kaupmannahöfn 1903–10.
  • Clausen, H.P.: Hvad er historie? København 1963.
  • Dahl, Ottar: Norsk historieforskning i 19. og 20. Århundre. Oslo 1959.
  • Dansk historievidenskabs krise. En undersøgelse af dansk historievidenskabs tradition af Hanne Eriksen o.fl. Odense 1977.
  • Gunnar Karlsson: Inngangur að miðöldum. Handbók í íslenskri miðaldasögu I. Reykjavík 2007.
  • Þórhallur Vilmundarson: Um sagnfræði. Þróun sagnaritunar. Heimspekikenningar um sögu. Heimildafræði. Reykjavík 1969.
  • Mynd: Encyclopædia Britannica On. Mynd eftir J. Schrader frá árinu 1868. Sótt 17. 2. 2011.
  • Mynd af Humboldt-háskóla í Berlín: Wikipedia.org. Sótt 17. 2. 2011.
...