Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver er Wolfgang Edelstein og hvað hefur hann lagt af mörkum til menntavísinda og skólamála hér á landi?

Ingvar Sigurgeirsson og Sigrún Aðalbjarnardóttir

Wolfgang Edelstein er fæddur í Freiburg í Þýskalandi 15. júní 1929. Faðir hans, dr. Heinz Edelstein (1902–1959), var tónlistarmaður og stofnandi Barnamúsíkskólans í Reykjavík. Móðir Wolfgangs, Charlotte Teresa Edelstein (1904–1997), var hagfræðingur að mennt. Wolfgang, sem er af gyðingaættum, flúði með fjölskyldu sinni til Íslands frá Þýskalandi nasismans árið 1938. Hann varð íslenskur ríkisborgari nítján ára og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949. Wolfgang hélt síðan til háskólanáms í Frakklandi þar sem hann lagði stund á málvísindi, latínu og bókmenntir og lauk Licence ès-lettres-prófi frá Sorbonne-háskóla 1953. Doktorsritgerð skrifaði hann við Háskólann í Heidelberg í Þýskalandi (1962) en þar hafði hann einbeitt sér að miðaldasögu, latínu og uppeldisfræði. Ritgerð hans fjallaði um hugmyndir Alkvins munks frá Jórvík sem var ráðgjafi Karls mikla í menntamálum.

Wolfgang var ráðinn til starfa við þekktan þróunar- og tilraunaskóla, Odenwaldskólann í Suður-Þýskalandi 1954, fyrst sem kennari og síðar sem námstjóri. Hann vann við Max-Planck rannsóknarstofnunina í uppeldis- og menntamálum í Berlín frá stofnun hennar 1963 þar til hann lét af störfum árið 1997. Þar stjórnaði hann deild sem fékkst við rannsóknir á þroskasálfræði og félagsmótun. Enn fremur var hann einn af fjórum stjórnendum stofnunarinnar á árunum 1981–1997.

Hér á landi er Wolfgang Edelstein einna kunnastur fyrir áhrif sín á þróun skólastarfs á ofanverðri 20. öld og er tvímælalaust í hópi þeirra skólamanna sem mest áhrif höfðu. Wolfgang var ráðgjafi menntamálaráðherra frá 1966–1984 og aftur 1989–1991 um mótun skólastefnu og stýrði ýmsum umbótaverkefnum, meðal annars á vegum skólarannsóknadeildar menntamálaráðuneytisins, en deildin var stofnuð að undirlagi hans. Ráðgjöf Wolfgangs tengdist meðal annars setningu fyrstu grunnskólalaganna 1974 og nýrri námskrá sem grunnskólum var sett í kjölfar þeirra. Aðalnámskrá grunnskóla sem út kom 1976–1977 þótti mjög róttæk, en hún var meðal annars byggð á hugmyndum framsækinnar kennslufræði (e. progressive education) í anda kenninga John Dewey, Jean Piaget og Jerome Bruner.

Stærsta viðfangsefni skólarannsóknadeildar var heildarendurskoðun námsefnis og kennslu í öllum námsgreinum grunnskólans. Auk þess að vera einn af aðalráðgjöfum ráðuneytisins um þetta verkefni helgaði Wolfgang starfskrafta sína sérstaklega endurskoðun námsefnis í átthagafræði, landafræði, sögu og félagsfræði undir merkjum nýrrar námsgreinar sem hlaut heitið samfélagsfræði. Við gerð þessa námsefnis var ekki einungis sótt til þeirra námsgreina sem hún leysti af hólmi, heldur einnig til hagfræði, stjórnmálafræði, mannfræði og sálfræði, þar sem sérstaklega var horft til samskipta- og siðferðisþroska.

Samfélagsfræðinámsefnið byggði meðal annars á hugmyndum um virkt leitarnám (e. inquiry), samvinnunám (e. cooperative learning) og samþættingu (e. curriculum integration), auk áherslu á merkingarbær viðfangsefni í anda hugsmíðhyggju (e. constructivism). Uppbyggingu og áherslum samfélagsfræðinnar hefur Wolfgang lýst í bók sinni Skóli – nám – samfélag sem fyrst kom út 1988, en var gefin út aftur í endurskoðaðri útgáfu 2008. Talsverðar deilur urðu um þetta nýja námsefni en þeim hefur Gunnar Karlsson prófessor lýst í kunnri grein sem hann birti í Tímariti Máls og menningar 1984 og nefndi „Sögukennslu-skammdegið 1983–84“.

Persónuleg og fagleg áhrif Wolfgangs voru ekki síður mikilvæg á þessum árum og síðar. Hann flutti fjölmarga opinbera fyrirlestra þar sem hann vakti skólafólk til umhugsunar um mikilvægi fagmennsku í starfi og að í skólum væri lögð rækt við gagnrýna hugsun, virkar kennsluaðferðir og lýðræðisuppeldi.

Árið 1976 hóf Wolfgang, í samstarfi við Sigurjón Björnsson prófessor og fleiri fræðimenn, rannsókn hér á landi á uppvexti, þroska og félagslegum aðstæðum barna og ungmenna. Rannsóknin náði í upphafi til sjö ára barna í Reykjavík og í kjölfarið einnig til barna í sama árgangi í þremur ólíkum byggðarlögum til sjávar og sveita. Fylgst var með uppvexti ungmennanna þangað til þau voru tvítug. Tekin voru við þau viðtöl og fyrir þau lögð verkefni sem tengdust vitsmuna-, félags-, samskipta-, siðgæðis- og persónuþroska. Rannsakendur höfðu enn samband við þessa sömu einstaklinga árið 2008 þegar hópurinn hafði náð 38 ára aldri.

Í rannsókninni er leitast við að skilja möguleika fólks til að vaxa og þroskast; ekki síst í ljósi ólíkrar félagsstöðu – og hvaða áhrif hún hefur á getu barna og ungmenna til að takast á við úrlausnarefni skólans og önnur krefjandi viðfangsefni í lífinu. Sérstök áhersla er jafnframt lögð á að kanna einstaklingsbundin einkenni í ljósi samspils hinna ýmsu þroskaþátta og félagsmótunar. Þannig er athyglinni ekki aðeins beint að því sem unga fólkinu er sameiginlegt heldur er einstaklingsþroski þeirra rakinn í ljósi ólíkra uppvaxtarskilyrða, félagsstöðu og persónugerðar.

Rannsóknin er ein viðamesta langsniðsrannsókn á þroskaferlum einstaklinga sem gerð hefur verið. Wolfgang hefur leitt margháttaðar samanburðarrannsóknir á uppvexti og þroska ungs fólks annars staðar í heiminum, meðal annars í samstarfi við fræðimenn í Kína, á Spáni, í Rússlandi og Þýskalandi. Meðal áhugaverðra niðurstaðna þessara rannsókna er að þrátt fyrir ólík félags- og menningarleg áhrif er samskipta- og siðferðisþroski sambærilegur í ólíkum menningarsamfélögum. Félagslegar aðstæður og menning hafa um leið sitt að segja um framvindu þroskaferilsins.

Wolfgang og samstarfsmenn hans hafa birt fjölda bóka, bókarkafla og greina um þessar rannsóknir (sjá meðal annars hér). Einn helsti samstarfsmaður Wolfgangs hefur verið eiginkona hans, þroskasálfræðingurinn Monika Keller.

Undanfarin ár hefur Wolfgang, auk rannsókna, einkum fengist við viðfangsefni sem snerta megináhugamál hans: Lýðræði í skólastarfi, siðgæðisuppeldi, nám gegn fordómum, skapandi hugsun og skólaþróun. Lýðræðisuppeldi hefur verið honum sérstaklega hugleikið. Hann sat meðal annars í stjórn þróunarverkefnis um lýðræði í skólastarfi, Demokratie lernen & leben, á vegum menntamálaráðuneyta þýsku landanna 2002–2007 en verkefnið náði til um 180 skóla. Á síðasta ári birti Wolfgang grein um hugmyndir sínar um lýðræði í skólastarfi í Netlu – Veftímariti um uppeldi og menntun sem hann nefnir Lýðræði verður að læra.


Wolfgang Edelstein í heimsókn í MA, 12. apríl 2010.

Wolfgang var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót frá félagsvísindadeild Háskóla Íslands 1995 fyrir störf sín að skólamálum og rannsóknum. Hann hefur einnig hlotið nafnbót heiðursprófessors við Freie Universität í Berlín og Háskólanum í Potsdam. Árið 2009 hlaut hann Hildegard Hamm-Brücher verðlaunin fyrir framlag sitt til að efla lýðræðismenntun.

Árið 2012 var Wolfgang sæmdur Theodor Heuss verðlaununum fyrir störf sín á þágu lýðræðisuppeldis. Verðlaunin eru kennd við fyrsta forseta Sambandslýðveldisins Þýskalands og eru einhver mesta viðurkenning sem veitt er þar í landi fyrir störf í þágu lýðræðis, friðsamlegra samskipta og borgaralegs hugrekkis. Meðal handhafa Theodor Heuss verðlaunana eru þýski heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Jürgen Habermas, Václav Havel, rithöfundur og fv. forseti Tékkóslóvakíu og Tékklands, Hans-Dietrich Genscher, fv. utanríkisráðherra Þýskalands, Carl Friedrich von Weizsäcker, fv. forseti Þýskalands, Helmut Schmidt, fv. kanslari Þýskalands og Günther Grass, rithöfundur og nóbelsverðlaunahafi. Sjá http://www.theodor-heuss-stiftung.de/

Um ævi, störf og viðhorf Wolfgangs Edelstein má meðal annars fræðast af viðtölum sem annar greinarhöfunda átti við hann og birtist í bókinni Brautryðjendur í uppeldis- og menntamálum sem út kom 2004 (Ingvar Sigurgeirsson, 2004). Wolfgang býr í Berlín og er enn mikilvirkur í rannsóknum og menntaumbótum. Ritaskrá hans telur vel yfir 200 birtingar. Úrval ritverka hans er að finna á þessari skrá.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Tilvísanir:
  • Gunnar Karlsson. (1984). „Sögukennslu-skammdegið 1983–84.“ Tímarit Máls og menningar, 45(4), 405–415.
  • Ingvar Sigurgeirsson. (2004). „Markmiðið var ekki að afnema söguna, heldur lífga hana við.“ Dr. Wolfgang Edelstein fyrrverandi ráðgjafi menntamálaráðuneytisins. Í Börkur Hansen, Jóhanna Einarsdóttir og Ólafur H. Jóhannsson (ritstj.), Brautryðjendur í uppeldis- og menntamálum (bls. 161–182). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.
  • Wolfgang Edelstein. (2008). Skóli – nám – samfélag. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Wolfgang Edelstein. (2010). Lýðræði verður að læra! Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 20. maí.

Myndir:


Við þökkum Magnúsi Diðriki Baldurssyni fyrir að benda okkur á að Wolfgang hafi verið sæmdur Theodor Heuss verðlaununum.

Höfundar

prófessor í kennslufræði

prófessor í uppeldis- og menntunarfræði

Útgáfudagur

31.1.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ingvar Sigurgeirsson og Sigrún Aðalbjarnardóttir. „Hver er Wolfgang Edelstein og hvað hefur hann lagt af mörkum til menntavísinda og skólamála hér á landi?“ Vísindavefurinn, 31. janúar 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58241.

Ingvar Sigurgeirsson og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2011, 31. janúar). Hver er Wolfgang Edelstein og hvað hefur hann lagt af mörkum til menntavísinda og skólamála hér á landi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58241

Ingvar Sigurgeirsson og Sigrún Aðalbjarnardóttir. „Hver er Wolfgang Edelstein og hvað hefur hann lagt af mörkum til menntavísinda og skólamála hér á landi?“ Vísindavefurinn. 31. jan. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58241>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er Wolfgang Edelstein og hvað hefur hann lagt af mörkum til menntavísinda og skólamála hér á landi?
Wolfgang Edelstein er fæddur í Freiburg í Þýskalandi 15. júní 1929. Faðir hans, dr. Heinz Edelstein (1902–1959), var tónlistarmaður og stofnandi Barnamúsíkskólans í Reykjavík. Móðir Wolfgangs, Charlotte Teresa Edelstein (1904–1997), var hagfræðingur að mennt. Wolfgang, sem er af gyðingaættum, flúði með fjölskyldu sinni til Íslands frá Þýskalandi nasismans árið 1938. Hann varð íslenskur ríkisborgari nítján ára og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949. Wolfgang hélt síðan til háskólanáms í Frakklandi þar sem hann lagði stund á málvísindi, latínu og bókmenntir og lauk Licence ès-lettres-prófi frá Sorbonne-háskóla 1953. Doktorsritgerð skrifaði hann við Háskólann í Heidelberg í Þýskalandi (1962) en þar hafði hann einbeitt sér að miðaldasögu, latínu og uppeldisfræði. Ritgerð hans fjallaði um hugmyndir Alkvins munks frá Jórvík sem var ráðgjafi Karls mikla í menntamálum.

Wolfgang var ráðinn til starfa við þekktan þróunar- og tilraunaskóla, Odenwaldskólann í Suður-Þýskalandi 1954, fyrst sem kennari og síðar sem námstjóri. Hann vann við Max-Planck rannsóknarstofnunina í uppeldis- og menntamálum í Berlín frá stofnun hennar 1963 þar til hann lét af störfum árið 1997. Þar stjórnaði hann deild sem fékkst við rannsóknir á þroskasálfræði og félagsmótun. Enn fremur var hann einn af fjórum stjórnendum stofnunarinnar á árunum 1981–1997.

Hér á landi er Wolfgang Edelstein einna kunnastur fyrir áhrif sín á þróun skólastarfs á ofanverðri 20. öld og er tvímælalaust í hópi þeirra skólamanna sem mest áhrif höfðu. Wolfgang var ráðgjafi menntamálaráðherra frá 1966–1984 og aftur 1989–1991 um mótun skólastefnu og stýrði ýmsum umbótaverkefnum, meðal annars á vegum skólarannsóknadeildar menntamálaráðuneytisins, en deildin var stofnuð að undirlagi hans. Ráðgjöf Wolfgangs tengdist meðal annars setningu fyrstu grunnskólalaganna 1974 og nýrri námskrá sem grunnskólum var sett í kjölfar þeirra. Aðalnámskrá grunnskóla sem út kom 1976–1977 þótti mjög róttæk, en hún var meðal annars byggð á hugmyndum framsækinnar kennslufræði (e. progressive education) í anda kenninga John Dewey, Jean Piaget og Jerome Bruner.

Stærsta viðfangsefni skólarannsóknadeildar var heildarendurskoðun námsefnis og kennslu í öllum námsgreinum grunnskólans. Auk þess að vera einn af aðalráðgjöfum ráðuneytisins um þetta verkefni helgaði Wolfgang starfskrafta sína sérstaklega endurskoðun námsefnis í átthagafræði, landafræði, sögu og félagsfræði undir merkjum nýrrar námsgreinar sem hlaut heitið samfélagsfræði. Við gerð þessa námsefnis var ekki einungis sótt til þeirra námsgreina sem hún leysti af hólmi, heldur einnig til hagfræði, stjórnmálafræði, mannfræði og sálfræði, þar sem sérstaklega var horft til samskipta- og siðferðisþroska.

Samfélagsfræðinámsefnið byggði meðal annars á hugmyndum um virkt leitarnám (e. inquiry), samvinnunám (e. cooperative learning) og samþættingu (e. curriculum integration), auk áherslu á merkingarbær viðfangsefni í anda hugsmíðhyggju (e. constructivism). Uppbyggingu og áherslum samfélagsfræðinnar hefur Wolfgang lýst í bók sinni Skóli – nám – samfélag sem fyrst kom út 1988, en var gefin út aftur í endurskoðaðri útgáfu 2008. Talsverðar deilur urðu um þetta nýja námsefni en þeim hefur Gunnar Karlsson prófessor lýst í kunnri grein sem hann birti í Tímariti Máls og menningar 1984 og nefndi „Sögukennslu-skammdegið 1983–84“.

Persónuleg og fagleg áhrif Wolfgangs voru ekki síður mikilvæg á þessum árum og síðar. Hann flutti fjölmarga opinbera fyrirlestra þar sem hann vakti skólafólk til umhugsunar um mikilvægi fagmennsku í starfi og að í skólum væri lögð rækt við gagnrýna hugsun, virkar kennsluaðferðir og lýðræðisuppeldi.

Árið 1976 hóf Wolfgang, í samstarfi við Sigurjón Björnsson prófessor og fleiri fræðimenn, rannsókn hér á landi á uppvexti, þroska og félagslegum aðstæðum barna og ungmenna. Rannsóknin náði í upphafi til sjö ára barna í Reykjavík og í kjölfarið einnig til barna í sama árgangi í þremur ólíkum byggðarlögum til sjávar og sveita. Fylgst var með uppvexti ungmennanna þangað til þau voru tvítug. Tekin voru við þau viðtöl og fyrir þau lögð verkefni sem tengdust vitsmuna-, félags-, samskipta-, siðgæðis- og persónuþroska. Rannsakendur höfðu enn samband við þessa sömu einstaklinga árið 2008 þegar hópurinn hafði náð 38 ára aldri.

Í rannsókninni er leitast við að skilja möguleika fólks til að vaxa og þroskast; ekki síst í ljósi ólíkrar félagsstöðu – og hvaða áhrif hún hefur á getu barna og ungmenna til að takast á við úrlausnarefni skólans og önnur krefjandi viðfangsefni í lífinu. Sérstök áhersla er jafnframt lögð á að kanna einstaklingsbundin einkenni í ljósi samspils hinna ýmsu þroskaþátta og félagsmótunar. Þannig er athyglinni ekki aðeins beint að því sem unga fólkinu er sameiginlegt heldur er einstaklingsþroski þeirra rakinn í ljósi ólíkra uppvaxtarskilyrða, félagsstöðu og persónugerðar.

Rannsóknin er ein viðamesta langsniðsrannsókn á þroskaferlum einstaklinga sem gerð hefur verið. Wolfgang hefur leitt margháttaðar samanburðarrannsóknir á uppvexti og þroska ungs fólks annars staðar í heiminum, meðal annars í samstarfi við fræðimenn í Kína, á Spáni, í Rússlandi og Þýskalandi. Meðal áhugaverðra niðurstaðna þessara rannsókna er að þrátt fyrir ólík félags- og menningarleg áhrif er samskipta- og siðferðisþroski sambærilegur í ólíkum menningarsamfélögum. Félagslegar aðstæður og menning hafa um leið sitt að segja um framvindu þroskaferilsins.

Wolfgang og samstarfsmenn hans hafa birt fjölda bóka, bókarkafla og greina um þessar rannsóknir (sjá meðal annars hér). Einn helsti samstarfsmaður Wolfgangs hefur verið eiginkona hans, þroskasálfræðingurinn Monika Keller.

Undanfarin ár hefur Wolfgang, auk rannsókna, einkum fengist við viðfangsefni sem snerta megináhugamál hans: Lýðræði í skólastarfi, siðgæðisuppeldi, nám gegn fordómum, skapandi hugsun og skólaþróun. Lýðræðisuppeldi hefur verið honum sérstaklega hugleikið. Hann sat meðal annars í stjórn þróunarverkefnis um lýðræði í skólastarfi, Demokratie lernen & leben, á vegum menntamálaráðuneyta þýsku landanna 2002–2007 en verkefnið náði til um 180 skóla. Á síðasta ári birti Wolfgang grein um hugmyndir sínar um lýðræði í skólastarfi í Netlu – Veftímariti um uppeldi og menntun sem hann nefnir Lýðræði verður að læra.


Wolfgang Edelstein í heimsókn í MA, 12. apríl 2010.

Wolfgang var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót frá félagsvísindadeild Háskóla Íslands 1995 fyrir störf sín að skólamálum og rannsóknum. Hann hefur einnig hlotið nafnbót heiðursprófessors við Freie Universität í Berlín og Háskólanum í Potsdam. Árið 2009 hlaut hann Hildegard Hamm-Brücher verðlaunin fyrir framlag sitt til að efla lýðræðismenntun.

Árið 2012 var Wolfgang sæmdur Theodor Heuss verðlaununum fyrir störf sín á þágu lýðræðisuppeldis. Verðlaunin eru kennd við fyrsta forseta Sambandslýðveldisins Þýskalands og eru einhver mesta viðurkenning sem veitt er þar í landi fyrir störf í þágu lýðræðis, friðsamlegra samskipta og borgaralegs hugrekkis. Meðal handhafa Theodor Heuss verðlaunana eru þýski heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Jürgen Habermas, Václav Havel, rithöfundur og fv. forseti Tékkóslóvakíu og Tékklands, Hans-Dietrich Genscher, fv. utanríkisráðherra Þýskalands, Carl Friedrich von Weizsäcker, fv. forseti Þýskalands, Helmut Schmidt, fv. kanslari Þýskalands og Günther Grass, rithöfundur og nóbelsverðlaunahafi. Sjá http://www.theodor-heuss-stiftung.de/

Um ævi, störf og viðhorf Wolfgangs Edelstein má meðal annars fræðast af viðtölum sem annar greinarhöfunda átti við hann og birtist í bókinni Brautryðjendur í uppeldis- og menntamálum sem út kom 2004 (Ingvar Sigurgeirsson, 2004). Wolfgang býr í Berlín og er enn mikilvirkur í rannsóknum og menntaumbótum. Ritaskrá hans telur vel yfir 200 birtingar. Úrval ritverka hans er að finna á þessari skrá.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Tilvísanir:
  • Gunnar Karlsson. (1984). „Sögukennslu-skammdegið 1983–84.“ Tímarit Máls og menningar, 45(4), 405–415.
  • Ingvar Sigurgeirsson. (2004). „Markmiðið var ekki að afnema söguna, heldur lífga hana við.“ Dr. Wolfgang Edelstein fyrrverandi ráðgjafi menntamálaráðuneytisins. Í Börkur Hansen, Jóhanna Einarsdóttir og Ólafur H. Jóhannsson (ritstj.), Brautryðjendur í uppeldis- og menntamálum (bls. 161–182). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.
  • Wolfgang Edelstein. (2008). Skóli – nám – samfélag. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Wolfgang Edelstein. (2010). Lýðræði verður að læra! Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 20. maí.

Myndir:


Við þökkum Magnúsi Diðriki Baldurssyni fyrir að benda okkur á að Wolfgang hafi verið sæmdur Theodor Heuss verðlaununum....