Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver er Julia Kristeva og hvaða áhrif hafa kenningar hennar haft?

Dagný Kristjánsdóttir

Julia Kristeva fæddist í Búlgaríu árið 1941. Hún er af menntafólki komin, ólst upp í austur-evrópsku, kommúnísku ríki á kaldastríðsárunum og gekk í Háskólann í Sofíu. Hún lagði þar stund á bókmenntir, málvísindi og heimspeki, lærði sinn Marx og Hegel auk málvísinda og rússnesku og hafði þar af leiðandi beinan aðgang að skrifum rússneskra málvísindamanna og síð-formalista. Hún þekkti skrif rússneska fræðimannsins Mikhail Bakhtins (1895-1975) sem voru nýfarin að berast til Vesturlanda á sjötta áratugnum og vöktu mikinn áhuga. Kristeva og landi hennar, bókmenntafræðingurinn Tzvetan Todorov (f. 1939), kynntu kenningar Bakhtins í Frakklandi á sjöunda áratugnum.

Julia Kristeva kom til Parísar, 25 ára gömul, árið 1966. Hún hafði fengið doktorsstyrk til að nema bókmenntir og málvísindi við fótskör meistara eins og Roland Barthes, Emile Benveniste og Michel Foucault en áður en langt var um liðið var orðið umdeilanlegt hver sat við fótskör hvers.

Þegar Kristeva kom til Parísar stóð formgerðarstefnan (fr. structuralisme, e. structuralism) í málvísindum og bókmenntum í miklum blóma. Doktorsritgerð sína, Bylting í tungumáli skáldskaparins, varði Kristeva í París árið 1973. Þar segir hún að tungumálið sé eins og mósaíkmynd á hreyfingu, öll okkar orðræða sé samsett úr smátilvitnunum í aðra texta og aðrar orðræður og byggist þar með á textatengslum (fr. intertextualité, e. intertextuality).

Franski sálgreinandinn Jacques Lacan (1901-1981) hafði gert ráð fyrir því að sálarlíf mannsins skiptist í þrjú þrep eða svið; hið raunverulega (fr. Réel, e. real) sem er frumstætt, mállaust og ónálganlegt, hið ímyndaða svið (fr. L´imaginaire, e. the imaginary) og loks hið táknræna svið (fr. Le symbolique, e. the symbolic order) þar sem nafn föðurins ríkir. Kristeva undirstrikar hins vegar að ef sjálfsveran verði til í tungumálinu endurspeglist það í átökum tvenns konar sviða, annað er hið röklega svið tungumálsins eða hið táknræna svið; hitt kallar hún táknlega eða semíótíska sviðið og þar kemur líkami hinnar talandi sjálfsveru til skjalanna. Forsenda þessa sviðs er að hinu fyrra sviði, með sínum frumferlum, sé „gleymt“ eða það sé bælt. Í röklegri orðræðu og vísindalegri er djúpt niður á semíótíska sviðið en öðru máli gegnir um listræna eða framúrstefnulega meðferð málsins þar sem það gerir vart við sig í tónfalli, mismælum, þögnum.

Árið eftir stóð Julia Kristeva á krossgötum táknfræði og sálgreiningar. Í fyrirlestrinum „Frá sjálfsmynd til sjálfsmyndar“ ("From one Identity to an Other") rifjar hún upp kenningar sínar úr doktorsritgerðinni um tvö svið tungumálsins: „hið táknræna svið“ og „hið semíótíska svið“. Hún leggur enn meiri áherslu á að sjálfsveran sé alltaf bundin af líkama sínum og hvötum og sömuleiðis að tungumálið sé opið kerfi. Hér má merkja bæði áhrif frá kenningum Lacans og meðvitaða fjarlægð frá þeim. Sömuleiðis er hér markað fráhvarf frá lokuðum kerfum strúktúralistanna og opnað fyrir nýjan hugsunarhátt þess póst-strúktúralisma sem lá í loftinu í París á áttunda áratugnum. Í skáldamálinu verður þrýstingurinn frá því sterkari, málið verður margræðara og brokkgengara. Skáldamálið er nefnilega í eðli sínu uppreisnargjarnt og virðir hvorki reglur né grundvallandi bönn tungumálsins ef því sýnist svo.

Í París varð Julia Kristeva fljótt virtur og áberandi meðlimur hópsins kringum Tel Quel en það var afar róttækt og framúrstefnulegt tímarit í menningarmálum og stjórnmálum. Hún giftist einum af ritstjórum tímaritsins, rithöfundinum Philippe Sollers (f. 1936) árið 1967. Þau eiga einn son David (f. 1976).

Kristeva byrjaði að færa sig yfir á svið sálgreiningarinnar strax eftir doktorsprófið. Á áttunda áratugnum skrifaði hún þrjár bækur um sálgreiningu með áherslu á hlutverk frumbernskunnar í myndun sálarlífsins. Fyrsta bókin var Máttur hryllingsins (1980) þar sem fjallað er um neikvæðnina, afneitunina á móðurlíkamanum sem barnið verður að skilja sig sálfræðilega frá og hryllingnum sem slær til baka í ósætti bæði við táknið og eigin líkama. Í næstu bók eða Ástarsögum (1983) er aftur fjallað um móðurlíkamann og þörf barnsins fyrir ást og umönnun en „lögmál móðurinnar“ verður samt að leyfa aðskilnað og rof tvenndarsambands móður og barns til að barnið geti gengið farsællega inn í reglu föðurins, upphafningu og heim táknanna. Þriðja bókin í þríleiknum Svört sól: Geðdeyfð og þunglyndi (1987) kom út í íslenskri þýðingu Ólafar Pétursdóttur árið 2008.

Eftir þessi stórverk níunda áratugarins færði Kristeva sig yfir á svið ritlistarinnar og skrifaði nokkrar ævisögulegar skáldsögur og síðan bækur um fagurfræði, bókmenntir og heimspeki. Frægð hennar óx bæði austan hafs og vestan. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar en þau verk hennar sem mest áhrif hafa haft innan hugvísinda og sálgreiningar eru þær bækur hennar frá áttunda og níunda áratug 20. aldar sem hér hefur verið fjallað um.

Julia Kristeva hefur starfað sem sálgreinandi í París frá 1979 og gerir enn. Hún er prófessor emeritus við Háskólann í París 7, sem kenndur er við franska heimspekinginn og rithöfundinn Denis Diderot (1713-1784), hún ferðast, fyrirles og skrifar bæði fræðirit og skáldsögur.

Mynd:

Höfundur

Dagný Kristjánsdóttir

prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við HÍ

Útgáfudagur

11.1.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Dagný Kristjánsdóttir. „Hver er Julia Kristeva og hvaða áhrif hafa kenningar hennar haft?“ Vísindavefurinn, 11. janúar 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58126.

Dagný Kristjánsdóttir. (2011, 11. janúar). Hver er Julia Kristeva og hvaða áhrif hafa kenningar hennar haft? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58126

Dagný Kristjánsdóttir. „Hver er Julia Kristeva og hvaða áhrif hafa kenningar hennar haft?“ Vísindavefurinn. 11. jan. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58126>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er Julia Kristeva og hvaða áhrif hafa kenningar hennar haft?
Julia Kristeva fæddist í Búlgaríu árið 1941. Hún er af menntafólki komin, ólst upp í austur-evrópsku, kommúnísku ríki á kaldastríðsárunum og gekk í Háskólann í Sofíu. Hún lagði þar stund á bókmenntir, málvísindi og heimspeki, lærði sinn Marx og Hegel auk málvísinda og rússnesku og hafði þar af leiðandi beinan aðgang að skrifum rússneskra málvísindamanna og síð-formalista. Hún þekkti skrif rússneska fræðimannsins Mikhail Bakhtins (1895-1975) sem voru nýfarin að berast til Vesturlanda á sjötta áratugnum og vöktu mikinn áhuga. Kristeva og landi hennar, bókmenntafræðingurinn Tzvetan Todorov (f. 1939), kynntu kenningar Bakhtins í Frakklandi á sjöunda áratugnum.

Julia Kristeva kom til Parísar, 25 ára gömul, árið 1966. Hún hafði fengið doktorsstyrk til að nema bókmenntir og málvísindi við fótskör meistara eins og Roland Barthes, Emile Benveniste og Michel Foucault en áður en langt var um liðið var orðið umdeilanlegt hver sat við fótskör hvers.

Þegar Kristeva kom til Parísar stóð formgerðarstefnan (fr. structuralisme, e. structuralism) í málvísindum og bókmenntum í miklum blóma. Doktorsritgerð sína, Bylting í tungumáli skáldskaparins, varði Kristeva í París árið 1973. Þar segir hún að tungumálið sé eins og mósaíkmynd á hreyfingu, öll okkar orðræða sé samsett úr smátilvitnunum í aðra texta og aðrar orðræður og byggist þar með á textatengslum (fr. intertextualité, e. intertextuality).

Franski sálgreinandinn Jacques Lacan (1901-1981) hafði gert ráð fyrir því að sálarlíf mannsins skiptist í þrjú þrep eða svið; hið raunverulega (fr. Réel, e. real) sem er frumstætt, mállaust og ónálganlegt, hið ímyndaða svið (fr. L´imaginaire, e. the imaginary) og loks hið táknræna svið (fr. Le symbolique, e. the symbolic order) þar sem nafn föðurins ríkir. Kristeva undirstrikar hins vegar að ef sjálfsveran verði til í tungumálinu endurspeglist það í átökum tvenns konar sviða, annað er hið röklega svið tungumálsins eða hið táknræna svið; hitt kallar hún táknlega eða semíótíska sviðið og þar kemur líkami hinnar talandi sjálfsveru til skjalanna. Forsenda þessa sviðs er að hinu fyrra sviði, með sínum frumferlum, sé „gleymt“ eða það sé bælt. Í röklegri orðræðu og vísindalegri er djúpt niður á semíótíska sviðið en öðru máli gegnir um listræna eða framúrstefnulega meðferð málsins þar sem það gerir vart við sig í tónfalli, mismælum, þögnum.

Árið eftir stóð Julia Kristeva á krossgötum táknfræði og sálgreiningar. Í fyrirlestrinum „Frá sjálfsmynd til sjálfsmyndar“ ("From one Identity to an Other") rifjar hún upp kenningar sínar úr doktorsritgerðinni um tvö svið tungumálsins: „hið táknræna svið“ og „hið semíótíska svið“. Hún leggur enn meiri áherslu á að sjálfsveran sé alltaf bundin af líkama sínum og hvötum og sömuleiðis að tungumálið sé opið kerfi. Hér má merkja bæði áhrif frá kenningum Lacans og meðvitaða fjarlægð frá þeim. Sömuleiðis er hér markað fráhvarf frá lokuðum kerfum strúktúralistanna og opnað fyrir nýjan hugsunarhátt þess póst-strúktúralisma sem lá í loftinu í París á áttunda áratugnum. Í skáldamálinu verður þrýstingurinn frá því sterkari, málið verður margræðara og brokkgengara. Skáldamálið er nefnilega í eðli sínu uppreisnargjarnt og virðir hvorki reglur né grundvallandi bönn tungumálsins ef því sýnist svo.

Í París varð Julia Kristeva fljótt virtur og áberandi meðlimur hópsins kringum Tel Quel en það var afar róttækt og framúrstefnulegt tímarit í menningarmálum og stjórnmálum. Hún giftist einum af ritstjórum tímaritsins, rithöfundinum Philippe Sollers (f. 1936) árið 1967. Þau eiga einn son David (f. 1976).

Kristeva byrjaði að færa sig yfir á svið sálgreiningarinnar strax eftir doktorsprófið. Á áttunda áratugnum skrifaði hún þrjár bækur um sálgreiningu með áherslu á hlutverk frumbernskunnar í myndun sálarlífsins. Fyrsta bókin var Máttur hryllingsins (1980) þar sem fjallað er um neikvæðnina, afneitunina á móðurlíkamanum sem barnið verður að skilja sig sálfræðilega frá og hryllingnum sem slær til baka í ósætti bæði við táknið og eigin líkama. Í næstu bók eða Ástarsögum (1983) er aftur fjallað um móðurlíkamann og þörf barnsins fyrir ást og umönnun en „lögmál móðurinnar“ verður samt að leyfa aðskilnað og rof tvenndarsambands móður og barns til að barnið geti gengið farsællega inn í reglu föðurins, upphafningu og heim táknanna. Þriðja bókin í þríleiknum Svört sól: Geðdeyfð og þunglyndi (1987) kom út í íslenskri þýðingu Ólafar Pétursdóttur árið 2008.

Eftir þessi stórverk níunda áratugarins færði Kristeva sig yfir á svið ritlistarinnar og skrifaði nokkrar ævisögulegar skáldsögur og síðan bækur um fagurfræði, bókmenntir og heimspeki. Frægð hennar óx bæði austan hafs og vestan. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar en þau verk hennar sem mest áhrif hafa haft innan hugvísinda og sálgreiningar eru þær bækur hennar frá áttunda og níunda áratug 20. aldar sem hér hefur verið fjallað um.

Julia Kristeva hefur starfað sem sálgreinandi í París frá 1979 og gerir enn. Hún er prófessor emeritus við Háskólann í París 7, sem kenndur er við franska heimspekinginn og rithöfundinn Denis Diderot (1713-1784), hún ferðast, fyrirles og skrifar bæði fræðirit og skáldsögur.

Mynd:...