Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver er Jane Goodall og hvert er hennar framlag til vísinda og fræða?

Hrefna Sigurjónsdóttir og Margrét Björk Sigurðardóttir

Fáir hafa unnið jafn ötullega að málefnum náttúru- og dýraverndar síðustu áratugina og vísindamaðurinn Jane Goodall. Áratugalangt starf hennar og samstarfsmanna við rannsóknir á simpönsum í Tansaníu veittu nýja innsýn í heim þessara dýra. Rannsóknirnar hafa meðal annars aukið skilning okkar á flóknu samskiptamynstri sem einkennir líf simpansanna.

Jane Goodall fæddist árið 1934 í London á Englandi. Frá barnæsku var hún afar áhugasöm um dýr, sér í lagi um framandi dýr Afríku. Þegar henni bauðst að heimsækja vinafólk í Kenía greip hún tækifærið og 23 ára gömul fór hún til Afríku í fyrsta sinn. Þar komst hún fljótt í kynni við fornleifa- og steingervingafræðinginn Louis S. B. Leakey sem heillaðist af óbilandi áhuga hennar og þekkingu á dýrum. Hann réð hana sem aðstoðarkonu sína og sendi hana árið 1958 aftur til London til að læra um atferli prímata. Leakey taldi að stóru aparnir gætu veitt innsýn í þróun prímata og þar af leiðandi þróun mannsins. Árið 1960 sendi hann Goodall til Gombe í Tansaníu til að fylgjast með atferli simpansa. Með sjónauka og skrifblokk að vopni hóf Jane athuganir sínar sem einkenndust af ótrúlegri þolinmæði og þrautseigju.

Jane Goodall. © the Jane Goodall Institute.

Goodall gerði fljótt merkilegar uppgötvanir. Til dæmis að simpansar voru ekki grænmetisætur eins og áður var talið heldur voru þeir alætur líkt og maðurinn. Þá uppgötvaði hún einnig að simpansar notuðu verkfæri. Hún fylgdist með hvernig simpansarnir hreinsuðu og snyrtu til greinar og notuðu þær svo eins og veiðistangir til að veiða termíta úr termítahraukum. Þessi uppgötvun kollvarpaði því þeirri hugmynd að það væri sérstaða mannsins að nota verkfæri. Þessar merkilegu niðurstöður urðu til þess að frekari fjárveitingar fengust í rannsóknir Goodall og þrátt fyrir að hún hefði ekki lokið grunnháskólagráðu var hún tekin inn í doktorsnám við Cambridge-háskóla.

Goodall barðist hart fyrir viðurkenningu á þeirri aðferð sinni að einfaldlega fylgjast með og skrá hjá sér hvað gerðist í simpansahópnum, þótt prófessorar hennar hafi ráðlagt henni annað. Aðferðafræði hennar var lengi umdeild í vísindasamfélaginu og enn ríkir ekki full sátt um hana. Það þótti ekki vísindalegt að gefa dýrunum nafn, heldur var það lengi vel viðtekin venja að nota númer eða merki sem einkenni. Sú tilhneiging að líta á dýrin sem verur, byggðar eins og vélar þar sem ákveðið áreiti vakti ákveðin svör var ráðandi, fremur en að líta á þau sem skynsamar tilfinningaverur með sín sérkenni og persónuleika. Með því að þekkja einstaklingana með nafni og lifa nærri því með hópnum í náttúrunni, eins og Goodall gerði, urðu viðmiðin önnur og nýjar uppgötvanir voru gerðar. Kannski skipti bakgrunnur Goodall þarna höfuðmáli.

Næstu árin hélt Goodall áfram að fara í leiðangra til Gombe og rannsóknir hennar vöktu vaxandi athygli. Hún stofnaði Rannsóknarsetrið Gombe Stream og seinna Stofnun Jane Goodall sem gerði henni kleift að stunda enn viðameiri athuganir á þessum nánasta ættingja mannsins. Rannsóknir hennar síðustu 50 árin hafa sýnt fram á að hegðun villtra simpansa er líkari okkar eigin en við hefðum nokkru sinni getað gert okkur í hugarlund. Flókin félagsleg tengsl, pólitík og valdarán, undirferli, stríð á milli hópa, fórnfýsi og vinahót er hegðun sem hafði áður verið talin einskorðuð við manninn. Rannsóknir Goodall hafa líka verið kveikjan að ótal öðrum rannsóknum sem hafa sýnt fram á flókin hegðunarmynstur annarra tegunda, ekki síst prímata. Rannsóknir hennar hafa þannig breytt sýn vísindanna á tengsl manna og dýra og á dýrin sem vitsmuna- og tilfinningaverur.

Jane Goodall og simpansi. © the Jane Goodall Institute.

Goodall berst nú ötullega fyrir verndun simpansa sem er tegund í útrýmingarhættu, einkum vegna mikils ágangs á búsvæði þeirra. Þá vinnur hún einnig að því að vekja athygli á verndun og velferð dýra almennt. Sem friðarfulltrúi Sameinuðu þjóðanna heldur hún víða fyrirlestra og kynnir sjónarmið sín fyrir fólki. Hún er einnig stofnandi hreyfingar sem kallast Roots & Shoots og hefur hún náð til rúmlega 100 landa. Markmið hreyfingarinnar er að virkja nemendur til að bæta umhverfi sitt og aðbúnað dýra.

Höfundar þessa svars hafa verið svo lánsamar að sitja fyrirlestur hjá Goodall. Ástríða hennar fyrir verndun dýra og náttúrunnar lætur engan ósnortinn. Áhrif hennar ná því mun víðar en eingöngu innan vísindasamfélagsins og má með sanni segja að hún sé meðal þeirra vísindamanna sem hafa haft hvað mest áhrif á framgang náttúruverndar.

Frekara lesefni um Jane Goodall:

Myndir:

Höfundar

Hrefna Sigurjónsdóttir

prófessor í líffræði við HÍ

Útgáfudagur

3.1.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Hrefna Sigurjónsdóttir og Margrét Björk Sigurðardóttir. „Hver er Jane Goodall og hvert er hennar framlag til vísinda og fræða?“ Vísindavefurinn, 3. janúar 2011. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58124.

Hrefna Sigurjónsdóttir og Margrét Björk Sigurðardóttir. (2011, 3. janúar). Hver er Jane Goodall og hvert er hennar framlag til vísinda og fræða? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58124

Hrefna Sigurjónsdóttir og Margrét Björk Sigurðardóttir. „Hver er Jane Goodall og hvert er hennar framlag til vísinda og fræða?“ Vísindavefurinn. 3. jan. 2011. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58124>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er Jane Goodall og hvert er hennar framlag til vísinda og fræða?
Fáir hafa unnið jafn ötullega að málefnum náttúru- og dýraverndar síðustu áratugina og vísindamaðurinn Jane Goodall. Áratugalangt starf hennar og samstarfsmanna við rannsóknir á simpönsum í Tansaníu veittu nýja innsýn í heim þessara dýra. Rannsóknirnar hafa meðal annars aukið skilning okkar á flóknu samskiptamynstri sem einkennir líf simpansanna.

Jane Goodall fæddist árið 1934 í London á Englandi. Frá barnæsku var hún afar áhugasöm um dýr, sér í lagi um framandi dýr Afríku. Þegar henni bauðst að heimsækja vinafólk í Kenía greip hún tækifærið og 23 ára gömul fór hún til Afríku í fyrsta sinn. Þar komst hún fljótt í kynni við fornleifa- og steingervingafræðinginn Louis S. B. Leakey sem heillaðist af óbilandi áhuga hennar og þekkingu á dýrum. Hann réð hana sem aðstoðarkonu sína og sendi hana árið 1958 aftur til London til að læra um atferli prímata. Leakey taldi að stóru aparnir gætu veitt innsýn í þróun prímata og þar af leiðandi þróun mannsins. Árið 1960 sendi hann Goodall til Gombe í Tansaníu til að fylgjast með atferli simpansa. Með sjónauka og skrifblokk að vopni hóf Jane athuganir sínar sem einkenndust af ótrúlegri þolinmæði og þrautseigju.

Jane Goodall. © the Jane Goodall Institute.

Goodall gerði fljótt merkilegar uppgötvanir. Til dæmis að simpansar voru ekki grænmetisætur eins og áður var talið heldur voru þeir alætur líkt og maðurinn. Þá uppgötvaði hún einnig að simpansar notuðu verkfæri. Hún fylgdist með hvernig simpansarnir hreinsuðu og snyrtu til greinar og notuðu þær svo eins og veiðistangir til að veiða termíta úr termítahraukum. Þessi uppgötvun kollvarpaði því þeirri hugmynd að það væri sérstaða mannsins að nota verkfæri. Þessar merkilegu niðurstöður urðu til þess að frekari fjárveitingar fengust í rannsóknir Goodall og þrátt fyrir að hún hefði ekki lokið grunnháskólagráðu var hún tekin inn í doktorsnám við Cambridge-háskóla.

Goodall barðist hart fyrir viðurkenningu á þeirri aðferð sinni að einfaldlega fylgjast með og skrá hjá sér hvað gerðist í simpansahópnum, þótt prófessorar hennar hafi ráðlagt henni annað. Aðferðafræði hennar var lengi umdeild í vísindasamfélaginu og enn ríkir ekki full sátt um hana. Það þótti ekki vísindalegt að gefa dýrunum nafn, heldur var það lengi vel viðtekin venja að nota númer eða merki sem einkenni. Sú tilhneiging að líta á dýrin sem verur, byggðar eins og vélar þar sem ákveðið áreiti vakti ákveðin svör var ráðandi, fremur en að líta á þau sem skynsamar tilfinningaverur með sín sérkenni og persónuleika. Með því að þekkja einstaklingana með nafni og lifa nærri því með hópnum í náttúrunni, eins og Goodall gerði, urðu viðmiðin önnur og nýjar uppgötvanir voru gerðar. Kannski skipti bakgrunnur Goodall þarna höfuðmáli.

Næstu árin hélt Goodall áfram að fara í leiðangra til Gombe og rannsóknir hennar vöktu vaxandi athygli. Hún stofnaði Rannsóknarsetrið Gombe Stream og seinna Stofnun Jane Goodall sem gerði henni kleift að stunda enn viðameiri athuganir á þessum nánasta ættingja mannsins. Rannsóknir hennar síðustu 50 árin hafa sýnt fram á að hegðun villtra simpansa er líkari okkar eigin en við hefðum nokkru sinni getað gert okkur í hugarlund. Flókin félagsleg tengsl, pólitík og valdarán, undirferli, stríð á milli hópa, fórnfýsi og vinahót er hegðun sem hafði áður verið talin einskorðuð við manninn. Rannsóknir Goodall hafa líka verið kveikjan að ótal öðrum rannsóknum sem hafa sýnt fram á flókin hegðunarmynstur annarra tegunda, ekki síst prímata. Rannsóknir hennar hafa þannig breytt sýn vísindanna á tengsl manna og dýra og á dýrin sem vitsmuna- og tilfinningaverur.

Jane Goodall og simpansi. © the Jane Goodall Institute.

Goodall berst nú ötullega fyrir verndun simpansa sem er tegund í útrýmingarhættu, einkum vegna mikils ágangs á búsvæði þeirra. Þá vinnur hún einnig að því að vekja athygli á verndun og velferð dýra almennt. Sem friðarfulltrúi Sameinuðu þjóðanna heldur hún víða fyrirlestra og kynnir sjónarmið sín fyrir fólki. Hún er einnig stofnandi hreyfingar sem kallast Roots & Shoots og hefur hún náð til rúmlega 100 landa. Markmið hreyfingarinnar er að virkja nemendur til að bæta umhverfi sitt og aðbúnað dýra.

Höfundar þessa svars hafa verið svo lánsamar að sitja fyrirlestur hjá Goodall. Ástríða hennar fyrir verndun dýra og náttúrunnar lætur engan ósnortinn. Áhrif hennar ná því mun víðar en eingöngu innan vísindasamfélagsins og má með sanni segja að hún sé meðal þeirra vísindamanna sem hafa haft hvað mest áhrif á framgang náttúruverndar.

Frekara lesefni um Jane Goodall:

Myndir:

...