Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað eru margar frumeindir í einni súrefnissameind?

Emelía Eiríksdóttir

Hvert frumefni hefur ákveðið efnatákn sem samanstendur af einum eða tveimur bókstöfum. Til dæmis hefur súrefni efnatáknið O, vetni H, kolefni C, helín He og svo mætti lengi telja.

Uppbyggingu efna er hægt að lýsa með nokkrum efnaformúlum. Í svonefndri sameindaformúlu (e. molecular formula) kemur fram hvaða frumefni eru í efninu og hversu margar frumeindir af hverri gerð eru í efninu. Reynsluformúla (e. empirical formula) tilgreinir hvert hlutfall frumefnanna er og byggingaformúla (e. structural formula) útskýrir byggingu efnisins.



Bygging súrefnissameindar

Sameindaformúla lýsir gerð og fjölda allra frumefna í sameind. Sameindaformúla súrefnis er O2 og segir tölustafurinn 2 okkur að það eru tvær súrefnisfrumeindir í einni súrefnissameind. Að sama skapi segir sameindaformúla ósons (O3) okkur að óson er uppbyggt af þremur súrefnisfrumeindum, vatn (H2O) er uppbyggt af tveimur vetnisfrumeindum og einni súrefnisfrumeind, etanól (C2H6O) inniheldur tvær kolefnisfrumeindir, sex vetnisfrumeindir og eina súrefnisfrumeind, og svo framvegis.



Bygging vatnssameindar

Ef fleiri en tvær frumeindir eru í sameindaformúlunni er ekki alltaf augljóst hvernig bygging sameindarinnar er, það er hvaða frumeindir tengjast hverjum. Í tilviki sameinda sem innihalda einungis tvær frumeindir, eins og á við um súrefnissameindina, er þó greinilegt að frumeindirnar tengjast hvor annarri beint. Hins vegar sést ekki á sameindaformúlunni að á milli súrefnisfrumeindanna er svokallað tvítengi, það er tvö tengi. Súrefni hefur nefnilega þann eiginleika að geta bundist með tveimur tengjum eins og sést líka í tilviki vatns þar sem ein súrefnisfrumeind tengist tveimur vatnsfrumeindum. Þessi tengigeta súrefnis hefur með svokallaða áttureglu að gera sem vísar í að frumefni leitast við að fylla s- og p-gildissvigrúmin sín en samtals rúma þessi svigrúm átta rafeindir.



Í kringum hvora súrefnisfrumeind í súrefnissameind eru átta gildisrafeindir

Súrefnisfrumeind er með sex gildisrafeindir og reynir því að bindast frumefnum sem leggja til tvær gildisrafeindir í tengið. Í tilviki súrefnissameindarinnar leggur hvor súrefnisfrumeind til tvær gildisrafeindir í tengið og því eru fjórar gildisrafeindir milli súrefnisfrumeindanna. Hvor súrefnisfrumeind er svo með fjórar lausar gildisrafeindir; samtals eru því átta gildisrafeindir í kringum hvora súrefnisfrumeind og súrefnissameindin uppfyllir átturegluna. Til eru ýmsar reglur og ábendingar um tengigetu frumeinda sem geta hjálpað manni að átta sig á byggingu sameinda.

Frekara lesefni utan Vísindavefsins:

Myndir:
  • Emelía Eiríksdóttir

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

1.10.2010

Spyrjandi

Davíð Orri Arnarsson f. 1999

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Hvað eru margar frumeindir í einni súrefnissameind?“ Vísindavefurinn, 1. október 2010. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=57184.

Emelía Eiríksdóttir. (2010, 1. október). Hvað eru margar frumeindir í einni súrefnissameind? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=57184

Emelía Eiríksdóttir. „Hvað eru margar frumeindir í einni súrefnissameind?“ Vísindavefurinn. 1. okt. 2010. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=57184>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru margar frumeindir í einni súrefnissameind?
Hvert frumefni hefur ákveðið efnatákn sem samanstendur af einum eða tveimur bókstöfum. Til dæmis hefur súrefni efnatáknið O, vetni H, kolefni C, helín He og svo mætti lengi telja.

Uppbyggingu efna er hægt að lýsa með nokkrum efnaformúlum. Í svonefndri sameindaformúlu (e. molecular formula) kemur fram hvaða frumefni eru í efninu og hversu margar frumeindir af hverri gerð eru í efninu. Reynsluformúla (e. empirical formula) tilgreinir hvert hlutfall frumefnanna er og byggingaformúla (e. structural formula) útskýrir byggingu efnisins.



Bygging súrefnissameindar

Sameindaformúla lýsir gerð og fjölda allra frumefna í sameind. Sameindaformúla súrefnis er O2 og segir tölustafurinn 2 okkur að það eru tvær súrefnisfrumeindir í einni súrefnissameind. Að sama skapi segir sameindaformúla ósons (O3) okkur að óson er uppbyggt af þremur súrefnisfrumeindum, vatn (H2O) er uppbyggt af tveimur vetnisfrumeindum og einni súrefnisfrumeind, etanól (C2H6O) inniheldur tvær kolefnisfrumeindir, sex vetnisfrumeindir og eina súrefnisfrumeind, og svo framvegis.



Bygging vatnssameindar

Ef fleiri en tvær frumeindir eru í sameindaformúlunni er ekki alltaf augljóst hvernig bygging sameindarinnar er, það er hvaða frumeindir tengjast hverjum. Í tilviki sameinda sem innihalda einungis tvær frumeindir, eins og á við um súrefnissameindina, er þó greinilegt að frumeindirnar tengjast hvor annarri beint. Hins vegar sést ekki á sameindaformúlunni að á milli súrefnisfrumeindanna er svokallað tvítengi, það er tvö tengi. Súrefni hefur nefnilega þann eiginleika að geta bundist með tveimur tengjum eins og sést líka í tilviki vatns þar sem ein súrefnisfrumeind tengist tveimur vatnsfrumeindum. Þessi tengigeta súrefnis hefur með svokallaða áttureglu að gera sem vísar í að frumefni leitast við að fylla s- og p-gildissvigrúmin sín en samtals rúma þessi svigrúm átta rafeindir.



Í kringum hvora súrefnisfrumeind í súrefnissameind eru átta gildisrafeindir

Súrefnisfrumeind er með sex gildisrafeindir og reynir því að bindast frumefnum sem leggja til tvær gildisrafeindir í tengið. Í tilviki súrefnissameindarinnar leggur hvor súrefnisfrumeind til tvær gildisrafeindir í tengið og því eru fjórar gildisrafeindir milli súrefnisfrumeindanna. Hvor súrefnisfrumeind er svo með fjórar lausar gildisrafeindir; samtals eru því átta gildisrafeindir í kringum hvora súrefnisfrumeind og súrefnissameindin uppfyllir átturegluna. Til eru ýmsar reglur og ábendingar um tengigetu frumeinda sem geta hjálpað manni að átta sig á byggingu sameinda.

Frekara lesefni utan Vísindavefsins:

Myndir:
  • Emelía Eiríksdóttir
...