Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvert er öflugasta eldgos á Íslandi sem vitað er um?

Ármann Höskuldsson

Þetta er ekki einföld spurning, mörg stór eldgos hafa orðið á Íslandi og erfitt að fullyrða hvert þeirra var öflugast. Í jarðlögum fram til nútíma (frá 17 milljónum ára fram til síðustu 10 þúsund ára) er víða að finna ummerki stórra eldgosa. Hér er bæði um að ræða stór súr sprengigos og stór basísk flæðigosa. Það er heldur auðveldara að gera sér grein fyrir súru eldgosunum frá þessum tíma þar sem þau skera sig úr í jarðlagastaflanum. Ummerki basísku eldgosanna eru hinsvegar einsleitari, en samt er ljóst að mörg þeirra voru gríðarlega stór því hraunin má rekja um langan veg í hlíðum fjalla. Hins vegar hefur ekki farið fram nein markviss rannsókn til þess að meta stærð einstakra eldgosa frá þessum tíma og því erfitt að fullyrða hvert þeirra var stærst.

Við skulum því þrengja skilgreininguna niður í eldgos á nútíma eða síðustu 10 þúsund ár. Fyrst þarf að ákveða hvað átt er við þegar talað er um „öflugt“ eldgos. Við mat á stærð eldgosa eru notaðir nokkrir kvarðar. Einn þeirra er kallaður VEI (e. volcanic explosive index). Þessi mælikvarði byrjar á 0 og endar í 8, en hann byggir á dreifingu gosefna og er því mjög gagnlegur til að meta hve öflug sprengigos geta verið.

Eldgos á Fimmvörðuhálsi í mars 2010.

Samkvæmt VEI-kvarða hafa mörg eldgos verið mjög öflug síðustu 10 þúsund ár, en þó aldrei farið hærra en VEI-6. Eitt af eldgosunum er myndaði Saksundsvatnsgjóskuna (Saksundsvatn er í Færeyjum og þar var gjóskan fyrst greind, en hún kemur frá Íslandi, Kötlu eða Grímsvötnum nema hvortveggja sé) fyrir um 10 þúsund árum mun vera í þessum flokki ásamt eldgosunum í Eldgjá 934 og Veiðivötnum 1477. Öll þessi eldgos eru basísk. Einu súru eldgosin sem ná í þennan flokk eru eldgosin í Heklu er nefnd hafa verið Hekla 3 og 4 (um 2900 ára og 3800 ára), og svo eldgosið í Öræfajökli 1362. Það er athyglisvert að í þennan flokk falla bæði súr og basísk eldgos. En sprengivirkni basískra eldgosa á Íslandi er tengd návígi eldfjallanna við vötn og jökla.

VEI-kvarðinn er hinsvegar algerlega ónýtur til að meta stærðir flæðigosa. Því hafa menn byrjað að nota mælikvarða sem leggur mat á magn þeirra gosefna sem upp koma í eldgosinu, svonefndur MS-kvarði (e. magnitude scale, logaritmískur-kvarði frá 0 upp í óendanlegt). Samkvæmt honum væru stærstu eldgosin Þjórsárhraunið, MS-9 (um 8600 ára) og Eldgjárgosið 934, MS-8. Súru eldgosin Hekla 3 og 4 og gosið í Öræfajökli 1362 væru um MS-5/6. Báðir þessir mælikvarðar nýtast vel þegar verið er að bera saman forsöguleg og söguleg eldgos, en segja sína söguna hvor.

Mikinn gosmökk lagði frá eldgosinu í Eyjafjallajökli vorið 2010, en það er samt ekki meðal öflugustu eldgosa hér á landi.

Hin síðari ár hafa menn gert sér grein fyrir því að ofangreindir mælikvarðar eru ekki bestir þegar meta á kraft eldgosa. Því hefur verið stungið upp á mælikvarða er leggur mat á kraft eldgoss óháð heildarmagni gosefna er upp kemur. Þessi mælikvarði nefnist “intensity scale” skammstafað IS. Kvarðinn byggir á því hversu hratt gosefnin koma upp um gosrásina og því eini alvöru mælikvarðinn á kraft eldgossins. En hann er eingöngu hægt að nota ef atburðarás eldgosa er vel þekkt.

Samkvæmt þessum mælikvarða væri eldgosið í Laka 1783 um IS-9, en þá komu upp um 16 rúmkílómetrar af gosefnum á um einu ári það er MS-6,5 og VEI á bilinu 0-2. Eldgosið í Öskju 1875 væri um IS-11 (stóð yfir í um 6 klst.), en aðeins um 0,2 rúmkílómetrar af gosefnum komu upp í því gosi, það er því um MS-4,5 og telst VEI-5 sökum mikillar sprengivirkni og dreifingu gjóskunnar. Stærsta sprengigos í Evrópu síðustu 2000 ár er eldgosið í Öræfajökli 1362, í því komu upp að lágmarki 2 rúmkílómetrar af kviku. Þetta eldgos er talið vera VEI 5/6 og MS-5,4. Við þekkjum hinsvegar ekki tímann í þessu eldgosi. En ef við gefum okkur um 24 klst., þá hefur það IS-10,4. Heklugosin Hekla 3 og 4 eru raunar keimlík Öræfajökulsgosinu 1362 og myndu að öllum líkindum fá svipaða IS-tölu.

Það eldgos sem skorar hátt á öllum þessum kvörðum er líklega gosið í Eldgjá 934 en þar komu upp um 20 rúmkílómetrar af kviku og er talið að það hafi staðið í um 4 ár. Samkvæmt rannsóknum er það um VEI-6, MS-8 og IS-8,6. Út frá þeim rannsóknum er liggja fyrir getum við því dregið þá ályktun að samkvæmt stöðu rannsókna nú sé Eldgjárgosið öflugasta eldgos er átt hefur sér stað á Íslandi síðustu 10 þúsund ár og ekki furða að þetta mikla eldgos skuli hafa stöðvað landnám á Íslandi tímabundið.

Myndir:

Höfundur

Ármann Höskuldsson

eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans

Útgáfudagur

15.10.2010

Spyrjandi

Ívar Jónsson

Tilvísun

Ármann Höskuldsson. „Hvert er öflugasta eldgos á Íslandi sem vitað er um?“ Vísindavefurinn, 15. október 2010. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=57031.

Ármann Höskuldsson. (2010, 15. október). Hvert er öflugasta eldgos á Íslandi sem vitað er um? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=57031

Ármann Höskuldsson. „Hvert er öflugasta eldgos á Íslandi sem vitað er um?“ Vísindavefurinn. 15. okt. 2010. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=57031>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvert er öflugasta eldgos á Íslandi sem vitað er um?
Þetta er ekki einföld spurning, mörg stór eldgos hafa orðið á Íslandi og erfitt að fullyrða hvert þeirra var öflugast. Í jarðlögum fram til nútíma (frá 17 milljónum ára fram til síðustu 10 þúsund ára) er víða að finna ummerki stórra eldgosa. Hér er bæði um að ræða stór súr sprengigos og stór basísk flæðigosa. Það er heldur auðveldara að gera sér grein fyrir súru eldgosunum frá þessum tíma þar sem þau skera sig úr í jarðlagastaflanum. Ummerki basísku eldgosanna eru hinsvegar einsleitari, en samt er ljóst að mörg þeirra voru gríðarlega stór því hraunin má rekja um langan veg í hlíðum fjalla. Hins vegar hefur ekki farið fram nein markviss rannsókn til þess að meta stærð einstakra eldgosa frá þessum tíma og því erfitt að fullyrða hvert þeirra var stærst.

Við skulum því þrengja skilgreininguna niður í eldgos á nútíma eða síðustu 10 þúsund ár. Fyrst þarf að ákveða hvað átt er við þegar talað er um „öflugt“ eldgos. Við mat á stærð eldgosa eru notaðir nokkrir kvarðar. Einn þeirra er kallaður VEI (e. volcanic explosive index). Þessi mælikvarði byrjar á 0 og endar í 8, en hann byggir á dreifingu gosefna og er því mjög gagnlegur til að meta hve öflug sprengigos geta verið.

Eldgos á Fimmvörðuhálsi í mars 2010.

Samkvæmt VEI-kvarða hafa mörg eldgos verið mjög öflug síðustu 10 þúsund ár, en þó aldrei farið hærra en VEI-6. Eitt af eldgosunum er myndaði Saksundsvatnsgjóskuna (Saksundsvatn er í Færeyjum og þar var gjóskan fyrst greind, en hún kemur frá Íslandi, Kötlu eða Grímsvötnum nema hvortveggja sé) fyrir um 10 þúsund árum mun vera í þessum flokki ásamt eldgosunum í Eldgjá 934 og Veiðivötnum 1477. Öll þessi eldgos eru basísk. Einu súru eldgosin sem ná í þennan flokk eru eldgosin í Heklu er nefnd hafa verið Hekla 3 og 4 (um 2900 ára og 3800 ára), og svo eldgosið í Öræfajökli 1362. Það er athyglisvert að í þennan flokk falla bæði súr og basísk eldgos. En sprengivirkni basískra eldgosa á Íslandi er tengd návígi eldfjallanna við vötn og jökla.

VEI-kvarðinn er hinsvegar algerlega ónýtur til að meta stærðir flæðigosa. Því hafa menn byrjað að nota mælikvarða sem leggur mat á magn þeirra gosefna sem upp koma í eldgosinu, svonefndur MS-kvarði (e. magnitude scale, logaritmískur-kvarði frá 0 upp í óendanlegt). Samkvæmt honum væru stærstu eldgosin Þjórsárhraunið, MS-9 (um 8600 ára) og Eldgjárgosið 934, MS-8. Súru eldgosin Hekla 3 og 4 og gosið í Öræfajökli 1362 væru um MS-5/6. Báðir þessir mælikvarðar nýtast vel þegar verið er að bera saman forsöguleg og söguleg eldgos, en segja sína söguna hvor.

Mikinn gosmökk lagði frá eldgosinu í Eyjafjallajökli vorið 2010, en það er samt ekki meðal öflugustu eldgosa hér á landi.

Hin síðari ár hafa menn gert sér grein fyrir því að ofangreindir mælikvarðar eru ekki bestir þegar meta á kraft eldgosa. Því hefur verið stungið upp á mælikvarða er leggur mat á kraft eldgoss óháð heildarmagni gosefna er upp kemur. Þessi mælikvarði nefnist “intensity scale” skammstafað IS. Kvarðinn byggir á því hversu hratt gosefnin koma upp um gosrásina og því eini alvöru mælikvarðinn á kraft eldgossins. En hann er eingöngu hægt að nota ef atburðarás eldgosa er vel þekkt.

Samkvæmt þessum mælikvarða væri eldgosið í Laka 1783 um IS-9, en þá komu upp um 16 rúmkílómetrar af gosefnum á um einu ári það er MS-6,5 og VEI á bilinu 0-2. Eldgosið í Öskju 1875 væri um IS-11 (stóð yfir í um 6 klst.), en aðeins um 0,2 rúmkílómetrar af gosefnum komu upp í því gosi, það er því um MS-4,5 og telst VEI-5 sökum mikillar sprengivirkni og dreifingu gjóskunnar. Stærsta sprengigos í Evrópu síðustu 2000 ár er eldgosið í Öræfajökli 1362, í því komu upp að lágmarki 2 rúmkílómetrar af kviku. Þetta eldgos er talið vera VEI 5/6 og MS-5,4. Við þekkjum hinsvegar ekki tímann í þessu eldgosi. En ef við gefum okkur um 24 klst., þá hefur það IS-10,4. Heklugosin Hekla 3 og 4 eru raunar keimlík Öræfajökulsgosinu 1362 og myndu að öllum líkindum fá svipaða IS-tölu.

Það eldgos sem skorar hátt á öllum þessum kvörðum er líklega gosið í Eldgjá 934 en þar komu upp um 20 rúmkílómetrar af kviku og er talið að það hafi staðið í um 4 ár. Samkvæmt rannsóknum er það um VEI-6, MS-8 og IS-8,6. Út frá þeim rannsóknum er liggja fyrir getum við því dregið þá ályktun að samkvæmt stöðu rannsókna nú sé Eldgjárgosið öflugasta eldgos er átt hefur sér stað á Íslandi síðustu 10 þúsund ár og ekki furða að þetta mikla eldgos skuli hafa stöðvað landnám á Íslandi tímabundið.

Myndir: