Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hver er skoðun Humes á Guði?

Egill Arnarson

Segjast verður að David Hume (1711-1776) hafði enga skýra „skoðun á Guði“. Hann gerði að vísu greinarmun á sannri og ósannri trú en var heldur fámáll um hvað fælist í hinni fyrrnefndu. Eftir að hafa kastað sinni kalvínsku barnatrú virtist eðli Guðs og annað þess háttar einfaldlega ekki hafa verið honum sérlega hugleikið.

Þess í stað beindi hann athygli sinni að neikvæðum þáttum trúarbragða, hinni „ósönnu trú“. Hann gagnrýndi trúarlegar stofnanir með því að færa fyrir því rök að fjölgyðistrú ætti upphaf sitt að rekja til ótta manna við örlögin en ekki til dæmis í skynseminni. Eingyðistrúin, sem tók við af henni, hefði skipt út hjátrúnni fyrir ofstækið. Trúarlegar dyggðir, sem kristallast í klausturlífi, væru ekki einungis í andstöðu við heilbrigða skynsemi heldur væri þeim oft beitt sem yfirvarpi fyrir ódyggðuga breytni.


Heimspekingurinn David Hume (1711-1776).

Við höfum annars vegar þessa gagnrýni Humes á trúarbrögðin. Hins vegar verða mótrök hans gegn ýmsum tegundum guðssannana þó að teljast markverðara framlag hans til heimspekinnar.

1. Guð sem opinberar tilveru sína í kraftaverkum: Sem raunhyggjusinni (empíristi) skilgreinir Hume náttúrulögmál út frá reynslunni; þau eru reglur um hvernig hlutir virka sem leiddar eru af undantekningarlausri reynslu. Í „kraftaverki“ felst ekki annað en undantekning á slíkri reglu og af þeim sökum höfum við ávallt mun betri ástæðu til þess að hafna kraftaverkasögum en að trúa þeim. Í þessu felst einnig að ef ákveðið kraftaverk á sér stað nógu oft tökum við að fella það undir náttúrulögmálin.

2. Guð sem upphafsorsök og skapari heimsins: Þessi tegund guðssannana tekur á sig ólíkar myndir. Um orsakartengsl milli hluta, það er hvernig einn atburður er afleiðing af öðrum, getum við einungis ályktað af reynsluathugunum. Aðeins í huga okkar eru þau tengsl nauðsynleg; hver raunveruleg tengsl hlutanna eru vitum við ekkert um. Sú staðreynd að við höfum enga reynslu af sköpun heimsins mælir gegn því að Guð sé upphafleg orsök heimsins. Fullyrðingar um orsakartengsl milli guðs og heims eru því enn hæpnari en venjulegar orsakaskýringar, í raun hreinar getgátur. Því mætti þó halda fram að heimurinn sé svo flókin og snjöll smíði að hann hljóti að eiga sér viti borna veru að skapara. Lesa má meira um hugmyndir svipaðar þessari í svari Steindórs J. Erlingssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Geta vísindamenn útilokað vithönnun sem upphaf lífsins? Í verki sínu, Samræður um trúarbrögðin1, útlistar málpípa Humes, Fílon, meginrökin gegn þessari tilgátu:

Ef við sjáum hús ... þá ályktum við með öruggri vissu, að þar hafi húsameistari eða smiður verið að verki ... En vitanlega muntu ekki fullyrða, að heiminum svipi svo til húss, að við getum með sömu vissu ályktað svipaða orsök eða að hér sé um algera og fullkomna hliðstæðu að ræða. Hér liggur munurinn svo í augum uppi, að ágizkun, tilgáta eða líkur varðandi svipaða orsök er það mesta, sem þú átt tilkall til; og læt ég þér eftir að hugleiða, hvernig því tilkalli verði almennt tekið.2

Hafi heimurinn verið skapaður liggur því ekki í augum uppi að almáttugur, algóður Guð hafi unnið verkið; út frá sömu rökum væri til dæmis fjölgyðistrú jafn sennileg. Vilji menn trúa á skaparann þá er vissulega ýmislegt til í heiminum sem gefur þeim tilefni til þess. En umfram allt ber þeim þó að vera meðvitaðir um hversu takmarkað það er sem hægt er að fullvissa sig um í þessum efnum.

Sjá nánar: Atli Harðarson: „David Hume og gagnrýni hans á trúarbrögðin“. Heimspekivefurinn.

Mynd: David Hume (1711-1776).


1David Hume: Samræður um trúarbrögðin, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1972.

2Sama, bls. 69.

Höfundur

M.A. í heimspeki

Útgáfudagur

8.2.2006

Spyrjandi

Hlöðver Ingi Gunnarsson

Tilvísun

Egill Arnarson. „Hver er skoðun Humes á Guði?“ Vísindavefurinn, 8. febrúar 2006. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5629.

Egill Arnarson. (2006, 8. febrúar). Hver er skoðun Humes á Guði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5629

Egill Arnarson. „Hver er skoðun Humes á Guði?“ Vísindavefurinn. 8. feb. 2006. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5629>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er skoðun Humes á Guði?
Segjast verður að David Hume (1711-1776) hafði enga skýra „skoðun á Guði“. Hann gerði að vísu greinarmun á sannri og ósannri trú en var heldur fámáll um hvað fælist í hinni fyrrnefndu. Eftir að hafa kastað sinni kalvínsku barnatrú virtist eðli Guðs og annað þess háttar einfaldlega ekki hafa verið honum sérlega hugleikið.

Þess í stað beindi hann athygli sinni að neikvæðum þáttum trúarbragða, hinni „ósönnu trú“. Hann gagnrýndi trúarlegar stofnanir með því að færa fyrir því rök að fjölgyðistrú ætti upphaf sitt að rekja til ótta manna við örlögin en ekki til dæmis í skynseminni. Eingyðistrúin, sem tók við af henni, hefði skipt út hjátrúnni fyrir ofstækið. Trúarlegar dyggðir, sem kristallast í klausturlífi, væru ekki einungis í andstöðu við heilbrigða skynsemi heldur væri þeim oft beitt sem yfirvarpi fyrir ódyggðuga breytni.


Heimspekingurinn David Hume (1711-1776).

Við höfum annars vegar þessa gagnrýni Humes á trúarbrögðin. Hins vegar verða mótrök hans gegn ýmsum tegundum guðssannana þó að teljast markverðara framlag hans til heimspekinnar.

1. Guð sem opinberar tilveru sína í kraftaverkum: Sem raunhyggjusinni (empíristi) skilgreinir Hume náttúrulögmál út frá reynslunni; þau eru reglur um hvernig hlutir virka sem leiddar eru af undantekningarlausri reynslu. Í „kraftaverki“ felst ekki annað en undantekning á slíkri reglu og af þeim sökum höfum við ávallt mun betri ástæðu til þess að hafna kraftaverkasögum en að trúa þeim. Í þessu felst einnig að ef ákveðið kraftaverk á sér stað nógu oft tökum við að fella það undir náttúrulögmálin.

2. Guð sem upphafsorsök og skapari heimsins: Þessi tegund guðssannana tekur á sig ólíkar myndir. Um orsakartengsl milli hluta, það er hvernig einn atburður er afleiðing af öðrum, getum við einungis ályktað af reynsluathugunum. Aðeins í huga okkar eru þau tengsl nauðsynleg; hver raunveruleg tengsl hlutanna eru vitum við ekkert um. Sú staðreynd að við höfum enga reynslu af sköpun heimsins mælir gegn því að Guð sé upphafleg orsök heimsins. Fullyrðingar um orsakartengsl milli guðs og heims eru því enn hæpnari en venjulegar orsakaskýringar, í raun hreinar getgátur. Því mætti þó halda fram að heimurinn sé svo flókin og snjöll smíði að hann hljóti að eiga sér viti borna veru að skapara. Lesa má meira um hugmyndir svipaðar þessari í svari Steindórs J. Erlingssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Geta vísindamenn útilokað vithönnun sem upphaf lífsins? Í verki sínu, Samræður um trúarbrögðin1, útlistar málpípa Humes, Fílon, meginrökin gegn þessari tilgátu:

Ef við sjáum hús ... þá ályktum við með öruggri vissu, að þar hafi húsameistari eða smiður verið að verki ... En vitanlega muntu ekki fullyrða, að heiminum svipi svo til húss, að við getum með sömu vissu ályktað svipaða orsök eða að hér sé um algera og fullkomna hliðstæðu að ræða. Hér liggur munurinn svo í augum uppi, að ágizkun, tilgáta eða líkur varðandi svipaða orsök er það mesta, sem þú átt tilkall til; og læt ég þér eftir að hugleiða, hvernig því tilkalli verði almennt tekið.2

Hafi heimurinn verið skapaður liggur því ekki í augum uppi að almáttugur, algóður Guð hafi unnið verkið; út frá sömu rökum væri til dæmis fjölgyðistrú jafn sennileg. Vilji menn trúa á skaparann þá er vissulega ýmislegt til í heiminum sem gefur þeim tilefni til þess. En umfram allt ber þeim þó að vera meðvitaðir um hversu takmarkað það er sem hægt er að fullvissa sig um í þessum efnum.

Sjá nánar: Atli Harðarson: „David Hume og gagnrýni hans á trúarbrögðin“. Heimspekivefurinn.

Mynd: David Hume (1711-1776).


1David Hume: Samræður um trúarbrögðin, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1972.

2Sama, bls. 69....