Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver er munurinn á lögum og reglum?

Árni Helgason

Í stuttu máli er munurinn á lögum og reglum samkvæmt íslenskri stjórnskipan sá að Alþingi setur lög en stjórnvöld setja reglur. Þessi hugtök hljóma að mörgu leyti keimlík en nokkur munur á lögum og reglum í lögfræðilegum skilningi.

Lög eru sett af lýðræðislega kjörnum fulltrúum á þingi samkvæmt ákveðnu ferli: Frumvörp eru lögð fram á þingi, síðan rædd í þremur umræðum og loks tekin til atkvæðagreiðslu. Séu þau samþykkt í atkvæðagreiðslunni verða þau að lögum og fara því næst til forseta lýðveldisins sem staðfestir þau með undirskrift sinni.

Reglur eru aftur á móti settar af stjórnvöldum, það er í ráðuneytum, nefndum, ráðum og stofnunum. Þar sem umboð embættismanna innan stjórnkerfisins er ekki fengið frá almenningi eru heimildir til að setja reglur nokkuð þröngar og fyrst og fremst hugsaðar til að kveða nánar á um ýmis tæknileg útfærsluatriði sem óþarft er að setja í lög og hagkvæmnisrök leiða til þess að stjórnvöld með sérþekkingu sjái um að útfæra. Reglur verða að eiga stoð í lögum og mega ekki ganga lengra en sem því nemur.

Algengasta form reglna sem stjórnvöld setja eru reglugerðir. Þeim er safnað saman á Netinu í Reglugerðasafni. Almennt setja ráðherrar reglugerðir á sínu málefnasviði og hafa ráðuneytin veg og vanda af því að undirbúa setningu þeirra. Önnur form reglna frá stjórnvöldum eru tilskipanir, gjaldskrár, auglýsingar, erindisbréf og ráðuneytisbréf. Til þess að flækja myndina enn frekar þekkjast ennfremur dæmi þess að reglur frá stjórnvöldum hafi einfaldlega verið kallaðar „reglur“ en sú orðanotkun er komin til af venju og er gildi þeirra hið sama og reglugerða.


Í Reglugerðasafni er meðal annars hægt að finna reglugerð um þvingunaraðgerðir varðandi Simbabve

Dómstólar hafa fengið til umfjöllunar gildi reglugerða gagnvart almennum lögum. Þar hefur verið lögð áhersla á að skerðing á stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna komi ekki fram í reglugerð heldur verði að styðjast við heimild í lögum. Komi til dæmis skerðing á atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, eignarréttarákvæðum hennar eða álagning skatts fyrst fram í reglugerð hefur slíkum ákvæðum verið vikið til hliðar af hálfu dómstóla.

Dæmi um slíka dóma sem gengið hafa í Hæstarétti eru dómur frá árinu 1985, bls. 1544 í dómasafni Hæstaréttar (fyrirkomulag við álagningu svonefnds kjarnfóðurgjalds þótti í reynd vera skattlagning sem skipa átti með lögum en ekki ákvörðunum stjórnvalda), dómur Hæstaréttar frá 1988, bls. 1532 (gekk út á að stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi leigubílstjóra mátti ekki takmarka með reglugerðarákvæði um að skilyrði þess að bílstjórar fengju úthlutað atvinnuleyfi væri að þeir væru í stéttarfélagi) og dómur Hæstaréttar frá 13. apríl 2000 (í lögum fékk ráðherra ótakmarkaða heimild til þess að ákveða að tilteknar framkvæmdir skyldu sæta umhverfismati en talið var að vald ráðherra væri of rúmt til að taka slíkar ákvarðanir, sem skerða eignarrétt og atvinnufrelsi).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Um lög og lögfræði. Sigurður Líndal. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík. 2002.

Mynd:

Höfundur

lögfræðingur

Útgáfudagur

26.11.2009

Spyrjandi

Pjetur St. Arason, Viktor Arnarsson

Tilvísun

Árni Helgason. „Hver er munurinn á lögum og reglum?“ Vísindavefurinn, 26. nóvember 2009. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=54090.

Árni Helgason. (2009, 26. nóvember). Hver er munurinn á lögum og reglum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=54090

Árni Helgason. „Hver er munurinn á lögum og reglum?“ Vísindavefurinn. 26. nóv. 2009. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=54090>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á lögum og reglum?
Í stuttu máli er munurinn á lögum og reglum samkvæmt íslenskri stjórnskipan sá að Alþingi setur lög en stjórnvöld setja reglur. Þessi hugtök hljóma að mörgu leyti keimlík en nokkur munur á lögum og reglum í lögfræðilegum skilningi.

Lög eru sett af lýðræðislega kjörnum fulltrúum á þingi samkvæmt ákveðnu ferli: Frumvörp eru lögð fram á þingi, síðan rædd í þremur umræðum og loks tekin til atkvæðagreiðslu. Séu þau samþykkt í atkvæðagreiðslunni verða þau að lögum og fara því næst til forseta lýðveldisins sem staðfestir þau með undirskrift sinni.

Reglur eru aftur á móti settar af stjórnvöldum, það er í ráðuneytum, nefndum, ráðum og stofnunum. Þar sem umboð embættismanna innan stjórnkerfisins er ekki fengið frá almenningi eru heimildir til að setja reglur nokkuð þröngar og fyrst og fremst hugsaðar til að kveða nánar á um ýmis tæknileg útfærsluatriði sem óþarft er að setja í lög og hagkvæmnisrök leiða til þess að stjórnvöld með sérþekkingu sjái um að útfæra. Reglur verða að eiga stoð í lögum og mega ekki ganga lengra en sem því nemur.

Algengasta form reglna sem stjórnvöld setja eru reglugerðir. Þeim er safnað saman á Netinu í Reglugerðasafni. Almennt setja ráðherrar reglugerðir á sínu málefnasviði og hafa ráðuneytin veg og vanda af því að undirbúa setningu þeirra. Önnur form reglna frá stjórnvöldum eru tilskipanir, gjaldskrár, auglýsingar, erindisbréf og ráðuneytisbréf. Til þess að flækja myndina enn frekar þekkjast ennfremur dæmi þess að reglur frá stjórnvöldum hafi einfaldlega verið kallaðar „reglur“ en sú orðanotkun er komin til af venju og er gildi þeirra hið sama og reglugerða.


Í Reglugerðasafni er meðal annars hægt að finna reglugerð um þvingunaraðgerðir varðandi Simbabve

Dómstólar hafa fengið til umfjöllunar gildi reglugerða gagnvart almennum lögum. Þar hefur verið lögð áhersla á að skerðing á stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna komi ekki fram í reglugerð heldur verði að styðjast við heimild í lögum. Komi til dæmis skerðing á atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, eignarréttarákvæðum hennar eða álagning skatts fyrst fram í reglugerð hefur slíkum ákvæðum verið vikið til hliðar af hálfu dómstóla.

Dæmi um slíka dóma sem gengið hafa í Hæstarétti eru dómur frá árinu 1985, bls. 1544 í dómasafni Hæstaréttar (fyrirkomulag við álagningu svonefnds kjarnfóðurgjalds þótti í reynd vera skattlagning sem skipa átti með lögum en ekki ákvörðunum stjórnvalda), dómur Hæstaréttar frá 1988, bls. 1532 (gekk út á að stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi leigubílstjóra mátti ekki takmarka með reglugerðarákvæði um að skilyrði þess að bílstjórar fengju úthlutað atvinnuleyfi væri að þeir væru í stéttarfélagi) og dómur Hæstaréttar frá 13. apríl 2000 (í lögum fékk ráðherra ótakmarkaða heimild til þess að ákveða að tilteknar framkvæmdir skyldu sæta umhverfismati en talið var að vald ráðherra væri of rúmt til að taka slíkar ákvarðanir, sem skerða eignarrétt og atvinnufrelsi).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Um lög og lögfræði. Sigurður Líndal. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík. 2002.

Mynd:...