Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hafa utanþingsráðherrarnir Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir atkvæðarétt í atkvæðagreiðslu á alþingi?

Árni Helgason

Í íslenskri stjórnskipan er gert ráð fyrir því að svonefndir utanþingsráðherrar sitji á þingi. Með utanþingsráðherra er átt við ráðherra sem hefur verið skipaður í starf sitt þrátt fyrir að hann hafi ekki verið kjörinn á þing. Hefðin er sú að ráðherrar eru jafnframt þingmenn og njóta áfram allra réttinda sem slíkir þótt þeir setjist jafnframt í stól ráðherra, meðal annars þeirra að greiða atkvæði og flytja frumvörp.

Réttindi utanþingsráðherra á þingi eru hins vegar takmarkaðri. Ýmis ákvæði eru í stjórnarskránni um ráðherra en þau sem snúa að utanþingsráðherrum eru einkum í 38. og 51. gr. hennar. Þar segir:
38. gr. Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.

51. gr. Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eiga þeir rétt á að taka þátt í umræðunum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins, að þeir séu jafnframt alþingismenn.
Þótt greinarnar taki efnislega til allra ráðherra, eiga þær í raun við um utanþingsráðherra þar sem aðrir ráðherrar eru að jafnaði þingmenn, eins og áður sagði.


Utanþingsráðherrarnir Ragna Árnadóttir og Gylfi Magnússon ásamt Árna Páli Árnasyni.

Samkvæmt 38. gr. hafa utanþingsráðherrar heimild til að flytja bæði þingsályktunartillögur og frumvörp til laga á þingi. Að þessu leyti eru utanþingsráðherrar því jafnsettir öðrum þingmönnum og ráðherrum.

Í 51. gr. felst að utanþingsráðherrar eiga sæti á Alþingi og hafa ótakmarkaðan rétt til að taka þátt í umræðum þar, að gættum þingsköpum. Aftur á móti hafa þeir ekki atkvæðisrétt, enda er hann bundinn við þá 63 þjóðkjörnu þingmenn sem sitja á Alþingi. Þessi regla er rökrétt, enda gæti sitjandi ríkisstjórn og þeir flokkar sem að henni standa hverju sinni annars aukið þingstyrk sinn verulega með því að bæta inn utanþingsráðherrum sem hefðu þá atkvæðisrétt á þingi. Hefðu utanþingsráðherrar atkvæðisrétt myndi það enn fremur skekkja niðurstöðu kosninga þar sem ríkisstjórnin hefði í hendi sér að auka atkvæðastyrk sinn á þingi eftir að niðurstöður kosninga liggja fyrir.

Tveir utanþingsráðherrar sitja í núverandi ríkisstjórn, þau Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. Lista yfir fyrri utanþingsráðherra má finna á vef Alþingis og eins og sjá má eru þó nokkur dæmi um að þessi háttur hafi verið hafður á.

Formenn flokka hafa nokkrum sinnum setið sem utanþingsráðherrar sem hefur helgast af því að niðurstöður kosninga eða aðrir atburðir hafa verið með þeim hætti að þeir áttu tímabundið ekki sæti á þingi. Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins (viðskipta- og iðnaðarráðherra 2006-7), Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins (fjármálaráðherra 1988-1991), Geir Hallgrímsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins (1983-1986) og Stefán Jóhann Stefánsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins (utanríkisráðherra 1939-1942) eru dæmi um þetta.

Mest mæddi þó á utanþingsráðherrum árin 1942-44 þegar utanþingsstjórn sat á Íslandi. Hana skipuðu þeir Björn Ólafsson, fjármálaráðherra, Björn Þórðarson, forsætisráðherra, Einar Arnórsson, dómsmálaráðherra, Vilhjálmur Þór, utanríkisráðherra og Jóhann Sæmundsson, félagsmálaráðherra.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hefur sitjandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, og dóms- og kirkjumálaráðherra, Ragna Árnadóttir, atkvæðarétt í atkvæðagreiðslu alþingis?

Höfundur

lögfræðingur

Útgáfudagur

9.11.2009

Spyrjandi

Þorvaldur Örn Davíðsson

Tilvísun

Árni Helgason. „Hafa utanþingsráðherrarnir Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir atkvæðarétt í atkvæðagreiðslu á alþingi?“ Vísindavefurinn, 9. nóvember 2009. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=53949.

Árni Helgason. (2009, 9. nóvember). Hafa utanþingsráðherrarnir Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir atkvæðarétt í atkvæðagreiðslu á alþingi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=53949

Árni Helgason. „Hafa utanþingsráðherrarnir Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir atkvæðarétt í atkvæðagreiðslu á alþingi?“ Vísindavefurinn. 9. nóv. 2009. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=53949>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hafa utanþingsráðherrarnir Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir atkvæðarétt í atkvæðagreiðslu á alþingi?
Í íslenskri stjórnskipan er gert ráð fyrir því að svonefndir utanþingsráðherrar sitji á þingi. Með utanþingsráðherra er átt við ráðherra sem hefur verið skipaður í starf sitt þrátt fyrir að hann hafi ekki verið kjörinn á þing. Hefðin er sú að ráðherrar eru jafnframt þingmenn og njóta áfram allra réttinda sem slíkir þótt þeir setjist jafnframt í stól ráðherra, meðal annars þeirra að greiða atkvæði og flytja frumvörp.

Réttindi utanþingsráðherra á þingi eru hins vegar takmarkaðri. Ýmis ákvæði eru í stjórnarskránni um ráðherra en þau sem snúa að utanþingsráðherrum eru einkum í 38. og 51. gr. hennar. Þar segir:
38. gr. Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.

51. gr. Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eiga þeir rétt á að taka þátt í umræðunum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins, að þeir séu jafnframt alþingismenn.
Þótt greinarnar taki efnislega til allra ráðherra, eiga þær í raun við um utanþingsráðherra þar sem aðrir ráðherrar eru að jafnaði þingmenn, eins og áður sagði.


Utanþingsráðherrarnir Ragna Árnadóttir og Gylfi Magnússon ásamt Árna Páli Árnasyni.

Samkvæmt 38. gr. hafa utanþingsráðherrar heimild til að flytja bæði þingsályktunartillögur og frumvörp til laga á þingi. Að þessu leyti eru utanþingsráðherrar því jafnsettir öðrum þingmönnum og ráðherrum.

Í 51. gr. felst að utanþingsráðherrar eiga sæti á Alþingi og hafa ótakmarkaðan rétt til að taka þátt í umræðum þar, að gættum þingsköpum. Aftur á móti hafa þeir ekki atkvæðisrétt, enda er hann bundinn við þá 63 þjóðkjörnu þingmenn sem sitja á Alþingi. Þessi regla er rökrétt, enda gæti sitjandi ríkisstjórn og þeir flokkar sem að henni standa hverju sinni annars aukið þingstyrk sinn verulega með því að bæta inn utanþingsráðherrum sem hefðu þá atkvæðisrétt á þingi. Hefðu utanþingsráðherrar atkvæðisrétt myndi það enn fremur skekkja niðurstöðu kosninga þar sem ríkisstjórnin hefði í hendi sér að auka atkvæðastyrk sinn á þingi eftir að niðurstöður kosninga liggja fyrir.

Tveir utanþingsráðherrar sitja í núverandi ríkisstjórn, þau Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. Lista yfir fyrri utanþingsráðherra má finna á vef Alþingis og eins og sjá má eru þó nokkur dæmi um að þessi háttur hafi verið hafður á.

Formenn flokka hafa nokkrum sinnum setið sem utanþingsráðherrar sem hefur helgast af því að niðurstöður kosninga eða aðrir atburðir hafa verið með þeim hætti að þeir áttu tímabundið ekki sæti á þingi. Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins (viðskipta- og iðnaðarráðherra 2006-7), Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins (fjármálaráðherra 1988-1991), Geir Hallgrímsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins (1983-1986) og Stefán Jóhann Stefánsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins (utanríkisráðherra 1939-1942) eru dæmi um þetta.

Mest mæddi þó á utanþingsráðherrum árin 1942-44 þegar utanþingsstjórn sat á Íslandi. Hana skipuðu þeir Björn Ólafsson, fjármálaráðherra, Björn Þórðarson, forsætisráðherra, Einar Arnórsson, dómsmálaráðherra, Vilhjálmur Þór, utanríkisráðherra og Jóhann Sæmundsson, félagsmálaráðherra.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hefur sitjandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, og dóms- og kirkjumálaráðherra, Ragna Árnadóttir, atkvæðarétt í atkvæðagreiðslu alþingis?
...