Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hver er munurinn á efri og neðri deild Bandaríkjaþings?

Silja Bára Ómarsdóttir

Bandaríkjaþingi er skipt í tvær deildir, öldungadeild og fulltrúadeild. Um þær er gjarnan talað sem efri og neðri deildir þótt þær séu ekki skilgreindar þannig í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Í fyrstu grein stjórnarskrárinnar er löggjafarvaldið sett í hendur þingsins og því skipt í tvær deildir. Báðar deildirnar þurfa að samþykkja lög til að þau teljist gild. Deildirnar starfa hvor í sinni álmunni í þinghúsinu í Washington, D.C. Í fulltrúadeildinni er fjölda þingmanna skipt eftir íbúafjölda í ríkjunum en í öldungadeildinni sitja tveir fulltrúar frá hverju ríki Bandaríkjanna. Engin önnur stofnun í Bandaríkjunum hefur löggjafarvald en opinberar stofnanir hafa þó reglusetningarvald sem þingið getur veitt þeim með skýru, afmörkuðu umboði. Nánar verður vikið að lagasetningarferlinu eftir umræðu um hvora deild fyrir sig.


Í þessum sal kemur fulltrúadeildin saman.

Fulltrúadeildin

Fulltrúadeildina má hugsa sem neðri deild þingsins. Hún er stærri en öldungadeildin og allir 435 fulltrúarnir (einn á um það bil hverja 700.000 íbúa) eru kjörnir í kosningum á tveggja ára fresti. Í fulltrúadeildinni sitja fulltrúar frá öllum ríkjum Bandaríkjanna og einn áheyrnarfulltrúi frá hverju sex svæða: Washington, D.C., Bandarísku Samóa, Púertó Ríkó, Bandarísku Jómfrúaeyjum, Gvameyju og Norður-Maríanaeyjum. Flestir fulltrúar koma frá Kaliforníu, eða 53, á meðan Alaska, Delaware, Montana, Suður-Dakóta, Vermont og Wyoming eiga aðeins einn fulltrúa hvert. Í upphafi voru færri fulltrúar í fulltrúadeildinni en snemma á 20. öld var ákveðið að hafa 435 þingmenn og breyta fjöldanum eftir því sem fólksfjöldi í ríkjunum breyttist. Manntal í Bandaríkjunum er einungis tekið á tíu ára fresti og fulltrúafjöldanum var síðast breytt eftir manntalið 2000. Manntal er tekið í ár (2010) og því gætu hlutföll fulltrúa breyst í kjölfarið.

Þingmenn í fulltrúadeildinni verða að vera orðnir 25 ára að aldri og hafa verið bandarískir ríkisborgarar í sjö ár hið minnsta. Þeir þurfa að hafa búsetu í ríkinu sem þeir bjóða sig fram í, en ekki endilega í kjördæminu. Þeir eru kosnir beint af almenningi í einmenningskjördæmum með nokkurn veginn jafnmarga kjósendur. Þeir hafa ekki varamenn eins og tíðkast á Íslandi þar sem listar eru kosnir í hlutfallskosningum. Falli þingmaður frá eða segi af sér er ekki leyfilegt að skipa staðgengil heldur verður að halda aukakosningar.


Hér má sjá sal öldungadeildarinnar.

Öldungadeildin

Öldungadeildin er ígildi efri deildar Bandaríkjaþings og er samsett af tveimur fulltrúum frá hverju ríki og er hver og einn kjörinn til sex ára í senn. Einn þriðji hluti öldungadeildarþingmanna er í kjöri í hverjum kosningum, en þegar þingið tók fyrst til starfa settist einn hópur þingmanna á þing í tvö ár, annar í fjögur og sá þriðji í sex ár. Síðan hefur verið bætt nokkurn veginn jafnt í hvern hóp. Samkvæmt stjórnarskránni áttu löggjafarsamkundur ríkjanna að kjósa tvo öldungadeildarþingmenn, sem hvor um sig hefur eitt atkvæði. Með 17. breytingarákvæði stjórnarskrárinnar var þessu breytt og öldungadeildarþingmenn eru nú kjörnir beinni kosningu í heimaríkjum sínum.

Öldungadeildarþingmenn þurfa að vera orðnir þrjátíu ára gamlir og hafa verið bandarískir ríkisborgarar í níu ár hið minnsta. Þeir þurfa að eiga lögheimili í því ríki sem þeir bjóða sig fram. Falli öldungadeildarþingmaður frá eða láti af störfum getur löggjafarsamkunda heimaríkis hans leyft ríkisstjóra að skipa tímabundið nýjan fulltrúa í hans stað þar til hægt er að halda aukakosningar.

Helsti munur á deildunum

Engin lög taka gildi í Bandaríkjunum nema þau hafi verið samþykkt samhljóða af báðum deildum. Engu skiptir hvaðan frumkvæðið að lagasetningu kemur og stundum koma fram frumvörp um sama hlutinn í deildunum. Samþykki deildirnar ólíkar útgáfur laga um sama efni er hægt að setja útgáfurnar í sameiginlega nefnd beggja deilda.

Fyrir utan samsetningu deildanna og kjörgengi eru hér nefnd fjögur atriði sem skilja á milli deildanna tveggja. Forsetar deildanna eru kjörnir á ólíkan máta. Einungis fulltrúadeildin má hafa frumkvæði að skattlagningu og öldungadeildin ein getur staðfest alþjóðasamninga og skipan ráðherra.


Þinghúsið í Washington, D.C. þar sem báðar deildirnar koma saman.

Deildirnar tvær hafa ólík hlutverk þegar kemur að því að ákæra embættismenn fyrir brot í starfi (e. impeachment). Þá gegnir öldungadeildin hlutverki dómstóls. Sé forseti Bandaríkjanna ákærður fyrir brot í embætti er forseti Hæstaréttar í forsæti í öldungadeildinni. Tvo þriðju hluta atkvæða viðstaddra þarf til að sakfella í slíku máli. Tvisvar sinnum hefur forseti verið ákærður fyrir brot í starfi en sýknaður í bæði skiptin. Síðast var það Bill Clinton sem var kærður árið 1998.

Í öldungadeildinni er varaforseti Bandaríkjanna formlega forseti en í fulltrúadeildinni er deildarforseti kjörinn af þingmönnunum. Forseti öldungadeildar hefur þó ekki atkvæðisrétt nema oddaatkvæði þurfi, ólíkt forseta fulltrúadeildar sem hefur alltaf verið kjörinn þingmaður og því með atkvæðisrétt. Hvorugur gegnir þó almennt því starfi dags daglega.

Fulltrúadeildin má ein stofna til löggjafar til innheimtu skatta samkvæmt stjórnarskránni. Öldungadeildin getur hins vegar gert breytingar á skattafrumvörpum og jafnvel notað númer lagafrumvarps og gjörbreytt textanum. Þá telur fulltrúadeildin að öldungadeildin megi ekki leggja fram frumvörp um útgjöld alríkisfjár. Öldungadeildin hefur þó gert það en þá tekur fulltrúadeildin frumvarpið ekki til umræðu og það verður því ekki að lögum.

Öldungadeildin samþykkir alþjóðasamninga sem framkvæmdavaldið gerir. Slíkir samningar taka ekki gildi nema slíkt samþykki fáist. Þannig urðu Bandaríkin aldrei aðilar að Þjóðabandalaginu eftir heimsstyrjöldina fyrri, þrátt fyrir að Woodrow Wilson, þáverandi forseti, hafi verið einn helsti hvatamaður stofnunar þess. Einnig þarf öldungadeildin að staðfesta skipan ráðherra, dómara og hershöfðingja en fulltrúadeildin kemur ekki að því.

Saman fara fulltrúa- og öldungadeildin með löggjafarvald í Bandaríkjunum. Að mestu leyti deila þær því valdi til jafns, en með nokkrum undantekningum eins og sjá má hér að ofan. Helsti munurinn er í samsetningu deildanna og lengd kjörtímabila. Þá hafa deildirnar ólíka aðkomu að skattlagningu og utanríkismálum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Silja Bára Ómarsdóttir

prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

Útgáfudagur

26.7.2010

Spyrjandi

Natan Kolbeinsson, f. 1993

Tilvísun

Silja Bára Ómarsdóttir. „Hver er munurinn á efri og neðri deild Bandaríkjaþings?“ Vísindavefurinn, 26. júlí 2010. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=53801.

Silja Bára Ómarsdóttir. (2010, 26. júlí). Hver er munurinn á efri og neðri deild Bandaríkjaþings? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=53801

Silja Bára Ómarsdóttir. „Hver er munurinn á efri og neðri deild Bandaríkjaþings?“ Vísindavefurinn. 26. júl. 2010. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=53801>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á efri og neðri deild Bandaríkjaþings?
Bandaríkjaþingi er skipt í tvær deildir, öldungadeild og fulltrúadeild. Um þær er gjarnan talað sem efri og neðri deildir þótt þær séu ekki skilgreindar þannig í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Í fyrstu grein stjórnarskrárinnar er löggjafarvaldið sett í hendur þingsins og því skipt í tvær deildir. Báðar deildirnar þurfa að samþykkja lög til að þau teljist gild. Deildirnar starfa hvor í sinni álmunni í þinghúsinu í Washington, D.C. Í fulltrúadeildinni er fjölda þingmanna skipt eftir íbúafjölda í ríkjunum en í öldungadeildinni sitja tveir fulltrúar frá hverju ríki Bandaríkjanna. Engin önnur stofnun í Bandaríkjunum hefur löggjafarvald en opinberar stofnanir hafa þó reglusetningarvald sem þingið getur veitt þeim með skýru, afmörkuðu umboði. Nánar verður vikið að lagasetningarferlinu eftir umræðu um hvora deild fyrir sig.


Í þessum sal kemur fulltrúadeildin saman.

Fulltrúadeildin

Fulltrúadeildina má hugsa sem neðri deild þingsins. Hún er stærri en öldungadeildin og allir 435 fulltrúarnir (einn á um það bil hverja 700.000 íbúa) eru kjörnir í kosningum á tveggja ára fresti. Í fulltrúadeildinni sitja fulltrúar frá öllum ríkjum Bandaríkjanna og einn áheyrnarfulltrúi frá hverju sex svæða: Washington, D.C., Bandarísku Samóa, Púertó Ríkó, Bandarísku Jómfrúaeyjum, Gvameyju og Norður-Maríanaeyjum. Flestir fulltrúar koma frá Kaliforníu, eða 53, á meðan Alaska, Delaware, Montana, Suður-Dakóta, Vermont og Wyoming eiga aðeins einn fulltrúa hvert. Í upphafi voru færri fulltrúar í fulltrúadeildinni en snemma á 20. öld var ákveðið að hafa 435 þingmenn og breyta fjöldanum eftir því sem fólksfjöldi í ríkjunum breyttist. Manntal í Bandaríkjunum er einungis tekið á tíu ára fresti og fulltrúafjöldanum var síðast breytt eftir manntalið 2000. Manntal er tekið í ár (2010) og því gætu hlutföll fulltrúa breyst í kjölfarið.

Þingmenn í fulltrúadeildinni verða að vera orðnir 25 ára að aldri og hafa verið bandarískir ríkisborgarar í sjö ár hið minnsta. Þeir þurfa að hafa búsetu í ríkinu sem þeir bjóða sig fram í, en ekki endilega í kjördæminu. Þeir eru kosnir beint af almenningi í einmenningskjördæmum með nokkurn veginn jafnmarga kjósendur. Þeir hafa ekki varamenn eins og tíðkast á Íslandi þar sem listar eru kosnir í hlutfallskosningum. Falli þingmaður frá eða segi af sér er ekki leyfilegt að skipa staðgengil heldur verður að halda aukakosningar.


Hér má sjá sal öldungadeildarinnar.

Öldungadeildin

Öldungadeildin er ígildi efri deildar Bandaríkjaþings og er samsett af tveimur fulltrúum frá hverju ríki og er hver og einn kjörinn til sex ára í senn. Einn þriðji hluti öldungadeildarþingmanna er í kjöri í hverjum kosningum, en þegar þingið tók fyrst til starfa settist einn hópur þingmanna á þing í tvö ár, annar í fjögur og sá þriðji í sex ár. Síðan hefur verið bætt nokkurn veginn jafnt í hvern hóp. Samkvæmt stjórnarskránni áttu löggjafarsamkundur ríkjanna að kjósa tvo öldungadeildarþingmenn, sem hvor um sig hefur eitt atkvæði. Með 17. breytingarákvæði stjórnarskrárinnar var þessu breytt og öldungadeildarþingmenn eru nú kjörnir beinni kosningu í heimaríkjum sínum.

Öldungadeildarþingmenn þurfa að vera orðnir þrjátíu ára gamlir og hafa verið bandarískir ríkisborgarar í níu ár hið minnsta. Þeir þurfa að eiga lögheimili í því ríki sem þeir bjóða sig fram. Falli öldungadeildarþingmaður frá eða láti af störfum getur löggjafarsamkunda heimaríkis hans leyft ríkisstjóra að skipa tímabundið nýjan fulltrúa í hans stað þar til hægt er að halda aukakosningar.

Helsti munur á deildunum

Engin lög taka gildi í Bandaríkjunum nema þau hafi verið samþykkt samhljóða af báðum deildum. Engu skiptir hvaðan frumkvæðið að lagasetningu kemur og stundum koma fram frumvörp um sama hlutinn í deildunum. Samþykki deildirnar ólíkar útgáfur laga um sama efni er hægt að setja útgáfurnar í sameiginlega nefnd beggja deilda.

Fyrir utan samsetningu deildanna og kjörgengi eru hér nefnd fjögur atriði sem skilja á milli deildanna tveggja. Forsetar deildanna eru kjörnir á ólíkan máta. Einungis fulltrúadeildin má hafa frumkvæði að skattlagningu og öldungadeildin ein getur staðfest alþjóðasamninga og skipan ráðherra.


Þinghúsið í Washington, D.C. þar sem báðar deildirnar koma saman.

Deildirnar tvær hafa ólík hlutverk þegar kemur að því að ákæra embættismenn fyrir brot í starfi (e. impeachment). Þá gegnir öldungadeildin hlutverki dómstóls. Sé forseti Bandaríkjanna ákærður fyrir brot í embætti er forseti Hæstaréttar í forsæti í öldungadeildinni. Tvo þriðju hluta atkvæða viðstaddra þarf til að sakfella í slíku máli. Tvisvar sinnum hefur forseti verið ákærður fyrir brot í starfi en sýknaður í bæði skiptin. Síðast var það Bill Clinton sem var kærður árið 1998.

Í öldungadeildinni er varaforseti Bandaríkjanna formlega forseti en í fulltrúadeildinni er deildarforseti kjörinn af þingmönnunum. Forseti öldungadeildar hefur þó ekki atkvæðisrétt nema oddaatkvæði þurfi, ólíkt forseta fulltrúadeildar sem hefur alltaf verið kjörinn þingmaður og því með atkvæðisrétt. Hvorugur gegnir þó almennt því starfi dags daglega.

Fulltrúadeildin má ein stofna til löggjafar til innheimtu skatta samkvæmt stjórnarskránni. Öldungadeildin getur hins vegar gert breytingar á skattafrumvörpum og jafnvel notað númer lagafrumvarps og gjörbreytt textanum. Þá telur fulltrúadeildin að öldungadeildin megi ekki leggja fram frumvörp um útgjöld alríkisfjár. Öldungadeildin hefur þó gert það en þá tekur fulltrúadeildin frumvarpið ekki til umræðu og það verður því ekki að lögum.

Öldungadeildin samþykkir alþjóðasamninga sem framkvæmdavaldið gerir. Slíkir samningar taka ekki gildi nema slíkt samþykki fáist. Þannig urðu Bandaríkin aldrei aðilar að Þjóðabandalaginu eftir heimsstyrjöldina fyrri, þrátt fyrir að Woodrow Wilson, þáverandi forseti, hafi verið einn helsti hvatamaður stofnunar þess. Einnig þarf öldungadeildin að staðfesta skipan ráðherra, dómara og hershöfðingja en fulltrúadeildin kemur ekki að því.

Saman fara fulltrúa- og öldungadeildin með löggjafarvald í Bandaríkjunum. Að mestu leyti deila þær því valdi til jafns, en með nokkrum undantekningum eins og sjá má hér að ofan. Helsti munurinn er í samsetningu deildanna og lengd kjörtímabila. Þá hafa deildirnar ólíka aðkomu að skattlagningu og utanríkismálum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:...