Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvernig er samfélag katta í borgum eins og til dæmis í Reykjavík?

Jón Már Halldórsson

Kettir hafa fylgt manninum í þúsundir ára og eru afar algeng húsdýr bæði í þéttbýli og dreifbýli. Skipta má borgarköttum í tvo meginflokka, annars vegar heimilisketti og hins vegar villiketti eða heimilislausa ketti. Mörkin þarna á milli eru ekki alltaf skýr þar sem heimiliskettir geta verið hálfvilltir í öllu atferli sínu og veitt sér til matar að einhverju leyti þó þeir eigi sér bæli á tilteknu heimili.

Atferli katta, og sérstaklega félagshegðun, er nokkuð flókið fyrirbæri. Dæmigert er að kettir, líkt og öll önnur kattardýr fyrir utan ljón, komi sér upp svæði eða óðali sem þeir merkja með lykt sem kemur úr lyktarkitlum á nokkrum stöðum á líkama þeirra. Þeir fara um svæðið nokkrum sinnum á dag og verja það fyrir ágangi annarra katta. Hvort kynið fyrir sig hefur sinn háttinn á þessu. Fresskettir helga sér að jafnaði stærra svæði en læður og oft reyna þeir að hafa nokkur óðöl læða innan síns svæðis.



Það er þó ekki ófrávíkjanleg regla að kettir helgi sér óðöl því hópamyndun er líka vel þekkt meðal katta, og þá sér í lagi villikatta. Lengi vel var álitið að ástæðan fyrir því að villikettir kæmu saman í hópum á einhverjum stað væri sú að þar væri von um æti og þeir umbæru því hver annan af illri nauðsyn. Rannsóknir David McDonalds, prófessors við Oxford háskóla, á villiköttum nærri mannabyggðum á 8. áratug síðustu aldar sýndu hins vegar að kettir virðast sækja í félagsskap annarra katta félagsskaparins vegna. Sambærilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið síðar hafa gefið sömu niðurstöður, eða eins og líffræðingur orðaði það þá „héngu“ tilteknir kettir saman einfaldlega vegna þess að þeim líkaði vel hverjum við annan.

Niðurstöður McDonalds sýndu að ekki var um tilviljunarkennd tengsl að ræða á milli katta því fjórum sinnum meiri líkur voru á því að læða myndaði tengsl við aðra læðu sem var skyld henni (systir) en við óskylda læðu. Rannsóknarhópur McDonalds varð til að mynda vitni að mikilli samhjálp meðal systra. Sem dæmi má taka að kettlingafull læða kom sér fyrir í hlöðu þar sem systir hennar lá með kettlinga á spena. Stuttu eftir komuna gaut læðan nokkrum kettlingum og systir hennar hegðaði sér eins og ljósmóðir, sleikti systur sína í hríðunum og annaðist og þreif kettlinganna. Þær leyfðu síðan kettlingum hvor annarrar að sjúga hjá sér.

Annar dýrafræðingur, Randall Wolfe að nafni, reyndi með rannsóknum sínum að ganga úr skugga um hvort slík hópamyndun meðal villikatta væri bundin við kynferði. Rannsóknir hans fóru fram við hlöðu eina í Georgíufylki í Bandaríkjunum og leiddu í ljós að læða var alveg jafn líkleg til þess að „hanga“ með fressi og læðu. Skyldleiki var útilokaður í þessum rannsóknum en sennilega leikur hann engu að síður stórt hlutverk í myndun vináttutengsla katta. Slíkt hefur verið staðfest meðal nokkurra annarra kattardýra svo sem blettatígra og tígrisdýra svo ekki sé nú talað um ljón.

Hópar villikatta eru eflaust algengir um allan heim. Hér á landi eru slíkir hópar þó fátíðir þar sem sveita- og bæjaryfirvöld um allt land hafa undanfarin ár og áratugi reynt að útrýma þeim.



Kettir eru í eðli sínu félagsverur og kemur oft ágætlega saman.

Þó heimiliskettir hegði sér oft á líkan hátt og villikettir þá er hópamyndun ekki eins greinileg hjá þeim. Þess í stað sýna heimiliskettir greinilegri óðalshegðun. Sennilega liggur munurinn í því að ólíkt villiköttum ganga heimiliskettir að fæðu og húsaskjóli vísu á einum tilteknum stað og hafa þá tilhneigingu til þess að merkja sér og verja þann stað og svæðið umhverfis hann.

Íslenskir heimiliskettir eru ekkert öðruvísi en heimiliskettir annars staðar og sýna klárlega óðalshegðun hvort sem þeir búa í miðbæ Reykjavíkur, í úthverfum eða í dreifbýli þar sem gott aðgengi er að mólendi eða öðrum opnum svæðum. Höfundur þessa svars hefur ágæta reynslu af köttum og átti eitt sinn læðu þegar hann var búsettur í Seljahverfinu í Reykjavík. Í nágrenninu voru tveir fresskettir sem virtust bítast um að ráða yfir hinu litla óðali sem læðan hafði til umráða í bakgarðinum.

Slíkar landamæradeilur fressa eru eflaust afar algengar um alla borgina. Undirritaður man til dæmis vel eftir stórum gráum ketti sem „átti“ stóran hluta af Njálsgötunni í Reykjavík. Þetta var stór og mikill högni með ófá ör á höfði og búk eftir átök við aðra högna í nágrenninu. Eflaust kannast fleiri við þennan kött en hann var sagður vera faðir fjölda kettlinga við götuna og má því ætla að hans óðal hafi náð yfir óðöl nokkurra læða.

Eftir því sem höfundur kemst næst hafa ekki farið fram miklar rannsóknir á félagshegðun heimiliskatta. Engar slíkar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi en einhverjar rannsóknir hafa farið fram í Bandaríkjunum. Til dæmis má nefna skemmtilega rannsókn á heimili einu þar í landi þar sem 14 kettir voru búsettir ásamt húsráðendum. Þar helgaði einn af köttunum sér einhvern þægilegan stað, til dæmis gluggakistu þar sem sólin skein yfir hádaginn eða mjúkan stól. Þessum stað hélt hann svo í fáeina daga, eða þangað til annar köttur hafði náð staðnum af honum án mikilla átaka, aðeins fylgdu því hvæs og kannski fáein högg. Slíka hegðun kannast eflaust margir við sem hafa haft nokkra ketti í einu á heimilinu.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að mun meira flæði var á skipulaginu innan kattahópsins en meðal hundadýra eða prímata þar sem öll félagsbygging er í mun fastari skorðum.

Heimildir og myndir:
  • Lowe, S.E., og J.W.S. Bradshaw. 2000. Ontogeny of individuality in the domestic cat in the home environment. Animal Behaviour 61(Janúar):231.
  • Turner, D.C., og P. Bateson, ritstj. 2000. The Domestic Cat. Cambridge, United Kingdom: Cambridge University Press.
  • Gattile pipistrello
  • The Hermitage No-Kill Cat Shelter

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

15.9.2005

Spyrjandi

Andri Gunnar Hauksson, f. 1988

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig er samfélag katta í borgum eins og til dæmis í Reykjavík?“ Vísindavefurinn, 15. september 2005. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5267.

Jón Már Halldórsson. (2005, 15. september). Hvernig er samfélag katta í borgum eins og til dæmis í Reykjavík? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5267

Jón Már Halldórsson. „Hvernig er samfélag katta í borgum eins og til dæmis í Reykjavík?“ Vísindavefurinn. 15. sep. 2005. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5267>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig er samfélag katta í borgum eins og til dæmis í Reykjavík?
Kettir hafa fylgt manninum í þúsundir ára og eru afar algeng húsdýr bæði í þéttbýli og dreifbýli. Skipta má borgarköttum í tvo meginflokka, annars vegar heimilisketti og hins vegar villiketti eða heimilislausa ketti. Mörkin þarna á milli eru ekki alltaf skýr þar sem heimiliskettir geta verið hálfvilltir í öllu atferli sínu og veitt sér til matar að einhverju leyti þó þeir eigi sér bæli á tilteknu heimili.

Atferli katta, og sérstaklega félagshegðun, er nokkuð flókið fyrirbæri. Dæmigert er að kettir, líkt og öll önnur kattardýr fyrir utan ljón, komi sér upp svæði eða óðali sem þeir merkja með lykt sem kemur úr lyktarkitlum á nokkrum stöðum á líkama þeirra. Þeir fara um svæðið nokkrum sinnum á dag og verja það fyrir ágangi annarra katta. Hvort kynið fyrir sig hefur sinn háttinn á þessu. Fresskettir helga sér að jafnaði stærra svæði en læður og oft reyna þeir að hafa nokkur óðöl læða innan síns svæðis.



Það er þó ekki ófrávíkjanleg regla að kettir helgi sér óðöl því hópamyndun er líka vel þekkt meðal katta, og þá sér í lagi villikatta. Lengi vel var álitið að ástæðan fyrir því að villikettir kæmu saman í hópum á einhverjum stað væri sú að þar væri von um æti og þeir umbæru því hver annan af illri nauðsyn. Rannsóknir David McDonalds, prófessors við Oxford háskóla, á villiköttum nærri mannabyggðum á 8. áratug síðustu aldar sýndu hins vegar að kettir virðast sækja í félagsskap annarra katta félagsskaparins vegna. Sambærilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið síðar hafa gefið sömu niðurstöður, eða eins og líffræðingur orðaði það þá „héngu“ tilteknir kettir saman einfaldlega vegna þess að þeim líkaði vel hverjum við annan.

Niðurstöður McDonalds sýndu að ekki var um tilviljunarkennd tengsl að ræða á milli katta því fjórum sinnum meiri líkur voru á því að læða myndaði tengsl við aðra læðu sem var skyld henni (systir) en við óskylda læðu. Rannsóknarhópur McDonalds varð til að mynda vitni að mikilli samhjálp meðal systra. Sem dæmi má taka að kettlingafull læða kom sér fyrir í hlöðu þar sem systir hennar lá með kettlinga á spena. Stuttu eftir komuna gaut læðan nokkrum kettlingum og systir hennar hegðaði sér eins og ljósmóðir, sleikti systur sína í hríðunum og annaðist og þreif kettlinganna. Þær leyfðu síðan kettlingum hvor annarrar að sjúga hjá sér.

Annar dýrafræðingur, Randall Wolfe að nafni, reyndi með rannsóknum sínum að ganga úr skugga um hvort slík hópamyndun meðal villikatta væri bundin við kynferði. Rannsóknir hans fóru fram við hlöðu eina í Georgíufylki í Bandaríkjunum og leiddu í ljós að læða var alveg jafn líkleg til þess að „hanga“ með fressi og læðu. Skyldleiki var útilokaður í þessum rannsóknum en sennilega leikur hann engu að síður stórt hlutverk í myndun vináttutengsla katta. Slíkt hefur verið staðfest meðal nokkurra annarra kattardýra svo sem blettatígra og tígrisdýra svo ekki sé nú talað um ljón.

Hópar villikatta eru eflaust algengir um allan heim. Hér á landi eru slíkir hópar þó fátíðir þar sem sveita- og bæjaryfirvöld um allt land hafa undanfarin ár og áratugi reynt að útrýma þeim.



Kettir eru í eðli sínu félagsverur og kemur oft ágætlega saman.

Þó heimiliskettir hegði sér oft á líkan hátt og villikettir þá er hópamyndun ekki eins greinileg hjá þeim. Þess í stað sýna heimiliskettir greinilegri óðalshegðun. Sennilega liggur munurinn í því að ólíkt villiköttum ganga heimiliskettir að fæðu og húsaskjóli vísu á einum tilteknum stað og hafa þá tilhneigingu til þess að merkja sér og verja þann stað og svæðið umhverfis hann.

Íslenskir heimiliskettir eru ekkert öðruvísi en heimiliskettir annars staðar og sýna klárlega óðalshegðun hvort sem þeir búa í miðbæ Reykjavíkur, í úthverfum eða í dreifbýli þar sem gott aðgengi er að mólendi eða öðrum opnum svæðum. Höfundur þessa svars hefur ágæta reynslu af köttum og átti eitt sinn læðu þegar hann var búsettur í Seljahverfinu í Reykjavík. Í nágrenninu voru tveir fresskettir sem virtust bítast um að ráða yfir hinu litla óðali sem læðan hafði til umráða í bakgarðinum.

Slíkar landamæradeilur fressa eru eflaust afar algengar um alla borgina. Undirritaður man til dæmis vel eftir stórum gráum ketti sem „átti“ stóran hluta af Njálsgötunni í Reykjavík. Þetta var stór og mikill högni með ófá ör á höfði og búk eftir átök við aðra högna í nágrenninu. Eflaust kannast fleiri við þennan kött en hann var sagður vera faðir fjölda kettlinga við götuna og má því ætla að hans óðal hafi náð yfir óðöl nokkurra læða.

Eftir því sem höfundur kemst næst hafa ekki farið fram miklar rannsóknir á félagshegðun heimiliskatta. Engar slíkar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi en einhverjar rannsóknir hafa farið fram í Bandaríkjunum. Til dæmis má nefna skemmtilega rannsókn á heimili einu þar í landi þar sem 14 kettir voru búsettir ásamt húsráðendum. Þar helgaði einn af köttunum sér einhvern þægilegan stað, til dæmis gluggakistu þar sem sólin skein yfir hádaginn eða mjúkan stól. Þessum stað hélt hann svo í fáeina daga, eða þangað til annar köttur hafði náð staðnum af honum án mikilla átaka, aðeins fylgdu því hvæs og kannski fáein högg. Slíka hegðun kannast eflaust margir við sem hafa haft nokkra ketti í einu á heimilinu.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að mun meira flæði var á skipulaginu innan kattahópsins en meðal hundadýra eða prímata þar sem öll félagsbygging er í mun fastari skorðum.

Heimildir og myndir:
  • Lowe, S.E., og J.W.S. Bradshaw. 2000. Ontogeny of individuality in the domestic cat in the home environment. Animal Behaviour 61(Janúar):231.
  • Turner, D.C., og P. Bateson, ritstj. 2000. The Domestic Cat. Cambridge, United Kingdom: Cambridge University Press.
  • Gattile pipistrello
  • The Hermitage No-Kill Cat Shelter
...