Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Veiddi íslenski refurinn geirfuglinn?

Jón Már Halldórsson

Því miður er ýmislegt á huldu um geirfuglinn (Pinguinus impennis), til dæmis vitum við lítið um afræningja hans, aðra en manninn. Ekki er ósennilegt að geirfuglinn hafi verið aðlagaður að varpi á úthafseyjum, skerjum og hólmum. Nánast útilokað er að hann hafi verpt í einhverjum mæli á svæðum þar sem landrándýr, þar með taldir refir, hafi komist að honum. Hann hefði nefnilega verið afar berskjaldaður gagnvart afráni slíkra dýra. Refir eru kunnir fyrir það að herja á fuglabjörg og ná þar í unga og egg sem þeir komast í en ekki fer mörgum sögum af því að þeir sæki í eyjar og sker.

Að öllum líkindum rannsakaði enginn náttúrufræðingur geirfuglinn í sínu náttúrulega umhverfi. Þó náðu nokkrir náttúrufræðingar í lifandi fugla og athuguðu þá á rannsóknastofum. Meðal annars sótti danski náttúrufræðingurinn Ole Worm lifandi eintak til Færeyja um miðja 17. öld og annar Dani, Fleming að nafni fékk sendan lifandi fugl frá St. Kildaeyju árið 1824. Slíkar athuganir náðu þó aðeins til líkamseinkenna fuglsins og gáfu mjög takmarkaðar upplýsingar um lífshætti hans.

Geirfuglar eftir hollenska fuglateiknarann J. G. Keulemans.

Geirfuglinn var algengur á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum og er talið að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl. Þótt þekking á lífsháttum hans sé takmörkuð, þá er vitað að geirfuglinn verpti undir það síðasta á afskekktum úthafseyjum.

Nokkur vörp voru þekkt á austanverðu Atlantshafi, til dæmis á úthafseyjum undan suðvesturströnd Íslands. Má þar nefna Eldey, þar sem síðustu fuglarnir voru drepnir árið 1844 og Geirfuglasker sem hvarf í hafið vegna eldvirkni árið 1830. Einnig voru vörp á St. Kildaeyju og sjálfsagt fleiri eyjum í Orkneyjaklasanum og Hjaltlandseyjum. Í Færeyjum verpti geirfuglinn á nokkrum stöðum og benda gömul örnefni til þess að þar hafi menn veitt hann með því að reka hann út á sjó þar sem auðvelt var að handsama hann. Þá eru vísbendingar um að hann hafi verpt í nokkrum smáum hólmum og eyjum við Ammassalik á Grænlandi og ekki er hægt að útiloka að hann hafi verpt víðar á Grænlandi.

Geirfuglinn var líka algengur við Nýfundnaland og aðliggjandi svæðum. Meðal kunnustu varpsvæði hans var Funkeyja sem tilheyrir Nýfundnalandi. Funeyja var graslend og lág, hæsti punktur var 14 m yfir sjávarmáli, en slíkar aðstæður hentuðu geirfuglinum vel. Heimildir greina einnig frá því að mikið var af geirfugli á Stórabanka (e. Grand bank) austur af Nýfundnalandi og að ungfugl hafi borist norðaustur til Grænlands í fæðuleit en þeir hafa leitað á haf út utan varptíma líkt og núlifandi sjófuglar gera.

Geirfuglinn var stór fugl, allt að 70 cm á hæð og holdmikill. Þar sem hann var ófleygur var auðvelt að veiða hann. Menn lögðu því kapp á að fanga hann og salta niður í tunnur á löngum siglingum um úthöfin. Heimildir skýra frá miklum veiðum á geirfugli á smáum eyjum við Nýfundnaland. Meðal annars eru getið um það að sjómenn við Nýfundnaland hafi farið í fuglaleiðangur og aflinn verið allt að 4-5 tonn. Þetta hafa verið þúsundir fugla.

Á þeim tíma sem veiðarnar voru sem mestar er talið að útbreiðsla geirfuglsins hafi að mestu takmarkast við norðanvert Atlantshaf og stofninn því viðkvæmari en ella fyrir miklu veiðiálagi. Við það bættist að viðkoma geirfuglsins var afar hæg en sennilega hóf fuglinn varp við 5-7 ára aldur. Svo fór að lokum að stofninn þoldi ekki meira álag og dó út. Sennilega hvarf geirfuglinn frá ströndum Norður-Ameríku fyrir 1800 og eins og áður sagði var síðasti fuglinn drepinn við Ísland árið 1844.

Eins og fram kom í upphafi er fátt sem bendir til þess að íslenski refurinn hafi étið geirfugl í stórum stíl eða átt sinn þátt í því að hann dó út. Geirfuglinn verpti aðallega á hólmum og úthafseyjum, alla vega undir það síðasta, svæðum sem voru ekki mjög aðgengileg fyrir refi. Hins vegar er margt sem við vitum ekki um geirfuglinn og alls ekki er hægt að útiloka að einhverjir geirfuglar hafi endað í maga refs.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Heimildir:

  • Greenway, J.C. 1958. Extinct and vanishing birds of the world. Spec. Publ. No. 13. New York, Amer. Comm. Intern. Wildl. Protection.
  • Newton, A. 1861. Abstract of Mr. J. Wolley's researches in Iceland respecting the gatefowl or great auk. Ibis 3: 374-399.
  • Bengtson, Sven-Axel. 1984. Breeding ecology and extinction of the great auk (Pinguinus impennis). Museum of Zoology University of Lund. Lund, Sweden.
  • Mynd: Great Auk á Wikipedia. Sótt 13. 10. 2008.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

16.10.2008

Spyrjandi

Sóley Björk Guðmundsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Veiddi íslenski refurinn geirfuglinn?“ Vísindavefurinn, 16. október 2008. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=48762.

Jón Már Halldórsson. (2008, 16. október). Veiddi íslenski refurinn geirfuglinn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=48762

Jón Már Halldórsson. „Veiddi íslenski refurinn geirfuglinn?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2008. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=48762>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Veiddi íslenski refurinn geirfuglinn?
Því miður er ýmislegt á huldu um geirfuglinn (Pinguinus impennis), til dæmis vitum við lítið um afræningja hans, aðra en manninn. Ekki er ósennilegt að geirfuglinn hafi verið aðlagaður að varpi á úthafseyjum, skerjum og hólmum. Nánast útilokað er að hann hafi verpt í einhverjum mæli á svæðum þar sem landrándýr, þar með taldir refir, hafi komist að honum. Hann hefði nefnilega verið afar berskjaldaður gagnvart afráni slíkra dýra. Refir eru kunnir fyrir það að herja á fuglabjörg og ná þar í unga og egg sem þeir komast í en ekki fer mörgum sögum af því að þeir sæki í eyjar og sker.

Að öllum líkindum rannsakaði enginn náttúrufræðingur geirfuglinn í sínu náttúrulega umhverfi. Þó náðu nokkrir náttúrufræðingar í lifandi fugla og athuguðu þá á rannsóknastofum. Meðal annars sótti danski náttúrufræðingurinn Ole Worm lifandi eintak til Færeyja um miðja 17. öld og annar Dani, Fleming að nafni fékk sendan lifandi fugl frá St. Kildaeyju árið 1824. Slíkar athuganir náðu þó aðeins til líkamseinkenna fuglsins og gáfu mjög takmarkaðar upplýsingar um lífshætti hans.

Geirfuglar eftir hollenska fuglateiknarann J. G. Keulemans.

Geirfuglinn var algengur á Norður-Atlantshafi fyrr á öldum og er talið að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl. Þótt þekking á lífsháttum hans sé takmörkuð, þá er vitað að geirfuglinn verpti undir það síðasta á afskekktum úthafseyjum.

Nokkur vörp voru þekkt á austanverðu Atlantshafi, til dæmis á úthafseyjum undan suðvesturströnd Íslands. Má þar nefna Eldey, þar sem síðustu fuglarnir voru drepnir árið 1844 og Geirfuglasker sem hvarf í hafið vegna eldvirkni árið 1830. Einnig voru vörp á St. Kildaeyju og sjálfsagt fleiri eyjum í Orkneyjaklasanum og Hjaltlandseyjum. Í Færeyjum verpti geirfuglinn á nokkrum stöðum og benda gömul örnefni til þess að þar hafi menn veitt hann með því að reka hann út á sjó þar sem auðvelt var að handsama hann. Þá eru vísbendingar um að hann hafi verpt í nokkrum smáum hólmum og eyjum við Ammassalik á Grænlandi og ekki er hægt að útiloka að hann hafi verpt víðar á Grænlandi.

Geirfuglinn var líka algengur við Nýfundnaland og aðliggjandi svæðum. Meðal kunnustu varpsvæði hans var Funkeyja sem tilheyrir Nýfundnalandi. Funeyja var graslend og lág, hæsti punktur var 14 m yfir sjávarmáli, en slíkar aðstæður hentuðu geirfuglinum vel. Heimildir greina einnig frá því að mikið var af geirfugli á Stórabanka (e. Grand bank) austur af Nýfundnalandi og að ungfugl hafi borist norðaustur til Grænlands í fæðuleit en þeir hafa leitað á haf út utan varptíma líkt og núlifandi sjófuglar gera.

Geirfuglinn var stór fugl, allt að 70 cm á hæð og holdmikill. Þar sem hann var ófleygur var auðvelt að veiða hann. Menn lögðu því kapp á að fanga hann og salta niður í tunnur á löngum siglingum um úthöfin. Heimildir skýra frá miklum veiðum á geirfugli á smáum eyjum við Nýfundnaland. Meðal annars eru getið um það að sjómenn við Nýfundnaland hafi farið í fuglaleiðangur og aflinn verið allt að 4-5 tonn. Þetta hafa verið þúsundir fugla.

Á þeim tíma sem veiðarnar voru sem mestar er talið að útbreiðsla geirfuglsins hafi að mestu takmarkast við norðanvert Atlantshaf og stofninn því viðkvæmari en ella fyrir miklu veiðiálagi. Við það bættist að viðkoma geirfuglsins var afar hæg en sennilega hóf fuglinn varp við 5-7 ára aldur. Svo fór að lokum að stofninn þoldi ekki meira álag og dó út. Sennilega hvarf geirfuglinn frá ströndum Norður-Ameríku fyrir 1800 og eins og áður sagði var síðasti fuglinn drepinn við Ísland árið 1844.

Eins og fram kom í upphafi er fátt sem bendir til þess að íslenski refurinn hafi étið geirfugl í stórum stíl eða átt sinn þátt í því að hann dó út. Geirfuglinn verpti aðallega á hólmum og úthafseyjum, alla vega undir það síðasta, svæðum sem voru ekki mjög aðgengileg fyrir refi. Hins vegar er margt sem við vitum ekki um geirfuglinn og alls ekki er hægt að útiloka að einhverjir geirfuglar hafi endað í maga refs.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Heimildir:

  • Greenway, J.C. 1958. Extinct and vanishing birds of the world. Spec. Publ. No. 13. New York, Amer. Comm. Intern. Wildl. Protection.
  • Newton, A. 1861. Abstract of Mr. J. Wolley's researches in Iceland respecting the gatefowl or great auk. Ibis 3: 374-399.
  • Bengtson, Sven-Axel. 1984. Breeding ecology and extinction of the great auk (Pinguinus impennis). Museum of Zoology University of Lund. Lund, Sweden.
  • Mynd: Great Auk á Wikipedia. Sótt 13. 10. 2008.

...